Skip to main content
Flokkur

Fundir og ráðstefnur

Ráðstefna um landnotkun

Með Fundir og ráðstefnur

Ráðstefna um landnotkun verður haldin á Hótel Selfossi, fimmtudaginn 28. janúar 2010. Ráðstefnan er haldin í samvinnu Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Suðurlandi og Háskólafélags Suðurlands. Markmið með ráðstefnunni er að ræða landnotkunarmál á breiðum faglegum grunni en landnotkun er margslunginn málaflokkur þar sem einstök málefni eru oftar rædd í einangrun. Landnotkun skiptir alla máli og hefur grundvallaráhrif á flesta þætti mannlífsins, svo sem búsetu, matvælaframleiðslu og frístundir. Tekist hefur að ná saman einvalaliði fyrirlesara sem ræða munu um landnotkun í fjórtán 20 mínútna fyrirlestrum. Fyrirlestrar skiptast í tvo flokka. Sá fyrri varðar ramma landnýtingar, bæði manngerðan líkt og lögfræði og skipulagsmál en einnig dreifingu grunnauðlinda, vatns og jarðvegs. Seinni hlutinn er þematengdur en þar verður gerð grein fyrir viðamestu flokkum landnotkunar, svo sem orkuvinnslu, ræktun og búsetu.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mun setja ráðstefnuna og Atli Harðarson heimspekingur mun greina hismi frá kjarna í lokin.

Ráðstefnan hefst kl. 9 með afhendingu ráðstefnugagna og áætlað er að henni muni ljúka um kl. 17.

Ráðstefnugjald er 7500 kr. en 3500 kr. fyrir námsmenn. Hádegisverður og kaffitímar innifaldir.

Dagskrá og nánari upplýsingar hér.

Jólafundur Skógræktarfélags Kópavogs

Með Fundir og ráðstefnur

Jólafundur Skógræktarfélag Kópavogs verður fimmtudaginn 10. desember kl. 20 í Safnaðarheimili Kópavogskirkju (nýja safnaðarheimilið á móti Gerðarsafni).

 

Dagskrá:

1. Félagið: Formaður segir frá því helsta í starfsemi Skógræktarfélagsins.
2. Fyrirlestur: Birki nemur land á Skeiðarársandi.

Fyrirlesarar: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Líffræðistofnun Háskóla Íslands og Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins.

3. Happdrætti – 10 jólatré frá Fossá í vinning.
4. Önnur mál.

Veitingar. Allir velkomnir.

Kynning/útdráttur fyrirlestursins:
Skeiðarársandur er líklega stærsti virki jökulsandur jarðar og í huga flestra er hann gróðurlítil sandauðn sem ár og jökulhlaup flæmast yfir. Hlutar hans eru nú í örri framvindu og birki hefur numið land á talsvert stóru svæði á ofanverðum sandinum. Þorri stofnsins virðist hafa vaxið upp eftir 1990. Rannsóknir á birkinu á Skeiðarársandi hófust árið 2004. Þá náði meðalhæð plantna hvergi 25 cm og innan við 3% stofnsins báru rekla, oftast aðeins örfáa á hverri plöntu. Sennilega hefur allt birkið þá verið fyrsta kynslóð landnema. Fjórum árum síðar hafði stofninn tekið stakkaskiptum. Hæð hæstu plöntu hafði hækkað um allt að hálfum metra, 14% plantnanna blómguðust sumarið 2008 og fræmyndun var miklu meiri. Hæstu tré á Skeiðarársandi hafa nú náð yfir 2 m hæð. Frægæði hafa hins vegar verið léleg, aðeins 0,6% af uppskeru ársins 2008 spíruðu en spírun fræja frá því í ár er heldur betri.

Málþing um loftslagsmál og úrlausnir

Með Fundir og ráðstefnur

Kolviður og REYST standa að málþingi um loftslagsmál á loftslagsdeginum 11. nóvember kl. 8:30-12:00, í húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1.

Á málþinginu verða fræðandi erindi um loftslagsvandann en einnig verður sjónum beint að bindingu kolefnis í gróðri, jarðvegi og bergi, kolefnismörkuðum og möguleikum Íslendinga á því sviði, og hvað sé framundan í loftslagsmálum. 

 malthing-loftslagsmal

Freysteinsvaka á Elliðavatni

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir Freysteinsvöku á Elliðavatni laugardaginn 7. nóvember, kl. 13-17. Umfjöllunarefni hennar verður náttúrufræðingurinn Freysteinn Sigurðsson, sem lést á síðast liðnu ári, og hin fjölbreytilegu áhugasvið hans.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

 

freysteinsvaka

Gróska í garðyrkju: Afmælisráðstefna Garðyrkjuskólans á Reykjum

Með Fundir og ráðstefnur

Ráðstefnan verður haldinn að Reykjum í Ölfusi 23. október næst komandi.

Fundarstjóri:  Björgvin Örn Eggertsson

 

Dagskrá

13:00 – 13:10

Setning ráðstefnunnar
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans

13:10 – 13:40

Garðyrkjumenntun á Reykjum í 70 ár
Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum

13:40 – 14:05

Rannsóknir og tilraunir í garðyrkju
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda

14:05 – 14:30

Náttúran beisluð í görðum
Þorkell Gunnarsson, formaður Félags skrúðgarðyrkjumeistara

14:30 – 14:50

Kaffihlé

14:50 – 15:20

Garðurinn hennar ömmu, mömmu, minn
Ásta Camilla Gylfadóttir, landslagsarkitekt

15:20 – 15:50

Íslensk garðrækt – á mörkum hins ótrúlega
Kristinn H. Þorsteinsson, garðyrkjufræðingur

15:50 – 16:15

Að sjá skóginn fyrir trjám
Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga

16:15 – 16:30

Samantekt og ráðstefnuslit
Björgvin Örn Eggertsson, fundarstjóri

16:30 – 18:00

Afmæliskaffi að hætti Reykjafólks

Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.  Vinsamlegast skráið þátttöku fyrir 20. október í síma 433-5303 eða á netfangið ingibjorg (hjá) lbhi.is.

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan verður haldinn miðvikudaginn 21. október í Gerðubergi kl. 19:30.


Fundarefni
1.      Skýrsla formanns um störf félagsins frá stofnfundi þann 5. mars sl.
2.      Skógar fyrir líkama og sál. Erindi flutt af  Sherry Curl, skógræktarráðunaut Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum
3.      Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis. Erindi flutt af Kristbjörgu Traustadóttur, mastersnema í umhverfissálarfræði, SLU Alnarp, Svíþjóð.
4.      Kosning í stjórn og varastjórn
5.      Kosning endurskoðanda
6.      Önnur mál

Samantekt úr erindi Sherry Curl – Skógar fyrir líkama og sál.
Þrátt fyrir bætt heilbrigðiskerfi og lífskjör síðustu áratugi hefur orðið aukning á fjölda þeirra sem þjást af sjúkdómum tengdum lífsstíl, mengun og andlegu álagi í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Þó að mikilvægi þess að njóta náttúrulegs umhverfis fyrir lýðheilsu hafi lengi verið haldið fram, þá hefur þýðing þess fyrir þjóðarbúið í formi efnahags og aukinna lífsgæða verið vanmetin. Í fyrirlestrinum er farið yfir umfang vandans og mögulega notkun útivistar bæði til forvarnar og sem leið til að brúa bilið á milli þess sem heilbrigðiskerfið býður upp á og að einstaklingar geti náð góðri félagslegri virkni.

Samantekt úr erindi Kristbjargar Traustadóttur – Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis.
Rannsóknir sýna að ákveðnir þættir í umhverfinu hafa áhrif á bætta líðan fólks. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það eru átta rýmiseinkenni sem eru mikilvægust til að garðar eða útivistarsvæði virki sem best á notendur.
Til að meta gæði garðanna innan borgarmarkanna er leitað eftir þessum átta rýmiseinkennum (karaktereinkennum). Samsetningin segir til um gæðin og hversu líklegir garðarnir eru til að virka heilnæmir. Margbreytileiki laðar að notendur og því er mikilvægt að finna sem flesta eða alla þá þætti sem leitað er eftir hvort sem notandinn sækist eftir því að vera í ró og friði eða sjá og vera í margmenni.
 

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til audur(hjá)rit.is.  Yndisleg kona bakar kleinur sem bornar verða með kaffinu í hléinu og stjórnin vill tryggja að nóg verði af nýbökuðum kleinum.
 
