Skip to main content
Flokkur

Aðalfundir

Aðalfundur 2014

Með Aðalfundir

79. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi dagana 15. -17. ágúst 2014. Skógræktarfélag Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarsson, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Jens B. Baldurssonar, formanns Skógræktarfélags Akraness, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Ólafs Adolfssonar, formanns bæjarráðs Akraness.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Hannibal Hauksson ferðamálafulltrúi stutt erindi um Akranes. Eftir hádegisverð var svo farið í nefndastörf.

Að nefndastörfum loknum hélt Jón Guðmundsson erindi um eplarækt á Akranes, en því næst var farið í vettvangsferð. Byrjað var á skoðunarferð um Akranes, með viðkomu í garði Jóns, en síðan var stefnan tekin á Slögu, skógarreit Skógræktarfélags Akraness í hlíðum Akrafjalls, þar sem farið var í göngu um skóginn. Vettvangsferðin endaði svo í Garðalundi, þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur og aðra hressingu.

Dagskrá laugardagsins hófst á fræðsluerindum. Jens B. Baldursson og Bjarni Þóroddsson fjölluðu um skógrækt á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, Þorsteinn Hannesson, sérfræðingur hjá Elkem, fjallaði um nýtingu viðar í framleiðsluferli Elkem, Þorbergur Hjalti Jónsson fór yfir samstarf Skógræktar ríkisins við Elkem, Halldór Sverrisson sagði frá helstu nýju skaðvöldum í skógi og Else Möller fór yfir hvernig bæta mætti gæði og magn jólatrjáa í ræktun hjá skógræktarfélögunum.

Erindi – Þorsteinn Hannesson (pdf)
Erindi – Þorbergur Hjalti Jónsson (pdf)
Erindi – Halldór Sverrisson (pdf)
Erindi – Else Möller (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var garðurinn við bæinn Gröf í Hvalfjarðarsveit skoðaður, en þaðan var haldið í Álfholtsskóg, svæði Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Gengið var um skóginn og endað þar á hressingu og ljúfum harmonikkuleik, auk þess sem tvö tré voru hæðarmæld.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Gísla Gíslasonar, en þess má til gamans geta að hann var einnig veislustjóri síðast þegar aðalfundur var haldinn á Akranesi, árið 1992. Á kvöldvökunni voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Bjarni O.V. Þóroddsson, Guðjón Guðmundsson, Stefán Teitsson og Þóra Björk Kristinsdóttir. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands. Tók Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga (sem átti 70 ára afmæli) við skjali og alaskaepliplöntu af því tilefni, en ekki voru mættir fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum á kvöldvökuna. Deginum lauk svo með balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Magnús Gunnarsson var endurkjörinn formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sem hafði verið varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Gísla Eiríkssonar, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Í varastjórn voru kosin Sigríður Heiðmundsdóttir, Kristinn H. Þorsteinsson og Laufey B. Hannesdóttir.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2014 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2013-2014 (pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ársreikningur 2013- Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (pdf)

Ársreikningur 2013 – Yrkjusjóður (pdf)

Aðalfundur 2013

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 78. aðalfund sinn í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli í Garðabæ dagana 23. – 25. ágúst 2013. Skógræktarfélag Garðabæjar var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, alls staðar af landinu, sóttu fundinn, og tókst hann vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Erlu Biljar Bjarnardóttur, formanns Skógræktarfélags Garðabæjar, Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra. Einnig hélt Hulda Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, stutt erindi um bæinn.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegisverð var farið í nefndastörf og svo í vettvangsferð er þeim var lokið. Var byrjað á að heimsækja Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem Jón Gunnar Ottósson forstjóri, hélt stutta kynningu á stofnuninni, en því næst var ekið sem leið lá að Grænagarði í Garðaholti, sem er fallegur skógarreitur sem hjónin Sigurður Þorkelsson og Kristín Gestsdóttir ræktuðu upp. Sagði Hólmfríður Sigurðardóttir, dóttir þeirra hjóna, frá reitnum. Því næst var haldið í Vífilsstaðahlíð, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð upp á hressingu og undirritaður var þjónustusamningur milli Garðabæjar og Skógræktarfélags Reykjavíkur um umsjón með Garðabæjarhluta Heiðmerkur. Voru það Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem gerðu það.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fjallaði um eldvarnir á skógræktarsvæðum, Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, sagði frá hugmyndum um skipulag skógræktar á Úlfljótsvatni, Þráinn Hauksson fjallaði um útivistar-og skógræktarhluta svæðisskiplags höfuðborgarsvæðisins og Gústaf Jarl Viðarsson sagði frá skógrækt í aðalskipulagi. Einnig sagði Erla Bil Bjarnardóttir stuttlega frá skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ. Því næst var sýnd ný stuttmynd eftir Gísla Gestsson kvikmyndagerðarmann um upphaf Landgræðsluskóga.

