Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Sérkjör fyrir félaga í skógræktarfélögum hjá Skeljungi og Orkunni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Félagsmönnum skógræktarfélaga bjóðast nú sérkjör hjá Skeljungi og Orkunni. Félagsmenn fá afslátt af eldsneyti og af ýmissi vöru og þjónustu hjá samstarfsaðilum Orkunnar og Skeljungi, auk þess sem ein króna af hverjum lítra rennur til Skógræktarfélags Íslands, m.a. til uppbyggingar í Opnum skógum.

Bréf með nánari upplýsingum fylgir með félagsskírteinum ársins 2013.

orkan-skogfelog

Skógræktarfélag Reykjavíkur undirritar samstarfssamning um rekstur og þjónustu í Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jón Gnarr borgarstjóri, Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, skrifuðu undir samstarfssamning þann 3. janúar, um rekstur og þjónustu í Heiðmörk.

Sameiginlegt markmið aðila með samningnum er að standa vörð um neysluvatnsauðlindina í Heiðmörk, efla og bæta útivistarsvæði Reykvíkinga á svæðinu og gera það eftirsóknarverðara til útivistar. Auk vatnsverndar skal sérstök áhersla lögð á að halda við og bæta skóglendi í Heiðmörk, auk fræðslu til almennings, félagasamtaka og skóla.

Aðilar eru sammála um að markmið þeirra fari að þessu leyti saman og séu í samræmi við megintilgang Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem er að vinna að skógrækt , trjárækt og landbótum, auk fræðslu fyrir almenning í Reykjavík og víðar og stuðla að bættu samspili og lífsskilyrðum manna, dýra og gróðurs.

Samningurinn er gerður til 10 ára og samkvæmt honum greiða Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg Skógræktarfélagi Reykjavíkur endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er og nemur greiðslan til Skógræktarfélagsins fyrir árið 2013 tæplega 40 milljónum króna, þar af greiðir Reykjavíkurborg greiðir tæpar 33 milljónir og Orkuveitan tæplega 7 milljónir.

samstarfssamningur

F.v. Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jón Gnarr borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, undirrita samstarfssamninginn.

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol

Jólaskógar skógræktarfélaganna helgina 15.-16. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það verður nóg um að vera í jólaskógum skógræktarfélaganna nú um helgina, en þá verða þó nokkur félög með jólatrjáasölu:

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er með jólatrjáasölu á Gunnfríðarstöðum, sunnudaginn 16. desember, kl. 11-15.

Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi, opið báða dagana kl. 12-16.

Skógræktarfélag Austur-Skaftfellinga er með jólatrjáasölu í Haukafelli á Mýrum laugardaginn 15. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu að Snæfoksstöðum í Grímsnesi, opið kl. 11-16 báða dagana.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar er með jólatrjáasölu í Reykholti laugardaginn 15. desember kl. 11-16, í samstarfi við björgunarsveitina Brák í Einkunnum ofan við Borgarnes 15. desember kl. 11-16 og í samstarfi við björgunarsveitina Heiðar í Grafarkoti í Stafholtstungum báða dagana kl. 12-16.

Skógræktarfélag Dýrafjarðar verður með jólatrjáasölu sunnudaginn 16. desember, kl. 13-16, á Söndum í Dýrafirði.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu á Laugalandi á Þelamörk báða dagana kl. 11-15.

Skógræktarfélag Garðabæjar verður með jólatrjáasölu í Smalaholti laugardaginn 15. desember kl. 12-16.

Skógræktarfélag Grindavíkur verður með jólatrjáasölu í Selskógi laugardaginn 15. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.

Skógræktarfélag Ísafjarðar verður með jólatrjáasölu í hlíðinni ofan við Bræðratungu, innan við Seljalandshverfið, kl. 13-16.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg báða dagana kl. 10-16.

Skógræktarfélag Rangæinga er með jólatrjáasölu sunnudaginn 16. desember í Bolholtsskógi á Rangárvöllum kl. 12-15.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-17 og í Grýludal á Heiðmörk báða dagana, kl. 11-16.

Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu sunnudaginn 16. desember í Hólaskógi og Varmahlíð, kl. 12-15.

