Skip to main content
Flokkur

Fundir og ráðstefnur

Umhverfisfræðsluráð og Landvernd: Málþing um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni

Með Fundir og ráðstefnur

Umhverfisfræðsluráð og Landvernd boða til málþings um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni. Málþingið fer fram á Grand Hótel þriðjudaginn 15. september kl. 13:00 til 16:00. Þátttaka tilkynnist með tölvupósti á postur@umhverfisraduneyti.is. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá málþingsins:

  • Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
  • Niðurstöður úttektar á menntun til sjálfbærni á Íslandi sem unnin er fyrir umhverfisfræðsluráð. Stefán Gíslason, Environice.
  • Umhverfislæsi – getum við lært af öðrum þjóðum? Andrés Arnalds, Landgræðslunni.
    Kaffi.
  • Þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni – hvað þarf til? Mike Littledyke og Rose Littledyke.
  • Endurskoðun aðalnámskrár með sjálfbæra þróun í huga. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
    Pallborð og umræður.

Nánari upplýsingar má sjá hér.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Höfn í Hornafirði

Með Fundir og ráðstefnur

74. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Höfn í Hornafirði dagana 28.-30. ágúst 2009.

Skógræktarfélag A-Skaftfellingar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Elínar S. Harðardóttur, formanns Skógræktarfélags A-Skaftfellinga, Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra Hornafjarðar og Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins. Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka suður á Mýrar að Hellisholti og skoðuð skógrækt þar í blíðskaparveðri. Því næst var haldið á svæði Skógræktarfélags A-Skaftfellinga að Haukafelli á Mýrum, þar sem vígð var ný brú að svæðinu og farið í gönguferð um skóginn. Gustaði hressilega um fundargesti í Haukafelli og kom þá vel í ljós hversu gott skjól fæst af skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fjórum fræðsluerindum. Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, hélt erindi er nefnist Virkjum sköpunarkraftinn sem í okkur býr, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor fjallaði um landnám og útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur fjallaði um jökla og loftslagsbreytingar á Íslandi og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins fjallaði um framtíðarsýn í íslenskri skógrækt.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð um skóga í nágrenni Hafnar, í sólskini og ágætis veðri. Byrjað var á göngu að Hrossabithaga, gengið þaðan í Hafnarskóg og endað í Einarslundi, þar sem minningarsteinn um Einar Hálfdánarson var vígður.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar. Þar veitti Skógræktarfélag Íslands viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, en það voru  Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson og Björn Bjarnarson. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Skilmannahrepps (70 ára) og Skógræktarfélag Kópavogs (40 ára).

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Eftir hádegi var svo boðið upp á skoðunarferð í Steinadal í Suðursveit, fyrir þá sem áhuga höfðu og nýttu margir sér það tækifæri. 

Svipmyndir af fundinum:

adalfundursi-setning
Á annað hundrað fulltrúar mættu á aðalfundinn, sem settur var í Nýheimum á Höfn í Hornafirði, föstudaginn 28. ágúst (mynd: RF).

adalfundursi-haukafell
Fundargestir njóta skjólsins í skóginum í Haukafelli á Mýrum, sem er í umsjá Skógræktarfélags A-Skaftfellinga (mynd: BJ).

adalfundursi-vidurkenningar
Skógræktarfélag Íslands  veitti viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra. F.v. Svandís Svavarsdóttir, Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson, Björn Bjarnarson og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (mynd: RF).

adalfundursi-einarslundur
Guðrún Hálfdánardóttir afhjúpar minnisvarða um bróður sinn Einar, í Einarslundi við Höfn (mynd: RF).

adalfundursi-hafnarskogur
Fundargestir njóta útiveru og sólskins í Hafnarskógi (mynd: BJ).

 

 

 

 

Fuglaverndarfélag Íslands: Fugla- og mannlíf á Grænlandi

Með Fundir og ráðstefnur

Fimmtudaginn 3. september verður haldin fyrsti fyrirlestur vetrarins hjá Fuglaverndarfélagi Íslands.

Gunnar Þór Hallgrímsson og Jóhann Óli Hilmarsson munu segja frá fuglalífi og mannlífi á Ammassalik svæðinu og við Zackenberg á norðaustur-Grænlandi.

