Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð í Reykjavík 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð 2013 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. september en það er Ilmbjörk, íslenskt birki í garði Ásmundarsafns. Þær Ingrid Sveinsson, eiginkona Ásmundar Sveinssonar og Anna Sveinsdóttir systir hans gróðursettu tréð á hvítasunnu árið 1944. Tréð stendur á besta stað í garðinum. Það greinist í sex greinar og hefur þjónað nokkrum kynslóðum Reykvíkinga sem klifurtré og gæti sú notkun hafa haft áhrif á lögun þess. Tréð er 4,7 metrar á hæð og hefur breiða krónu sem er um 8 metrar í þvermál.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, mun útnefna tréð. Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður hefur af þessu tilefni samið lag og texta sem hann frumflytur ásamt börnum úr leikskólanum Laufásborg.

Dagskráin hefst kl. 15 í garði Ásmundarsafn og er öllum opin. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg standa að útnefningunni.

borgartre

Nýtt gönguleiðakort um skógræktarsvæði í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.
Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er.

Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð.

Nánar má lesa um kortið á heimasíðu Skógræktarfélags Garðabæjar – www.skoggb.is

sk gbr-kort

Ólag á tölvupósti hjá Skógræktarfélagi Íslands

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Ólag hefur verið á tölvupóstþjónustu Skógræktarfélagsins frá því seinni part fimmtudags og kemst enginn tölvupóstur sem sendur er á netföng félagsins til skila. Verið er að vinna í málinu, en í millitíðinni er þeim sem hafa sent tölvupóst á þessum tíma bent á að hafa samband í síma 551-8150 eða senda tölvupóst á netfangið skogfelag@gmail.com.

Skógardagur í Prestsbakkakoti

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn í Prestsbakkakoti sunnudaginn 18. ágúst kl. 13:30. Skógarbændurnir Jón og Sólveig munu sýna okkur ræktun sína.

Að skoðun lokinni býður Skógræktarfélagið upp á veitingar.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir!

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sunnudaginn 18. ágúst verður hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í Höfðaskógi. Dagskráin stendur á milli kl. 14:00-17:00. 

Bænalundur – Höfðaskógi – kl. 14:00
Helgistund í umsjón séra Gunnþórs Ingasonar
Ganga með Jónatan Garðarssyni formanni Skógræktarfélags Hafnarfjarðar að lokinni helgistund. Gangan tekur um eina klukkustund.

Bækistöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg – kl. 14:45-17:00.
Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikku
Skógargetraun fyrir yngstu kynslóðina. Dregið úr réttum svörum og verðlaun veitt kl. 16:30.
Heitt í kolunum á hlaðinu. Komið með á grillið.
Heitt á könnunni í boði Skógræktarfélagsins.

Hestamiðstöð Íshesta, Sörlaskeiði 26 – kl. 15:00-16:00.
Börnin fá að fara á hestbak í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta.

Skátalundur, skátaskálinn við Hvaleyrarvatn – kl. 15:00-17:00.
Sýning á útskornum munum úr tré.
Hnútakennsla og galdrahnútar fyrir börnin.
Kanóar á Hvaleyrarvatni.
Heitt kakó á könnunni
Gömlu góðu leikirnir í boði ÍTH.

Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélagsins: 555-6455 eða 894-1268.

Nytjamarkaður á Heimaási Við Elliðavatn

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir nytjamarkaði að Elliðavatni í Heiðmörk  helgina 17.-18. ágúst kl. 10 -16.

Allt milli himins og jarðar er vel þegið á markaðinn og er fólk hvatt til að taka til í geymslum, bílskúrum og skúmaskotum. Tekið verður á móti framlögum vikuna fyrir markaðshelgina.
Einnig verður þarna skiptimarkaður á trjáplöntum og fræjum.
Kaffi, kakó og bakkelsi á viðráðanlegu verði.
Lifandi músik, opið svið (þeir sem vilja stíga á stokk hafi samband við Tryggva í 692-1781).  

Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur alla velunnara skógræktar að leggja sér lið og taka þátt í skemtilegum viðburði.

Aðkeyrsla að Elliðavatni er inn Heiðmerkurveg við Rauðhóla.
Nánari upplýsingar í síma 564-1770.

