Brynjudalur í Hvalfirði var formlega opnaður 16. september 2017, er Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigurður M. Harðarson, umhverfisstjóri Icelandair Group, klipptu á borða inn í skóginn, en Icelandair Group styrkti opnun skógarins.
Fyrstu jólatrén voru gróðursett í Brynjudalsskógi rétt fyrir 1980. Frá því um 1990 hefur Skógræktarfélag Íslands lagt megin áherslu á ræktun jólatrjáa og uppbyggingu útivistaraðstöðu í dalnum. Auk nytja af jólatrjám er gott berjaland í skóginum, en þar má finna aðalbláber, bláber, krækiber og hrútaber. Viður úr skóginum hefur líka verið nýttur í uppbyggingu aðstöðu og til eldiviðar.
Lagðir hafa verið göngustígar um skóginn og þjóna sumir jafnframt sem þjónustuvegir en eru ekki opnir almennri umferð vélknúinna farartækja. Göngustígarnir þjóna einnig sem upphaf hefðbundinna gönguleiða, svo sem um Laugabrekkur inn hálsinn og um Leggjarbrjót til Þingvalla eða upp á Botnssúlur. Um Laugabrekkur liggur einnig leiðin yfir hálsinn norður í Botnsdal og að Glym.
Tvö skjólhýsi eru í skóginum, Tjaldið og Höllin. Helstu áningarrjóður eru Hvammurinn í botni Kerlingadals (fyrir neðan Tjaldið) og Fururjóðrið milli Hrísakots og Hvammsins. Við Fururjóðrið hefur verið komið upp þrautabraut.
Jólatrjáarækt er stunduð í fjáröflunarskyni og eru jólatré úr Brynjudal eftirsótt á markaði. Einnig er tekið á móti skipulögðum hópum (mest starfsmönnum fyrirtækja og fjölskyldum þeirra) á jólaföstunni.
Skógræktarfélag Íslands
Skógræktarfélag Íslands var stofnað á Alþingishátíðinni 1930. Það er landsamband skógræktarfélaganna á Íslandi.