Skip to main content
Flokkur

Aðalfundir

Aðalfundur 2024

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 var haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september og voru Skógræktarfélag Neskaupstaðar, Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Skógræktarfélag Eskifjarðar sameiginlega gestgjafar fundarins. 

Fundurinn hófst föstudagsmorguninn 30. ágúst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Eftir hádegisverð var komið að kynningu á gestgjafafélögunum. Anna Bergljót Sigurðardóttir kynnti Skógræktarfélag Neskaupstaðar, Steinar Ísfeld kynnti Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, kynnti Skógræktarfélag Eskifjarðar í forföllum Kristins Þórs Jónassonar, formanns Skógræktarfélags Eskifjarðar, sem þurfti að vera við jarðarför. H 

Að kynningum loknum var haldið í vettvangsferð, þar sem heimsóttur var skógarlundur hjá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og fengin kynning á viðarvinnslu hjá Tandrabergi á Eskifirði. 

Dagskrá laugardagsins 31. ágúst hófst með nefndastörfum en að þeim loknum var boðið upp á fræðsluerindi. Gunnar Ólafsson fjallaði um steingervinga hinna ýmsu trjátegunda sem fundist hafa í jarðlögum, Þórunn Hálfdánardóttir sagði frá ræktun skógarteigs við Kirkjumel, Hlynur Sveinsson og Daði Benediktsson sögðu frá snjóflóðunum í Neskaupstað og björgunarstarfi í kringum þau og í lokin sagði Brynjólfur Jónsson frá starfsemi Skógræktarfélags Íslands á Úlfljótsvatni. 

Eftir hádegið var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Hjallaskóg, sem Skógræktarfélag Neskaupstaðar hefur ræktað upp og síðan heimsóttur skógarteigur við Kirkjumel. Um kvöldið var komið að hátíðarkvöldverði, þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp. Þar voru einnig sex félagar úr hópi gestgjafanna heiðraðir og voru það Kristinn Ólafur Briem, Guðrún Jóhanna Kjartansdóttir og Ásmundur Ásmundsson frá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og Auður Bjarnadóttir, Bjarni Aðalsteinsson, Sigurborg Hákonardóttir og Benedikt Sigurjónsson frá Skógræktarfélagi Neskaupstaðar, en þess má til gamans geta að Auður er elsti félagi Skógræktarfélags Neskaupstaðar, 98 ára að aldri. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu og voru með fulltrúa á staðnum færðar árnaðaróskir. 

Á sunnudegi var aftur komið að hefðbundnum aðalfundarstörfum – afgreiðslu reikninga og stjórnarkjöri. Úr stjórn gengu Þuríður Yngvadóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness og Berglind Ásgeirsdóttir, Skógræktarfélagi Suðurnesja. Ný í stjórn voru kosin Hrefna Hrólfsdóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Sverrir Bollason, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Pavle Estrajher, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Fyrir í stjórn voru Jónatan Garðarsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Nanna Sjöfn Pétursdóttir, Skógræktarfélagi Bíldudals og Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Björn Traustason. 

Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins og skipulagsskrá Landgræðslusjóðs, sem þurfti vegna sameiningar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun, Land og skóg. 

Sjö tillögur að ályktunum aðalfundar voru einnig samþykktar:

1. Lúpína 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, skorar á Land og skóg að hefja rannsóknir til að styðja við gerð raunhæfra reglna um notkun lúpínunnar og hefja á ný framleiðslu, notkun og sölu á lúpínufræi ásamt tilheyrandi Rizobium smiti.

2. Grindavíkurlundir 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur skógræktarfélög á suðvesturhorni landsins til að koma á fót „Grindavíkurlundum“ á sínu starfssvæði þar sem félagar úr Skógræktarfélagi Grindavíkur og aðrir Grindvíkingar fái svæði til ræktunar.

3. Lausaganga búfjár

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst – 1. september 2024, hvetur ríki og sveitarfélög til þess að fylgja eftir vörsluskyldu búfjár.