70 ára afmæli Skógræktarfélags S-Þingeyinga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag S-Þingeyinga heldur upp á 70 ára afmæli félagsins laugardaginn 29. júní kl. 14:00 og fer afmælishátíðin fram í Fossselsskógi.

Safnast verður saman í bíla við Vað og ekið að Geiraseli. Þar fara farþegar út en bílstjórar aka áfram niður að bílastæði við beitarhúsin, leggja bílum þar og ganga síðan uppeftir í Geirasel.

Hátíðin hefst á því að Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, formaður Skógræktarfélagsins, setur samkomuna. Næst mun Sigurður Skúlason skógarvörður ávarpa samkomuna og svo mun Indriði Ketilsson, Ytra Fjalli rifja upp sögu félagsins. Boðið verður uppá mislanga skógargöngu eftir merktum göngustígum og farið verður í leiki með börnunum.

Dagskrá endar svo syðst og neðst við beitarhúsin í skóginum á ketilkaffi og veglegri afmælistertu við áningarborð úr lerki frá Skógrækt ríkisins. Ýmis kvenfélög undir hatti Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga gáfu félaginu þetta áningarborð í fyrra til að minnast þess að við lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna þann 19. júní árið 1985, komu konur úr hinum ýmsu kvenfélögum saman í Fossselsskógi og gróðursettu lerkitré í brekku þar rétt hjá sem síðan er kölluð Kvennabrekka.

Allir velkomnir.

Skógræktarritið, fyrra hefti 2013 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, fyrra hefti 2013, er komið út.

Á kápu er fallegt mynd er nefnist „Gyðja vorsins“ eftir Ágúst Bjarnason.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

„Heiðursvarðar í skógum landsins“, eftir Jón Geir Pétursson

„Skógrækt að Hálsi í Eyjafjarðarsveit: Urðarmörk“, eftir Eirík Pál Sveinsson

„Hvaða áhrif hefur það á vöxt og byggingarlag lerkis hversu þétt er gróðursett? Fyrstu niðurstöður frá LT-verkefninu“, eftir Þórveigu Jóhannsdóttur, Lárus Heiðarsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson

„Broddfura 100 ára þegn í gróðurríki landsins“, eftir Kristin H. Þorsteinsson

„Ástand skóga heimsins“, eftir Mette Løyche Wilkie

„Verðmæti leynast í greinum og kvistum“, viðtal Einars Arnar Jónssonar við Guðmund Magnússon

„Af ræktuðum smíðaviði“, eftir Jón Guðmundsson

„Verkefnið Yndisgróður og uppbygging safnreita garð- og landslagsplantna“, eftir Samson Bjarnar Harðarson

„Frumkvöðull skógræktarstarfs á Þingvöllum“, eftir Einar Örn Jónsson

„Flatarmáls skóglendis flokkað eftir sveitarfélögum og skógræktarfélögum“, eftir Björn Traustason

„Hið ljósa tré“, eftir Pétur J. Jónasson

„Sýn og skipulag sumarbústaðalanda“, eftir Jón Ásgeir Jónsson

„Rauðavatnsstöðin – elstu minjar um skógrækt í Reykjavík“, eftir Sigurð G. Tómasson

Að auki eru minningargreinar um Baldur Helgason, Stefán Pétur Eggertsson og Sigvalda Ásgeirsson.

Með ritinu fylgir til áskrifenda nýjasta Frækornið og fjallar það um hlíðaramal.

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog@skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Að auki fylgir nú með fallegur smjörhnífur úr íslenskum viði. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog@skog.is.

skogrit2013-1

Fræðsluganga: Selhólar í Lækjarbotnum – Gróður, jarðfræði og saga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu þriðjudagskvöldið 11. júní undir leiðsögn Friðriks Baldurssonar garðyrkjustjóra Kópavogs og Gísla Bragasonar jarðfræðings. Í Lækjarbotnum er áhugavert útvistarsvæði í fögru umhverfi sem þó fáir vita af. Horft verður sérstaklega til gróðurs, jarðfræði og sögu staðarins.

Lagt verður af stað í gönguna frá bílastæði skammt frá Tröllabörnum við Suðurlandsveg kl. 19:30.

sk kop gangajun