Skógræktarfélagið Mörk er með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu, sunnudaginn 16. desember kl. 13-15.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði, opið báða dagana kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 8.-9. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem verða með jólatrjáasölu helgina 8.-9. desember eru:

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi báða dagana kl. 10-16.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu á Laugalandi á Þelamörk báða dagana, kl. 11-15.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg og opnar hún laugardaginn 8. desember. Opið til 23. desember, kl. 10-16 um helgar og kl. 12-16 virka daga.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-17. Jólaskógurinn í Grýludal á Heiðmörk opnar svo þann 8. desember og verður opinn báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Siglufjarðar er með jólatrjáasölu í skógræktinni í Skarðsdal kl. 13-15 (ef snjólalög leyfa).

Skógræktarfélag Skilmannahrepps er með jólatrjáasölu í skógræktarsvæði félagsins við Furuhlíð. Opið báða dagana á meðan bjart er (ca. 11-15).

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.

Jólatrjáasala skógræktarfélaganna helgina 1.-2. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólatrjáasala skógræktarfélaga hefst núna fyrstu helgina í desember. Þau félög sem ríða á vaðið með sölu þessa fyrstu helgi eru Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Fossá-skógræktarfélag.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Salan opnar sunnudaginn 2. desember og er opið kl. 10-18. Salan verður svo opin helgarnar 8.-9. og 15.-16. desember, auk laugardagsins 22. desember, kl. 10-18. Einnig er hægt að koma í heimsókn í miðri viku.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, sem opnar laugardaginn 1. desember. Markaðurinn verður svo opinn allar helgar fram að jólum kl. 11-17. Jólaskógurinn í Grýludal á Heiðmörk opnar svo 8. desember og verður opinn allar helgar fram að jólum, kl. 11-16.

Fossá-skógræktarfélag (Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps) er með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði. Salan opnar sunnudaginn 2. desember og er opið 10:30-15:00. Salan verður svo opin helgarnar 8.-9. og 15.-16. desember og laugardaginn 22. desember.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is og á heimasíðum félaganna: www.skoghf.iswww.heidmork.is og www.skogkop.net.

Skógræktarritið, seinna hefti 2012 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, seinna hefti 2012, er komið út. Á kápu er falleg mynd er nefnist Vetrarfuglar eftir Sigurþór Jakobsson.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

Heiðursvarðar í skógum landsins, eftir Jón Geir Pétursson

„Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, eftir Kristbjörgu Ágústsdóttur

Arður af einum trjágarði – Dálítil saga úr Dýrafirði, eftir Bjarna Guðmundsson

Vöxtur víðis og ásókn fiðrildalirfa, eftir Soffíu Arnþórsdóttur

Ágrip af sögu skóg- og trjáræktar í landi Akureyrarbæjar, eftir Hallgrím Indriðason

Haustlitir, eftir Ágúst H. Bjarnason

Fræðsluferð til Þýskalands, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

Dipterocarpar: Risar asísku frumskóganna, eftir Jón Ásgeir Jónsson

Borgarskógrækt og ræktun græna netsins, eftir Samson B. Harðarson

Tempraða beltið færist yfir, eftir Þröst Eysteinsson og Arnfried Abraham

Lifandi minnisvarðar á Þingvöllum – Saga og tilurð nokkurra skógarlunda í þjóðgarðinum, eftir Einar Örn Jónsson

 

Að auki er að finna umfjöllun um Tré ársins 2012, samantekt frá aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2012 á Blönduósi, upplýsingar um tölfræði skógræktar á Íslandi og minningargrein um Pál Ingimund Aðalsteinsson.

 

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

 

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog (hjá) skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog (hjá) skog.is.

skograektarritid2012-2

Afmælisfundur: 70 ára afmæli Skógræktarfélags Akraness

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Akraness heldur afmælisfund sunnudaginn 18. nóvember, í tilefni 70 ára afmælis félagsins. Fundurinn er haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands og hefst kl. 14.

Dagskrá:
Stefán Teitsson fer yfir sögu félagsins
Hópsöngur – ljóðalestur – Ragnheiður Þóra Grímsdóttir segir sögu.
Fulltrúar bæjarins og Skógræktarfélags Íslands flytja ávörp.
Íris Reynisdóttir garðyrkjustjóri og Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands fjalla um skipulag svæðis við þjóðveginn.

Umræður á eftir.

Kaffi – veitingar

Allir eru hjartanlega velkomnir