Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Tálgudagur fjölskyldunnar 27. maí

Með Fréttir

Handverkshúsið býður til tálgudags fjölskyldunnar 27. maí. Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar sem féll frá allt of  snemma nú í janúar, var forsprakki þessa framtaks og er því haldið áfram til að heiðra minningu hans. Upplagt tækifæri til börnin að fá að prófa tálgun undir öruggri leiðsögn.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á heimasíðu Handverkshússins – https://handverkshusid.is/talgudagur-fjolskyldunnar/

 

Betra Ísland – og grænna   

Með Fréttir

Á stjórnarfundi Skógræktarfélag Íslands þann 15. maí s.l. var m.a. fjallað um rangfærslur sem nýlega voru sendar sveitarfélögum um skógrækt. Af því tilefni telur Skógræktarfélag Íslands nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri.

Rétt er að geta þess að sveitarfélög víðsvegar um land eru aðal samstarfsaðili skógræktarfélaga.

Ísland er ekki viði vaxið land. Það er talið eitt fátækasta land Evrópu af skógum. Rannsóknir hafa sýnt að miðað við óbreyttar gróðursetningar, sem nú eru um 6 milljón plantna á ári á um 2.500 hektara lands, muni ræktaðir skógar aukast úr 0,47% í 0,79% af flatarmáli ræktanlegs lands.

Ef dæmið gengur upp og fjármunir fást í tvöföldun þessarar ræktunar, þ.e.a.s. að gróðursettar verði um 12 milljón plöntur á ári sem muni þekja um 5000 ha árlega, þá verðum við í mesta lagi komin í um 1,19% skógarþekju um 2050.

Því miður er ástæða til að óttast að því markmiði verði ekki náð þar sem plöntuframleiðsla í landinu nægir ekki til framleiðslu 12 milljón platna á ári. En jafnvel þótt háleitustu markmið skógræktarfólks næðu fram að ganga yrði einungis búið að ganga á 2% tiltæks lands undir 400 m hæð með ræktuðum trjátegundum af erlendum uppruna árið 2050.

Þessi niðurstaða sýnir að upphrópanir andstæðinga skógræktar byggjast á fölskum forsendum, sem virðast til þess ætlaðar að villa fólki sýn og skapa úlfúð og hnýta í það fólk sem fæst við skógrækt – skógræktarfélög, skógarbændur, sveitarfélög og stofnanir sem fást við skógrækt af ýmsum toga til að bæta mannlíf og náttúru á Íslandi. Ísland þarfnast meira skóglendis, og að hlúð verði betur að þeim trjám sem fyrir eru í landinu. Áframhaldandi skógrækt er einnig ein forsenda þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar um kolefnisbindingu andrúmsloftsins.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands varar við neikvæðum málflutningi andstæðinga skógræktar og lýsir sig reiðubúna til að veita upplýsingar og halda áfram að vinna með stjórnvöldum og sveitarfélögum landsins að því að klæða landið, gera það byggilegra og náttúruvænna með skipulagðri skógrækt. Þannig eiga náttúruleg fjölbreytni, gróska og grænir skógar á viðeigandi stöðum eftir að auka gildi Íslands fyrir íbúa þess og gestkomandi ferðamenn.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands 

Grænn og fagur skógur að Leyningshólum í Eyjafirði.

Opinn skógur: Skógræktarfélag Íslands og Nettó tryggja aðgengi að skógum landsins

Með Fréttir

Nettó og Skógræktarfélag Íslands hafa nú skrifað undir samstarfssamning um verkefnið Opinn skógur. Markmiðið með samstarfinu er að bæta aðstöðu og auka aðgengi á opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skógana til áningar, útivistar og heilsubótar. Með samningnum er rekstur verkefnisins tryggður út næsta ár auk þess sem unnið verður að kynningu á því.

Opnir skógar eru nú sautján talsins, öllum opnum og staðsettir víðs vegar um landið. Skógarnir eru allir með góða útivistaraðstöðu og verður unnið áfram að þróun og bættu aðgengi þannig að sem flestir landsmenn geti notið þeirra miklu gæða sem felast í skógunum.

