Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Jólaskógur: Opinn dagur í Brynjudal

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands hefur um áratugaskeið tekið á móti hópum sem koma í jólaskóginn í Brynjudal til að velja og fella jólatré. Í ár ætlum við að bjóða einstaklingum/fjölskyldum að koma líka, en við verðum með einn opinn dag, laugardaginn 9. desember. Formlegur opnunartími er kl. 11-13, en við verðum þó á svæðinu eitthvað fram eftir degi. Athugið að í dalnum umluktum fjöllum er farið að bregða birtu um þrjúleytið svo það þýðir ekki að vera seint á ferðinni!

Fast verð pr. tré er kr. 7.000, upp að 3 m hæð. Við tökum niður greiðsluupplýsingar og sendum reikning, ekki er hægt að borga á staðnum.

Nánari upplýsingar um skóginn má sjá á Brynjudalur – Skógræktarfélag Íslands (skog.is) og eins má hafa samband á skrifstofu félagsins – s. 551-8150.

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna 2023

Með Fréttir

Margar fjölskyldur eru með þá hefð að sækja sér jólatré í skóginn á aðventunni og má finna jólaskóga í flestum landshlutum hjá skógræktarfélögunum. Fyrir þá sem hafa minni áhuga á skógargöngu eru svo ýmsir aðilar sem selja íslensk tré.

Fyrstu félögin ríða á vaðið með sölu í byrjun aðventunnar. Nánari upplýsingar um sölur hjá skógræktarfélögunum má finna á vefnum – http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/ – og heimasíðum/Facebook-síðum einstakra skógræktarfélaga.

Verslum í heimabyggð!

Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun, með lægra kolefnisspor og með því að kaupa íslenskt jólatré styður þú við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Birkifrætínsla í Vesturbyggð laugardaginn 18. nóvember

Með Fréttir

Nú stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Landsverkefnið Söfnum og sáum, sem hófst árið 2020 kallar nú eftir fræjum. Það er misjafnt á milli ára hversu mikið framboð er af birkifræi. Í ár er almennt lítið framboð á birkifræi í flestum landshlutum að undskildri Vesturbyggð en þar má víða finna mikið magn fræja.

Nú er fræsöfnunartímanum senn að ljúka og verður gert sérstakt átak til að safna birkifræi í Vesturbyggð áður en vetur gengur í garð af fullum þunga og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að taka þátt.

Laugardaginn 18. nóvember fer fram fræðsla um söfnun fræja og sáningu á þremur stöðum í Vesturbyggð:

Kl. 11:00 ætla Bíldælingar og nærsveitungar að koma saman á útsýnispallinum á varnargarðinum og njóta fræðslu og tína fræ.

Kl. 13:00 hefst dagskráin í Tálknafirði.

Kl. 15:00 hefst dagskráin á Patreksfirði.

Landsátakið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Fræsöfnunarverkefni hentar flestum aldurshópum vel og má sérstaklega nefna að börnin skynja mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér vinnubrögðin, og vinna hratt og hafa gaman af. Það er því mikilvægt að að gefa börnum tækifæri til að koma og vera þátttakendur í þessu mikilvæga verkefni. Öllum fræjum sem verður safnað verður sáð í Vesturbyggð af skólabörnum, félagsamtökum sem og öðrum sem vilja taka þátt.

Átakið í Vesturbyggð er samstafsverkefni: Landsátaksins Söfnum og sáum, Vesturbyggðar, skógræktarfélaganna og kirkjunnar í Vesturbyggð og fræðslusviðs biskupsstofu.

birkiskogur.is

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga

Með Fréttir

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 24. október kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Magnús Gunnarsson ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn. Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að vera vel útbúið og taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665-8910.

Frændur fagna skógi – bókarkynning í Snorrastofu

Með Fréttir

Margir Borgfirðingar koma við sögu í nýrri bók um skógarsamvinnu Íslendinga og Norðmanna sem Óskar Guðmundsson rithöfundur kynnir í Snorrastofu í Reykholti nk. þriðjudag kl. 20.

FRÆNDUR FAGNA SKÓGI segir sögu samskipta Norðmanna og Íslendinga með áherslu á skiptiferðir skógræktarfólks frá 1949 til 2000. Allt að tvö þúsund einstaklingar af hvorri þjóð lagði í ferðir í þessu skyni í rúmlega hálfa öld – og á því tímabili plöntuðu Norðmenn allt að einni milljón trjáa í íslenskan svörð. Menningarferðir þessar urðu til þess að hnýta enn betur bönd frændþjóðanna og bæta náttúru landanna. Jafnframt er skyggnst yfir söguna allt frá landnámi til nútíma og áhugaverð atriði dregin fram í dagsljósið.

Bókin er og sérstæð vegna þess að hún er bæði á norsku og íslensku og markar einnig þannig tímamót.

Tré ársins 2023

Með Fréttir

Tré ársins 2023 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 10. september. Að þessu sinni var um að ræða sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32.

Hófst athöfnin á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, en auk hans fluttu ávörp Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sem tók einnig við viðurkenningarskjali fyrir hönd eigenda trésins, og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins verkefnisins. Venja er að mæla tré ársins þegar þau eru útnefnt og var það gert. Reyndist tréð vera 10,9 m á hæð, með ummál upp á 90,5 cm í brjósthæð. Athöfninni lauk svo með veitingum og tónlist í Tækniminjasafninu.

Hjónin Haraldur Aðalsteinsson og Sigurbjörg Björnsdóttir gróðursettu tréð árið 1975, en þau bjuggu í húsinu Sandfelli, sem nú er horfið. Það var Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur sem stakk upp á því að þetta tré yrði útnefnt. Þótti það viðeigandi af því að þetta tré stóð af sér stóru skriðuna árið 2020, er tók með sér hús í kring og töluvert af yngri trjám á svæðinu og stendur því nú stakt. Hefur tréð því töluvert tilfinningalegt gildi fyrir íbúa Seyðisfjarðar og er ákveðinn minnisvarði um þann viðburð.

Þess má til gamans geta að Seyðfirðingar geta státað af öðru Tré ársins, en Tré ársins 2004 var evrópulerki (Larix decidua) við Hafnargötu 48.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

 

 

F.v. Hafberg Þórisson, bakhjarl Trés ársins, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings með viðurkenningaskjalið og Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur. Mynd: BJ

Tré ársins 2023. Mynd: BJ

Tré ársins 2023 útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2023 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 10. september. Að þessu sinni er um að ræða sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32 (þar sem Sandfell stóð).

Dagskrá útnefningarathafnar:

Kl. 13:00

  1. Tónlist: Arna Magnúsdóttir og Ágúst Torfi Magnússon
  2. Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
  3. Mæling á Tré ársins 2023
  4. Ávarp: Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings
  5. Afhending viðurkenningarskjala
  6. Ávarp: Hafberg Þórisson, styrktaraðili Trés ársins
  7. Veitingar í boði Skógræktarfélags Íslands í Tækniminjasafninu.

Tónlist leikin af fingrum fram.

Allir velkomnir!

Styrktaraðili Trés ársins er Lambhagi ehf.

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2023 lokið

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 var haldinn á Patreksfirði dagana 1. – 3. september og voru það Skógræktarfélag Patreksfjarðar, Skógræktarfélag Bíldudals og Skógræktarfélag Tálknafjarðar sem voru sameiginlega gestgjafar fundarins.

Fundurinn hófst föstudagsmorguninn 1. september með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa um morguninn fluttu ávörp forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Tønnes Svanes, sendifulltrúi Norska sendiráðsins á Íslandi. Var þeim við þetta tilefni færð fyrstu eintök af nýútgefinni bók er heitir Frændur fagna skógi, eftir Óskar Guðmundsson, en bókin fjallar um samskipti þjóðanna í skógarmálum, sérstaklega skiptiferðir norskra og íslenskra skógræktarmanna fyrr á árum og kemur hún út bæði á íslensku og norsku.

Einnig undirrituð Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, nýjan Landgræðsluskógasamning í byggðarlaginu.

Deginum lauk svo með skoðunarferð í skóglendi í Tálknafirði og létu fundargestir blástur og úrkomu ekki stoppa sig í að njóta skógarins og skemmta sér.