Erindi Björn B. Jónsson (pdf)
Erindi Brynjólfur Jónsson (pdf)
Erindi Gústaf Jarl Viðarsson (pdf)
Erindi Þráinn Hauksson (pdf) 

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var ekið að Smalaholti, þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gróðursetti 20 milljónustu Landgræðsluskógaplöntuna, en fyrsta plantan í verkefninu var einmitt gróðursett í Smalaholti, af Vigdísi, árið 1990. Frá Smalaholti var svo gengið yfir í Sandahlíð, þar sem Skógræktarfélag Garðabæjar bauð upp á hressingu og ljúfa tóna hornleikara í skóginum.

Síðast á dagskránni á laugardaginn var hátíðarkvöldverður og kvöldvaka í umsjón gestgjafanna, undir styrkri stjórn Guðna Ágústssonar. Flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, þar ávarp. Einnig voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Barbara Stanzeit, Erla Bil Bjarnardóttir, Sigurður Björnsson og Sigurður Þorkelsson. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands, en það voru Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára), Skógræktarfélag Bolungarvíkur (50 ára), Skógræktarfélagið Landbót (20 ára), Skógræktarfélag Rangæinga (70 ára), Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára) og Skógræktarfélag S-Þingeyinga (70 ára). Tóku Dagur Jóhannesson, Skógræktarfélagi S-Þingeyinga og Jón Ragnar Örlygsson, formaður Skógræktarfélags Rangæinga, við skjali og myndarlegri elriplöntu af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Deginum lauk svo með balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar.


Umfjöllun um aðalfundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2013 (pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (pdf)

STARFSSKÝRSLA SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 2012-2013 (pdf)

SKÝRSLA LANDGRÆÐSLUSJÓÐS (pdf)

Aðalfundur 2012

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt sinn 77. aðalfund í Félagsheimili Blönduóss á Blönduósi dagana 24.-26. ágúst 2012. Skógræktarfélag A-Húnvetninga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Jóns Geirs Péturssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Páls Ingþórs Kristinssonar, formanns Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Kári Kárason bæjarfulltrúa Blönduósbæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var farið í nefndastörf, en að þeim loknum var haldið í vettvangsferð. Gengið var frá Félagsheimilinu að Yndisgarði á Blönduósi, þar sem Samson B. Harðarson kynnti garðinn og hugmyndina þar á bak við. Því næst var gengið að Jónslundi við Hrútey og þaðan út í eyna. Síðan var stigið upp í rútur og ekið sem leið lá að Mánafossi við Laxá á Ásum, þar sem haldið var í eftirminnilega gönguferð um skóginn, sem endaði við sumarhús, þar sem húsráðendur, Páll A. Jónsson og Ásdís Björgvinsdóttir buðu upp á hressingu fyrir fundargesti. Eftir góða samkomu í skóginum var svo haldið aftur á Blönduós.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, hélt erindi um samfélagið á Blönduósi, gróðurfar og atvinnulíf. Helena Marta Stefánsdóttir sagði frá Skógvatn-rannsókninni, er fjallar um áhrif trjágróðurs á líf í lækjum. Magnús Björnsson frá Hólabaki sagði því næst frá skógrækt í Kína og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins, fjallaði um lerkikynbætur.

