Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga 70 ára

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í dag er góður dagur í Húnaþingi. Rigning í gærkvöldi og nótt með ágætis hita. Sólin byrjuð að verma jörðina og þá sem lifa á henni. Í dag er hátíðisdagur hjá Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga og víða flaggað fyrir félaginu sem er 70 ára.
Það er vorhugur í félaginu, því 70 ár er ekki langur tími í skógrækt og margur akurinn óplægður í þeim efnum á okkar svæði.

Gunnfríðarstaðaskógur er á Bakásum í Húnavatshreppi og er í eign félagsins. Þar hefur verið stunduð skógrækt yfir 50 ár. Á næstu bæjum er stunduð skógrækt sem er undir Norðurlandsskógaverkefnið að mestu. Hægt er að stunda skógrækt á þessu svæði og víðar í sýslunni.

Félagið vill óska Austur-Húnvetningum til hamingju með þann árangur sem náðst hefur í trjá- og skógrækt á síðustu áratugum. Jafnframt hvetur félagið til aukinnar skógræktar sem fer vel með mörgum búgreinum og styður við tekjuöflun á landareigninni, auk þess að auka verðgildi landsins.

Skógræktarkveðja,
Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga.

afm-skhun

Hönnun úr íslenskum efniviði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Síðastliðið haust tók Skógræktarfélag Reykjavíkur þátt í samstarfi við Listaháskóla Íslands um kennslu í vöruhönnunaráföngum þar sem áhersla var lögð á að hanna úr íslenskum við. Nemendurnir voru kynntir fyrir þeim efnivið sem fellur til í skógum og aðferðum við að vinna hann og í kjölfarið hönnuðu þau muni úr við sem kom úr Heiðmörk.

Kennarar voru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir og Hafsteinn Júlíusson frá Listaháskóla Íslands, Ólafur Oddsson frá Skógrækt ríkisins og Gústaf Jarl Viðarsson og Sævar Hreiðarsson frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Auk þess að hanna ýmsar vörur bjuggu nemendur til heimasíðu til kynningar á verkefninu – http://www.rendezwood.com/. Hefur það m.a. skilað sér í umfjöllun um verkefnið á heimasíðu Frame, eins virtasta hönnunartímarits Bretlands og á heimasíðu Domus, eins virtasta hönnunarblaðs Ítalíu.

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol

Hressir jólasveinir á leið heim úr jólaskóginum í Brynjudal.

Skógræktarritið, seinna hefti 2013 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, seinna hefti 2013, er komið út. Á kápu er fallegt mynd er nefnist „Vetur“ eftir Sigþór Jakobsson.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

„Heiðursvarði um Eystein Guðjónsson frá Djúpavogi“, eftir Jón Geir Pétursson

„Tré ársins 2013“, eftir Brynjólf Jónsson

„Skógræktarritið í 80 ár“, eftir Einar Örn Jónsson

„Hellisgerði – Níutíu ára skrúðgarður“, eftir Jónatan Garðarsson

„Skógarmaðurinn“, eftir Guðríði Helgadóttur

„Kolefnisbinding í ungum lerkiskógi á Austurlandi“, eftir Brynhildi Bjarnadóttur

„Lygilegur árangur í skógrækt“, viðtal Einars Arnar Jónssonar við Barböru Stanzeit

„Trjágreinar I“, eftir Gísla Tryggvason

„Árhringjarannsókn á kastaníu í Belasitsa-fjöllum í Suður-Búlgaríu“, eftir Sævar Hreiðarsson og Ólaf Eggertsson

„Fjólubláa gullið – Felast vannýt tækifæri í lúpínunni?“, eftir Einar Örn Jónsson

„Hugleiðingar um stöðu birkisins í skógrækt“, eftir Þröst Eysteinsson

„Rauðavatnsstöðin – sögubrot af vandaðri girðingu“, eftir Bjarna Guðmundsson og Jón Geir Pétursson

„Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013“, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

„Skógarferð til Colorado“, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

„Skógræktarárið 2012“, eftir Einar Gunnarsson

Að auki eru minningargreinar um Margréti Guðjónsdóttur, Odd Sigurðsson, Hjört Tryggvason og Gísla Pálsson.

Með ritinu fylgir til áskrifenda nýjasta Frækornið og fjallar það um gisjun.

