Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Íslensk skógartimbur frá Fossá á Landsmóti skáta

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Landsmót skáta verður haldið á Úlfljótsvatni  að þessu sinni og hefst næstu helgi. Allur undirbúningur stendur nú  yfir  af fullum krafti. Meðal þess sem þarf að vera til reiðu eru spírur sem skátarnir nota til að byggja allskonar hlið og þrautabrautir sem eru hluti af búnaði mótsins.

Bandalag íslenskra skáta samdi að þessu sinni við Skógræktarfélag Kópavogs um að útvega 500 spírur sem notaðar verða á mótsvæðinu. Skógræktarfélagi ð er að vinna að grisjun á Fossá í Kjós og í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands var svæði grisjað og skógarafurðirnar afhentar skátunum. Að verkefnin komu vinnuflokkar í atvinnuátaksverkefni  hjá  Skógræktarfélagi Kópavogs sem  fengnir vorum með samningum milli félagsins, Skógræktarfélags Íslands og Kópavogsbæjar, með stuðningi Vinnumálastofnunnar.

Myndin er tekin af fulltrúa Bandalags íslenskra skáta að Fossá í Hvalfirði af starfsmönnum Skógræktarfélags Kópavogs við afhendingu spíranna.

sktatimbur

Stuttmynd um starf skógræktarfélaganna

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga 2011 lét Skógræktarfélag Íslands gera tvö stutt kynningarmyndbönd, sem fjalla annars vegar almennt um starf skógræktarfélaganna og gildi skógræktar og hins vegar um Græna trefilinn, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði í upplandi höfuðborgarsvæðisins.

Var Óskar Þór Axelsson kvikmyndagerðarmaður fenginn til að gera myndirnar, en hann er vel þekktur sem leikstjóri kvikmyndarinnar Svartur á leik.

Megintilgangur myndbandagerðarinnar er að vekja athygli á því góða starfi sem skógræktarfélögin hafa unnið í gegnum tíðina og hvetja fólk til að leggja skógræktarhreyfingunni lið. Jafnframt vonast Skógræktarfélag Íslands til að myndirnar opni augu fólks fyrir þeim möguleikum sem felast í skógræktarsvæðunum í nútíð og framtíð.

Myndina um starf skógræktarfélaganna má nú skoða á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, undir Félagið – Myndbönd (hér), bæði í styttri og lengri útgáfu.

 

Unnið í skóginum á Gunnfríðarstöðum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nú er unnið hörðum höndum við grisjunarvinnu í Gunnfríðarstaðaskógi og hafa ungmenni frá Blöndustöð séð um þá vinnu með formanni Skógræktarfélags A-Húnvetninga.

Árásir geitunga hafa tafið vinnu litla stund flesta dagana en eftir að mesti sársaukinn er liðinn hjá er vinnu haldið áfram.

Stúlka frá Japan var með hópnum einn dag í skóginum við myndatöku, en hún átti ekki von á skógi í Húnavatnssýslu.

Skógræktarfélag Austur – Húnvetninga vill minna á aðalfund Skógræktarfélags Íslands dagana 24. – 26. ágúst á Blönduósi. Viljum sjá sem flesta í Húnaþingi til að teiga af menningunni með okkur.

gunnfrid1
Trjáviðurinn borinn út úr skóginum við bæjarrústirnar á Gunnfríðarstöðum (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

 

Ungmenni úr Blöndustöð og einn gestur frá Japan (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson). 

 

Opinn dagur í Fossselsskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga hélt opinn dag í Fossselsskógi sunnudaginn 8. júlí. Afhjúpað var minningarskilti um Friðgeir Jónsson og minntist systursonur hans, Árni Sigurbjarnarson, hans með nokkrum orðum. Gaukur Hjartarson fræddi fólk um fugla skógarins, farið var í gönguferð eftir nýjum göngustígum um skóginn og endað á að drekka ketilkaffi við nýtt áningarborð við Kvennabrekku, sem Kvenfélög innan Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga afhentu á opna deginum.

fossselskogur
Klara Haraldsdóttir, sambýliskona Friðgeirs Jónssonar, afhjúpar minningarskilti um hann við Geirasel.

 

Skógræktardagur í Reykholti 16. júní

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til skógardags laugardaginn 16. júní í Reykholti í Borgarfirði. Skógræktarfélagið stendur fyrir ýmsum uppákomum á árinu og hvetur almenning til þátttöku í mótun umhverfisins, til að fegra það og bæta.
 
Á laugardaginn er ætlunin að sjálfboðaliðar taki þátt í að gróðursetja nokkur þúsund trjáplöntur í skóginum við Reykholt. Hann er ört vaxandi og vænlegur til að bæta veðurskilyrði til búnaðar og indælla mannlífs í Reykholtsdal innan fárra ára ásamt fleiri skógum sem bændur hafa verið að hlúa að og rækta undanfarin ár. Byrjað verður að gróðursetja kl. 16 á laugardaginn og stjórnar Friðrik Aspelund þessum starfsdegi sem Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til og hvetur samborgarana til að taka þátt.

Stjórn Skógræktarfélags Borgarfjarðar

Atvinnuátak í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

100 ungmenni fá vinnu við skógrækt, stígagerð og umhirðu á umsjónarsvæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar. Störfin verða aðallega unnin á útivistarsvæðunum í Smalaholti og Sandahlíð. Atvinnuátakið er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, undirrituðu samning um atvinnuátakið í Smalaholti föstudaginn 15. júní. Þetta er fjórða árið í röð sem slíku atvinnuátaki er hleypt af stokkunum í Garðabæ og líkt og fyrri ár jafngildir samningurinn í ár tæpum 17 ársverkum (200 mannmánuðum).  Á þessum tíma hafa því verið sköpuð tæp 67 ársverk við skógrækt og umhirðu í Garðabæ.

Samningurinn er hluti af atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands sem nær um land allt. Í nafni átaksins hafa verið sköpuð um 50 ársverk á hverju ári síðan 2009 og stefnir í að svipaður fjöldi starfa verði til á þessu ári. Líkt og fyrri ár verða stærstu verkefnin að þessu sinni í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.

atvatak-gbr

Magnús Gunnarsson, Gunnar Einarsson og Barbara Stanzeit handsala samninginn (Mynd: RF).

Hreinsunar- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hreinsunar- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi þriðjudaginn 29. maí, frá kl. 17:00-20:30. Það er ýmislegt sem þarf að gera eins og að raka og hreinsa beð, skipta plöntum og spjalla saman.

Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélag Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands, til minningar um Hermann Lundholm garðyrkjuráðunaut.

Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna og taka með sér gesti.

Þetta er tilvalin leið fyrir félaga til að hittast og spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir félaga sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval.

Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá kl. 17:00.

Á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs má finna ágætis grein um Hermannsgarð og einnig kort af staðsetningu garðsins (undir Guðmundarlundur).