Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Samningur um Rótarskot undirritaður

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg undirrituðu í dag samning til 2023 um Rótarskot, en það er óhefðbundið „umhverfisskot“ til að fagna nýju ári. Boðið var upp á Rótarskot í fyrsta sinn í fyrra, en það er leið til að styrkja við hið öfluga og mikilvæga sjálfboðastarf björgunarsveitanna, fyrir þau sem vilja draga úr magni flugelda sem keyptir eru eða vilja ekki kaupa flugelda. Hvert Rótarskot gefur af sér tré, sem plantað er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaganna.

Allur ágóðinn af sölu Rótarskotanna rennur til björgunarsveitanna og eru sölustaðir hjá björgunarsveitum um allt land.

Frá undirritun samningsins. Frá vinstri Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri Landsbjargar, og Jónatan Garðarsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt

Með Fréttir

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða sjö milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 20. janúar 2020.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslan, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar. Sjá síðu sjóðsins á heimasíðu Landgræðslunnar: https://www.land.is/minningarsjodur/

Usóknir sendist til:
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
bt. Guðbrands Brynjúlfssonar
Brúarlandi
311 Borgarnes

Reglur um umsóknir og úthlutun styrkja úr sjóðnum

Umsóknareyðublað vegna 2020

Íslensk jólatré – græn og væn!

Með Fréttir

Það er föst jólahefð hjá mörgum fjölskyldum að sækja sér jólatré í skóginn á aðventunni og er hægt að sækja sér tré í flestum landshlutum, hjá skógræktarfélögum, Skógræktinni og skógarbændum. Fyrir þá sem hafa minni áhuga á skógargöngunni eru svo ýmsir aðilar sem selja íslensk tré.

Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun og með því að kaupa íslenskt jólatré styður þú við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Skógræktarfélög víða um land eru með jólatré til sölu nú í ár – nánari upplýsingar um það má finna á jólatrjáavefnum hér á síðunni.

Upplýsingar um sölu hjá Skógræktinni og skógarbændum má svo finna á heimasíðu Skógræktarinnar.

Myndakvöld Skógræktarfélags Garðabæjar

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar býður til myndakvölds í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund í Garðabæ mánudaginn 25. nóvember 2019 kl. 20.

Erla Bil Bjarnardóttir og Ragnhildur Freysteinsdóttir frá félaginu munu flytja ferðasögu í máli og myndum frá skógræktar- og menningarferð skógræktarfélaga um ítölsku Alpana í Suður-Tíról í haust.

Allir eru velkomnir!

Kaffiveitingar í boða Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Kvöldganga í Höfðaskógi

Með Fréttir

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 29. október  kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn. Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að vera vel útbúið og taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665-8910.

Skógræktarnámskeið

Með Fréttir

Vilt þú leggja hönd á plóg við að rækta skóg, hefurðu áhuga á skógrækt eða ertu ef til vill nú þegar skógræktandi? Þá er þetta námskeið eitthvað fyrir þig.

Skógræktarfélag Reykjavíkur, norska sendiráðið og Oslóarborg bjóða upp á ókeypis námskeið sem haldið verður í Heiðmörk laugardaginn 19. október frá kl. 11:00 til ca. 15:30.

Esben Kirk Hansen frá Oslóarborg og Aðalsteinn Sigurgeirsson frá Skógræktinni segja frá mikilvægustu þáttum sem huga þarf að við ræktun og plöntun trjáa. Sendiráðið býður upp á kaffi og léttan hádegisverð.

Dæmi um spurningar sem Esben og Aðalsteinn geta svarað eru:
– Hvernig er hægt að nota skóginn? Nýtist hann á annan hátt en til að binda koltvísýring og veita skjól?
– Að hverju þarf að huga áður en plöntun hefst – Hvar er best að planta og hvaða trjátegundir og berjarunnar eru best fyrir íslenskar aðstæður?
– Þarf að grisja? Hvenær og hvernig er best að gera það?
– Hvaða verkfæri og útbúnað þarf ég að hafa?

