Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn laugardaginn 11. júlí kl. 13:30. Fundarstaður verður úti í sumargrænni náttúrunni í Landgræðslugirðingunni á Stjórnarsandi. Akið þjóðveg 1 frá hringtorginu á Klaustri ca. 700 m í austurátt, þá er beygt inn afleggjara til vinstri þar sem  skógræktin blasir við. Stjórnarmenn taka þar á móti fundargestum  og vísa nánar á  fundarstað sem er í skóglendi skammt undan.

Fundarefni eru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál.

Að fundarstörfum loknum verður gengið um skógræktina á Stjórnarsandi undir leiðsögn skógfræðings og annarra skógræktarmanna.

Kaffi að göngu lokinni.

Félagar eru hvattir til að mæta á fundinn, aðrir áhugasamir eru að sjálfsögðu velkomnir.

 

Skógræktarfélagið Mörk,

Kirkjubæjarklaustri.

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga verður haldinn mánudaginn 29. júní kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu á Hellu, Dynskálum 8.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa mun Auður Ingibjörg Ottesen, ritstjóri og eigandi tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn, vera með fræðsluerindi.

Kaffi í boði félagsins. Allir velkomnir

Líf í lundi

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins nú um helgina. Í boði eru fjölbreyttir viðburðir víða um land:

Sæla í Selskógi, 20. júní kl. 10:00-12:00

Gaman á Gunnfríðarstöðum, 20. júní kl. 11:00

Fræðsluganga á Eskifirði, 20. júní kl. 12:00

Ratleikur í Smalaholti, 20. júní kl. 13:00-15:00.

Samvera í Seljadalsskógi, 20. júní kl. 14:00-16:00

Opinn skógur Álfholtsskógi – opnunarhátíð, 20. júní kl. 14:00

Fjölskyldudagur í Höfðaskógi, 20. júní kl. 14:15-17:00

Skógarganga um Æsustaðahlíð, 22. júní, kl. 19:30-21:30

Skógardagur í Slögu, 22. júní kl. 18:00-20:00

Nánari upplýsingar um einstaka viðburði er að finna á Skógargátt (www.skogargatt.is) og á Facebook (https://www.facebook.com/lifilundi/).

Álfholtsskógur formlega opnaður sem Opinn skógur

Með Fréttir

Í tilefni af formlegri opnun Álfholtsskógar í Skilmannahreppi sem Opins skógar verður efnt til hátíðardagskrár í skóginum laugardaginn 20. júní og hefst hún kl. 14:00.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra opnar skóginn formlega með klippingu á borða. Ávörp flytja Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps og Linda Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar.

Að ávörpum loknum verður boðið upp á tónlistaratriði, gróðursetningu og veitingar. Dagskránni lýkur svo með göngu um skóginn í tilefni af Líf í lundi – útivistar- og fjölskyldudags í skógum landsins sem haldinn er í skógum víða um land þennan dag – sjá nánar á www.skogargatt.is.

Allir velkomnir!

Opinn skógur er samstarfsverkefni skógræktarfélaga og styrktaraðila. Markmiðið með verkefninu er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga, fyrir almenningi. Nú þegar hafa sextán svæði verið opnuð formlega.

Álfholtsskógur á Google Maps. Ekið er inn í  skóginn af Akrafjallsvegi.

4000 Rótarskot gróðursett í nýjan Áramótaskóg við Lækjarbotna

Með Fréttir

Miðvikudaginn 10. júní komu saman félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörg og Skógræktarfélagi Íslands við Lækjarbotna og gróðursettu 4.000 Rótarskot í Áramótaskóg á Selfjalli við Lækjarbotna.

Fyrir síðustu áramót buðu björgunarsveitirnar Rótarskot til sölu undir merkjum Skjótum rótum á Flugeldamörkuðum björgunarsveitanna og seldust um 8 þúsund Rótarskot fyrir síðustu áramót. Önnur Rótarskot verða gróðursett á vegum deilda víðsvegar um land. Svæðið sem gróðursett var í á Selfjalli er í umsjón Skógræktarfélags Kópavogs.

