Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2019

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar föstudaginn 14. júní 2019. Fundurinn hefst kl. 17.00 og verður í Leiðarenda í Guðmundarlundi, Kópavogi.

Sú nýbreytni verður að fundurinn verður haldinn undir himni samkomutjalds, umvafinn skógi og fallegri náttúru.  Félagar í Skógræktarfélaginu eru hvattir til að mæta, klæða sig eftir veðri og njóta aðalfundar félagsins á sumarkvöldi í Guðmundarlundi.

Dagskrá

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra
  3. Kosning fundarritara
  4. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári
  5. Skýrslur nefnda
  6. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins
  7. Tillaga að félagsgjaldi
  8. Lagabreytingar
  9. Kosningar skv. félagslögum
  10. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins
  11. Önnur mál

 

Ráðherra og nemendur gróðursetja tré í tilefni eflingu Yrkjusjóðs

Með Fréttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gróðursetti trjáplöntur í Þorláksskógum á Suðurlandi síðasta dag maí með hópi grunnskólabarna sem taka þátt í fræðslu- og gróðursetningarverkefni á vegum Yrkjusjóðs.

Tilefni gróðursetningarinnar var að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur undir áherslur er lúta að kolefnisbindingu og aukinni fræðslu.

Gróðursetjarar dagsins (Mynd: RF).

„Yrkjusjóður hefur gert börnum um allt land kleift að taka þátt í að binda kolefni úr andrúmslofti. Með því að efla verkefnið geta enn fleiri börn tekið þátt í að takast á við eina stærstu áskorun þessarar aldar, loftslagsvána. Verkefnið felur jafnframt í sér endurheimt birkiskóga og lífríkis landsins sem stjórnvöld leggja nú stóraukna áherslu á,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins (Yrkjusjóður) var stofnaður í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur og var fyrsta úthlutun úr sjóðnum árið 1992. Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun grunnskólabarna á Íslandi og kynna þannig mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu. Yrkja á í formlegu samstarfi við alla grunnskóla í landinu og frá stofnun sjóðsins hafa grunnskólabörn gróðursett rúmlega 800 þúsund trjáplöntur á hans vegum. Ætla má að verkefnið hafi bundið um 20.000 tonn af CO2 sem sýnir hversu mikil áhrif skólaverkefni getur haft.

„Skólabörn um allan heim hafa gert kröfu um meiri fræðslu um loftslagsbreytingar auk þess sem þau vilja taka þátt í að leysa vandann. Yrkjusjóður vill í því ljósi efla hlutverk sitt, ná til allra grunnskóla á landinu og auka fræðslu um endurheimt landgæða, skógrækt og kolefnisbindingu í gróðri,“ segir Andri Snær Magnason, stjórnarformaður Yrkjusjóðs.

Börnin sem tóku þátt í gróðursetningunni koma úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn en Þorláksskógar eru á Hafnarsandi þar skammt undan.

„Við komum hingað fyrir jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana. Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ segja Elísabet Marta Jónasdóttir og Alexander Guðmundsson, nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Elísabet Marta Jónsdóttir og Alexander Guðmundsson gróðursetja með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra (Mynd: RF).

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2019

Með Fréttir

Skógræktarfélagið Mörk heldur aðalfund sinn í Kirkjubæjarstofu, Kirkjubæjarklaustri, laugardaginn 1. júní kl. 13:30.

Dagskrá fundarins:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Önnur mál
  3. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, flytur erindi „ Landnám birkis á Skeiðarársandi“.

Áhugavert verður  að hlýða á erindi Þóru Ellenar  um hinn mikla skóg sem vex af fræjum sem fokið hafa úr Skaftafellsheiðinni. Hefur hún ásamt Kristínu Svavarsdóttur rannsakað fyrirbæri þetta.

Allir áhugasamir velkomnir á fundinn.

Stjórn Merkur.

Sjálfbær maí hjá ION Hóteli

Með Fréttir

Í maí býður ION Hótel á Nesjavöllum upp á græna upplifun, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og Sumac Grill+Drinks. Tilboð er á sérstökum gistipakka (gisting fyrir tvo í Standard herbergi, morgunverður og þriggja rétta kvöldverður að hætti Sumac Grill+Drinks) en fyrir hvert tilboð mun Skógræktarfélag Íslands planta tré á Úlfljótsvatni. Fær hver kaupandi umslag með minjagrip til staðfestingar á þátttöku í þessu verkefni.

Gestir sem koma hjólandi, gangandi eða á rafmagnsbíl fá uppfærslu í Deluxe herbergi og þeir heppnustu í Thermal svítu.

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar

Með Fréttir, Fréttir frá skógræktarfélögum

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar var haldinn síðastliðinn fimmtudag 25. apríl, sumardaginn fyrsta að Þinghamri í Stafholtstungum. Formaður félagsins, Óskar Guðmundsson flutti skýrslu stjórnar- og starfsáætlun.. Laufey Hannesdóttir gjaldkeri kynnti reikninga félagsins. Líflegar umræður urðu á fundinum, um mikilvægi skógræktar í nútímanum og brýna þörf á aukinni ræktun skóga vegna umhverfisástands í heiminum.

Þá leiddi Ása Erlingsdóttir frá Laufskálum í skóginn við Varmaland og lýsti kennsluaðferðum og skemmtilegri nálgun við skóginn í kennslu: Listin að læra í og af skógi. námsumhverfið í skóginum. Fundarritari var Ragnhildur Freysteinsdóttir og fundarstjóri: Gísli Karel Halldórsson.

Stjórnin hélt fyrsta fund starfsárs eftir aðalfund – á laugardag (27. apríl) og skipti með sér verkum. Hlutverkaskipan er óbreytt frá fyrra ári: Meðstjórnendur eru Jökull Helgason og Pavle Estrahjer, ritari Ragnhildur Freysteinsdóttir, gjaldkeri Laufey Hannesdóttir og formaður Óskar Guðmundsson í Véum.

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar 2019

Með Fréttir, Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar mun halda aðalfund sinn þriðjudaginn 9. apríl kl. 20:00 í sal Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, Völuteigi 23.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf:
  1. Kosning fundarstjóra
  2. Skýrsla stjórnar 2018
  3. Reikningar félagsins 2018
  4. Ákvörðun um félagsgjöld 2019
  5. Stjórnarkjör
  • Kynning á nýrri vefsíðu félagsins
  • Önnur mál

Kaffiveitingar í boði félagsins

Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar mun halda erindi þar sem hann mun fjalla almennt um Kolvið og framtíðarsýn.

Fagráðstefna skógræktar 2019 – „Öndum léttar – landnotkun og loftslagsmál“

Með Fréttir, Fundir og ráðstefnur

Fagráðstefna skógræktar 2019 verður haldin á Hallormsstað 3.-4. apríl. Loftslagsmál verða meginviðfangsefni eða þema ráðstefnunnar að þessu sinni. Ráðstefnan er að haldin í samstarfi Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Landssamtaka skógareigenda, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands og Skógfræðingafélags Íslands. Nánar