Námskeiðið er opið öllum – vinsamlegast skráið ykkur:
https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSfqpxxSUKQy9sMFFL-v_2KhNSfgn1cZASJEw_U-gydU5vqIlg/viewform

Það verður farið í göngutúr um skóginn svo klæðið ykkur eftir veðri.

Staður: https://ja.is/?q=%C3%BEingnesvegi
(Smiðja: Starfsstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur á Heimási er staðsett við Þingnesveg rétt austan við Elliðavatnsbæinn).

Tré ársins 2019

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Lambhaga, útnefnir rauðgreni (Picea abies) í Elliðaárhólma sem Tré ársins 2019. Útnefningarathöfn hefst mánudaginn 14. október kl. 13:30.

Við athöfnina munu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytja ávarp, auk fulltrúa styrktaraðila. Lára Rúnarsdóttir flytur tónlist, viðurkenningaskjal verður afhent og skjöldur afhjúpaður og tréð mælt hátt og lágt. Kaffi og kleinur í boði Orkuveitunnar.

Er þetta í fyrsta sinn sem rauðgrenitré er útnefnt Tré ársins og er tréð sérlega glæsilegt.

Safnast verður saman við Rafveituheimilið og gengið þaðan að trénu (rauða punkti á mynd).

Málþing – Timburgæði og afurðir

Með Fréttir

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE) verður haldinn í Kjarnalundi á Akureyri dagana 11. – 12. október næst komandi.

Í tengslum við aðalfundinn verður haldið málþing um viðargæði og markaðssetningu og hefst það á laugardagsmorgninum kl. 11 í Hótel Kjarnalundi og stendur fram yfir hádegi.

Dagskrá málþings

10:00     Opnunarávarp

10:15     Ávarp formanns LSE

10:20   Viðarfræði

10:40   Þurrkun timburs

10:55   Mikilvægi góðrar sögunar

13:25   Afurðarstöð fyrir smávið

11:35   Límtré úr íslensku timbri?

12:05   Hádegismatur

13:00   Íslenskt timbur til vöruhönnunar

13:25   Sögunarmyllan

14:05   Samstarf garðyrkjubænda

14:30   TreProX

14:50   Samantekt málþingsins

15:00   Göngutúr um Kjarnaskóg

 

Nánari upplýsingar um fundinn og málþingið má finna á heimasíðu LSE – https://www.skogarbondi.is/single-post/2019/09/03/adal2019

Skráningafrestur er til 7. október.

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands – takmörkuð opnun 25. september til 2. október

Með Fréttir

Vegna útivinnu og sumarleyfa verður skrifstofa Skógræktarfélags Íslands takmarkað og óreglulega opin dagana 25. september til 2. október. Best er að hringja í síma 551-8150 til að athuga hvort starfsmaður sé við.
Ef nauðsynlega þarf að ná í starfsmann má senda tölvupóst eða hringja í farsíma viðkomandi. Nánari upplýsingar má finna hér á heimasíðunni.

Landbúnaðarháskóli Íslands – meistaravörn: Breytingar á kolefnisforða og öðrum jarðvegsþáttum við nýskógrækt á SV-landi

Með Fréttir

Joel C. Owona ver meistararitgerð sína í náttúru- og umhverfisfræði við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist Breytingar á kolefnisforða og öðrum jarðvegsþáttum við nýskógrækt á SV-landi (Changes in carbon-stock and soil properties following afforestation in SW Iceland).

Athöfnin fer fram á ensku mánudaginn 23. september 2019 í salnum Geitaskarði á 2. hæð Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti, Reykjavík og hefst kl. 14:00. Allir velkomnir!

Markmið rannsókna Joel var að meta áhrif nýskógræktar í Heiðmörk og við Þingvallavatn á ýmsar mældar vistkerfisbreytur og kanna hvort aldur skóga og skógargerð skiptu þar máli.

Meistaranámsnefndin er skipuð af próf. Bjarna Diðrik Sigurðssyni og Berglindi Orradóttur MSc sem bæði starfa við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er dr. Guðmundur Halldórsson sem er rannsóknastjóri Landgræðslunnar. Verkefnið var styrkt af Orkuveitu Reykjavíkur og Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna.