Skip to main content
Flokkur

Skógræktarverkefni

Nýr samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Með Skógræktarverkefni

Nýr samningur um Landgræðsluskóga var undirritaður mánudaginn 11. febrúar og felur hann í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefnið, sem hefur það að markmiði, eins og segir í samningum „að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem og að vinna að framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu“.

Skrifuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands undir samninginn, ásamt Árna Bragasyni landgræðslustjóra og Aðalsteini Sigurgeirssyni, staðgengli skógræktarstjóra, en Landgræðslu ríkisins og Skógræktinni er falið faglegt eftirlit með framkvæmd verkefnisins samkvæmt samningnum.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis. Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins, en skógræktarfélög um land allt sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, svo sem gróðursetningu og umhirðu. Þinglýstir samningar eru gerðir um öll svæði sem gróðursett er í.

Nýi samningurinn gildir til næstu fimm ára og felur í sér 45-55 milljón króna árlegt framlag til verkefnisins, alls 260 milljónir yfir tímabilið.

landskog-undirritun

F.v. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Aðalsteinn Sigurgeirsson, staðgengill skógræktarstjóra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Árni Bragason landgræðslustjóri við undirritun samningsins (Mynd: BJ).

Nýr samningur: IKEA á Íslandi styrkir útnefningu Tré ársins

Með Skógræktarverkefni

Þriðjudaginn 11. september var undirritaður samningur IKEA á Íslandi og Skógræktarfélags Íslands um stuðning IKEA við útnefningu Trés ársins. Voru það Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Guðný Camilla Aradóttir, umhverfisfulltrúi IKEA á Íslandi, sem undirrituðu samninginn, sem gildir til tveggja ára.

Er stuðningur IKEA við útnefninguna í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins, en IKEA hefur lagt mikla vinnu í að hafa umhverfisvernd til hliðsjónar í starfsemi sinni.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir á hverju ári eitt tiltekið tré sem Tré ársins og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

ta-undirskrift

Guðný Camilla Aradóttir, umhverfisfulltrúi IKEA á Íslandi og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirskrift samningsins (Mynd: BJ).


Tré ársins 2018 útnefnt

Með Skógræktarverkefni

Tré ársins 2018 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 2. september. Er Tré ársins að þessu sinni veglegur vesturbæjarvíðir (Salix smithiana ‘Vesturbæjarvíðir’) að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum.

Sverrir Magnússon stýrði athöfninni, sem hófst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem afhenti eigenda trésins, Margréti Bárðardóttur, viðurkenningaskjal af þessu tilefni. Margrét flutti því næst stutta tölu og því næst var haldið til að mæla tréð. Reyndist það 11,1 m á hæð, ummál stofns rúmir 2,4 m og mjög krónumikið, en alls þekur króna þess rúma 225 fermetra.

Inn á milli atriða flutti svo hljómsveit Valborgar Ólafsdóttur frumsamin lög. Hana skipa Valborg Ólafsdóttir, söngur og gítar, Orri Guðmundsson á trommum, Baldvin Freyr Þorsteinsson á gítar og Árni Guðjónsson á bassa og hljómborð. Einnig var boðið upp á hressingu frá Skógakaffi.

Að athöfn lokinni var svo boðið upp á skógargöngu um Völvuskóg undir leiðsögn Einars Gunnarssonar og Sverris Magnússonar.

Er þetta í fyrsta sinn sem vesturbæjarvíðir er útnefndur sem Tré ársins, enda er þetta frekar fágæt tegund nú til dags. Uppruni tegundarinnar hér á landi er nokkuð áhugaverður. Upp úr aldamótunum 1900 flutti Jón Eyvindsson kaupmaður inn stofuplöntur frá Þýskalandi, sem komu í tágakörfum. Ísleifur sonur hans kom til teinungi úr slíkri körfu og gróðursetti í garði heimilisins að Stýrimannastíg 9. Þreifst þessi teinungur vel og fengu nágrannar með tíð og tíma græðlinga af honum til að setja í garðana hjá sér. Dreifðist víðirinn þannig um Vesturbæinn og varð nokkuð algengur þar og dróg nafn sitt af því. Ræktun hans lagðist að mestu af eftir 1940, með auknu framboði trjáplantna til sölu.

Skógræktarfélag Íslands hefur krýnt Tré ársins árlega síðan 1993. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land. IKEA á Íslandi er samstarfsaðili Skógræktarfélags Íslands við útnefningu á Tré ársins.

trearsins eftir1

Tré ársins 2018 – glæsilegur vesturbæjarvíðir að Ytri-Skógum (Mynd: RF).

trearsins eftir2

Margrét Bárðardóttir, eigandi trésins og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, standa undir krónumiklu trénu (Mynd: RF).

Tré ársins 2018

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við IKEA á Íslandi, útnefnir vesturbæjarvíði (Salix smithiana ‘Vesturbæjarvíðir’) að Ytri-Skógum sem Tré ársins 2018, við hátíðlega athöfn sunnudaginn 2. september. Er þetta í fyrsta skipti sem þessi tegund er útnefnd sem Tré ársins.

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


trearsins-fyrir

Tré ársins 2018 (Mynd: EG).

Fjölskylduskemmtun – Opinn skógur í Brynjudal í Hvalfirði

Með Skógræktarverkefni

Laugardaginn 16. september verður Opinn skógur í Brynjudal í Hvalfirði formlega opnaður.

Icelandair Group er stoltur styrktaraðili Opinna skóga og í tilefni af opnuninni verður hátíðardagskrá með fjölskylduvænni skemmtun. Allir velkomnir!

Svæðið er kjörið berjatínslusvæði auk þess sem hægt er að finna þrautabraut á svæðinu fyrir börn eldri en ca. 10 ára. Fjöldamargar gönguleiðir eru á svæðinu og boðið verður upp á grillaðar pylsur.

Kl. 13:45 Tónlistaratriði
Kl. 14:00 Opinn skógur formlega opnaður.

Ávörp
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands

Kl. 14:30 Léttar veitingar
Kl. 15:00 Sirkus Íslands verður með skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa
Tálgunarnámskeið (kl. 14:00 – 16:00). Ung börn (6-8 ára) verða að vera í fylgd fullorðinna
Þrautabraut og fleira
Kl. 16:00 Dagskrárlok

Hlökkum til að sjá ykkur!

leidtilbrynjudals

Opinn skógur í Brynjudal er sextándi skógurinn sem opnaður er undir merkjum Opins skógar.

 

 

alt


Samningur um Opinn skóg

Með Skógræktarverkefni

Undirritaður hefur verið samningur á milli Skógræktarfélags Íslands og Icelandair Group um stuðning til þriggja ára við verkefnið Opinn skóg, en það lýtur að uppbyggingu aðstöðu til útivistar á skógræktarsvæðum. Icelandair Group mun styrkja verkefnið um 4 milljónir króna á ári eða alls 12 milljónir króna á tímabilinu. Nú þegar hafa verið opnaðir fimmtán skógar undir merkjum Opins skógar. Á svæðunum hefur verið komið fyrir útivistaraðstöðu, s.s. skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands: „Stuðningur Icelandair Group er mikilsverður og gerir skógræktarfélaginu kleift að halda verkefninu áfram af fullum krafti og vinna að viðhaldi og uppbyggingu fleiri svæða. Markmiðið með samningnum er meðal annars að veita almenningi gott aðgengi að skógræktarsvæðunum, og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.“

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group segir Skógræktarfélag Íslands hafa unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu Íslands um áratugaskeið. „Með því að styrkja skógræktarstarf í landinu sýnum við þakklæti okkar í verki og stuðlum að því að almenningur og ferðamenn hafi greiðan aðgang að skógi á fjölmörgum stöðum um land allt.“

 

samninguros

Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (t.v.) og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.


Tré ársins 2015

Með Skógræktarverkefni

Tré ársins 2015 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 26. september síðast liðinn. Að þessu sinni varð reynitré (Sorbus aucuparia) sem stendur í Sandfelli í Öræfum fyrir valinu.

Reynirinn vekur jafnan athygli, þar sem hann stendur einn og óstuddur, með gráar skriður í bakgrunni og sést hann vel frá þjóðveginum. Tréð var gróðursett árið 1923 af Þorbjörgu Guðdísi Oddbergsdóttur, mágkonu séra Eiríks Helgasonar, sem var prestur í Sandfelli frá 1918 til 1931. Þorbjörg fékk tréð sent frá vinkonu sinni á Egilsstöðum sem hafði fengið það í gróðrarstöðinni hjá Guttormi Pálssyni, skógarverðinum á Hallormsstað, en uppruni þess er ekki þekktur.

Hófst athöfnin á því að Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð gesti velkomna. Að ávarpi hans loknu færði Magnús afkomendum séra Eiríks viðurkenningarskjal og tók Eiríkur Helgason við því fyrir þeirra hönd. Einnig tók Örn Bergsson við viðurkenningarskjali fyrir hönd Öræfinga. Eiríkur Helgason færði svo Skógræktarfélagi Íslands fallega ljósmynd af trénu og tók Magnús Gunnarsson við henni fyrir hönd félagsins. Anna Sigríður Helgadóttir tók því næst lagið fyrir gesti. Að lokum var tréð hæðarmælt og sá Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði, um mælingu. Reyndist hæsti stofn trésins vera 11,98 m á hæð, en tréð greinist í sjö stofna. Að lokum var svo gestum boðið upp á hressingu á Hótel Skaftafelli í Freysnesi.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins, nú í samstarfi við Arion banka. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Sjá má myndir frá útnefningunni á Facebook síðu Skógræktarfélags Íslands.

trearsins2015

Tré ársins 2015 (Mynd: RF).

Opinn skógur í Skarðdal á Siglufirði formlega opnaður

Með Skógræktarverkefni

Skógurinn í Skarðdal á Siglufirði var formlega opnaður sem Opinn skógur föstudaginn 14. ágúst. Var opnunin hluti af Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn var á Akureyri dagana 14. -16. ágúst. Einnig fagnar Skógræktarfélag Siglufjarðar, sem ræktaði upp skóginn í Skarðdal, 75 ára afmæli á árinu.

Af þessu tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum. Fjöldi manns, bæði fundargestir aðalfundar og heimamenn á Siglufirði, mættu á opnunina í blíðskaparveðri. Hófst athöfnin með því að Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar, bauð gesti velkomna. Að loknum lúðraþyt var skógurinn svo formlega opnaður þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og hjónin Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir klipptu á  borða við stíg inn í skóginn.

Gestir gengu því næst í Árhvamm þar sem efnt var til hátíðardagskrár. Ávörp fluttu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Páll Helgason flutti svo frumsamið afmælisljóð, í tilefni afmælis Skógræktarfélags Siglufjarðar og hljómsveitin Heldri menn spilaði fyrir gesti. Einnig var boðið upp á kaffihressingu og sérstaka dagskrá fyrir börn. Gestir nýttu einnig tækifærið til að skoða sig um í skóginum, en í honum er gott stígakerfi og margt fallegt að sjá.

Markmiðið með verkefninu Opinn skógur er að opna skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaganna og gera þau aðgengileg almenningi. 

Opinn skógur í Skarðdal á Siglufirði

Með Skógræktarverkefni

Í tilefni af vígslu skógarins í Skarðdal á Siglufirði sem „Opins skógar“ verður efnt til hátíðardagskrár föstudaginn 14. ágúst, kl. 15:00-16:30. Er opnunin hluti af Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn er á Akureyri dagana 14. – 16. ágúst. Einnig fagnar Skógræktarfélag Siglufjarðar, sem ræktað hefur upp skóginn í Skarðdal, 75 ára afmæli á árinu.

Dagskrá:

Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar, býður gesti velkomna

Lúðraþytur

Opnun
Skógur formlega opnaður með klippingu á borða
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra
Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir

Hátíðarsamkoma í Árhvammi
Ávörp flytja
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
Kristinn Kristjánsson, varaformaður bæjarráðs Fjallabyggðar

Frumsamið afmælisljóð – Páll Helgason

Veitingar
Barnahorn – sérstök dagskrá fyrir börn
Tónlist – Hljómsveitin „Heldri menn“

Samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Með Skógræktarverkefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu þriðjudaginn 26. nóvember undir samning vegna Landgræðsluskóga og fór undirskriftin fram í Selinu, bækistöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Samningurinn felur í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefni sem hefur það að markmiði að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land.

Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins en skógræktarfélögin sem eru starfrækt víða um land sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, útvegun lands, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu. Gerðir eru þinglýstir samningar um öll svæði sem kveða m.a. á um að þau skuli vera opin almenningi til útivistar. Nánast öll skógræktarfélög landsins vinna nú á einn eða annan hátt að verkefninu. Þannig er það vettvangur áhugamannasamtaka í gróðurvernd um allt land.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis.

Gerðir hafa verið samningar um 130 svæði um allt land. Samkvæmt nýlegri úttekt á verkefninu þekja sýnilegir skógar nú tæpa 5000 hektara. Langflest Landgræðsluskógasvæði eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra.

Nýr samningur milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Skógræktarfélags Íslands gildir til fimm ára og felur í sér 35 milljóna króna árlegt framlag til verkefnisins.

undirskriftlgrsk

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, takast í hendur að lokinni undirskrift samningsins (Mynd: RF).