Laugardagurinn 2. september hófst með fræðsluerindum og svo tók við skoðunarferð dagsins, að skógarreit í Skápadal, í Sauðlauksdal og að safninu á Hnjóti. Um kvöldið var svo komið að hátíðarkvöldverði. Þar voru fimm félagar úr hópi gestgjafanna heiðraðir og voru það þau Eiður B. Thoroddsen og Helga Gísladóttir frá Skógræktarfélagi Patreksfjarðar, Brynjólfur Gíslason frá Skógræktarfélagi Tálknafjarðar og Nanna Sjöfn Pétursdóttir og Finnbjörn Bjarnason frá Skógræktarfélag Bíldudals. Einnig var Magnús Gunnarsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, kjörinn heiðursfélagi þess og færði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, honum gullmerki félagsins.

Á sunnudegi var aftur komið að formsatriðum aðalfundar, afgreiðslu reikninga og stjórnarkjörs. Sem formaður Skógræktarfélags Íslands var Jónatan Garðarsson endurkjörinn. Úr stjórn áttu að ganga Nanna Sjöfn Pétursdóttir, Skógræktarfélagi Bíldudals og Berglind Ásgeirsdóttir, Skógræktarfélagi Suðurnesja. Gáfu þær báðar kost á sér áfram og voru endurkjörnar.

Fimm tillögur að ályktunum aðalfundar voru einnig samþykktar:

  1. Skógarreitir og græn svæði innan byggðar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Patreksfirði 1. til 3. september 2023, hvetur sveitarfélögin til að huga sérstaklega að verndun og varðveislu skógarreita, trjálunda og grænna svæða innan byggðar í næsta nágrenni. Það er vanmetið hvað græn svæði hafa mikla þýðingu fyrir lífsgæði allra landsmanna, bæta skjól í og við þéttbýli, hvetja til útiveru, fjölskyldusamveru og stuðla að bættri geðheilsu. Jafnframt eru mikil verðmæti fólgin í grænum svæðum, bæði í trjánum sjálfum sem og þeim áhrifum sem þau hafa á nærsamfélagið. Bæði sveitarfélög og íbúar njóta góðs af því. Enn fremur er kolefnisbinding trjágróðurs mikilvæg mótvægisaðgerð í loftslagsmálum.

  1. Samþætting landgræðslu og skógræktar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Patreksfirði 1. – 3. september 2023, samþykkir að aðalfundurinn kjósi þrjá fulltrúa í nefnd sem hafi það verkefni að vinna að samþættingu verkefna þegar ný stofnun hefur tekið við af Landgræðslunni og Skógrækinni. Nefndin vinni í nánu sambandi við stjórn Skógræktarfélags Íslands. Það er mikilvægt að efna til samvinnu við nýja stofnun.

  1. Úrgangur frá skógarsvæðum

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Patreksfirði 1. – 3. september 2023, hvetur til þess að skógræktarfélög í landinu samræmi reglur um meðferð og flokkun úrgangs sem til fellur á skógarsvæðum. Í þessu samhengi þarf að hafa samræmdar merkingar og leiðbeiningar til allra sem ganga um opin svæði innan marka sveitarfélaga.

Jafnframt hvetja skógræktarfélögin sveitarfélög til að tryggja að móttökustöðvar fyrir sorp séu aðgengilegar á öllum tímum þannig að ekki komi til þess að íbúar hendi almennu sorpi inn í skógarreiti í grennd við þéttbýli. Í dag fellur mikill kostnaður á skógræktarfélög um allt land við hreinsun á sorpi úr skógarreitum og fellur hann alfarið á félögin.

  1. Skipulagsmál

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Patreksfirði 1. til 3. september 2023, hvetur  Innviðaráðherra til að láta gera breytingar á skipulagslögum í því augnamiði að ljóst verði hvort og hvenær skógrækt sé háð framkvæmdaleyfi sveitarfélags. Einnig er nauðsynlegt að lög mæli fyrir um verkferla við upplýsingaöflun og afgreiðslu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar svo öflun þess verði skógræktendum hvorki fjárhagslega íþyngjandi né tímafrek úr hófi fram.

  1. Landgræðsluskógar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Patreksfirði 1. til  3. september 2023 , hvetur matvælaráðherra til þess að vinna að nýjum og framlengdum samningi um Landgræðsluskóga.