4. Styrkir til útivistarskóga 

Aðalfundur Skógræktarfélag Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur matvælaráðherra til að hlutast til um að komið verði á sérstöku styrkjarkerfi fyrir uppbyggingu, grisjun og umhirðu útivistar- og lýðheilsuskóga. Með aukinni umhirðu eykst gildi skóganna til útvistar og notkun eykst. Raunverulegur kostnaður við þessa vinnu er margfaldur á við þær fjárhagslegu tekjur sem af skógunum eru og skógræktarfélög hafa ekki bolmagn til að standa undir þeim kostnaði. Ávinningur af þessum skógum er hins vegar alls samfélagsins.

5. Starfshópur skógræktarfélaga 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 felur stjórn að hefja án tafar stefnumörkunarvinnu í samvinnu við aðildarfélög þar sem hlutverk og markmið félagsins verða brýnd. Taka verður tillit til breytinga sem eru að verða á þróun skóga og samfélags.

6. Upplýsingaróreiða gagnvart skógrækt 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur vísindamenn með akademískar kennslustöður við innlenda háskóla til þess að vanda orðræðu sína opinberlega og í fjölmiðlum. Gæta verður hlutlægni og forðast bæði tilhæfulausa sleggjudóma og að vísindalegri þekkingu og eigin skoðunum sé blandað saman. Til að minnka upplýsingaóreiðu á útgangspunkturinn alltaf að vera gagnreynd vísindaleg þekking eins og hún birtist í niðurstöðum ritrýndra rannsókna.

7. Rannsóknir á losun vegna jarðvinnslu 

Fyrir upplýsta umræðu um áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap vantar frekari rannsóknir á málefninu hér á landi. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 31. ágúst.-1. september 2024, hvetur Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Landbúnaðarháskóla Íslands og Land og Skóg til að forgangsraða rannsóknum á losun kolefnis vegna jarðvinnslu.

 

Fundargögn:

Dagskrá fundar (pdf)

Samvinnunefnd – samantekt (pdf)

Starfsskýrsla 2023-2024 (pdf)

Söngbók (pdf)

 

Reikningar:

Skógræktarfélags Íslands 2023 (pdf)

Landgræðslusjóður 2023 (pdf)

Kolviður 2023 (pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu 2023 (pdf)

Úlfljótsvatn sf. 2023 (pdf)

Yrkja 2023 (pdf)

 

Aðalfundur 2023

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 var haldinn á Patreksfirði dagana 1.-3. september 2023 og voru Skógræktarfélög Patreksfjarðar, Bíldudals og Tálknafjarðar gestgjafar fundarins. Var þetta 88. aðalfundur félagsins.

Góð mæting var á fundinn, en um 150 þátttakendur víðs vegar af landinu mættu til fundar. Fundurinn hófst eins og venja er á föstudagsmorgni með ávörpum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn. Því næst tók til máls Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Að ávarpi hans lokinu færði Jónatan honum og Tønnes Svanes, sendifulltrúa Norska sendiráðsins á Íslandi fyrstu eintök af nýútkominni bók, gefinni út af Skógræktarfélagi Íslands og Norska skógræktarfélaginu. Jónatan hélt að því loknu ávarp. Næst upp í pontu var Nanna Sjöfn Pétursdóttir, formaður Skógræktarfélags Bíldudals og bauð hún fundargesti velkomna. Tønnes Svanes var næstur á mælendaskrá og eftir honum hélt ávarp Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar. Síðastur á mælendaskrá var Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands, skýrslu Landgræðslusjóðs, tillagna að ályktunum og skipan í nefndir. Að hádegisverðu loknum var komið að kynningu á gestgjöfunum. Úlfar Thoroddsen kynnti starf Skógræktarfélags Patreksfjarðar, Brynjólfur Gíslason kynnti til leiks skógræktarfélag Tálknafjarðar og Nanna Sjöfn Pétursdóttir Skógræktarfélag Bíldudals. Brynjólfur Jónsson og Óskar Guðmundsson kynntu svo bókina sem forsetanum hafði verið færð.

Að kynningum loknum var komið að vettvangsferð, sem var um skóglendi Tálknafjarðar. Byrjað var á göngu eftir Brynjólfsstíg í skógin ofan þorpsins og því næst haldið til Kvígindisfells, þar sem Lilja Magnúsdóttir leiddi gönguferð um skóginn og var endað á hressingu í útihúsunum á Kvígindisfelli.

Dagskrá laugardags hófst á nefndastörfum, en að þeim var komið að fræðsluerindum. Lovísa Ásbjörnsdóttir flutti erindi um plöntusteingervinga í Surtarbrandsgili, Björn Traustason fór því næst yfir framgang birkis á Vestfjörðum, Hreinn Óskarsson sagði frá skógræktarreit í Vestur-Botni og Lilja Magnúsdóttir sagði frá merkistrjám í Barðastrandarsýslu. Að lokum kynnti svo Eiður B. Thoroddsen vettvangsferð dagsins.Voru þrír staðir heimsóttir í henni – skógarreitur í Skápadal, Sauðlauksdalur og safnið á Hnjóti. Dagskrá laugardagsins lauk svo með hátíðarkvöldverði og dagskrá í boði gestgjafanna. Voru fimm félagar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau. Eiður B. Thoroddsen, Helga Gísladóttir, Brynjólfur Gíslason, Nannar Sjöfn Pétursdóttir og Finnbjörn Bjarnason. Einnig var Magnús Gunnarsson gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu og voru á staðnu, færðar árnaðaróski.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Björn Traustason.

 

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2022-2023 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Söngbók (pdf)

 

Reikningar:
Skógræktarfélag Íslands ((pdf)

Kolviður (pdf)

Landgræðslusjóður (pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (pdf)

Úlfljótsvatns sf. (pdf)

Yrkja (pdf)

Aðalfundur 2022

Með Aðalfundir

87. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Mosfellsbæ dagana 2. – 4. september 2022. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar var gestgjafi fundarins.

Vel var mætt á fundinn, enda ekki gefist færi á að halda fundinn með hefðbundnu sniði árin 2020 og 2021 vegna samkomutakmarkana tengdum kórónaveirunni. Fundurinn hófst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn og því næst tók Björn Traustason, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar til máls. Næstur upp í pontu var Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands, skýrslu Landgræðslusjóðs, tillagna að ályktunum og skipan í nefndir. Að því loknu var komið að fræðsluerindum. Tómas Guðberg Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar, fjallaði um Mosfellsbæ, Björn Traustason fór yfir helstu þætti í sögu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og kynnti vettvangsverð dagsins og Bjarki Bjarnason hélt erindi um mannlíf og náttúru á Mosfellsheiði.

Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Hamrahlíðarskóg við Úlfarsfell og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið inn á Skarhólabraut þar sem eru landnemareitir félaga og endað á Meltúnsreit, þar sem boðið var upp á varðeld, veitingar, tónlist og söng.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum, en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, sagði í máli og myndum frá Þórsmörk,  Samson B. Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindi um fagurtré í skógum, Benedikt Erlingsson leikari flutti hugvekju þar sem fléttað var saman fornum sögnum og loftslagsvá samtímans, Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, fjallaði um nýja skaðvalda á birki – birkikembu og birkiþélu – og Dóra Hjálmarsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, fór yfir helstu þætti í hættu sem stafar af gróðureldum og leiðum til úrbóta. Að lokum kynnti Björn Traustason ferð dagsins.

Að loknum hádegisverði var haldið í vettvangsferð á Þingvelli. Byrjað var í Vinaskógi þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti gróðursetti, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands, tvö tré – birki og reyni. Frá Vinaskógi var haldið til Furulundar, þar sem minnst var stofnunar Skógræktarfélags Íslands á Þingvöllum árið 1930. Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður ávarpaði einnig fundargesti. Að því loknu var haldið til baka til Mosfellsbæjar.

