Tré ársins 2023 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 10. september. Að þessu sinni var um að ræða sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32.
Hófst athöfnin á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, en auk hans fluttu ávörp Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sem tók einnig við viðurkenningarskjali fyrir hönd eigenda trésins, og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins verkefnisins. Venja er að mæla tré ársins þegar þau eru útnefnt og var það gert. Reyndist tréð vera 10,9 m á hæð, með ummál upp á 90,5 cm í brjósthæð. Athöfninni lauk svo með veitingum og tónlist í Tækniminjasafninu.
Hjónin Haraldur Aðalsteinsson og Sigurbjörg Björnsdóttir gróðursettu tréð árið 1975, en þau bjuggu í húsinu Sandfelli, sem nú er horfið. Það var Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur sem stakk upp á því að þetta tré yrði útnefnt. Þótti það viðeigandi af því að þetta tré stóð af sér stóru skriðuna árið 2020, er tók með sér hús í kring og töluvert af yngri trjám á svæðinu og stendur því nú stakt. Hefur tréð því töluvert tilfinningalegt gildi fyrir íbúa Seyðisfjarðar og er ákveðinn minnisvarði um þann viðburð.
Þess má til gamans geta að Seyðfirðingar geta státað af öðru Tré ársins, en Tré ársins 2004 var evrópulerki (Larix decidua) við Hafnargötu 48.
Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.
F.v. Hafberg Þórisson, bakhjarl Trés ársins, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings með viðurkenningaskjalið og Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur. Mynd: BJ
Tré ársins 2023. Mynd: BJ
Nýlegar athugasemdir