Erindi Ágúst Þór Bragason (pdf)
Erindi Helena Marta Stefánsdóttir (pdf)
Erindi Magnús Björnsson (pdf)
Erindi Þröstur Eysteinsson (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Var fyrst ekið að Fjósum í Svartárdal, þar sem fundargestum var kynntur skógurinn og gefin smá hressing, en því næst var stutt skoðun á áhugaverðri skógrækt í  Blöndudalshólum. Að því loknu var haldið í Gunnfríðarstaðaskóg, þar sem afhjúpað var nýtt skilti með upplýsingum um Gunnfríðarstaði. Einnig var undirritaður samningur um stækkun landgræðsluskógasvæðisins í Vatnahverfi og skrifuðu Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, undir samninginn. Aðalfundargestir þáðu veitingar hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga og hlustuðu á ljúfa tóna harmonikkuleikara sem spilaði einnig undir mikinn fjöldasöng.

Síðan var  boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags A-Húnvetninga, undir stjórn veislustjórans Ágústs Þórs Bragasonar. Voru fimm aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það sr. Árni Sigurðsson, Erla Hafsteinsdóttir, Gísli Pálsson, Jónas Bjarnason og Vigdís Ágústsdóttir. Einnig var Gísli Gestsson gerður að heiðursfélaga á fundinum.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Akraness (70 ára), Skógræktarfélag Bíldudals (20 ára), Skógræktarfélag Djúpavogs (60 ára), Skógræktarfélag Dýrafjarðar (20 ára), Skógræktarfélag Heiðsynninga (60 ára), Skógræktarfélag Önundarfjarðar (20 ára) og Skógræktarfélagið Kvistur (20 ára). Tók Jens B. Baldursson, formaður Skógræktarfélags Akraness, við skjali og blómi af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Fundi lauk svo um eitt-leytið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2012 (pdf) 

Fundargögn:

Dagskrá fundar (pdf)
Starfsskýrsla 2011-2012 (pdf)
Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Aðalfundur 2011

Með Aðalfundir

76. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á Grundarfirði dagana 2.-4. september 2011. Skógræktarfélag Eyrarsveitar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Andrésar Inga Jónssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Gunnars Njálssonar, formanns Skógræktarfélags Eyrarsveitar, Björns Steinars Pálmasonar, bæjarstjóra Grundarfjarðar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Ekið var áleiðis að Hallbjarnareyri og svo heimsóttur Eiðisskógur, einn skóga Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Frá honum var haldið til Ólafsvíkur, þar sem gengið var um skógræktarsvæði ofan bæjarins. Endaði heimsóknin á því að undirskrifaður var samningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Snæfellsbæjar um Landgræðsluskóg út frá núverandi skógi. Einnig var undirritaður samstarfssamningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Grunnskóla Snæfellsbæjar um notkun á gömlu fjárhúsi á svæðinu til fræðslu. Að því loknu var ekið til Hellissands, þar sem  Opinn skógur í Tröð var heimsóttur, en þar bauð Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli upp á hressingu og gönguferð um svæðið. Deginum lauk svo með nefndarstörfum að loknum kvöldmat.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björg Ágústsdóttir, frá Ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sagði frá hugmyndum um svæðisgarð á Snæfellsnesi, Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, sagði frá þjóðgarðinum, Sigurborg K. Hannesdóttir flutti hugvekju um manneskjuna í skóginum og Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, fjallaði um áhrif eldgosa og ösku á gróður.