Dagskrá laugardagsins lauk svo með hátíðarkvöldverði í Hlégarði og hátíðardagskrá í boði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Kristín Davíðsdóttir hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar var heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar og Magnús Jóhannesson var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

 

Fundargögn

Dagskrá (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2021-2022 og ársreikningur (.pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Reikningar:

Kolviður (.pdf)

Landgræðslusjóður (.pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Úlfljótsvatn (.pdf)

Yrkja (.pdf)

Aðalfundur 2021

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélag Íslands var haldinn í fundarsal Arionbanka í Borgartúni Reykjavík laugardaginn 2. október 2021 og var það 86. aðalfundur félagsins. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn með hefðbundnu í Mosfellsbæ, með Skógræktarfélag Mosfellsbæjar sem gestgjafa, en vegna aðstæðna tengdra kórónuveiru reyndist það illmögulegt. Voru því eingöngu kjörnir fulltrúar skógræktarfélaga boðaðir á fundinn, til að afgreiða skylduverkefni aðalfundar skv. 6. grein laga félagsins. Einnig var fulltrúum boðið upp á að fylgjast með fundinum í fjarfundi.

Fundurinn hófst með ávarpi Jónatan Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór yfir það helsta úr starfi félagsins frá síðasta aðalfundi. Brynjólfur Jónsson fór yfir reikninga félagsins og Þuríður Yngvadóttir, formaður Landgræðslusjóðs, flutti skýrslu sjóðsins. Reikningar og starfsskýrsla voru svo borin upp til samþykktar og var hvoru tveggja samþykkt samhljóða. Ein tillaga að lagabreytingu var lögð fyrir fundinn, er fólst í viðbót er tilgreinir hvað gera skuli við slit félagsins og var hún samþykkt með breytingum eftir umræður á fundinum. Tvær tillögur að ályktunum voru samþykktar, um bótamat á skógi og landsáætlun í skógrækt.

Því næst var gengið til kosninga. Úr stjórn áttu að ganga Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness, og Þuríður Yngvadóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, og gáfu þau bæði kost á sér áfram. Engar aðrar tilnefningar bárust, svo þau voru sjálfkjörin. Varastjórn var endurkosin óbreytt og í henni sitja Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga, og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

 

Ályktanir aðalfundar (.pdf)

Gögn fundar:

Kjörbréf – form (.docx)

Dagskrá (.pdf)

Starfsskýrslur:

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2020-2021 (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs 2021 (.pdf)

Reikningar:

Ársreikningur Skógræktarfélags Íslands er í starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands 2020-2021.

Landgræðslusjóður (.pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Úlfljótsvatn sf. (.pdf)

Yrkja (.pdf)

 

Aðalfundur 2020

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn laugardaginn 5. september 2020 og var það 85. aðalfundur félagsins. Fundurinn var haldinn í fundarsal í Arionbanka í Borgartúni í Reykjavík. Upphaflega stóð til að halda fundinn í Mosfellsbæ, með Skógræktarfélag Mosfellsbæjar sem gestgjafa, en vegna samkomutakmarkana vegna kórónaveiru var ákveðið að halda fundinn með öðrum hætti.. Voru eingöngu kjörnir fulltrúar skógræktarfélaga boðaðir á fundinn, til að afgreiða skylduverkefni aðalfundar skv. 6 greina laga félagsins. Einnig var fulltrúum boðið upp á að fylgjast með fundinum í fjarfundi.

Fundurinn hófst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór yfir helstu atriði úr starfi félagsins á starfsárinu. Brynjólfur Jónsson kynnti reikninga félagsins og Þuríður Yngvadóttir, formaður Landgræðslusjóðs, flutti skýrslu sjóðsins. Reikningar og starfsskýrsla voru svo borin upp til samþykktar og voru hvoru tveggja samþykkt. Ein tillaga að ályktun var lögð fyrir fundinn, um lífrænar varnir í skógrækt og var hún samþykkt.

Því næst var haldið til kosninga. Jónatan Garðarsson var endurkjörinn formaður félagsins. Úr stjórn áttu að ganga Sigrún Stefánsdóttir og Laufey B. Hannesdóttir og gaf hvorug kost á sér áfram. Í þeirra stað voru kosnar inn Nanna Sjöfn Pétursdóttir frá Skógræktarfélagi Bíldudals og Berglind Ásgeirsdóttir frá Skógræktarfélagi Suðurnesja. Varastjórn var endurkosin óbreytt og í henni sitja Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

 

Fundargögn:

Starfsskýrsla 2019-2020 (.pdf) 

Ársskýrsla og reikningar Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningar sjóða

Kolviður (.pdf)
Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)
Úlfljótsvatn sf. (.pdf)
Yrkjusjóður (.pdf)

 

 

Aðalfundur 2019

Með Aðalfundir

84. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Kópavogi dagana 30. ágúst til 1. september 2019. Skógræktarfélag Kópavogs var gestgjafi fundarins, en það fagnaði 50 ára afmæli á árinu.

Fundurinn hóst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Fyrstur tók til máls Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og því næst steig Kristinn H. Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs í pontu. Næst flutti Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ávarp og að því loknu tók Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, til máls.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á skýrslu og ársreikningi Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, kynning tillagna að ályktunum og skipun í nefndir. Að því loknu var komið að fræðsluerindum. Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri í Kópavogi, fjallaði um Kópavog með grænum augum, Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, fjallaði um loftslagsskóga og Kristinn H. Þorsteinsson sagði stuttlega frá fyrirhugaðri vettvangsferð dagsins.

Að hádegisverði loknum var svo haldið í vettvangsferðina. Byrjað var á því að heimsækja Þorstein Sigmundsson í Elliðahvammi og kynnast ræktun fjölskyldu hans þar, en því næst var haldið til Litladals við Lækjarbotna, þar sem Þröstur Ólafsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur ræktað upp yndisskóg við sumarbústað sinn. Því næst var haldið í Guðmundarlund, þar sem haldin var mikil hátíð með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, vígslu nýs fræðsluseturs í eigu Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs og söng og veitingum.

Laugardagur hófst á nefndastörfum og að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur fjallaði um birkikynbætur, Björn Traustason hjá Skógræktinni kynnti Avenza kortlagningaappið, Kristinn H. Þorsteinsson sagði frá því helsta úr 50 ára starfi Skógræktarfélags Kópavogs og Orri Freyr Finnbogason arboristi sagði frá starfi sínu við trjáklifur og trjáhirðu. Síðastur á mælendaskrá var svo Friðrik Baldursson, sem kynnti vettvangsferð dagsins.

Að loknum hádegisverði var gengið frá fundarstað í Fagralundi að Meltungu og svæðið þar skoðað, en þar kennir ýmissa grasa, með yndisgarði, trjásafni, rósagarði og mörgu fleira. Var gengið um svæðið og mikið skoðað og endað á hressingu.

Dagskrá laugardags lauk svo með hátíðarkvöldverði, sem haldinn var í Menntaskólanum í Kópavogi og hátíðardagskrá í boði Skógræktarfélags Kópavogs. Þrír félagar í Skógræktarfélagi Kópavogs voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þeir Þorsteinn Sigmundsson, Pétur Karl Sigurbjörnsson og Friðrik Baldursson. Var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu líka færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá tveimur þeirra – Skógræktarfélagi Kópavogs sem fagnaði 50 ára afmæli og Skógræktarfélagi Skilmannahrepps, sem er 80 ára. Einnig voru þau Elísabet Kristjánsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson gerð að heiðursfélögum Skógræktarfélags Íslands.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin þau Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga, og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

Fundargögn
Samþykktar ályktanir aðalfundar 2019 (.pdf)
Dagskrá (.pdf)
Starfsskýrsla og reikningar Skógræktarfélags Íslands (.pdf)
Starfsskýrsla og ársreikningur Landgræðslusjóðs (.pdf)
Kolviður – ársreikningur 2018 (.pdf)
Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu – ársreikningur 2018 (.pdf)
Úlfljótsvatn sf – ársreikningur 2018 (.pdf)
Yrkja – ársreikningur 2018 (.pdf)

Erindi á fundi og fylgigögn:
Björn Traustason – Avenza Maps (.pdf)
Friðrik Baldursson – Kópavogur með grænum augum (.pdf)
Friðrik Baldursson – Trjásafnið í Meltungu (.pdf)
Friðrik Baldursson – Trjásafnið í Meltungu (grein) (.pdf)
Friðrik Baldursson – Meltunga – Ættkvíslarlisti (.pdf)
Friðrik Baldursson – Meltunga – kort (.pdf)

