Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: jólatrjáasala

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður að venju í Selinu (Þöll) við Kaldárselsveg næstu fjórar helgar fram að jólum.

Auk íslenskra furu- og grenijólatrjáa býður félagið upp á greinar, köngla, mosa, leiðisgreinar og jólaskreytingar úr íslensku efni. Opið verður næstu helgi (27. og 28. nóv) frá kl. 10.00 – 16.00. Næstu þrjár helgar þar á eftir verður opið laugar- og sunnudaga frá kl. 10.00 – 18.00.
Gestum er boðið upp á heitt súkkulaði og kökur í notalegu umhverfi skógarins.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.

Vilt þú vera með á Jólamarkaðinum á Elliðavatni?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur er nú í óða önn að undirbúa Jólamarkaðinn á Elliðavatni í Heiðmörk, en þar verður opið fjórar síðustu helgarnar fyrir jól. Markaðurinn var fyrst haldinn árið 2007 og hefur átt vaxandi vinsældum að fagna síðan þá.

Kjarni hans er jólatrjáasala af lendum félagsins, auk þess sem eldiviður, kurl og ýmsar smávörur, plattar o.fl. er til sölu á staðnum, að ógleymdum tröpputrjánum vinsælu.  Í Gamla salnum er síðan boðið upp á kakó og vöfflur og margskonar menningardagskrá er í gangi á hverjum degi með upplestrum og tónlistaratriðum. Á hlaðinu við Elliðavatn eru fjöldi jólahúsa þar sem í boði er íslenskt handverk af ýmsu tagi.

Þessa dagana er verið að raða á söluborðin og geta áhugasamir handverksmenn haft samband í síma 856-0058 eða á netfangið kristjan (hjá) skograekt.is.

Tæknileg tímamót í skógrækt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur tók í gær í notkun fyrstu sérhæfðu útkeyrsluvél í skógi (skodare) á landinu, en hingað til hefur verið notast við traktorsspil og traktorsvagna við flutning trjábola út úr skóginum. Útkeyrsluvélinni fylgir mikill vinnusparnaður, auk þess sem hún fer mun betur með skógarbotninn.

Vélin er sænsk, af gerðinni Alstor 8X8, keypt í gegnum Garðheima. Fyrir þá sem vilja kynna sér vélina nánar má benda á heimasíðu Alstor (hér).

utkeyrsluvel

Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur (t.h.), tekur formlega við vélinni frá Kristian Laurell, forstjóra Alstor.  Óli finnski skógarvörður í Heiðmörk er á vélinni (Mynd: Sk.Rvk.).

 

Gróðursetning í Seldal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá því að Landgræðsluskógaverkefnið hófst í Seldalnum efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til sjálfboðaliða-gróðursetningarferðar á laugardaginn kemur 25. september kl. 13.00.

Gróðursett verður í kringum nýjar leikjaflatir í botni dalsins. 

Mæting er í Seldalnum sem er suður af Hvaleyrarvatni. Ekið er niður að vatninu og síðan beygt til vinstri og ekið yfir Seldalsháls. Boðið verður upp á veitingar í bækistöðvum félagsins/Þöll kl. 16.00 að lokinni gróðursetningu.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455/893-2855/894-1268.

Vinnudagur á Fossá

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Boðað er til vinnudags að Fossá á komandi hausti eins og venja er. Dagurinn er laugardagur 18. september 2010 og hefst vinnan klukkan 10:00. Allar vinnufúsar hendur velkomnar.


Meðal verkefna er að velja torgtré, finna ákjósanleg jólatrjáasvæði til að vísa fólki á í desember, hreinsa og laga til meðfram göngustíg, klára plöntun og ýmis annar frágangur.

Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossárnefndar
eirikp(hjá)fa.is
s. 864-2865

Góðir gestir hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Alexander „Sandy“ Robertson og kona hans Geraldine heimsóttu Skógræktarfélag A-Húnvetninga nú í lok ágúst. Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélagsins, tók á móti þeim við Blönduóskirkju, þar sem þau hittu svo krakka úr 7. bekk Blönduskóla ásamt kennara. Gengu allir að Hrútey, þar sem var smá móttökuathöfn. Sandy lék á sekkjapípu eins og sönnum Skota sæmir og leyfði svo öllum að prófa sem vildu, með misjöfnum árangri, en það var mikið hlegið þegar illa eða ekki gekk að koma hljóði úr hljóðfærinu. Einnig var gróðursett tré (blágreni), sem hlaut nafnið „sekkjapíputré“. Að lokum færðu krakkarnir þeim hjónum húnverska matarkörfu frá Skógræktarfélaginu.