„Þessi samningur skiptir okkur miklu máli og tryggir rekstur Opinna skóga fram á næsta ár,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. „Nú munum við kynna verkefnið enn frekar og hvetja landsmenn til að sækja í skógana enda er þar að finna frábæra aðstöðu til samveru og útivistar enda er þekkt að skógarvist bætir heilsu og hamingju fólks.“

„Þetta verkefni fellur vel að umhverfisstefnu okkar hjá Nettó en við erum alltaf með það markmið að lágmarka umhverfisáhrifin af starfseminni eins og hægt er. Skógræktarfélagið er mikilvæg stoð í náttúru- og umhverfisvernd hér á landi og erum við því gríðarlega ánægð með þetta samstarf,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir, markaðsstjóri Nettó. „Við hvetjum alla sem eru að ferðast um landið að stoppa við í Nettó skógunum út um allt land, taka sér göngu eða nestispásu og njóta náttúrufegurðarinnar á ferðinni um landið.“

Nánar má lesa um Opna skóga hér á vefnum.

Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Helga Dís Jakobsdóttir, markaðsstjóri Nettó undirrita samninginn.

 

Ályktun aðalfundar Skógræktarfélags Eyfirðinga 2023

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga, elsta starfandi skógræktarfélags á landinu, var haldinn mánudaginn 8. maí. Fundurinn ályktaði eftirfarandi:

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga, haldinn þann 8. maí 2023, lýsir yfir fullu trausti á störfum stjórnar og framkvæmdastjóra hvað varðar framkvæmdir í Vaðlareit og hugsanlega samninga þar að lútandi. Fundurinn leggur áherslu á að hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi hvað varðar aðgengi að skógarreitum félagsins hér eftir sem hingað til.

Nánari upplýsingar á vef félagsins: https://www.kjarnaskogur.is/post/alyktun-adalfundar-2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn í Kjarna, húsi Náttúrulækningafélagsins í Kjarnaskógi mánudaginn 8. maí og hefst hann klukkan 19:30. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Fundurinn hefst á fjarflutningi Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur lýðheilsufræðings hjá Eflu um mikilvægi náttúru í manngerðu samfélagi.

Sjá einnig Facebook síðu félagsins: https://fb.me/e/10R5ponHX

Úthlutun úr Landgræðslusjóði 2023

Með Fréttir

Landgræðslusjóður hefur nú gengið frá úthlutun styrkja árið 2023. Alls var úthlutað um 7,5 milljónum króna. Eftirfarandi verkefni fengu styrki:

Skógræktarfélag Heiti og staðsetning verkefnis  Úthlutun (kr.)
Skógræktarfélag A-Húnvetninga Gunnfríðarstaðir               300.000
Skógræktarfélag Akraness Áframhaldandi vinna við bætt aðgengi, nýjir stígar               300.000
Skógræktarfélag Bolungarvíkur Bernudósarlundur               250.000
Skógræktarfélag Djúpavogs Hálsaskógur á Djúpavogi               750.000
Skógræktarfélag Húsavíkur Skógrækt í nágrenni Húsavíkur               300.000
Skógræktarfélag Íslands Líf í lundi               500.000
Skógræktarfélag Ólafsfjarðar Hornbrekku-útivistarstígur               250.000
Skógræktarfélag Rangæinga Völvuskógur/skógar Rangárþing eystra               300.000
Skógræktarfélag Reyðarfjarðar Grisjun Bolabrekkur               400.000
Skógræktarfélag Siglufjarðar Skarðsdalsskógur               750.000
Skógræktarfélag Skagfirðinga Hólaskógur               750.000
Skógræktarfélag Skilmannahrepps Álfholtsskógur               300.000
Skógræktarfélag Stykkishólms Grensá svæði skógræktarfélagsins við Stykkishólm               500.000
Skógræktarfélag Tálknafjarðar Grisjun á svæði sem gróðursett var í árin 1991 og 1993               500.000
Skógræktarfélagið Ungviður Girðingaframkvæmdir og verkfærakaup á Ingunnarstöðum í Brynjudal               300.000
Skógræktarfélögin á Vestfjörðum Gestgjafar aðalfundar Skógræktarfélags Íslands 2023            1.000.000
Samtals            7.450.000