 

Aðalfundur 2018

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 83. aðalfund sinn á Hellu á Rangárvöllum dagana 31. ágúst til 2. september. Var Skógræktarfélag Rangæinga gestgjafar fundarins að þessu sinni og var vel mætt á hann, en um 160 fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og Jóns Ragnars Örlygssonar, formanns Skógræktarfélags Rangæinga. Sigríður Heiðmundsdóttir kynnti því næst Skógræktarfélag Rangæinga fyrir fundargestum. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra fluttu því næst ávörp.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – kynning á skýrslu og reikningum Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, fyrirspurnir, kynning tillagna að ályktunum og skipun í nefndir. Einnig kynnti Hrönn Guðmundsdóttir stuttlega Hekluskóga, en vettvangsferð dagsins lá meðal annars um slóðir Hekluskóga.

Eftir hádegi var haldið í vettvangsferð, um uppsveitir Rangárvalla. Byrjað var á að halda að Hellum í Landssveit þar sem skoðaður var Hellnahellir, lengsti manngerði hellir á Íslandi. Þaðan var ekið áleiðis að Þjófafossi, þar sem skoðuð voru ræktunarsvæði Hekluskóga. Þaðan var ekið fram hjá Næfurholti og endað í Bolholtsskógi, einu ræktunarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga, þar sem boðið var upp á gönguferð og fræðslu um skóginn og hressingu (súpu og með því).

Laugardagur hófst á nefndastörfum en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður fjallaði um verkefnið Skógarnytjar, er lýtur að nýtingu íslensks viðar til framleiðslu ýmiskonar varnings, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, kynnti sveitarfélagið í máli og myndum, Árni Bragason landgræðslustjóri hélt erindi er hét Landgræðslan, baráttan við sandinn, þar sem farið var yfir uppgræðslustarf á svæðinu, Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga, fjallaði um sögu heimabæjar síns, Klofa í Landsveit, með tilvísun til uppgræðslu og Bjarni Diðrik Sigurðsson fjallaði um skógrækt í samhengi við loftslagsmál, þá sérstaklega kolefnisbindingu með skógrækt.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að skoða tilraunareit með öspum við Gunnarsholt, sem er einn mest rannsakaði skógarreitur landsins, en þaðan var haldið að Heylæk í Fljótshlíð, þar sem Sigurður Haraldsson, eigandi Heylæks, hefur, ásamt fjölskyldu sinni, ræktað upp mikinn og fjölbreyttan skóg. Auk þess að skoða skóginn var boðið upp á hressingu. Þaðan var svo ekið niður á Markarfljótsaura þar sem mikill skógur er að vaxa upp, þökk sé starfi Skógræktarfélags Rangæinga.

Dagskrá laugardags lauk svo með hátíðarkvöldverði og hátíðardagskrá í umsjón Skógræktarfélags Rangæinga. Fjórir félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau Klara Haraldsdóttir, Sigurvina Samúelsdóttir og hjónin Sigurbjörg Elimarsdóttir og Sveinn Sigurjónsson.

Á sunnudeginum voru svo hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga og ályktana, en einnig var samþykkt ný stefnumótun fyrir félagið. Að venju var kosið í stjórn. Guðbrandur Brynjúlfsson, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar, gekk úr stjórn eftir 15 ára setu og kom í hans stað nýr í aðalstjórn Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness, en hann sat áður í varastjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2018 (.pdf)

Stefnumótun Skógræktarfélags Íslands (.pdf)

Fundargögn

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2017-2018 (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Kolviður (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Úlfljótsvatn sf (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Yrkja (.pdf)

Starfsskýrsla og ársreikningur Landgræðslusjóðs (.pdf)

Þátttakendur á aðalfundi (.pdf)

