Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013 er að koma út. Kortið prýðir vatnslitamynd eftir Sigurþór Jakobsson og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2013.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í búnti með umslögum á kr. 1.000. 

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér).

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við 250 kr. afgreiðslugjald.
 

tkort2013-max

Borgarskógar – skógrækt í Reykjavík

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Á fundi fulltrúa Skógræktarfélags Reykjavíkur um útivistarskóga í borginni með borgarstjóra og fulltrúum hans að Elliðavatni þann 17. janúar árið 2012 var samþykkt að Skógræktarfélag Reykjavíkur ynni samantekt um skógræktarstefnu borgarinnar sem gæti orðið grunnur að stefnumörkun borgarinnar í skógrækt við vinnslu aðalskipulags.

Var í kjölfarið skipaður starfshópur til að vinna þessu af hendi félagsins, sem vann náið með fulltrúum Reykjavíkurborgar. Niðurstöður þeirrar vinnu eru settar fram í nýútkominni skýrslu Skógræktarfélags Reykjavíkur um Borgarskógrækt. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur (hér).

Myndakvöld: Klettafjöll Colorado

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Garðabæjar býður öllum áhugasömum til myndakvölds þriðjudaginn 5. nóvember kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

Um er að ræða sannkallaða haustlitadýrð úr ferð skógræktarfélaganna til Colorado dagana 26. september til 5. október síðast liðinn.

Allir velkomnir!

sk gbr myndakvold

Afmælishátíð hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Borgarfjarðar stendur fyrir afmælisathöfn laugardaginn 26. október næst komandi kl. 13, við skóglendi félagsins í Grímsstaðagirðingu. Tilefnið er 75 ára afmælis félagsins í ár og til heiðurs gefendum landsins.

Að lokinni stuttri athöfn verður farið til bæjar og boðið upp á veitingar.

Allir velkomnir!

Til að komast að Grímsstaðagirðingunni er ekið sem leið liggur í gegnum Borgarnes, en á hringtorgi er beygt til vesturs og ekið eftir Snæfellsnesvegi (nr. 54). Eftir um 8 km er komið að afleggjara á hægri hönd sem liggur upp að Grímsstöðum. Eftir um 9 km á Grímsstaðavegi er komið að vegslóð á hægri hönd og liggur hún að skógræktargirðingunni.

grimsstadir

Jólaskógurinn í Brynjudal 2013 – byrjað að bóka

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 30. nóvember-1.desember, 7.-8. desember og 14.-15. desember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær. Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða á netfangið skog@skog.is. Einnig má lesa um skóginn á heimasíðunni (hér).

Hæsti hlynur í Hafnarfirði?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar stóð fyrir göngu um Suðurbæ Hafnarfjarðar laugardaginn 5. október og var þar meðal annars hugað að trjágróðri í görðum bæjarbúa og tré þar mæld. Var meðal annars mældur myndarlegur hlynur (sjá á mynd að neðan) og mældist hann 14,5 m á hæð og er þar með að öllum líkindum hæsti hlynur í Hafnarfirði. Eru einhver önnur tilboð um hæsta hlyninn?

skhf1

Þátttakendur í göngunni skoða trjágróðurinn (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

skhf2

Steinar Björgvinsson mundar mælitækið (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

skhf3

Hlynurinn myndarlegi (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

Stefnumótun Skógræktarfélags Reykjavíkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum
Undir leiðsögn og verkstjórn Reynis Kristinssonar unnu stjórn og starfsfólk Skógræktarfélags Reykjavíkur á árunum 2011 – 2013 að stefnumótun þeirri sem hér liggur fyrir. Stefnuplagg á að vera viðmiðun stjórnar og starfsfólks í daglegum ákvörðunum. Þar er reynt að meta alla stærstu þætti í starfi félagsins sem varða framtíð félagsins . Við komumst að niðurstöðu um hvernig við viljum sjá þessa og aðra þætti þróast næstu fimm árin eða svo. Auðvitað er það svo að stefnumótun hjá félagi eins og Skógræktarfélagi Reykjavíkur byggir alltaf á nokkurri óvissu, einkum hvað varðar tekjur. Stefnumótunarvinnan tók því sérstaklega á því verkefni að reyna að festa og treysta  tekjustreymið sem mest, því verkefnin eru næg, þeirra þarf ekki að leita. Fyrir hönd félagsins  þakka ég  öllum þeim sem að þessari vinnu komu og vonast til að þessi stefna auðveldi okkur öllum að efla og styrkja Skógræktarfélag Reykjavíkur.
 
Þröstur Ólafsson, formaður 
 
 

Um afturköllun laga um náttúruvernd

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Stjórn Skógræktarfélags Íslands fagnar ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að afturkalla lög um náttúruvernd sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor.

Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi frumvarpið með ýmsum hætti frá upphafi, auk þess sem félagið fjallaði einnig um svokallaða Hvítbók sem það taldi hæpna grunnstoð til að byggja á.

Nefnd er vann að undirbúningi og gerð frumvarpsins allt frá árinu 2009 var sýnilega skipuð hóp sérfræðinga, lögfræðinga og forsvarsmanna stofnana. Það kom því ekki á óvart að niðurstaða frumvarpsins yrði stofnanamiðuð eftirlitsvæðing náttúruverndar með auknum boðum og bönnum, refsiákvæðum og viðurlögum en auk þess tilkalli til stóraukinna fjármuna úr ríkiskassanum. Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi einnig samráðsleysi og óbilgirni í því sambandi sem dæmi sanna.

Nauðsynlegt er að ráða bót á slíkum vinnubrögðum við endurskoðun náttúruverndarlaganna. Þá kom einnig á óvart að gerðar voru alvarlegar tilraunir til að þrengja stöðu skógræktar og uppgræðslu hér á landi.

Skógræktarfélag Íslands telur í ljósi þeirra miklu gagnrýni sem kom fram á frumvarpið, þar sem hátt í 200 umsagnir komu fram, að nauðsynlegt sé að endurskoða þau frá grunni. Náttúruvernd á Íslandi er mikilvæg. Það er hins vegar nauðsynlegt að um þann lagaramma sem lagður er til grundvallar ríki almenn sátt og þau hafi víðtæka skírskotun í samfélagi hvers tíma.

Lesa má umsögn félagins til Alþingis um tillögu að lögum um náttúruvernd hér (pdf).

Opinn skógur á Skógum undir Eyjafjöllum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af vígslu Völvuskógar á Skógum undir Eyjafjöllum sem ,,Opins skógar“  og  Degi íslenskrar náttúru þann 16. september, verður efnt til hátíðardagskrár sunnudaginn 15. september, kl. 14:00.

Dagskrá

Ávörp flytja:

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands,
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis– og auðlindaráðherra,
Ágúst Árnason, fulltrúi fyrrum nemenda Skógaskóla og
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra

Boðið verður upp á ratleik og leiðsögn um skóginn, Viðarbandið spilar tónlist og boðið verður upp á veitingar.

Allir velkomnir!

Sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 14. september er hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gróðursett verður í Vatnshlíðina norður af Hvaleyrarvatni í minningarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Hafist verður handa kl. 10.00 og er áætlað að taka um tvær klukkustundir í þetta. Boðið verður upp á snarl að verki loknu. Öllum er velkomið að taka þátt -margar hendur vinna létt verk!

Mæting í Vatnshlíðina. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélagsins 555-6455 eða 894-1268.