Rafrænt félagsskírteini skógræktarfélaganna 2023

Með Fréttir

Skógræktarfélögin innan vébanda Skógræktarfélags Íslands hafa um áraraðir verið með sameiginlegt félagsskírteini skógræktarfélaganna og hefur það veitt afslætti hjá ýmsum vel völdum fyrirtækjum.

Árið 2022 var byrjað að gefa skírteinið út á rafrænu formi og er það nú geymt í farsímanum. Allir félagar með skráð virkt netfang fengu sendan tengil til að hlaða skírteininu niður í símann. Skírteinið er virkt svo lengi sem félagsmaður er skráður í skógræktarfélag.

Skírteinið er uppfært árlega. Félagar með Android síma þurfa ekkert að gera, þar sem skírteinið uppfærist sjálfkrafa þegar skírteinið er opnað. Félagar með Iphone geta uppfært skírteinið með því að fara á „bakhlið“ skírteinisins (punktarnir þrír í hægra horninu uppi), smella á „Pass details“ og strjúka svo niður skjáinn og uppfærist skírteinið þá.

Félagsmenn sem eru ekki nú þegar með skírteinið og vilja nálgast það geta haft samband við Skógræktarfélag Íslands með tölvupósti á rf@skog.is eða í síma 551-8150 til að athuga með skráningu.

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Ungviður

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Ungviður verður haldinn föstudaginn 21. apríl kl. 18. Fundurinn er haldinn í bókasafninu á rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá, milli trjáa og í stærsta bókasafni um skógfræði á Ísland. Einnig hægt að fylgjast með fundinum á netinu.

Dagskrá:
– Stutt kynning á Ungviði, því sem gert var árið 2022, starfsemi félagsins og skipulagi.
– Tekið á móti nýjum félögum, ræddar nýjar hugmyndir og ný verkefni og sett markmið ársins.
– Kosning stjórnar

Léttar veitingar og heitar pítsur verða í boði félagsins.
Allir velkomnir!

Arion banki og Stefnir styrkja Yrkju – sjóð æskunnar til ræktunar landsins

Með Fréttir

Arion banki og Stefnir styrktu nýverið Yrkju – sjóð æskunnar til ræktunar landsins um samtals fjórar milljónir króna. Styrkurinn verður nýttur til kaupa og dreifingar á trjáplöntum sem úthlutað verður til grunnskólabarna um land allt og munu þau sjá um að planta trjánum.

Yrkjusjóður var stofnaður 1990 fyrir tilstilli Vigdísar Finnbogadóttur sem er verndari sjóðsins. Á hverju ári síðustu 30 ár hafa um 10 þúsund nemendur um land allt plantað trjáplöntum fyrir tilstilli sjóðsins og er markmiðið að svo verði einnig í ár.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samstarfssamningsins. Á myndinni eru Jónatan Garðarsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Íslands, Andri Snær Magnason, stjórnarformaður Yrkjusjóðs, Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Hlédís Sigurðardóttir, sjálfbærnistjóri Arion banka, og Dýri Kristjánsson, sjóðstjóri Stefnis – grænavals.

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar 2023

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar 2023 verður haldinn miðvikudaginn 26. apríl kl. 20:00 í sal Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, Völuteigi 23.

Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar 2022
3. Reikningar félagsins 2022
4. Ákvörðun um félagsgjöld 2023
5. Kosning stjórnar og endurskoðenda
6. Önnur mál

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, fjalla um hrýfi út frá ýmsum hliðum. Með hrýfi er átt við hrjúfleika lands og ástæður þess að allir ættu að hrífast með skógrækt.

Boðið verður upp á veitingar að aðalfundi loknum.