Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Matsveppirnir í skóginum

Með Fréttir

Helena Marta Stefánsdóttir náttúrufræðingur verður leiðsögumaður í sveppagöngu á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um Höfðaskóg þriðjudaginn 17. september kl. 17:30. Mæting við vesturenda Hvaleyrarvatns þar sem hús bæjarins stóð áður.

Takið með ykkur körfu (eða bréfpoka), hníf og sveppahandbók ef þið eigið slíka.

Landssöfnun á birkifræjum

Með Fréttir

Nú er hafin landssöfnun á birkifræjum. Það er Landgræðslan, Olís og Hekluskógar sem standa fyrir átakinu. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og kolefnisbindingu. Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum á Akureyri, Álfheimum, Norðlingaholti, Borgarnesi, Reyðarfirði, Selfossi, Höfn, Hellu, Fellabæ (Egilsstaðir) eða á Húsavík. Þessar sömu stöðvar taka við pokunum þegar fólk er búið að safna fræi í þá. Starfsstöðvar Landgræðslunnar taka einnig við fræpokum.

Ef fólk á þess ekki kost að fara á Olísstöð þá getur það safnað birkifræjum í tau- eða pappírspoka og skilað þeim á fyrrnefnda staði. Safnarar verða að láta miða í pokana þar sem fram kemur hvar á landinu þeir söfnuðu fræinu. Þetta skiptir máli, þar sem ekki er talið ráðlegt að blanda saman mismunandi ættstofnum birkis milli landshluta. Fræið þarf að vera þurrt í pokunum og best er að koma pokunum sem fyrst á söfnunarstaði. Ef söfnunarpokum er ekki skilað inn strax þarf að geyma þá í kæli.

Nöfn þeirra sem safna þurfa líka að fylgja fræpokunum. Átakinu lýkur um miðjan október og þá verður dregið úr nöfnum þeirra sem söfnuðu fræi og vegleg – umhverfisvæn – verðlaun veitt.

Landgræðslan er með starfsstöðvar í Gunnarsholti, Rangárvallasýslu, Keldnaholti í Reykjavík, Sauðárkróki, Hvanneyri, Húsavík og Egilsstöðum. Starfsstöðvarnar eru opnar virka daga á venjulegum skrifstofutíma. Heimasíða Landgræðslunnar er www.land.is

Á heimasíðu Hekluskóga er fínn fróðleikur um söfnun og sáningu birkifræs.

https://hekluskogar.is/frodl…/sofnun-og-saning-a-birkifraei/

Búið er að gera heimasíðu vegna átaksins og er slóðin á hana: www.olis.is/birkifrae

Endurheimt landgæða – sáning birkifræs. Slóð á myndband: https://www.youtube.com/watch?v=pUrKIOIhaGo

Því miður er 2019 ekki gott fræár fyrir birki en þó má víða finna tré með gott fræ. Slakt fræár ætti að vera enn meiri hvatning fyrir fólk til að fara á stúfana og leita uppi falleg tré með gott fræ. Með fræsöfnun hjálpum við náttúrunni til að hjálpa sér sjálfri.

Söfnun birkifræs er góð ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga. Auk þess er fræsöfnun prýðileg fjölskylduskemmtun og er full ástæða til að hvetja vinnustaði til að fara í fræsöfnunarferðir.

Nánari upplýsingar veitir Áskell í síma 896 3313. Netfang: askell@land.is

Nýtt skógræktarfélag – Skógræktarfélag Þórshafnar

Með Fréttir

Nýtt félag bættist í hóp aðildarfélaga Skógræktarfélags Íslands nú í vikunni þegar Skógræktarfélag Þórshafnar var samþykkt inn af stjórn. Skógræktarfélag Þórshafnar er nýtt félag, en stofnfundur þess var haldinn 29. ágúst síðast liðinn. Formaður þess er Eyþór Atli Jónsson.

Skógræktarfélag Íslands býður nýja félagið velkomið í hópinn og óskar því velfarnaðar í störfum sínum!

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hefst á föstudaginn

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2019 hefst á föstudaginn 30. ágúst og stendur fram á sunnudag. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Kópavogi og er Skógræktarfélag Kópavogs gestgjafi fundarins, en það fagnar 50 ára afmæli í ár.

Að venju hefst fundurinn kl. 9:30 á föstudeginum með afhendingu fundargagna. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir, þar sem skógarreitir og gróðurlendur í Kópavogi verða skoðuð.

Nánari upplýsingar um fundinn má finna hér á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, en auk þess verður hægt að fylgjast með gangi fundarins á Facebook– og Instagram-síðum félagsins.

Sérkjör fyrir félaga í skógræktarfélögum hjá Orkunni

Með Fréttir

Félagsmönnum skógræktarfélaga hafa nú um margra ára skeið boðist sérkjör hjá Orkunni, þar sem félagsmenn fá afslátt af eldsneyti og ýmissi vöru, auk þess sem ein króna af hverjum keyptum lítra rennur til Skógræktarfélags Íslands.