Í desember á sl. ári gerðu samtökin Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Skógræktarfélag Íslands með sér samstarfssamning til þriggja ára um sölu Rótarskota sem ætlað er að styrkja mikilvægt sjálfboðastarf björgunarsveitanna auk þess sem skógrækt og ræktun þeirra verður á ábyrgð Skógræktarfélags Íslands og aðildarfélaga þess. Markmiðið er að rækta upp fjölbreytta skóga sem vaxa sem víðast um land sem geta um leið stuðlað að umhverfisbótum og bindingu kolefnis öllum landsmönnum til hagsbóta.

Birki nýkomið í jörðina.

Hjálpast að við að afferma plönturnar.

Gróðursetning.

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2020 er komið út

Með Fréttir

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2020 er nú komið út og í póst til áskrifenda. Að vanda er að finna í ritinu fjölda greina um hinar ýmsu hliðar skógræktar. Meðal annars eru greinar um stígagerð úr viðarstiklum, býflugnarækt, konur og skógrækt í Vopnafirði, skógarferð til S-Tíról og minningargarða, auk þess sem formaður Skógræktarfélags Íslands fer yfir helstu þætti úr starfi félagsins frá upphafi, en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu.

Kápu ritsins prýðir myndin „Vigdís“ eftir Tryggva Ólafsson, af Vigdísi Finnbogadóttur. Hún er heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og jafnaldri þess, en hún fagnaði 90 ára afmæli sínu þann 15. apríl síðast liðinn. Þótti því viðeigandi að mynd af henni prýddi forsíðu ritsins að þessu sinni, í ljósi þeirra tímamóta sem kosning Vigdísar sem fyrsta þjóðkjörna kvenkyns forseta veraldar var, en þetta rit markar einmitt tímamót í útgáfusögu Skógræktarritsins. Þetta er fyrsta ritið frá upphafi, en útgáfusaga þess nær aftur til 1933, þar sem konur eru meirihluti greinarhöfunda.

 

Skógræktarfélag Íslands býður til samvinnu um atvinnuátak

Með Fréttir

Á stjórnarfundi 11. maí samþykkti stjórn Skógræktarfélags Íslands fyrir hönd aðildarfélaga, sem eru um 60 talsins víðsvegar um land, að bjóðast til að standa fyrir víðtæku atvinnuátaki í samstarfi við sveitarfélög og skógræktarfélög um land allt.

Félagið og aðildarfélög þess stóðu fyrir Atvinnuátaki á árunum 2009-2012 með góðum árangri sem skapaði hundruð uppbyggilegra starfa við ýmiskonar umhirðustörf í skógum landsins, uppbyggingu svæða, gróðursetningu, stígagerð, grisjun og margt fleira.

Núverandi ástand kallar á samstilltar aðgerðir og verkefni sem færa okkur betra nærumhverfi og veita fjölmörgum ungmennum áhugaverð og gagnleg tækifæri til þess að starfa úti í íslenskri náttúru í tvo til þrjá mánuði. Tilhögun atvinnuátaksins gæti verið með svipuðum hætti og gafst svo vel fyrir um 8 árum. Gerður yrði þríhliða samningur milli Skógræktarfélags Íslands, skógræktarfélags á hverjum stað fyrir sig og viðkomandi sveitarfélags. Skógræktarfélögin leggðu fram tillögur að umhverfis- og skógræktarverkefnum á svæðum sínum og áætlun um fjölda mannmánaða. Framlag sem Skógræktarfélag Íslands hefur nú sótt um til ríkisins, kr. 70 milljónir, stæði straum af kostnaði við efni, aðstöðu og fólksflutninga upp að ákveðnu marki. Sveitarfélögin réðu starfsmenn og greiddu þeim laun. Sveitarfélög eiga þess kost að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til starfa og gætu þá sótt um mótframlag til launagreiðslna í atvinnuleysistryggingasjóð.

Með þessum hætti væri hægt að skapa fjölmörg störf með litlum tilkostnaði.