Skip to main content
Flokkur

Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands veitir sveitarfélaginu Norðurþing viðurkenningu: Yfir 2 milljónir trjáplantna gróðursettar

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands veitti sveitarfélaginu Norðurþingi sérstaka viðurkenningu á Fagráðstefnu skógræktar sem fram fór á Húsavík dagana 27.-29. mars. Sveitarfélagið fær viðurkenninguna fyrir öfluga og þrautseiga þátttöku í Landgræðsluskógaverkefninu og viðamikið gróðurbótastarf í bæjarlandi Húsavíkur.

Frá árinu 1990 hefur sveitarfélagið Norðurþing, áður Húsavíkurbær, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga og Húsgull, gróðursett yfir 2 milljónir trjáplantna á vegum Landgræðsluskógaverkefnisins. Af þeim 19.236.064 plöntum sem hafa verið gróðursettar alls frá því að Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990, hafa 2.061.906 verið gróðursettar í landi Húsavíkur eða 10,7%.

Það þýðir að Norðurþing er það sveitarfélag sem gróðursett hefur flestar plöntur allra sveitarfélaga á landinu.
Auk þessa  öfluga skógræktarstarfs hefur uppgræðsla örfoka lands með lúpínu verið umfangsmikil og þannig hafa skapast  lífsskilyrði fyrir tré og runna á landi sem vegna ofnýtingar var orðin eyðimörk.

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, Gaukur Hjartarson skipulagsfulltrúi og Jan Klitgaard, garðyrkjustjóri Norðurþings, tóku við viðurkenningunni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands.

husavik

Frá vinstri: Jan Klitgaard garðyrkjustjóri Norðurþings, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings og Gaukur Hjartarson, skipulagsfulltrúi (Mynd: BJ).

 

Jólaskógurinn í Brynjudal – byrjað að bóka!

Með Skógargöngur

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 3.-4., 10.-11. og 17.-18. desember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær.  Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog (hjá) skog.is. Einnig má lesa um skóginn á heimasíðunni (hér).

brynjudalur-byrjadadboka

Skógarferð hjá Skógræktarfélaginu Dafnar

Með Skógargöngur

Skógræktarfélagið Dafnar stendur fyrir skógarferð þriðjudaginn 1. nóvember, undir leiðsögn Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Farið verður með rútu frá aðalbyggingu LbhÍ, Ásgarði, á Hvanneyri kl. 15:30 og komið til baka upp úr kl. 19:00. Gengið verður yfir í birkiskóginn að Litla-Skarði, en það er stórmerkilegur skógur, þar sem fram hefur farið stöðug umhverfisvöktun frá 1996.

Sjálf gangan tekur um klukkustund fram og til baka. Þátttakendur klæði sig eftir veðri og taki gjarnan með sér vasaljós.

Á heimleiðinni verður stoppað og boðið upp á skógarkaffi og með því, að hætti skógfræðinema.

Ferðin er ókeypis og öllum opin.

Skráningar á netfangið dafnar (hjá) lbhi.is fyrir 30. október.

Vonumst til að sjá sem flesta.

Skógræktarfélagið Dafnar.

Kvöldganga í skógi – náttstaður fuglanna

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu n.k. þriðjudag 1. nóvember og hefst hún kl. 19:30.  Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið upp Værðarstíg og  um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, Anna Borg,  stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson, skógfræðingur, vera með leiðsögn um skóginn og flytja stutta hugleiðingu um fuglana í skóginum og náttstað þeirra.  Á göngu okkar um Værðarstíg mun Jóhann Guðni Reynisson flytja  frumort ljóð. Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á súkkulaði og meðlæti í  húsakynnum Þallar. 

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að taka þátt í  kvöldgöngu um skóginn.  Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

skhafn-kvoldganga

Í Höfðaskógi, skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, í júní (Mynd: BJ).

Ganga, fjör og fróðleikur um trjásafnið og Yndisgarðinn í Kópavogi

Með Skógargöngur

Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs stendur fyrir fjölskyldugöngu fimmtudaginn 15. september í tilefni af degi íslenskrar náttúru, sem er þann 16. september.

Lagt verður af stað frá austurenda Kjarrhólma kl. 17.00. Gengið verður um trjásafnið og Yndisgarðinn undir leiðsögn þeirra Samsonar B. Harðarsonar lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Friðriks Baldurssonar, garðyrkjustjóra Kópavogs. Á meðan geta börnin farið í leiki þar sem leyndardómar trjásafnsins verða uppgötvaðir (undir leiðsögn Margrétar Júlíu Rafnsdóttur).

Um er að ræða rúmlega klukkutíma göngu og við hvetjum ömmur og afa, mömmur og pabba til að taka börnin með og taka þátt. Að lokinni göngu verður þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur og gos.

Þetta er gott tækifæri fyrir Kópavogsbúa til að kynna sér þá perlu sem trjásafnið okkar er og hið áhugaverða yndisgróðursverkefni.

Íbúar eru hvattir til að taka þátt og eiga góða stund í fallegu umhverfi undir leiðsögn staðkunnugra.

Allir hjartanlega velkomnir!

Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs.


Skógarganga í Stóra-Skógarhvamm

Með Skógargöngur

Í tilefni Alþjóðlegs árs skóga efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til skógargöngu í Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum laugardaginn kemur, 20. ágúst. Lagt verður af stað frá Vatnsskarðsnámum við Krýsuvíkurveg kl. 10.00 árdegis. Leiðsögumenn verða Árni Þórólfsson, Pétur Sigurðsson og Steinar Björgvinsson. Skógrækt hófst í Stóra-Skógarhvammi 1959 af drengjum í Vinnuskóla bæjarins undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra.

Falleg tré í Mosfellsbæ

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar efnir til göngu miðvikudaginn 17. ágúst til að skoða falleg tré í Mosfellsbæ. Gangan hefst við Hlégarð kl. 19:30 og verður gengið upp með Varmá. Gangan tekur um 2 klukkustundir og endar aftur við Hlégarð.

Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Garðabæjar: Skógarganga við Vífilsstaði

Með Skógargöngur

Í kvöld, þriðjudaginn 12. júlí, efnir Skógræktarfélag Garðabæjar til þriðju göngu sumarsins. Að þessu sinni verður gengið við Vífilsstaði. Skoðaðir verða helstu trjálundir við Vífilsstaðahælið og nágrenni þess í fylgd Arndísar Árnadóttur.

Gert er ráð fyrir ágætu veðri, hægum sunnanvindi og úrkomulausu.

Mæting er við bílastæðið hjá gamla fjósinu kl. 20:00.

Allir velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar.

skgbr-3ganga

Vífilsstaðir hér áður fyrr.