Skip to main content

Birkifrætínsla í Vesturbyggð laugardaginn 18. nóvember

Með 16. nóvember, 2023Fréttir

Nú stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Landsverkefnið Söfnum og sáum, sem hófst árið 2020 kallar nú eftir fræjum. Það er misjafnt á milli ára hversu mikið framboð er af birkifræi. Í ár er almennt lítið framboð á birkifræi í flestum landshlutum að undskildri Vesturbyggð en þar má víða finna mikið magn fræja.

Nú er fræsöfnunartímanum senn að ljúka og verður gert sérstakt átak til að safna birkifræi í Vesturbyggð áður en vetur gengur í garð af fullum þunga og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að taka þátt.

Laugardaginn 18. nóvember fer fram fræðsla um söfnun fræja og sáningu á þremur stöðum í Vesturbyggð:

Kl. 11:00 ætla Bíldælingar og nærsveitungar að koma saman á útsýnispallinum á varnargarðinum og njóta fræðslu og tína fræ.

Kl. 13:00 hefst dagskráin í Tálknafirði.

Kl. 15:00 hefst dagskráin á Patreksfirði.

Landsátakið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Fræsöfnunarverkefni hentar flestum aldurshópum vel og má sérstaklega nefna að börnin skynja mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér vinnubrögðin, og vinna hratt og hafa gaman af. Það er því mikilvægt að að gefa börnum tækifæri til að koma og vera þátttakendur í þessu mikilvæga verkefni. Öllum fræjum sem verður safnað verður sáð í Vesturbyggð af skólabörnum, félagsamtökum sem og öðrum sem vilja taka þátt.

Átakið í Vesturbyggð er samstafsverkefni: Landsátaksins Söfnum og sáum, Vesturbyggðar, skógræktarfélaganna og kirkjunnar í Vesturbyggð og fræðslusviðs biskupsstofu.

birkiskogur.is