Fyrirlesturinn er haldin í húsakynnum Kaupþings í Borgartúni 19 og hefst klukkan 20:30.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands: Ávarp formanns

Með Fundir og ráðstefnur

Setning Aðalfundar Skógræktarfélags Íslands árið 2009
Höfn, Hornafirði.

Heiðursfélagar Skógræktarfélags Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri, Elín Harðardóttir, formaður Skógræktarfélags A-Skaftfellinga, fulltrúar skógræktarfélaganna og aðrir góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa 74. aðalfundar Skógræktarfélags Íslands. Skógræktarfélag A-Skaftfellinga, býður nú til þessa aðalfundar og færi ég félaginu bestu þakkir fyrir góða aðstoð við undirbúning fundarins. 
Fyrir ári var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn í stórbrotinni og hrikalegri náttúru Vestfjarða.  Þá hafði ég orð á því hversu ánægjulegt væri að færa aðalfundi félagsins frá einni perlu til annarrar, frá einum stað til annars.  Og hví skyldi ég láta þar staðar numið í að dásama fegurð landsins okkar.  Fannhvítir tindar, litrík fjöll, hrikaleg gljúfur og stórfljót sem bylta sér til sjávar.  Víðáttumiklir sandflákar, gróskumiklar hlíðar, klæddar kjarri og skógi.  Allt þetta og svo margt fleira gleður þá sem fara um þetta fagra landsvæði.  Og samt, þrátt fyrir allt sem augað gleður,  er svo dásamlegt að geta flett upp í Þórbergi Þórðarsyni til  fá allt annað sjónarhorn, gjörólíkt, en þó svo næmt, þegar hann lýsir  eldverum og „æinu“ í viðarhríslunum, þegar farið var að brenna þeim, eftir að taðið var búið.  „Þær höfðu stærri sál en taðkögglarnir.  Þess vegna fundu þær meira til.  Ég kenndi samt ekki í brjósti um þær,“ segir Þórbergur og heldur áfram:  „Skógarferðirnar á haustin voru ömurleg ferðalög.  Þá var orðið kalt í veðri, og stundum rigndi.  Það var kalt að norpa á herti inn á Steinadal eða inn í Staðarfjall, og þreytandi að troða sér áfram gegnum skógarþykknið og afar erfitt að standa boginn við að sigða hríslurnar, og þær rifu á manni fötin og hendurnar og særðu mann í andlitinu og slettust oft í augun á manni.  Þær höfðu áreiðanlega vonda sál.  Mér var illa við skóg, og skógarlykt var einhver hvimleiðasti óþefur, sem ég fann í æsku minni.“  Já, Þórbergur velti mörgu fyrir sér.
 
„En er þetta ekki vitleysa í mér,“ segir Þórbergur síðan?  „Getur það verið, að steinninn hafi staðið þarna í þúsund ár? Að hugsa sér? Að standa í sömu stellingum í þúsund ár.  Hvílík eilífð er líf steinsins“, hugsaði Þórbergur með sér.
Já, þessi landshluti geymir margar perlurnar, en vissulega lítur hver silfrið sínum augum.

Aðalfundir Skógræktarfélags Íslands sem haldnir eru ár hvert eru skógræktarhreyfingunni afar mikilvægir.  Þeir eru vettvangur skógræktarmanna til líflegra skoðanaskipta og gleðiríkra samverustunda. Þar gefst fundarmönnum   jafnframt tækifæri til að heimsækja áhugaverð ræktunarsvæði og kynnast starfi skógræktarfólks heima í héraði.
 
Á þessum  aðalfundi eiga rétt til setu fulltrúar frá 61 skógræktarfélagi.

Frá síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var á Ísafirði fyrir ári síðan hafa nokkrir félagar og velunnarar skógræktarhreyfingarinnar horfið á braut og er þeirra minnst  með virðingu og þökk.