Erindi Guðbjargar Gunnarsdóttur (pdf)
Erindi Hreins Óskarssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Brekkuskóg ofan Grundarfjarðar, en þar var ný aðkoma formlega tekin í notkun. Gengið var um skóginn og endað á hressingu í skógarlundi.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Eyrarsveitar, undir stjórn veislustjórans Gunnars Kristjánssonar. Voru fjórir félagar í Skógræktarfélagi Eyrarsveitar heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins og skógræktar og voru það Pálína Gísladóttir, Vigdís Gunnarsdóttir og hjónin Arnór Páll Kristjánsson og Auður Jónasdóttir.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2011 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2010-2011 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ályktanir fundar (pdf)

Aðalfundur 2010

Með Aðalfundir

75. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Selfossi dagana 27.-29. ágúst 2010.
Skógræktarfélag Árnesinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, Kjartan Ólafssonar, formanns Skógræktarfélags Árnesinga, Johan C. Löken, formanns Skógræktarfélags Noregs, Elfu Daggar Þórðardóttur, formanns framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var farið í Tryggvagarð, þar sem afhjúpaður var bautasteinn til minningar um Tryggva Gunnarsson og til að marka garðinn. Því næst var haldið að Snæfoksstöðum í Grímsnesi,  skógræktarsvæði Skógræktarfélags Árnesinga. Þar var farið í skoðunarferð um skóginn, sem lauk með afhjúpun þriggja bautasteina, með nöfnum deilda Skógræktarfélags Árnesinga, formönnum og stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins. Einnig var Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður félagsins, gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands við þetta tækifæri. Vettvangsferðinni lauk svo með skógarveislu í skjólinu í skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ólafur Sturla Njálsson frá Gróðrarstöðinni Nátthaga fjallaði um evrópulerki, Ragnar Sigurbjörnsson, prófessor og forstöðumaður Jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands á Selfossi sagði frá stofnunni og jarðskjálftum á Suðurlandi, Jón Kr. Arnarson frá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um trjárækt við erfið skilyrði, Egill R. Sigurgeirsson læknir sagði frá býflugum og hunangsframleiðslu og Eiríkur Benjamínsson  fjallaði um sitkagreni.

Erindi Ólafs Sturlu Njálssonar (pdf)
Erindi Ragnars Sigurbjörnssonar (pdf)
Erindi Jóns Kr. Arnarsonar (pdf)
Erindi Egils R. Sigurgeirssonar (pdf)
Erindi Eiríks Benjamínssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hellisskóg, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Selfoss, en það er deild í Skógræktarfélagi Árnesinga. Nutu fundargestir skógarins í sól og blíðu veðri, undir leiðsögn Bjarna Harðarsonar.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Árnesinga, undir styrkri stjórn veislustjórans Guðna Ágústssonar. Meðal annars færði Skógræktarfélag Íslands þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli (20 ára), Skógræktarfélag Strandasýslu (60 ára), gestgjafar fundarins, Skógræktarfélag Árnesinga (70 ára) og Skógræktarfélag Eyfirðinga (80 ára). Auk þess á Skógræktarfélag Vestmannaeyja 10 ára afmæli, en fulltrúi þess félags átti því miður ekki tök á að koma á kvöldvökuna.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2010 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2009-2010 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ályktun fundarins (pdf)

Aðalfundur 2009

Með Aðalfundir

74. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Höfn í Hornafirði dagana 28.-30. ágúst 2009.

Skógræktarfélag A-Skaftfellinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel. 

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Elínar S. Harðardóttur, formanns Skógræktarfélags A-Skaftfellinga, Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra Hornafjarðar og Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins. Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka suður á Mýrar að Hellisholti og skoðuð skógrækt þar í blíðskaparveðri. Því næst var haldið á svæði Skógræktarfélags A-Skaftfellinga að Haukafelli á Mýrum, þar sem vígð var ný brú að svæðinu og farið í gönguferð um skóginn. Gustaði hressilega um fundargesti í Haukafelli og kom þá vel í ljós hversu gott skjól fæst af skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fjórum fræðsluerindum. Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, hélt erindi er nefnist Virkjum sköpunarkraftinn sem í okkur býr, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor fjallaði um landnám og útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur fjallaði um jökla og loftslagsbreytingar á Íslandi og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins fjallaði um framtíðarsýn í íslenskri skógrækt.

