Tré ársins 2009 er hengibjörk (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar.
Tréð var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september, í yndislegu haustveðri. Hófst athöfnin með því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga bauð gesti velkomna. Næstur hélt ávarp Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar. Hann tók svo við viðurkenningaskjali af þessu tilefni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem einnig hélt stutt ávarp. Gestum var svo boðið upp á ilmandi ketilkaffi, framreitt af starfsmönnum Skógræktarfélags Eyfirðinga. Að lokum mældi Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga tréð. Inn á milli atriða var svo flutt tónlist.
Tréð reyndist við mælinguna vera 10,95 cm á hæð. Það klofnar í tvo stofna í um 20 cm hæð og hafa stofnarnir þvermál 20 og 21 cm í brjósthæð. Það er gaman að segja frá að í kringum 2000 voru ýmsum trjám í Kjarnaskógi gefið nafn, í tengslum við ljóðagöngu sem þá var haldin og var Tré ársins meðal þeirra. Fékk það nafnið Margrét og hefur gengið undir því síðan. Margrét er gróðursett á áttunda áratugnum, líklega með fræi frá Finnlandi. Ræktaðir hafa verið græðlingar af henni, þannig að finna má „afkomendur“ hennar á nokkrum stöðum. Búið er að leggja kurlstíg að trénu, þannig að auðvelt á að vera að heimsækja Margréti.
Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins ár hvert og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.
Tré ársins 2009 – „Margrét“ – skartar sínu fegursta í haustblíðunni (Mynd: BJ).
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, afhendir Hermanni Jóni Tómassyni, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, viðurkenningaskjal (Mynd: BJ).
Gestir gæða sér á ilmandi ketilkaffi (Mynd: BJ).
Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, mælir tréð eftir öllum kúnstarinnar reglum (Mynd: BJ).
Nýlegar athugasemdir