Snorri Sigurðsson skógfræðingur og framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands
Fæddur á Sauðárkróki 15. apríl 1929.
Snorri lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1950 og hélt síðan til náms til Noregs þar sem hann lauk skógræktarnámi 1956. Það sama ár hóf hann  störf hjá félaginu og vann fyrstu árin að erindrekstri vítt og breitt um landið á þeim tímum þegar víða til sveita voru hvorki til vegir né brýr. Hugmyndir manna um skógrækt þóttu oftar en ekki fjarstæðukenndar og oft á brattann að sækja að snúa við þeim hugsunarhætti sem ríkti meðal landsmanna.
Snorri tók við af  Hákoni Bjarnasyni sem framkvæmdastjóri félagsins árið 1968 og gegndi því trúnaðarstarfi ásamt öðrum skyldum til ársins 1987. Eftir að Snorri hætti sem framkvæmdastjóri réðst hann til starfa sem fagmálastjóri Skógræktar ríkisins og síðar starfaði hann við sérverkefni á vegum Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá. Snorri sinnti fræðistörfum eftir því sem tími vannst til og skrifaði m.a. gagnmerka grein um birki á Íslandi en auk þess birtist fjöldi greina eftir hann í Skógræktarritinu af ýmsum tilefnum.

Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur
Fæddur 4.  júní 1941.
Freysteinn var einn þeirra sem bar nafnið náttúrfræðingur með rentu en hann var menntaður í jarðeðlisfræði og jarðfræði frá Þýskalandi. Freysteinn var fararstjóri og leiðsögumaður í fræðsluferðum Skógræktarfélags Íslands þar sem hann kryddaði lýsingar á jarðfræði með þjóðlegum og sögulegum fróðleik. Hann hélt fyrirlestra fyrir Skógræktarfélag Íslands um hugðarefni sín í skógrækt og lagði þá ávallt gott til málanna. Auk hinna mörgu áhugamála innti hann af hendi margvísleg trúnaðarstörf fyrir ýmis félagsamtök innan umhverfisgeirans og var þar dyggur talsmaður skógræktar. 

Hákon Aðalsteinsson skógarbóndi
Fæddur á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal 13. júní 1935.
Landsþekktur hagyrðingur og kallaður skógarskáld í ranni skógræktarfólks. Hann helgaði sig skógrækt um langt árabil eða frá því að hann fluttist að Húsum í Fljótsdal árið 1992. Þar ræktaði hann mikinn skóg auk þess sem hann stundaði önnur skógræktarstörf á Héraði, s.s. skógarhögg og grisjun. Auk þess helgaði hann krafta sína félagsmálum skógarbænda og var í stjórn Félags skógarbænda á Fljótsdalshéraði um árabil. 

Oddur Gunnarsson á Dagverðareyri í Eyjafirði
Fæddur á Dagverðareyri 4. janúar 1943.
Skógrækt á Dagverðareyri er gott dæmi um ræktun nytjaskógar á bújörð. Árangur  Odds hefur verið mörgum öðrum bændum hvatning og merki um hvernig hægt er að nýta jarðir til búskapar með fjölbreyttum hætti. Oddur var ávallt í fararbroddi þeirra sem sinntu umhirðu og grisjun skógarins. Félagsmálum sinnti Oddur af alúð. Hann var í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga um áratugaskeið og formaður félagsins á árunum 1980 -1983. Á 70 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 2000 var hann gerður að heiðursfélaga.

Þorvaldur Kröyer Þorgeirsson í Lóni
Fæddist á Seyðisfirði 28. mars 1930.
Ræktun þeirra hjóna Þorvaldar og Sveinbjargar Eiríksdóttur í Grænuhlíð í Stafafellsfjöllum var um margt einstök. Valdi, eins og hann var gjarnan kallaður,  var með grænafingur og kom öllum plöntum til. Í Grænuhlíð varð með tíð og tíma til safn ótal trjátegunda og runna enda Valdi með söfnunarbakteríu. Hann viðaði að sér öllum nýjum tegundum sem hægt var að nálgast. Ótvíræður vitnisburður um mikinn og einlægan ræktunaráhuga lýsti sér í því að oft voru gestir í Grænuhlíð leystir út með gjöfum, fallegum plöntum sem honum fannst nauðsynlegt að prófa á nýjum slóðum.
 