Samtökin eru með síðu á Fésinu (Facebook), nafnið á henni er Umhverfi og vellíðan. Þar eru ýmsar upplýsingar um starfsemina og frásagnir af tiltækjum félagins í sumar ásamt myndum.

umhverfivellidan

 

Stefnumót um loftslagsbreytingar, þróun og öryggi

Með Fundir og ráðstefnur

Á 15. Stefnumóti umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmunar fróða verður fjallað um tengsl milli hnattrænna loftslagsbreytinga, sjálfbærrar þróunar og öryggismála. Einnig verður rætt um alþjóðlegar samningaviðræður um loftslagsmál í aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins.

Það er dr. Adil Najam, framkvæmdastjóri Pardee Center við Boston University, sem flytur erindið Loftslagsbreytingar, þróun og öryggi. Dr. Adil Najam er einn af aðalhöfundum 3. og 4. skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þá var hann nýlega skipaður í Þróunarnefnd Sameinuðu þjóðanna (CDP), tilnefndur af Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Stefnumótið er haldið í samstarfi við Norræna húsið og námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Það fer fram í fundarsal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 17. október kl. 11:00 -13:00.

Stefnumótin eru opnir fundir um umhverfismál sem efst eru á baugi hverju sinni.

Allir velkomnir!

15stefnumot

Með hlýnandi veðurfari eru ýmsar plöntur farnar að dafna ágætlega hérlendis sem þrifust síður áður fyrr, til dæmis eplatré, eins og sjá má á þessari mynd af girnilegum og vel þroskuðum íslenskum eplum (Mynd: RF).

Fundur European Forest Network

Með Fundir og ráðstefnur

Dagana 19.-20. september var Skógræktarfélag Íslands gestgjafi fundar European Forest Network árið 2009. European Forest Network (EFN) eru óformleg samtök skógræktarfélaga í Evrópu og grundvöllur samskipta og upplýsingaflæðis varðandi skóga, skógrækt og stefnumál málaflokksins. Nánar má fræðast um samtökin á heimasíðu samtakanna – sjá hér.

Á fundinum kynntu fulltrúar hinna ýmsu landa starfsemi sína, stöðu skógræktar í sínu landi og meginhorfur. Nánar má lesa um fundinn hér.

 

Fuglaverndarfélag Íslands – annar fræðslufundur vetrarins

Með Fundir og ráðstefnur

Á næsta fræðslufundi Fuglaverndar mun búlgarski fuglafræðingurinn Sergey Dereliev segja frá AEWA í máli og myndum. AEWA er Alþjóðlegur samningur um vernd farfugla og votlendisfugla í Afríku og Evrasíu (African-Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og er sáttmálinn í tengslum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Sergey Dereliev er sérfræðingur hjá AEWA og mun hann kynna sáttmálann, markmið og helstu verkefni (sjá nánar á vefsíðu AEWA hér).

AEWA sáttmálinn er afar gagnlegur til verndar farfuglum sem ferðast milli landa og heimsálfa og mundi nýtast vel til verndar íslensku farfuglunum enda hefur það verið markmið Fuglaverndar um árabil að Ísland gerist aðili að sáttmálanum og félagið margrætt það mál við hina ýmsu umhverfisráðherra. Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki á aðild að sáttmálanum.

Fyrirlesturinn verður mánudaginn 21. september  í húsakynnum Kaupþings í Borgartúni 19 og hefst fundurinn klukkan 20:30.  Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

 

fi-2fundur

 

 

 

 

Ráðstefna: Skógar efla lýðheilsu fólks í þéttbýli

Með Fundir og ráðstefnur

Dagana 16.-19. september 2009 verður haldin alþjóðleg ráðstefna um hlutverk skóga og skógræktar fyrir þéttbýli, með sérstakri áherslu á löndin við norðanvert Atlantshafið.

Flest landanna eru, eins og Ísland, mjög borgvædd og því skipta skógar og önnur græn svæði í borgum miklu máli fyrir útivistarmöguleika íbúanna. Rannsóknir hafa sýnt fram á margvísleg jákvæð áhrif útivistar í skógi á lýðheilsu og velferð, þar sem skógar fullnægja ýmsum menntunar-, menningar-, og félagslegum þörfum fólks.

Ráðstefnan er haldin er í tengslum við formennskuár Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Skipuleggjendur eru Norrænn samstarfshópur um rannsóknir á útivistargildi skóga (CARe-FOR-US; http://www.sl.life.ku.dk/care-for-us), Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.