Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartré 2011

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur velur borgartré árlega í samstarfi við Reykjavíkurborg. Borgartré 2011 verður formlega útnefnt laugardaginn 20. ágúst kl. 11:00.

Tengill á viðburð á heimasíðu Menningarnætur (hér).

Dagskrá:

Kl. 10:45 Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari flytur þrjú lög og kynnir hún sérstaklega hvert og eitt þeirra. Þau tengjast öll fuglum og trjám, skógi.
Kl. 11:00 Jón Gnarr borgarstjóri kynnir Borgartréð 2011 og afhjúpar skjöld.
Kl. 11:10 Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, flytur stutt ávarp
Kl. 11:15 Ásthildur kynnir og flytur lokalag

Borgartréð að þessu sinni er Evrópulerki, Larix decidua. Tréð er eitt sérkennilegasta tréð í Hólavallagarði og það fallegasta sinnar tegundar í Reykjavík. Það er rúmir 10 m á hæð og um 80 ára. Lerkið hefur gríðarmikla krónu sem hvílir á tveimur íturvöxnum stofnun og er dæmi um hvernig bestu götu- og torgtré geta litið út í borgarmyndinni.

Gróðursetning í Reyðarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reyðarfjarðar, í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og  Alcoa á Íslandi, fékk í vor styrk úr Global ReLeaf verkefninu, sem er samvinnuverkefni American Forests og Alcoa Foundation. Sótt var um fjármagn til gróðursetningar trjáplantna á Reyðafirði og í Vinaskógi og var hugsunin þar á bak við að tengja með því þau tvö horn landsins þar sem Alcoa er með starfsstöðvar. Skógræktarfélag Reyðarfjarðar stóð fyrir gróðursetningadegi laugardaginn 13. ágúst. Mættu þar starfsmenn frá Alcoa ásamt meðlimum Skógræktarfélags Reyðarfjarðar og fulltrúa frá Skógræktarfélagi Íslands og settu niður trjáplöntur. Gróðursetningu lauk svo á pylsum og annarri hressingu.

 

globalreleaf

Starfsmenn Alcoa og félagar úr Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar skemmtu sér vel við gróðursetningu (Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson).

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Höfðaskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar verður haldinn í Höfðaskógi laugardaginn 13. ágúst, kl. 14:00-17:00.

Bækistöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Gróðrarstöðvarinnar Þallar við Kaldárselsveg.
• Kl. 14.00: Bænastund
• Kl. 14.20: Skógarganga. Leiðsögumaður verður Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
• Þórður Marteinsson verður á nikkunni.
• Heitt í kolunum. Komið með eitthvað á grillið! Heitt á könnunni og kex í boði Skógræktarfélagsins.
• Getraun fyrir yngstu kynslóðina. Dregið úr réttum lausnum kl. 16.30.


Íshestar, Sörlaskeiði 26.
• Teymt verður undir börnum milli kl. 15.00 – 16.00.

Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455.

Nýr trjásýnistígur í Smalaholti opnaður

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nýr trjásýnistígur í Smalaholti verður opnaður formlega þriðjudaginn 9. ágúst. Stígurinn er hluti af stígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar hefur skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af atvinnuátaki og skógræktarhópum. Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Lesa má nánar um það á heimasíðu Skógræktarfélags Garðabæjar (hér).

Skógarganga og fagnaður verður haldinn þriðjudaginn 9. ágúst kl. 17:00 og eru allir sem hafa áhuga velkomnir. Mæting er á aðalplani í Smalaholti við Elliðavatnsveg norðan Vífilsstaðavatns.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Heimsókn til Landgræðslu ríkisins

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þann 22. júní  hélt stjórn Skógræktarfélags Íslands stjórnarfund í Gunnarsholti og kynnti sér starfsemi Landgræðslunnar. Starfsmenn stofnunarinnar, þeir Guðmundur Stefánsson sviðstjóri og Kjartan Már Benediktsson umsjónarmaður tóku á móti stjórnarmönnum og sögðu frá starfseminni.


Á myndinni má sjá stjórnarmenn ásamt starfsmönnum Landgræðslunnar skoða tilraunverkefni þar sem ræktaður er loðvíðir og umfeðmingur ásamt fleiri niturbindandi tegundum sem hjálpa víðinum að komast á legg.

stjornarfundur

Frá vinstri: Guðbrandur Brynjúlfsson, Magnús Gunnarsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Sigríður Heiðmundsdóttir, Gísli Eiríksson, Kjartan Már Benediktsson, Guðmundur Stefánsson og Páll Ingþór Kristinsson (Mynd: BJ).

Skógardagurinn mikli 2011

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagurinn mikli, árleg skógarhátíð Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga, Skógræktarfélags Austurlands og Skógræktar ríkisins, verður haldinn í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi í lok júní.

Dagskrá:
Föstudagur 24. júní
19:00 Landssamtök sauðfjárbænda ásamt sauðfjárbændum á svæðinu bjóða gestum og gangandi að smakka grillað lambaket.