Við skulum nú minnast Snorra Sigurðssonar, Freysteins Sigurðssonar, Hákons Aðalsteinssonar, Odds Gunnarssonar, og Þorvaldar Kröyer Þorgeirssonar og  annarra félaga okkar og velunnara sem fallið hafa frá, frá síðasta aðalfundi, með því að rísa úr sætum.

Ágætu fundarmenn.
Landsmenn geta sannarlega flestir verið þakklátir veðurguðunum fyrir aldeilis frábært veður í sumar.  Sólin skein, hitinn steig og gróðri fór víða fram sem aldrei fyrr.  Það var helst að þurrkur varð meiri en  ræktunarfólk hefði helst kosið.  Þannig má segja að stigið sé enn eitt hænufetið nær þeim kenningum um loftslagsbreytingar að hitastig fari hækkandi, að  jöklar hopi og skógarmörk færist ofar í landið. 
Það má segja að  fyrir okkur Íslendinga virðast fleiri tækifæri en ógnanir felast  í þeim breytingum sem boðaðar eru.  Þær breytingar geta hins vegar að sama skapi haft verulegar ógnanir í för með sér á heimsvísu.  Það er því afar mikilvægt að öll þau hnattrænu skref sem tekin eru ógni ekki jafnvægisgengi náttúrunnar. 
Vart er hægt að flytja ávarp hér á aðalfundi án þess að fjalla nokkrum orðum um afleiðingar af hruni bankanna og um leið íslensks efnahagslífs.  Afleiðingarnar má sjá víða og ljóst er að skógræktarhreyfingin hefur ekki farið varhluta af þeim þrengingum sem nú steðja að íslensku þjóðlífi.  Ekki þýðir hins vegar að leggja upp laupana þótt móti blási um stund.  Í hverri áskorun felast tækifæri.  Íslensk þjóð hefur áður þurft að glíma við ýmsa erfiðleika og ætíð, með þrautsegju og baráttuvilja, tekist að vinna sig út úr þeim.  Með breyttu gildismati, hóflegum væntingum, stefnufestu  og bjartsýni, er allt eins líklegt að dýrkeypt áminning kreppunnar vísi okkur veginn að enn betra samfélagi.
Ófáir hafa á þessu sumri leitað að mannbætandi grunngildum til móður náttúru, til dæmis við garðyrkju og skógrækt, og ófáir eru þeir sem hafa notað sumarið til að kynnast töfrum landsins með margvíslegum hætti.  
Ísland hefur um aldir alið stórmenni, sem hafa oft og tíðum verið harðorð í garð landa sinna.  Og tilgangurinn hefur þá oftar en ekki verið sá að koma hreyfingu á hlutina, blása lífi í kulnaðar glæður.  Eggerti Ólafssyni, skáldi og fjölfræðingi, var þetta lagið.  Hann reyndi að koma löndum sínum í skilning um þann gríðarlega auð sem byggi í nýtingu mannsins á gæðum náttúrunnar.  Þeir ættu að kynna sér betur hvílíkar gersemar finna mætti í skauti fósturjarðarinnar. 

Á fagri mörk gekk mér í lyndi,
mettuðu blómstrin sjón og þef,
en svo ég missi’ ei urtar yndis,
inni hjá mér ég nokkrar hef;
þær ilm í bænum breiða’ á mót,
blómgast samt fyrir utan rót.

Eggert þekkti vel til bjargræðis Íslendinga því hann kynnti sér Ísland og íslenska búskaparhætti í þaula og gaf meðal annars út bók ásamt skólabróður sínum; Ferðabók Eggerts og Bjarna, þess er síðar varð landlæknir. Ef til vill kann einhver að segja að vart sé hægt að bera saman líf og aðbúnað Íslendinga hér fyrr á öldum og það tæknivædda samfélag sem við lifum nú í á 21. öldinni.  Og rétt er það að vissu leyti, hins vegar byggist styrkleiki þjóða á því vegarnesti, þeim lífsgildum, sem fært hafa okkur fram sem þjóð, mann fram að manni.  Þeim gildum sem gera okkur að Íslendingum.