Síðan var genginn hringur um Hrútey og dáðst að náttúrufegurðinni þar. Eftir kaffihlé var svo haldið fram að Gunnfríðarstöðum á Bakásum og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið aftur til Blönduóss og endað á nýsteiktum kleinum og kaldri mjólk hjá formanni Skógræktarfélagsins og konu hans.

sandyahun-1

Sandy, Geraldine og krakkarnir við gróðursetningu (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

sandyahun-2

Misjafnlega gekk hjá krökkunum að ná hljóði úr sekkjapípunni hans Sandys (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

80 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands minnst á Þingvöllum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Haldið var upp á 80 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands í Stekkjargjá á Þingvöllum, en þar var félagið stofnað á Alþingishátíðinni 27. júní 1930.

Hófst formleg dagskrá með því að séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar  leiddi gesti frá Furulundinum upp í Stekkjargjá, en þar tók á móti hópnum skógfræðingurinn Alexander Robertson með sekkjapípuleik.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð fundargesti velkomna. Því næst flutti séra Gunnþór bæn og blessun. Því næst hélt Magnús sitt hátíðarávarp. Næstur upp í pontu var Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, með ávarp. Sigurður Pálsson skáld flutti svo ljóðabálk með sex ljóðum, sem hann samdi sérstaklega af þessu tilefni.

Bæn og blessun séra Gunnþórs Ingasonar (pdf)
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Ávarp Þorsteins Pálssonar (pdf)

Inn á milli ávarpa söng svo Karlakór Hreppamanna, undir stjórn Edit Molár, vel valin lög.

Formlegri dagskrá lauk svo með því að Alexander Robertson  leiddi gesti aftur til baka í Furulundinn, þar sem boðið var upp á skógarkaffi.

Tókst hátíðin í alla staði vel, þótt veðrið væri heldur dyntótt á meðan á hátíðinni stóð, allt frá sólskini yfir í nokkra rigningu. Mættu á annað hundrað manns á hátíðina – fundargestir af aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem lauk stuttu fyrr á Selfossi, sendiherrar og fulltrúar frá sendiráðum Kína, Kanada, Bretlands, Noregs og Rússlands, auk annarra góðra gesta.

Skoða má myndir frá afmælishátíðinni á fésbókarsíðu félagsins (hér).

si80ara-01

 Séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar, leiðir fundargesti upp í Stekkjargjá (Mynd: RF).

si80ara-05
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: RF).

 

Borgartré 2010 í Reykjavík

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartré 2010 hefur verið valið og kynnti Jón Gnarr borgarstjóri tréð á Menningarnótt. Tréð er af tegundinni silfurreynir (Sorbus intermedia) og er í Víkurgarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.

Georg Schierbeck landlæknir gróðursetti tréð 1884 , en hann fékk til umráða hinn gamla kirkjugarð Reykvíkinga sem þarna hafði staðið í 800 ár og hóf tilraunaræktun á trjám, matjurtum og blómum. Garðurinn varð fljótlega fyrirmynd landsmanna í ræktun og telst Schierbeck einn af frumkvöðlum þjóðarinnar í garðyrkju og skógrækt.

Silfurreynirinn er eina tréð í garðinum sem eftir er frá tíð Schierbecks og jafnframt elsta tré borgarinnar. Það er lifandi minnismerki um þennan merka frumkvöðul og þann tíma þegar garðyrkja og skógrækt voru að komast á legg hér á landi. Samkvæmt mælingu er hann nú 10,19 m á hæð.

Silfurreynir á uppruna sinn að rekja til Suður-Svíþjóðar en er ræktaður víða um heim og þykir bæði harðgerður og henta vel við umferðaræðar vegna þess hve loftmengun hefur lítil áhrif á hann. Þetta er krónumikið og svipmikið tré, náskylt reyniviðnum sem lengi hefur vaxið hér á landi.

Silfurreynirinn getur náð 200 ára aldri og á því umrætt tré í Víkurgarði að öllum líkindum eftir að lifa fram undir næstu aldamót.

Verkefnið Borgartré er þannig vaxið að Skógræktarfélag Reykjavíkur og garðyrkjustjóri, fyrir hönd borgarinnar, tilnefna árlega eitt tré í borgarlandinu. Tilgangurinn er að vekja athygli á merkilegum trjám sem nauðsynlegt þykir að varðveita og hlúa að í framtíðinni. Til greina geta komið ,,merkileg“ tré af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna sögu sinnar, útlits eða fyrir að vera sjaldgæfrar tegundar. Með tilnefningunni fylgja upplýsingar um sögu viðkomandi trés og nýjar mælingar á því á sama tíma og borgarbúar eru hvattir til að rækta fleiri tré sömu tegundar þar sem við á.

Jón Gnarr borgarstjóri flytur ávarp við borgartréð (Mynd: Sk.Rvk).

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagur skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn í skógarreit félagsins að Hnausafit í Meðallandi laugardaginn 7. ágúst kl. 13:30. Mæting á bæjarhlaðinu á Syðri-Fljótum, þar sem við leggjum fólksbílum og sameinumst í jeppa í reitinn.

Við skoðum reitinn, grillum og gleðjumst saman á góðum degi. Guðmundur Óli mætir með harmóníkuna.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Skógræktarfélagið Mörk, Kirkjubæjarklaustri.