Laugardagur 25. júní – Þessi skemmtilegi dagur!
10:00 Perlu-ganga frá Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað upp í Bjargselsbotna undir stjórn Hjördísar Hilmarsdóttur
12:00 Skógarhlaupið, 14 km um erfiða skógarstíga.
12:30 Skemmtiskokk fjölskyldurnar, 4 km sem allir geta tekið þátt í

Formleg dagskrá hefst í Mörkinni kl. 13:00
– Íslandsmótið í skógarhöggi
– Pjakkur og Petra taka skógardagslagið
– Heilgrillað Héraðsnaut borið fram af skógarbændum
– Skátarnir sjá um skógarþrautir fyrir unga og aldna
– Ingó Veðurguð tekur lagið
– Pylsur í hundraðavís, ketilkaffi og lummur að hætti skógarmanna
– Hinn eini sanni Bjartmar Guðlaugsson tekur lagið
– Verðlaunaafhending í Skógarhlaupinu
– Íslandsmeistarinn í skógarhöggi krýndur
17:00 Allir fara heim saddir og kátir

Skógardagurinn mikli á Facebook!

skogardagurinn

Global ReLeaf styrkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Alcoa á Íslandi, fékk styrk úr Global ReLeaf verkefninu, sem er samvinnuverkefni American Forests og Alcoa Foundation.  Sótt var um fjármagn til gróðursetningar trjáplantna á Reyðafirði og í Vinaskógi.  Var hugsunin þar á bak við að gefa starfsfólki Alcoa á báðum stöðvum fyrirtækisins hér á landi tækifæri til að taka þátt í gróðursetningu.  Fyrirhugað er að setja niður um 12.000 plöntur.

Um 200 ungmenni fá vinnu við skógrækt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum
Um 200 ungmenni fá vinnu við skógrækt í Kópavogi og Garðabæ í sumar en samningar um störfin voru undirritaðir á Smalaholti í Garðabæ og í Guðmundarlundi í Kópavogi miðvikudaginn 8. júní. Verkin verða unnin á svæðum í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Skógræktarverkefnin eru liður í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga og sveitarfélaga um land allt. Samanlagt nema verkefnin í Garðabæ og Kópavogi hátt í 30 ársverkum og eru þetta stærstu einstöku verkefnin sem unnin verða í nafni atvinnuátaks Skógræktarfélags Íslands. Þegar hafa verið undirritaðir samningar um 45 ársverk um land allt og er vonast til að samningar náist um að minnsta kosti 60 ársverk á þessu ári.

Undanfarin tvö ár hefur Skógræktarfélag Íslands staðið fyrir atvinnuátaksverkefni í samstarfi við samgönguráðuneytið (nú innanríkisráðuneytið), staðbundin skógræktarfélög, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.

Árangurinn af átakinu hefur verið góður og í nafni þess hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á skógræktarsvæðum um land allt. Um leið hefur tekist að skapa fjölda atvinnulausra og námsmanna vel þegna vinnu á einhverjum mestu atvinnuleysistímum sem þjóðin hefur upplifað.
atvinnuatak1
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar í góðum félagsskap ungmenna sem vinna við skógrækt á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar.
atvinnuatak2

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, virða fyrir sér skógarplöntur sem gróðursettar verða í atvinnuátakinu í sumar.

Sýning í Selinu og Þöll vaknar úr dvala

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eldri borgarar í Hafnarfirði verða með sýningu á tálguðum og útskornum munum úr m.a. íslenskum viði í Selinu, bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar, við Kaldárselsveg, laugardaginn 14. maí milli kl. 10.00 – 18.00.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455.

Gróðrarstöðin Þöll við Kaldárselsveg opnar aftur eftir vetrardvala þennan sama dag.

tholl
Selið að haustlagi (Mynd: RF).

Vormarkaður á Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur Vormarkað á Elliðavatni í annað sinn dagana 13.-15. maí næstkomandi. Föstudaginn 13. maí verður opið kl. 15-18, en kl. 10-18 laugardag og sunnudag.

Félag trérennismiða verður með stóra sölusýningu í Gamla salnum og rekur auk þess kaffistofu á staðnum. Þá verða þeir með sýnikennslu á Hlaðinu eins og í fyrra.

Á laugardag verður hestaleiga fyrirtækisins Íslenski hesturinn, þar sem teymt er undir börnum í gerði við bæinn kl. 11-13. Þá verður kynning á stafgöngu á vegum ÍSÍ eftir hádegi og síðdegis verður síðan Vorblót að Vatni á vegum Ásatrúarmanna, sem bjóða öllum að fagna gróandanum með sér.

Fuglavernd og Ferðafélag Íslands verða með kynningu á starfseminni og bjóða fólki í fræðslugöngur á meðan á Vormarkaðnum stendur. Á föstudag verður kennsla í fluguhnýtingum. Á laugardag býðst fólki að kasta flugu með leiðsögn og á sunnudeginum verður síðan kastkeppni á túninu neðan við bæinn.

Gámaþjónustan býður öllum upp á ókeypis moltu í garðinn -og ekki má gleyma Skógræktarfélaginu sem hefur til sölu eldivið, bolvið og kurl og einnig munu skógarmenn sýna nýjustu vélarnar að störfum á laugardeginum.