Þegar litið er yfir starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands á milli aðalfunda má glöggt sjá að unnið hefur verið að fjölmörgum verkefnum.  Mun ég geta þeirra hér að nokkru.  
Rekstur félagsins á liðnu ári gekk að mörgu leyti vel, þrátt fyrir að rekstrartekjur félagsins hafi ekki skilað sér eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.  Er þar einna helst um að ræða lægri ávöxtun af peningalegum eignum félagsins, sem fyrst og fremst má rekja til hruns fjármálastofnana. Voru rekstartekjur félagsins tæpum 10 milljónum króna lægri 2008 en árið 2007 og rekstartap árins 2008  um kr. 6 milljónir samanborið við um 6 milljón króna rekstrarhagnað árið 2007.  Eigið fé félagsins í árslok 2008 var 29,5 milljónir króna, en var í árslok 2007 35,6 milljónir.   Eignir í bundnum sjóðum voru 136,6 milljónir króna í árslok 2008, en voru 159,1 milljón í árslok 2007.  Eignir í bundnum sjóðum  rýrnuðu því um rúmar 22 milljónir.   Sé tekið mið af ytri aðstæðum í þjóðfélaginu, má ljóst vera að erfiðara verður nú  að leita stuðnings og styrkja hjá fyrirtækjum og stofnunum sem mörg hver hafa stutt  félagið með myndarlegum framlögum á liðnum árum. 
Því ber að fagna að fjárlaganefnd Alþingis samþykkti að standa við gerðan samning um Landgræðsluskógaverkefnið.  Er þar um að ræða framlag á þessu ári að upphæð 35 milljónir króna.  Landgræðsluskógaverkefnið er afar þýðingarmikið framlag ríkisvaldsins til eflingar nýskógræktar, en samráðsnefnd um Landgræðsluskóga er Skógræktarfélagi Íslands til ráðgjafar um framkvæmd verkefnisins.  Á þessu ári var hafist handa við að afla nákvæmra gagna um útbreiðslu og viðgang allra Landgræðsluskógasvæða á landinu.  Þá hefur á undanförnum árum verið kallað eftir upplýsingum um gróðursetningar ársins.  Upplýsingar sem berast um plöntufjölda, tegund og staðsetningu eru færðar inn í gagnagrunn á tölvutæku formi.  Um er að ræða víðtækt samvinnuverkefni Skógræktarfélags Íslands, umsjónaraðila Landgræðsluskóga og íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá.  Mikilvægt er að greiðlega gangi að afla gagna frá ræktendum en skráningin mun gagnast öllum þeim sem að verkefninu koma.  Þá gera stjórnvöld og alþjóðastofnanir kröfu um haldgóðar upplýsingar um hvaðeina er lýtur að breyttri landnotkun m.a. með bindingu kolefnis í huga.  Áðurnefndum samstarfsaðilum eru færðar bestu þakkir fyrir samvinnu og aðstoð.

Á haustdögum 2008 samþykkti stjórn félagsins að fela framkvæmdastjóra og formanni að leggja drög að mótun atvinnuátaks 2009-2011 en útlit er fyrir mikið atvinnuleysi  á næstu árum í mörgum greinum atvinnulífsins og komu því fram hugmyndir um mannaflafrek verkefni á sviði skóga og útivistar.  Var lögð mikil vinna í undirbúning og margir kallaðir til.  Ríkisstjórnin lagði fram áætlun um að skapa fjölmörg störf og tók vel í hugmyndir starfshóps Skógræktarfélags Íslands um verkefnið.  Varð niðurstaðan sú að fjárveiting ríkisvaldsins til þessa atvinnuátaksverkefnis Skógræktarfélags Íslands er allt að 200 milljónum króna.   Í byrjun árs var ráðinn sérstakur verkefnastjóri fyrir verkefnið,  María Stefánsdóttir, og síðar Linda Björk Waage eftir að María lét af störfum.  Á höfuðborgarsvæðinu er aðaláherslan lögð á Græna stíginn og tengd verkefni, svo sem umhirðu skóga og bætt aðgengi og aðstöðu, en á landsbyggðinni er um sambærileg verkefni að ræða, einkum í nágrenni þéttbýlisstaða.  Í ár skrifuðu 19 sveitarfélög undir samninga um þátttöku sem nemur allt að 1000 mannmánuðum.  Flest störfin verða unnin á tímabilinu júní – september, en þó munu nokkur störf við grisjun vara lengur. 
Óhætt er að segja að verkefnið og stjórn þess hafi tekist mjög vel.  Á næstu vikum munu fulltrúar félagsins ganga á fund ráðamanna og kynna þeim framgang verkefnisins, sem og að leggja til framhald atvinnuátaksverkefnisins.   Verkefnið um  Græna stíginn, 50 km langan, 3 metra breiðan stíg sem hlykkjast mun frá Kaldárseli við Hafnarfjörð upp á Kjalarnes, er afar metnaðarfullt verkefni.  Þar er  um að ræða samstarfsverkefni Skógræktarfélaganna, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldsins.  Fellur verkefnið vel að því markmiði að efla lýðheilsu og útivist og skapa samgönguæð um fegurstu svæði í nágrenni og upplandi höfuðborgarsvæðisins. 