Aðalfundur 2017

Með Aðalfundir

82. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Stórutjarnaskóla dagana 25. – 27. ágúst 2017. Skógræktarfélag S-Þingeyinga var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Agnesar Þórunnar Guðbergsdóttur, formanns Skógræktarfélags S-Þingeyinga, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Dagbjartar Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Dagbjört Jónsdóttir stutta kynningu á Þingeyjarsveit.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka upp Reykjadal og horft til skóga þar, en þaðan var haldið til Húsavíkur, þar sem Skrúðgarðurinn á Húsavík var heimsóttur og þegin hressing í boði Norðurþings. Þaðan var svo haldið í Fossselsskóg, þar sem Skógræktarfélag S-Þingeyinga stóð fyrir hátíðarsamkomu.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði frá sögu uppgræðslu á Hólasandi,Daði Lange Friðriksson, Landgræðslu ríkisins, sagði frá helstu framkvæmdum á Hólasandi, Gunnhildur Ingólfsdóttir sagði frá gróðursetningu með sérstakri gróðursetningavél og sýndi myndskeið af henni í notkun, Valgerður Jónsdóttir frá Skógræktinni sagði frá frærækt á Vöglum og að lokum fjallaði Arnór Snorrason, Skógræktinni, um ýmsar niðurstöður úr úttektum íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá á útbreiðslu og vexti náttúrulegra birkiskóga.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Vaglaskóg. Þar tóku Rúnar Ísleifsson skógarvörður og Valgerður Jónsdóttir á móti fundargestum. Fengu gestirnir að skoða Fræhöllina áður en haldið í stutta gönguferð um skóginn og endað á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á ketilkaffi og eldbakaðar lummur.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Arnórs Benonýssonar. Fimm félagar í Skógræktarfélagi S-Þingeyinga voru heiðraðir fyrir störf í þágu skógræktar, þau Atli Vigfússon, Álfhildur Jónsdóttir, Dagur Jóhannesson, Indriði Ketilsson og Ólafur Eggertsson.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Laufey B. Hannesdóttir, sem verið hafði varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi setu. Magnús Gunnarsson gekk úr stjórn og hætti sem formaður Skógræktarfélags Íslands. Í hans stað var Jónatan Garðarsson kosinn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Jens B. Baldursson.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2017 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2016-2017 (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Yrkjusjóður (.pdf)

Aðalfundur 2016

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 81. aðalfund sinn á Djúpavogi dagana 2.-4. september 2016. Skógræktarfélag Djúpavogs var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaga víðs vegar af landinu sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Önnu Sigrúnar Gunnlaugsdóttur, formanns Skógræktarfélags Djúpavogs, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Þorbjargar Sandholt, formanns ferða- og menningarmálanefndar Djúpavogs.

Ávarp – Magnús Gunnarsson (.pdf)

Ávarp – Sigrún Magnúsdóttir (.pdf)

Ávarp – Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir (.pdf)

Ávarp – Þröstur Eysteinsson (.pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Síðasta vers fyrir hádegi var stutt samantekt Jóns Ásgeirs Jónssonar á efni ályktana aðalfunda síðustu tuttugu ára.

Samantekt – Jón Ásgeir Jónsson (.pdf)

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Farið var að Teigarhorni, þar Sævar Þór Halldórsson landvörður leiddi fundargesti í göngu um staðinn og Andrés Skúlason hélt fræðsluerindi um uppbyggingu á svæðinu og framtíðaráform þar að lútandi. Vettvangsferðin endaði svo með hressingu – dýrindis sjávarréttasúpu og meðlæti.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum flutti Árni Bragason landgræðslustjóri stutt erindi, en eftir það tóku við fræðslufyrirlestrar. Þuríður Elsa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, fjallaði um fundi á fornminjum, Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs, sagði frá Cittaslow verkefninu í Djúpavogshreppi, Jón Ásgeir Jónsson, frá Skógræktarfélagi Íslands og Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu – og verkefnastjóri Garðyrkjufélagsins, fjölluðu um útivistarskóga og hvað prýðir þá, Gústaf Jarl Viðarsson, frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, fjallaði um það helsta sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur verið að sýsla við og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur hélt svo erindi um gróðurvernd, aðfluttar tegundir og skipulega landnýtingu.