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog@skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Að auki fylgir nú með fallegur smjörhnífur úr íslenskum viði. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog@skog.is.

skogrit2013-2-forsida

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 14.-15. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem taka á móti fólki í skóginn helgina 14.-15. desember eru:

Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi, báða dagana kl. 12-16.

Skógræktarfélag A-Skaftfellinga er með jólatrjáasölu í Haukafelli á Mýrum á sunnudaginn kl. 11-15.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 10-16.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar er með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum, í samvinnu við Björgunarsveitina Heiðar, kl. 12-16, báða dagana, í Einkunnum á laugardaginn kl. 12-16 í samvinnu við Björgunarsveitina Brák og í Reykholti á sunnudaginn kl. 11-16.

Skógræktarfélag Dýrafjarðar er með jólatrjáasölu á Söndum á sunnudaginn kl. 13-16.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandi á Þelamörk, báða dagana kl. 11-15.

Skógræktarfélag Garðabæjar er með jólatrjáasölu í Smalaholti á laugardaginn kl. 12-16.

Skógræktarfélag Grindavíkur er með jólatrjáasölu í Selskógi, báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.

Skógræktarfélag Ísafjarðar er með jólatrjáasölu í hlíðinni ofan við Bræðratungu (innan við Seljalandshverfi) á laugardaginn, kl. 13-16.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga.

Skógræktarfélagið Mörk verður með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu, á sunnudaginn kl. 13-15.

Skógræktarfélag Rangæinga verður með jólatrjáasölu í Bolholtsskógi á sunnudaginn kl. 12-15.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk er opinn báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu í Hólaskógi og skógarreitnum í Varmahlíð á sunnudaginn kl. 12-15.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna (hér).

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 7.-8. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem verða með jólatrjáasölu helgina 7.-8. desember eru:

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 10-16. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skogarn.is

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skoghf.is

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Á laugardeginum verður kveikt á jólatré markaðarins kl. 14:30, en á hverju ári býður Skógræktarfélagið hönnuði eða listamanni að skreyta tréð og er það Tinna Ottesen hönnuður sem skreytir tréð í ár. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk opnar svo þann 7. desember og verður opinn báða dagana kl. 11-16. Mun Jón Gnarr borgarstjóri fella fyrsta tréð kl. 11 á laugardeginum, en auk hans hefur jólasveinn boðað komu sína á svæðið. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – heidmork.is.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs – skogkop.net.

Jólatrjáasala hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar í Hamrahlíð við Vesturlandsveg hefst svo miðvikudaginn 11. desember og er opin alla daga til 23. desember. Opnunartími kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga.
 

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.

Vinabæjartré frá Reykjavík til Tórshavnar 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Reykjavíkurborg gaf Þórshafnarbúum jólatré og voru ljósin á því tendruð við hátíðlega athöfn í miðborg Þórshafnar þann 30. nóvember. Afhenti Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, tréð fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi með einhverju móti þakka Færeyingum þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina og var ákveðið í að færa þeim jólatré að gjöf í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem gaf tréð og Eimskip,sem sá um flutning þess til Færeyja.

Jólatréð var höggvið á svæði Skógræktarfélagsins á Heiðmörk þann 20. nóvember. Er tréð sitkagreni, af kvæminu Homer. Var það gróðursett árið 1960, af stúlknahópi Vinnuskóla Reykjavíkur, ásamt starfsfólki Skógræktarfélagsins. Nú, rúmri hálfri öld síðar, reyndist tréð vera orðið 12 m hátt og 40 cm í þvermál.

Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi með einhverju móti þakka Færeyingum þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina og var ákveðið í að færa þeim jólatré að gjöf. Þetta er fyrsta jólatréð sem Reykjavíkurborg gefur Þórshöfn og er það von borgarstjóra að þessi siður verði viðhafður ár hvert héðan í frá til að minna á og treysta hin tryggu vinabönd milli þjóðanna tveggja.

faereyjar1

Unnið að því að reyra greinar trésins saman  (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar2

Dráttarvél (sem er nokkuð stór) notuð til að lyfta trénu upp á flutningabíl (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar3

Tréð komið upp á svokallað fleti á vörubílnum. Á fletinu ferðast tréð til Færeyja (Mynd: Sk.Rvk).

faereyjar4

Tréð leggur af stað úr Heiðmörk í sína langferð til Tórshavn (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar5

Tréð komið upp tendrað í Tórshavn (Mynd: Alan Brockie).