Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Bergmál Barrskóganna -Drengjakór Barabars

Með Fréttir
Alþjóðlegur dagur skóga er þriðjudaginn 21.mars 2023. Af því tilefni ætlar Skógræktarfélag Borgarfjarðar að ýta úr vör tónleikaröð undir yfirskriftinni: Bergmál Barrskóganna.
Tónleikarnir á þriðjudagskvöldið verða í varðeldarlundinum í Einkunnum, boðið verður upp á heitt kakó og ljúfa tóna Drengjakórs Barabars.
Barrskógarlundir hafa sérstakt hljóðendurkast, því fær tónleikaröðin heitið: Bergmál Barrskóganna. Stefnan er að halda tónleika í barrtrjáalundum hér í Borgarfirði einu sinni í mánuði næsta árið.
Ósk okkar er að fá fjölbreyttan hóp tónlistarfólks og stemning hverja tónleika verði í anda árstíðar og tíðarfars þess mánaðar.
Ekki verður um að ræða fastan dag í viku eða dagsetningu í mánuði, heldur verði hverjir tónleikar auglýstir fyrir sig og settir upp eftir því sem best hentar hverju sinni.
Stefnt er að hafa frítt á alla tónleika, en fólki er bent á frjáls framlög til Skógræktarfélags Borgarfjarðar sem stendur að skipulagi tónleikanna og umgjörð, ásamt því sinnir Skógræktarfélagið almennri umhirðu ýmissa skógarreita í Borgarfirði í þágu almennings og lýðheilsu.
Allir velkomnir!

Fræðsluganga um Kálfamóa á Alþjóðlegum degi skóga

Með Fréttir
Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk“ er yfirskrift alþjóðlegs dags skóga 2023. Af því tilefni býður Skógræktarfélag Reykjavíkur til fræðslugöngu um Kálfamóa við Keldur í Grafarvogi, þriðjudaginn 21. mars kl. 18. Hópurinn hittist á bílastæðinu við aðalinngang.
Í Kálfamóa er merkileg gróðurvin í borgarlandinu, með vöxtulegum og fjölbreyttum gróðri. Fyrstu trén voru gróðursett 1947, þegar Jóhann Pálsson, sem seinna varð garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, notað orlofsfé sitt til að kaupa þrjár sitkagreniplöntur. Hann var þá aðeins 15 ára en átti eftir að sinna svæðinu vel næstu áratugi. Í gegnum tíðina bætti hann við mjög mörgum tegundum bæði trjáa, runna og annarra plantna svo úr varð ótrúlega fjölskrúðugt svæði. Í Kálfamóa má meðal annars finna hávaxin tré, falleg skrautrunna og berjaplöntur sem gleðja bæði menn og fugla.
Nú er verið að undirbúa íbúabyggð í landi Keldna og er það ánægjuefni að við fyrirhugaða uppbyggingu er lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Mikil auðlind er fólgin í Kálfamóa fyrir íbúa komandi hverfis enda eru jákvæð áhrif grænna svæða á lýðheilsu ótvíræð.
Sameinuðu þjóðirnar útnefna 21. mars sem alþjóðadag skóga. Yfirskriftin er ólík á milli ára en hún tekur að þessu sinni mið af 3. heimsmarkmiðinu sem er „heilsa og vellíðan“.
Gangan er stutt og þægileg og allir velkomnir.
Sjá má nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins: www.heidmork.is

Námskeið: Forvarnir gegn gróðureldum

Með Fréttir

Haldið í samstarfi Brunavarna Árnessýslu, Garðyrkjuskólans – FSu, Skógræktarinnar og Verkís

Námskeiðið er öllum opið, hentar sérstaklega bændum, skógareigendum, sumarhúsaeigendum og öðrum sem eiga land sem eldur getur brunnið á og ógnað verðmætum.

Á námskeiðinu verður fjallað um hvaða lög og reglugerðir gilda um brunavarnir á skógarsvæðum og í sumarbústaðalöndum. Kynnt verður vefsíðan www.gróðureldar.is. Skipulag skóga og ræktaðra svæða með tilliti til brunavarna.  Varnarsvæði – hvers konar gróður er á slíkum svæðum. Fjallað verður um mikilvægi vega og slóða á ræktuðum svæðum og gott aðgengi að vatni.

Er trjágróður miseldfimur?  Hvað töpum við miklu kolefni ef hann brennur? Er hægt að tryggja tré/skóg? Sagt verður frá þeim búnaði og aðferðum sem nýtast við að ráða niðurlögum gróðurelda.  Næsta slökkvilið, hvaða búnað hefur það til umráða? Eru öll slökkvilið eins útbúin? Hver eru fyrstu viðbrögð við gróðureldum, hvað þarf að vera til staðar í sumarhúsinu/á svæðinu? Skiptir máli hvernig gróður er næst mannvirkjum?