Erindi – Erla Dóra Vogler (.pdf)

Erindi – Hjörleifur Guttormsson (.pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hálsaskóg. Byrjað var á að skoða garð hjónanna Ragnhildar Garðarsdóttur og Sigurðar Guðjónssonar að Aski, en hann stendur í útjaðri Hálsaskógur. Fundargestir gátu svo skoðað sig um í skóginum, en á þremur stöðum var einnig boðið upp á fræðslu um Tyrkjaránið, sögu bæjarins Búlandsness og jarðfræði svæðisins, með tilvísun í staði innan skógarins. Gönguferðir fundargesta enduðu svo í Aðalheiðarlundi þar sem boðið var upp á veitingar. Dagskránni í skóginum lauk svo með saxófónleik á leiksviðinu í skóginum.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Hrannar Jónsdóttur. Á kvöldvökunni voru hjónin í Aski – Ragnhildur Garðarsdóttir og Sigurður Guðjónsson – heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá þremur þeirra – Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sem fagnar 70 ára afmæli, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, sem einnig fagnar 70 ára afmæli og Skógræktarfélagi Eyrarsveitar, sem fagnar 30 ára afmæli. Voru þeim færð planta af kóreulífvið að gjöf. Kvöldvakan endaði svo á balli fram eftir nóttu.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Laufey B. Hannesdóttir og Sigríður Heiðmundsdóttir.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2016 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Yrkjusjóður (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Kolviður (.pdf)

Aðalfundur 2015

Með Aðalfundir

80. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Hofi á Akureyri dagana 14.-16. ágúst 2015. Skógræktarfélag Eyfirðinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Hátt í tvö hundruð fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem tókst mjög vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Ólafs Thoroddsen, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Eiríks B. Björgvinssonar, bæjarstjóra Akureyrarbæjar.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Ávarp Jóns Loftssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir.

Eftir hádegi var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á því að halda til Siglufjarðar, þar sem skógurinn í Skarðdal var formlega opnaður sem fimmtándi Opni skógurinn. Klipptu Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og hjónin Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir á borða til að opna skóginn, en þau hjónin styrku opnun skógarins. Skógræktarfélag Siglufjarðar stóð svo fyrir hátíðarsamkomu í skóginum. Að henni lokinni var haldið í Hánefsstaðaskóg, þar sem Skógræktarfélag Eyfirðinga sló upp grillveislu og stóð fyrir skemmtun.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum, en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Hrefna Jóhannesdóttir skógfræðingur fjallaði um skóginn sem orkuauðlind, Sigurður Arnarson, höfundur Belgjurtabókarinn, sagði frá notkun belgjurta í skógrækt, Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, velti upp spurningunni hvort skógrækt og sauðfjárrækt ættu samleið og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sagði frá ýmsum gerðum sveppa sem finna má í skóginum.

Erindi Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (pdf)

Erindi Hrefna Jóhannesdóttir (pdf)

Erindi Þórarinn Ingi Pétursson (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Gömlu Gróðrarstöðina, þar sem fundargestir gátu kynnt sér fuglana í skóginum, matjurtarækt, trjátegundir, gróðursetningaáhöld og fleira, á sex stöðvum sem búið var að koma upp. Eftir smá hressingu var svo haldið í Kjarnaskóg, þar sem Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, leiddi göngu um skóginn. Gangan endaði á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á sveppasúpu og lummur, eldað yfir eldi og tónlist, auk þess sem Jötunn kynnti ýmsan skógartengdan varning.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Óskars Péturssonar. Á kvöldvökunni voru tveir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þeir Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson. Einnig var Þorsteinn Tómasson gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá tveimur þeirra, Skógræktarfélagi Ísafjarðar, sem fagnar 70 ára afmæli og Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, sem er 60 ára. Voru þeim færð rifsplanta að gjöf. Kvöldvakan endaði svo á balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Sigríður Heiðmundsdóttir og Laufey B. Hannesdóttir.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2015 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2014-2015  (pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ársreikningur 2014 – Skógræktarsjóður Húnvatnssýslu (pdf)

Ársreikningur 2014 – Yrkjusjóður (pdf)