Grænni skógar I er skógræktarnám ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum og áhugasömum skógræktendum sem vilja auka þekkingu sína og ná betri árangri í skógrækt.
Grænni skógar I er alls 16 námskeið (2-3 námskeið á önn). Námskeiðaröðin stendur yfir í þrjú ár (6 annir). Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi og lýkur námskeiðaröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskólanum. Slík einingagjöf er háð því að nemendur hafi sótt 80% skyldunámskeiðanna og staðist námsmat.
Hvert námskeið tekur tvo daga og er kennt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 09:00 til 16:00 á laugardegi. Námskeiðin byggjast upp á fræðsluerindum sem sérfræðingar á hverju sviði flytja. Reynt verður að fara í vettvangsferð í lok hvers námskeiðs og fá þannig meiri og betri tilfinningu fyrir því sem verið er að fjalla um hverju sinni. Einnig er verkleg kennsla á nokkrum námskeiðanna. Landbúnaðarháskóli Íslands sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru: Félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógræktin og Landgræðsla ríkisins.
Á námskeiðunum er fjallað um mörg af grunnatriðum skógræktar, m.a. val á trjátegundum, skógarhönnun og landnýtingaráætlanir, undirbúning lands fyrir skógrækt, framleiðslu og gróðursetningu skógarplantna, skógarumhirðu, skógarnytjar, sjúkdóma og skaða í skógi, skjólbelti, skógarhöggstækni og verndun fornminja og náttúru í skógrækt, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur vikuferð til útlanda verið hluti af náminu þar sem þátttakendur kynnast því helsta sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera í skógrækt.
Námskeiðaröð Grænni skóga I á Suður- og Vesturlandi hefst 22. september kl. 15:30.
Kennt verður í starfstöðvum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi (Garðyrkjuskólanum) og á Hvanneyri. Farið í vettvangsferðir í skóglendi í nágrenninu.
Nánari upplýsingar hjá verkefnisstjóra Grænni skóga, Björgvini Eggertssyni, netfang: bjorgvin@lbhi.is, sími 843-5305.
Þátttökugjald er 49.000 kr. á önn (tvær annir á ári, samtals 6 annir). Innifalið er kennsla, kaffi, hádegismatur og námsgögn á rafrænu formi.
Hægt er að sækja um styrki fyrir námskeiðum hjá starfsmenntasjóðum, eins og t.d. starfsmenntasjóði bænda (www.bondi.is).
Skráning á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands www.lbhi.is /Endurmenntun og námskeið/ Námskeið í tímaröð.
Skráningarfrestur er til 12. september.
Hámarksfjöldi þátttakenda er 30.
Eina leiðin til að tryggja sér öruggt pláss er að skrá sig sem fyrst.
Nýlegar athugasemdir