Verkefnið Opinn skógur hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og geta landsmenn nú notið þess að staldra við í Opnum skógi á fjölmörgum stöðum  á ferð sinni um landið. 
Þann 4. júlí síðastliðinn var skógurinn að Ásabrekku í Ásahreppi opnaður  af Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, en Skógræktarfélag Rangæinga hefur umsjón með skóginum.  Unnið var áfram að opnun skóga á Laugalandi á Þelamörk og Fossá í Hvalfirði.  Verkefnið Opinn skógur er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands og fyrirtækjanna Avant hf. og Olís hf.

Rétt er að geta hér fleiri góðra stuðningsaðila skógræktar á Íslandi, svo sem Kaupþings banka sem stutt hefur Skógræktarfélag Íslands á margvíslegan hátt á undanförnum árum, m.a. við gerð Fræðslugáttar og Toyota skóganna, sem styrkt er af Toyota á Íslandi.  Auk þeirra sem hér eru sérstaklega til nefndir njóta félögin styrkja og stuðnings fjölmargra annarra fyrirtækja og einstaklinga.  Öllum þessum aðilum er þakkaður veittur stuðningur. 

Starfsfólk Skógræktarfélags Íslands hefur unnið afar gott starf að margvíslegum verkefnum og má þar nefna öfluga útgáfu skógræktarritsins Laufblaðsins og heimasíðu félagsins, auk þess að sinna margvíslegum öðrum verkefnum í þágu skógræktarhreyfingarinnar. 
Færi ég því bestu þakkir fyrir vel unnin störf.  

Þrjú ár eru nú liðin síðan Skógræktarfélag Íslands og Landvernd stofnuðu Kolvið, sjóð þeim tilgangi að binda kolefni í gróðri og jarðvegi til að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti.  Á þeim þremur árum sem Kolviður hefur starfað hefur margt áunnist með góðum stuðningi Ríkissjóðs Íslands, Kaupþings banka og Orkuveitu Reykjavíkur sem eru helstu bakhjarlar sjóðsins.  Formaður sjóðsins er nú Reynir Kristinsson, og framkvæmdastjóri í hlutastarfi er Björgólfur Thorsteinsson.
 
Fróðlegt verður að fylgjast með starfi nefndar um stefnumótun í skógrækt, en nefndin var skipuð að ósk Skógræktar ríkisins og er ætlað að vinna að fjórum megináherslum, þar sem m.a. verður fjallað um: 
Framtíðaruppbyggingu skógarauðlinda á Íslandi.
Viðarframleiðslu skóga.
Félagslega þætti, s.s. borgarskóga, útivist og lýðheilsu.
Verndarhlutverk skóga, s.s. jarðveg, vatn, loftslag og skjól. 
Formaður nefndarinnar er Jón Loftsson, skógræktarstjóri.

Sem fyrr er það meginhlutverk Skógræktarfélags Íslands  að vera málsvari skógræktarfélaganna í landinu og efla og styrkja þær stoðir sem skógræktarhreyfingin hefur byggt upp á áratugum.  Styrkur skógræktarhreyfingarinnar liggur enda ekki síst í geysiöflugu þroskuðu og þróuðu félagsstarfi þar sem áhugi, elja og fjölþætt reynsla skógræktarfólks fær notið sín. 

Ágætu fundarmenn. 