Erindi Ara Þorsteinssonar (pdf) (4 Mb)
Erindi Þrastar Eysteinssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð um skóga í nágrenni Hafnar, í sólskini og ágætis veðri. Byrjað var á göngu að Hrossabithaga, gengið þaðan í Hafnarskóg og endað í Einarslundi, þar sem minningarsteinn um Einar Hálfdánarson var vígður.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar. Þar veitti Skógræktarfélag Íslands viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, en það voru  Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson og Björn Bjarnarson. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Skilmannahrepps (70 ára) og Skógræktarfélag Kópavogs (40 ára).

Upplýsingar um handhafa viðurkenninga (pdf)

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Eftir hádegi var svo boðið upp á skoðunarferð í Steinadal í Suðursveit, fyrir þá sem áhuga höfðu og nýttu margir sér það tækifæri.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2009 (pdf)

Fundargögn: 

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2008-2009 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Samþykktar ályktanir (pdf)

Aðalfundur 2008

Með Aðalfundir

73. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 15.-17. ágúst.

Skógræktarfélag Ísafjarðar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á þriðja hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn sérlega vel.

Fundurinn hófst föstudaginn 15. ágúst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns félagsins. Fyrst tók til máls Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, sem flutti fundinum kveðju Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Næst ávarpaði fundinn Magdalena Sigurðardóttir, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar og bauð fundargesti velkomna. Því næst tók til máls Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fjallaði hann meðal annars um aðkomu Ísafjarðarbæjar að skógrækt í bæjarfélaginu. Seinastur tók til máls Jón Loftsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Magnús Gunnarsson kynnti starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands og því næst fór Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, yfir reikninga þess. Jón Loftsson fór svo yfir reikninga Landgræðslusjóðs.

Eftir hádegi héldu fundargestir til Sanda í Dýrafirði, þar sem afhjúpað var nýtt skilti í skóginum. Skógræktarfélag Dýrafjarðar hefur haft umsjón með ræktun að Söndum en Toyota á Íslandi hefur í hartnær tvo áratugi styrkt skógrækt þar. Í tilefni dagsins færði Magnús Kristinsson, stjórnarformaður Toyota, Skógræktarfélagi Dýrafjarðar að gjöf nestisborð fyrir skóginn og keðjusög, sem nýtast mun við grisjun skógarins er fram líður, og tók Sigrún Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Dýrafjarðar, við gjöfinni. Því næst tóku fundargestir þátt í hátíðargróðursetningu og settu niður um hundrað tré, af ýmsum tegundum berjatrjáa og runna. Munu því Sandar verða geysigott berjaland, er frá líður, en þar er nú þegar gott krækiberja- og bláberjaland, eins og fundargestir sannreyndu!

Að gróðursetningu lokinni var haldið til Víkingasetursins á Þingeyri, þar sem fundargestir fengu kaffi, heitt kakó og heimabakstur frá kvenfélaginu á staðnum. Formlegri dagskrá lauk svo með því að Elfar Logi Hannesson, frá Komedíuleikhúsinu, flutti brot úr sýningunni Gísli Súrsson, við góðar undirtektir viðstaddra.

Deginum lauk svo með nefndarstörfum eftir að komið var til Ísafjarðar.

Fundur á laugardaginn 16. ágúst hófst með áhugaverðum fræðsluerindum. Kevin Collins, frá Irish Forest Service fjallaði um tvö verkefni er hann hefur komið að, NeigbhourWood (Grenndarskógar) og Sculpture in Woodland (Styttur í skógi). Því næst fjallaði Þorvaldur Friðriksson útvarpsmaður um keltneskar rætur örnefna á Íslandi. Síðast en ekki síst sagði Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur frá Ísafirði og uppbyggingu bæjarins.

Eftir hádegisverð tók svo við skemmtileg skoðun á skógarsvæðum Skógræktarfélags Ísafjarðar í nágrenni bæjarins. Skoðaður var skógurinn í Stóruurð, þar sem Elfar Logi Hannesson flutti smá leikþátt í skóginum, við undirleik Guðmundar Þrastarsonar. Því næst var gengið yfir í Tunguskóg, þar sem boðið var upp á hressingu og harmonikkuleik Karls Jónatanssonar.

