Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 verður haldinn á Patreksfirði dagana 1-3. september og eru þrjú skógræktarfélög sem eru sameiginlega gestgjafar fundarins að þessu sinni – Skógræktarfélag Bíldudals, Skógræktarfélag Patreksfjarðar og Skógræktarfélag Tálknafjarðar.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun flytja ávarp við setningu fundarins, þar sem honum verður fært fyrsta eintak af nýrri bók – Frændur fagna skógi – er fjallar um skógartengd samskipti Norðmanna og Íslendinga. Af því tilefni mun Tønnes Svanes, sendifulltrúi Norska sendiráðsins einnig flytja ávarp.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir til að skoða skóglendi og annað áhugavert á svæðinu. Fræðsluerindin munu meðal annars fjalla um framgang birkis á Vestfjörðum, plöntusteingervinga í Surtarbrandsgili, skógrækt í Vestur-Botni og merkistré í Barðastrandarsýslu.

Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður á laugardagskvöld þar sem skógræktarfólk verður heiðrað fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.

Dagskrá aðalfundar, starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands og aðrar upplýsingar verða aðgengilegar á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands:

https://www.skog.is/adalfundur-2023/

Hægt verður að fylgjast með gangi fundarins á Facebook- og Instagram síðum Skógræktarfélags Íslands:

https://www.facebook.com/skograektarfelag

https://www.instagram.com/skograektarfelagislands/

Garðyrkjuskólinn á Reykjum – áhugaverð námskeið

Með Fréttir

Garðyrkjuskólinn á Reykjum er með tvö námskeið nú í september, sem áhugaverð eru fyrir ræktunarfólk.

Annars vegar er um námskeið að ræða er heitir Áhættumat trjáa. Með hlýnandi veðri og hækkandi trjágróðri í þéttbýli er orðið mikilvægt að geta lagt mat á ástand trjáa og möguleg hættumerki. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.

Hins vegar er námskeið er heitir Í upphafi skyldi endinn skoða og er í því farið yfir helstu þætti sem mikilvægt er að horfa til frá byrjun þegar farið er í landgræðslu og/eða skógrækt, til að tryggja árangur til framtíðar.

Námskeið: Grænni skógar

Með Fréttir

Grænni skógar I er námskeiðaröð sem ætluð er skógræktendum og öðrum skógareigendum sem vilja auka við þekkingu sína og árangur í skógrækt.

Námskeiðaröðin tekur fimm annir og þátttakendur taka alls 15 námskeið á þeim tíma eða að jafnaði 3 á hverri önn. Fyrsta námskeiðið verður haldið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi dagana 22. og 23. september 2023.

Hvert námskeið er skipulagt þannig að kennt er á föstudegi kl. 16-19 og laugardag kl. 9-16.  Námskeiðin eru byggð upp sem blanda af fyrirlestrum, verklegum æfingum og vettvangs- heimsóknum. Að auki verður farið í námsferð innanlands og verður hún kynnt sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir Björgvin Örn Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, í síma 616 0828 eða með tölvupósti á netfangið boe@fsu.is.

Ljósmyndasamkeppni Líf í lundi

Með Fréttir

Í tengslum við Líf í lundi er boðað til ljósmyndasamkeppni. Taktu þín bestu mynd af atburðum á Líf í lundi eða bara í morgungöngunni í skóginum og merktu (taggaðu) Líf í lundi á Instagram eða Facebook með myllumerkinu #lifilundi.

Senda má inn myndir teknar dagana 23.-26. Júní. Dómnefnd mun velja bestu myndirnar og vera í sambandi við ljósmyndara. Myndirnar verða svo settar inn á Facebook-síðu Lífs í lundi og opnað fyrir atkvæðagreiðslu. Sú mynd er hlýtur flest „Like“ eða viðbrögð vinnur. Verðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin.

Spennandi verðlaun í boði!

Nánari upplýsingar um viðburði Líf í lundi má finna á Skógargátt vefsíðunni og Facebook síðu Líf í lundi.

Líf í lundi 2023

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins í kringum Jónsmessuna og verður hann nú haldinn í sjötta sinn. Er markmið hans að fá fólk til að heimsækja skóga landsins, stunda hreyfing, samveru og upplifa skóga og náttúru. Flestir viðburðir eru á laugardeginum 24. júní, en viðburðir eru í gangi frá föstudegi til mánudags.

Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á Skógargátt vefsíðunni  og Facebook síðu Líf í lundi.

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2023 er komið út

Með Fréttir

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2023 er komið út. Að venju er að finna í ritinu greinar um hinar margvíslegu hliðar skóga og skógræktar. Að þessu sinni eru í ritinu meðal annars greinar um aldarfriðun Þórsmerkur- og Goðalandsskóga, evrópuask, Hekluskóga, könnun á gæðum viðar, nýja bók um skógartengd samskipti Noregs og Íslands, skógarreit í Úlfarsárdal og birki hér á landi.

Kápu ritsins prýðir myndin „Innri friður“ eftir Ernu Kristjánsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt.

Áskriftartilboð – nýir áskrifendur fá tvö hefti að gjöf! Sjá nánar: https://www.skog.is/skograektarritid/

 

Tálgudagur fjölskyldunnar 27. maí

Með Fréttir

Handverkshúsið býður til tálgudags fjölskyldunnar 27. maí. Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar sem féll frá allt of  snemma nú í janúar, var forsprakki þessa framtaks og er því haldið áfram til að heiðra minningu hans. Upplagt tækifæri til börnin að fá að prófa tálgun undir öruggri leiðsögn.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á heimasíðu Handverkshússins – https://handverkshusid.is/talgudagur-fjolskyldunnar/