Aðalfundurinn hér á Höfn verður með hefðbundnum hætti.  Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður boðið upp á spennandi skoðunarferðir sem stjórn Skógræktarfélags Austur-Skaftfellinga hefur skipulagt fyrir okkur.  Þá verða flutt fjögur áhugaverð fræðsluerindi sem tengjast skógrækt, sögu lands og þjóðar. 

Kæru félagar.
Ég vil óska þess að aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hér á Höfn megi verða okkur skógræktarfólki ánægjulegur og giftudrjúgur. Vil ég að endingu vísa í ljóðlínur skógarskáldsins,  Hákons Aðalsteinssonar, Móðir jörð en þar segir:
 
Þegar ljómar ljós í skýjum
lyftir brún á degi nýjum.
Mildur andi morgunsvala
mettar loftið fram til dala.

Berst frá lyngi lágur kliður,
Langt í burtu fossaniður.
Þér við sendum þakkargjörð.
Þú ert fögur – Móðir Jörð.

Létt og glettin lindin tæra
litlu blómin er að næra,
hoppar niður stall af stalli,
stystu leið úr bröttu fjalli.
Hún er lítil lækjarspræna,
læðist hljóð um bala græna,
vökvar allan veikan svörð.
Verndar landið – Móðir Jörð.

Víðlendur með vötn og hálsa
Vekja kjark og hugsun frjálsa.
Fylla brjóstið ferskum anda,
færa lausn á mörgum vanda.
Brátt við munum burtu hverfa,
við biðjum þá sem landið erfa
að standa um þig sterkan vörð
í stormi lífsins – Móðir jörð.

Ég segi 74. aðalfund Skógræktarfélags Íslands settan. 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands settur

Með Fundir og ráðstefnur

74. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var settur í dag, föstudaginn 28. ágúst 2009, í Nýheimum á Höfn. Magnús Gunnarsson, formaður félagsins, setti fundinn, sem hófst á ávörpum.  Fyrst tók til máls Elín S. Harðardóttir, formaður Skógræktarfélags Austur-Skaftfellinga, sem er gestgjafi fundarins, og bauð hún fundargesti velkomna. Því næst ávarpaði Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, fundinn og fjallaði hann meðal annars um mikilvægi skógræktar og tengingu skógræktarfélaga við ungmennafélagshreyfinguna. Seinastur tók til máls Þröstur Eysteinsson, frá Skógrækt ríkisins og kom hann meðal annars inn á breytta markaðsstöðu afurða úr íslenskum skógum.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands og kynning ársreikninga.

Fundinum verður fram haldið næstu tvo daga, en honum lýkur um hádegi á sunnudag.

adalfundur-setning

Alþjóðleg ráðstefna um líforku 18.-20. ágúst

Með Fundir og ráðstefnur

Dagana 18.-20. ágúst verður haldin alþjóðleg ráðstefna um líforku, PELLETime symposium.Ráðstefnan er hluti af PELLETimeverkefninu sem Héraðs-og Austurlandsskógar ásamt Skógrækt ríkisins á Austurlandi taka þátt í á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins (NPP).  Auk þessara aðila á Íslandi taka stofnanir í Skotlandi, Svíþjóð og Finnlandi þátt, Finnar leiða verkefnið.

Ráðstefnan fjallar um líforku, timbur og skyld efni og hvernig við getum nýtt okkar náttúruauðlindir á ábyrgan hátt.  Ráðstefnan mun fara fram á ensku, en fyrirlesarar eru m.a. frá Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíðþjóð.  Allt efni ráðstefnunnunnar fer fram á ensku.

Ráðstefnan fer fram á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði og hefst á hádegi þann 18. ágúst.  Ráðstefnugjöld eru kr. 5.000 og innifalið í því er ráðstefnan, tveir kvöldverðir og skoðunarferð þann 20. ágúst.  


Nemar greiða engin ráðstefnugjöld.

Frekari upplýsingar veita Freyja Gunnarsdóttir (skogar@heradsskogar.is, 860-3577) eða Loftur Þór Jónsson (loftur@skograd.is, 895-5433). Sjá einnig: http://heradsskogar.is/index.php?option=com_content&task=view&id=184&Itemid=90