Á laugardagskvöldið var svo kvöldvaka í Edinborgarhúsinu. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, stýrði fjölbreyttri dagskrá með röggsemi og gamanmálum. Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir tók tvö lög á harmonikku og Helga Margrét Marsellíusardóttir, Dagný Hermannsdóttir og Svanhildur Garðarsdóttir tóku nokkur lög, við undirleik Samúels Einarssonar. Einnig voru veittar tvær viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og fengu þær Guðrún Hafsteinsdóttir og Magdalena Sigurðardóttir. Einnig var þeim skógræktarfélögum, sem eiga tugaafmæli á árinu, færðar árnaðaróskir og eðalhlynur að gjöf.

Síðan var stiginn dans fram eftir nóttu og skemmtu allir sér vel.

Á sunnudeginum voru hefðbundin aðalfundarstörf um morguninn. Ein breyting var samþykkt á lögum Skógræktarfélagsins, þess eðlis að formaður er nú kosinn beinni kosningu á aðalfundi. Þrettán tillögur voru afgreiddar og kosin var ný stjórn. Þrír stjórnarmenn létu af störfum, Jónína Stefánsdóttir, Ólafía Jakobsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Í þeirra stað voru kosin Sigrún Stefánsdóttir, Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Gísli Eiríksson, Skógræktarfélagi Ísafjarðar og Gunnlaugur Claessen, Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Varamenn voru kosnir Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi A-Húnvetninga, Rannveig Einarsdóttir, Skógræktarfélagi A-Skaftfellinga og Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélags Íslands.

Við þökkum Skógræktarfélagi Ísafjarðar og öðrum er komu að skipulagningu og þjónustu fyrir vel unnið starf.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2008 (.PDF)

Aðalfundur 2007

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2007 var haldinn á Egilsstöðum dagana 17.-19. ágúst. Fundurinn var haldinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Fundurinn hófst að morgni föstudagsins 17. ágúst. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf var ferð á vegum Skógræktarfélags Austurlands eftir hádegið. Byrjað var í nýrri starfsstöð Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum, en þaðan var haldið í Hrafngerðisskóg. Því næst var farið að Víðivallagerði í Suðurdal í Fljótsdal. Deginum lauk svo með nefndarstörfum um kvöldið.

Laugardaginn 18. ágúst hófst dagskráin með fræðsluerindum um morguninn.Hallur Björgvinsson, Suðurlandsskógum, fjallaði um geymslu, meðhöndlun og flutning skógarplantna. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, fjallaði um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á trjátegundir og tegundaval í skógrækt með tilliti til spáa um hlýnandi loftslag. Halldór Sverrisson, Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallaði um trjákynbótaverkefnið Betri tré. Þorsteinn Tómasson, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, fjallaði um erfðaefni í skógrækt á Íslandi og aðferðir til að velja tré með gott erfðaefni til ræktunar. Eftir hádegið var svo skoðunarferð í Hallormsstaðaskóg, sem lauk í Trjásafninu á Hallormsstað með viðhafnarathöfn þar sem útnefnt var tré ársins 2007, sem er stór og stæðileg lindifura sem stendur í Trjásafninu. Um kvöldið var svo kvöldvaka í Menntaskólanum, með fjölbreyttri dagskrá. Meðal annars voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar. Þær fengu Guttormur V. Þormar, bóndi í Geitagerði á Fljótsdal og einn af fyrstu skógarbændum á Héraði, Orri Hrafnkelsson, formaður Skógræktarfélags Austurlands til fjöldamargra ára og bræðurnir Baldur og Bragi Jónssynir, en þeir hafa unnið alla sína starfsævi í skóginum á Hallormsstað.

Sunnudaginn 19. ágúst voru hefðbundin aðalfundastörf og lauk svo fundinum um hádegið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2007 (.PDF)

Aðalfundur 2006

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2006 var haldinn í Hafnarborg í Hafnarfirði, dagana 26.-27. ágúst 2006. Gestgjafar voru Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, sem fagnaði 60 ára afmæli á árinu.