Nú hefur Orkan hækkað afslátt til félagsmanna og er hann nú 10 kr. á lítrann. Nánar má kynna sér sérkjörin á www.orkan.is/skograekt.

Vinnu- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi

Með Fréttir

Undanfarin ár hefur verið haldinn vinnu- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi þar sem áhugasamir ræktendur hafa mætt og notið þess að stússast saman í garðinum stutta stund. Næsti slíkur dagur er fyrirhugaður fimmtudaginn 25. júlí. Stússið byrjar kl. 17 en hægt er að mæta þegar hentar eftir það. Verkfæri verða á staðnum og boðið upp á grillaðar pylsur og gos í dagslok.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands – https://gardurinn.is/event/1213/.

Skógarleikarnir 2019

Með Fréttir

Skógarleikarnir verða haldnir laugardaginn 6.júlí frá kl. 13.00-17.00 í Heiðmörk. Skógarleikarnir eru nú orðinn árlegur viðburður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og stemmningin alltaf einstök.

Að vanda mun fagfólk í skógarhöggi keppa í skógaríþróttum þar sem tekist er á í æsispennandi keppni. Keppt er í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem afkvistun trjábola, nákvæmnisfellingu, axarkasti, sporaklifri og bolahöggi.

Samhliða keppninni er ævintýraleg stemmning í lundinum þar sem dregnir verða fram töfrar skógarins á margvíslegan hátt.

Tálgun hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár þar sem gestir á öllum aldri geta spreytt sig undir handleiðslu Benedikts Axelssonar. Þátttakendum eru kennd undirstöðu atriðin í því hvernig hægt er að tálga úr ferskum viði.

Orri arboristi og Sebastian Morgenstjerne frá Trjáprýði munu kynna vinnubrögð trjáklifrara á mjög sjónrænan hátt.

Johan Grønlund mun kynna hvernig hægt er að vinna skúlptúra úr trjábolum með keðjusög. Þess má geta að Johan verður með námskeið í skúlptúragerð með keðjusög í vikunni eftir Skógarleikana.

Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélaginu, mun fræða áhugasama um kolefnisbindingu trjáa með fróðlegri leiðsögn um skóginn

Skógurinn geymir einnig mikið af hráefnum til jurtalitunar. Hulda Brynjólfsdóttir mun kynna fyrir gestum hvaða jurtir gefa hvaða lit og hvernig hægt er að nýta þær til litunar. Hún mun vera með litunarlög mallandi í pottum þar sem gestir geta fylgst með ferlinu

Axarkastið hefur ávallt verið vinsælt og nú munu Berserkir leiðbeina gestum í axarkastinu

Skógarleikjatjaldið verður svo reist að vanda og mun seiðkona taka vel á móti gestum og bjóða upp á töfrastund í tjaldinu.

Eldsmiður mætir á svæðið og hamrar járnið yfir logandi eldinum, ásamt því að rista ilmandi möndlur.

Boðið verður upp á að grilla snúrubrauð yfir varðeldi og boðið upp á rjúkandi ketilkaffi í lundinum ásamt grillveislu í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur.

 

Skógarleikarnir eru á instagram: skograektarfelagreykjavikur og á Facebook.

Líf í lundi 22. júní 2019

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, sem skógaraðilar á Íslandi standa sameiginlega að og verður hann haldinn í annað sinn í ár. Markmið hans er að fá almenning til að heimsækja skóga landsins og stunda hreyfingu, njóta samveru og upplifa skóga og náttúru landsins.

Boðið verður upp á fjölmarga viðburði í skógum landsins um land allt á laugardeginum 22. júní. Að deginum standa Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda, í samvinnu við aðrar stofnanir og félagasamtök, auk þess sem Arion banki styður almennt við verkefnið.

Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á Skógargátt-vefsíðunni (www.skogargatt.is) og á Facebook-síðu Líf í lundi – https://www.facebook.com/lifilundi/, auk þess sem einstakir viðburðahaldarar verða með kynningu á sínum miðlum.

Fylgist með og takið þátt!

 

Gróðursetning Rótarskota

Með Fréttir

Á fimmudaginn 13. júní kl. 18-21 munu félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og frá Skógræktarfélagi Íslands koma saman og gróðursetja 15.000 Rótarskots birkitré í Áramótaskóg Slysavarnarfélagsins á Hafnarsandi.

Fyrir síðustu áramót buðu björgunarsveitirnar upp á sölu Rótarskots – gróðursetningu eins trés – fyrir þá sem ekki vildu kaupa flugelda, en sú hugmynd kom upprunalega frá Rakel Kristinsdóttur. Nánast allir pakkar sem í boði voru seldust upp og verða plönturnar nú settar niður. Svæðið sem gróðursett verður í er á Hafnarsandi, nærri gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar, en á næstu árum verður ráðist í mikla gróðursetningu á sandinum og er Áramótaskógurinn eitt þeirra verkefna sem hefur fengið úthlutað spildu.