Í lok námskeiðs verður komið við í Slökkvistöðinni í Hveragerði og búnaður skoðaður.

Kennarar: Dóra Hjálmarsdóttir Verkís, Hreinn Óskarsson Skógræktinni, Pétur Pétursson Brunavörnum Árnessýslu, Björgvin Örn Eggertsson Garðyrkjuskólanum – FSu.

 

Tími: Lau. 1. apríl kl. 09:00-12:10 hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum, Ölfusi.

Verð: 12.600 kr. (Kaffi og gögn innifalin í verði).

Skráning: Í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is

Skráning til 28. mars.

Skógarjóga á alþjóðlegum degi skóga 21. mars

Með Fréttir

Andaðu djúpt og njóttu alls þess sem skógurinn hefur upp á að bjóða!

Þriðjudagurinn 21. mars er alþjóðlegur dagur skóga hjá Sameinuðu þjóðunum. Þema dagsins árið 2023 er „Skógar og heilbrigði“.

Af því tilefni bjóða Skógræktarfélag Íslands og Grasagarður Reykjavíkur gestum og gangandi í skógarjóga í fallegum lundi í Grasagarðinum þennan dag kl. 18 undir leiðsögn Ragnheiðar Ýrar Grétarsdóttur jógakennara. Að skógarjóganu loknu verður boðið upp á te í garðskála Grasagarðsins.

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins kl. 18 þriðjudaginn 21. mars.

Þátttaka er ókeypis og öll velkomin!

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness 2023

Með Fréttir
Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness 2023 verður í Jónsbúð mánudaginn 20. mars kl. 18. 
Dagskrá
1) Fundarsetning. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2) Fundargerð síðasta aðalfundar lesin
3) Ársskýrsla félagsins 2022
4) Reikningar 2022
5) Tillaga um félagsgjald 
6) Lagabreytingar – engin tillaga hefur borist
7) Kosningar.
Fundarhlé – Veitingar
8) Önnur mál. M.a.helstu verkefni félagsins:
– Gróðursetning
– Garðaflói
– Framkvæmdir – stígar
– Líf í lundi
– Aðrar samkomur og gönguferðir – hvernig er best að ná til fólks, kynna félagið og fá til þátttöku?

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2023 verður haldinn fimmtudaginn 23. mars kl. 20:00-21:45 í Hafnarborg, Strandgötu 34.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf og kaffihlé flytur Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur hjá Skógræktinni, erindi sem hún nefnir „Helstu skaðvaldar á trjágróðri og varnir gegn þeim“.

Allir velkomnir.

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2023

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2023 verður haldinn mánudaginn 20. mars kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.

Dagskrá:

– Hefðbundin aðalfundarstörf:

  • Kosning fundarstjóra
  • Skýrsla stjórnar milli aðalfunda 2022 og 2023
  • Reikningar félagsins 2022
  • Ákvörðun um félagsgjöld 2023
  • Kosning formanns
  • Kosning stjórnar

– Önnur mál

  • Undirritun á endurnýjun samstarfssamnings Garðabæjar og Skógræktarfélagsins

– Fræðsluerindi – Yndisskógurinn. Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, segir frá í máli og myndum.

Kaffiveitingar í boði Skógræktarfélagsins

Allir hjartanlega velkomnir

Fræðslufundur um Græna stíginn

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins boða til fræðslu og kynningarfundar í fundarsal Arion banka, Borgartúni 19 í Reykjavík föstudaginn 3. mars næst komandi kl. 13 – 17.

 Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Dagskrá

13:00–13:05 Setning fundarins
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
13:05–13:30 Græni stígurinn – saga, staða
Þráinn Hauksson landslagsarkitekt
13:30–13:50 Lengri ferðaleiðir í svæðisskipulagi
Pawel Bartoszek, formaður svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins
13:50–14:10 Uppbygging stíga á höfuðborgarsvæðinu
Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur, Vegagerðinni
14:10–14:30 Mikilvægi Græna stígsins
Albert Skarphéðinsson, umferðarverkfræðingur
14:30–14:50 Lýðheilsa og Græni stígurinn
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, lýðheilsufræðingur
14:50–15:20 Græni stígurinn frá sjónarhóli skógræktarfélaga
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur
15:20–15:30 Ávarp
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra
15:30–16:00 Kaffihlé
16:00–17:00 Pallborðsumræður
Fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt fyrirlesurum

  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
  • Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogi
  • Guðbjörg Oddný Jónsdóttir, form. Umhverfis-og framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar
  • Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar
  • Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar
  • Jóhanna Hreinsdóttir, oddviti Kjósarhrepps

Skráning á fundinn er á netfangið skraning@skog.is og er skráningarfrestur til 1. mars. Taka þarf fram hvort mætt verði á staðinn eða fylgst með í streymi. Sendur verður hlekkur fyrir streymið þegar nær dregur fundinum.