Skip to main content
All Posts By

ragnhildur

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir

Það er enn hægt að nálgast falleg jólatré hjá nokkrum skógræktarfélögum:

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum til 23. desember  kl. 11-16. Sjá nánar: https://www.facebook.com/snaefokstadir

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Kjarnaskógi til 23. desember. Sjá nánar: https://www.kjarnaskogur.is/jolatre

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í Gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg til 23. desember kl. 10-18. Sjá nánar á: https://www.skoghf.is

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð til 23. desember, kl. 12-17 alla dagana nema Þorláksmessu, en þá er opið kl. 10-16. Sjá nánar: https://www.facebook.com/SkogMos/

Skógræktarfélag Reykjavíkur á Lækjartorgi 18.-21. desember kl. 14-18 og kl. 14-20 þann 22. desember. Sjá nánar: https://www.heidmork.is

 

Nánari upplýsingar einnig á: http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/

Jólaskógur: Opinn dagur í Brynjudal

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands hefur um áratugaskeið tekið á móti hópum sem koma í jólaskóginn í Brynjudal til að velja og fella jólatré. Í ár ætlum við að bjóða einstaklingum/fjölskyldum að koma líka, en við verðum með einn opinn dag, laugardaginn 9. desember. Formlegur opnunartími er kl. 11-13, en við verðum þó á svæðinu eitthvað fram eftir degi. Athugið að í dalnum umluktum fjöllum er farið að bregða birtu um þrjúleytið svo það þýðir ekki að vera seint á ferðinni!

Fast verð pr. tré er kr. 7.000, upp að 3 m hæð. Við tökum niður greiðsluupplýsingar og sendum reikning, ekki er hægt að borga á staðnum.

Nánari upplýsingar um skóginn má sjá á Brynjudalur – Skógræktarfélag Íslands (skog.is) og eins má hafa samband á skrifstofu félagsins – s. 551-8150.

Forestry association’s Christmas tree sales 2023

Með News

It is a Christmas tradition for many families to go out to the forest during advent to select their Christmas tree and Christmas forests can be found in most parts of Iceland. Those less interested in a walk in the forest can also find sellers of already cut Icelandic Christmas trees.

The first forestry associations will be up and selling at the beginning of advent. Further information can be found online (in Icelandic) – http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/ – and on the website/Facebook pages of individual forestry associations.

Shop locally!

Icelandic Christmas trees are freshly cut and environmentally friendly with a lower carbon footprint and by buying an Icelandic Christmas tree you support reforestation efforts in the country, because for every tree sold dozens more can be planted. There is no need to have a guilty conscience for felling the tree!

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna 2023

Með Fréttir

Margar fjölskyldur eru með þá hefð að sækja sér jólatré í skóginn á aðventunni og má finna jólaskóga í flestum landshlutum hjá skógræktarfélögunum. Fyrir þá sem hafa minni áhuga á skógargöngu eru svo ýmsir aðilar sem selja íslensk tré.

Fyrstu félögin ríða á vaðið með sölu í byrjun aðventunnar. Nánari upplýsingar um sölur hjá skógræktarfélögunum má finna á vefnum – http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/ – og heimasíðum/Facebook-síðum einstakra skógræktarfélaga.

Verslum í heimabyggð!

Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun, með lægra kolefnisspor og með því að kaupa íslenskt jólatré styður þú við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Birkifrætínsla í Vesturbyggð laugardaginn 18. nóvember

Með Fréttir

Nú stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Landsverkefnið Söfnum og sáum, sem hófst árið 2020 kallar nú eftir fræjum. Það er misjafnt á milli ára hversu mikið framboð er af birkifræi. Í ár er almennt lítið framboð á birkifræi í flestum landshlutum að undskildri Vesturbyggð en þar má víða finna mikið magn fræja.

Nú er fræsöfnunartímanum senn að ljúka og verður gert sérstakt átak til að safna birkifræi í Vesturbyggð áður en vetur gengur í garð af fullum þunga og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að taka þátt.

Laugardaginn 18. nóvember fer fram fræðsla um söfnun fræja og sáningu á þremur stöðum í Vesturbyggð:

Kl. 11:00 ætla Bíldælingar og nærsveitungar að koma saman á útsýnispallinum á varnargarðinum og njóta fræðslu og tína fræ.

Kl. 13:00 hefst dagskráin í Tálknafirði.

Kl. 15:00 hefst dagskráin á Patreksfirði.

Landsátakið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Fræsöfnunarverkefni hentar flestum aldurshópum vel og má sérstaklega nefna að börnin skynja mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér vinnubrögðin, og vinna hratt og hafa gaman af. Það er því mikilvægt að að gefa börnum tækifæri til að koma og vera þátttakendur í þessu mikilvæga verkefni. Öllum fræjum sem verður safnað verður sáð í Vesturbyggð af skólabörnum, félagsamtökum sem og öðrum sem vilja taka þátt.

Átakið í Vesturbyggð er samstafsverkefni: Landsátaksins Söfnum og sáum, Vesturbyggðar, skógræktarfélaganna og kirkjunnar í Vesturbyggð og fræðslusviðs biskupsstofu.

birkiskogur.is

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga

Með Fréttir

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 24. október kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Magnús Gunnarsson ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn. Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að vera vel útbúið og taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665-8910.

Frændur fagna skógi – bókarkynning í Snorrastofu

Með Fréttir

Margir Borgfirðingar koma við sögu í nýrri bók um skógarsamvinnu Íslendinga og Norðmanna sem Óskar Guðmundsson rithöfundur kynnir í Snorrastofu í Reykholti nk. þriðjudag kl. 20.

FRÆNDUR FAGNA SKÓGI segir sögu samskipta Norðmanna og Íslendinga með áherslu á skiptiferðir skógræktarfólks frá 1949 til 2000. Allt að tvö þúsund einstaklingar af hvorri þjóð lagði í ferðir í þessu skyni í rúmlega hálfa öld – og á því tímabili plöntuðu Norðmenn allt að einni milljón trjáa í íslenskan svörð. Menningarferðir þessar urðu til þess að hnýta enn betur bönd frændþjóðanna og bæta náttúru landanna. Jafnframt er skyggnst yfir söguna allt frá landnámi til nútíma og áhugaverð atriði dregin fram í dagsljósið.

Bókin er og sérstæð vegna þess að hún er bæði á norsku og íslensku og markar einnig þannig tímamót.

Tré ársins 2023

Með Fréttir

Tré ársins 2023 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 10. september. Að þessu sinni var um að ræða sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32.

Hófst athöfnin á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, en auk hans fluttu ávörp Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sem tók einnig við viðurkenningarskjali fyrir hönd eigenda trésins, og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins verkefnisins. Venja er að mæla tré ársins þegar þau eru útnefnt og var það gert. Reyndist tréð vera 10,9 m á hæð, með ummál upp á 90,5 cm í brjósthæð. Athöfninni lauk svo með veitingum og tónlist í Tækniminjasafninu.

Hjónin Haraldur Aðalsteinsson og Sigurbjörg Björnsdóttir gróðursettu tréð árið 1975, en þau bjuggu í húsinu Sandfelli, sem nú er horfið. Það var Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur sem stakk upp á því að þetta tré yrði útnefnt. Þótti það viðeigandi af því að þetta tré stóð af sér stóru skriðuna árið 2020, er tók með sér hús í kring og töluvert af yngri trjám á svæðinu og stendur því nú stakt. Hefur tréð því töluvert tilfinningalegt gildi fyrir íbúa Seyðisfjarðar og er ákveðinn minnisvarði um þann viðburð.

Þess má til gamans geta að Seyðfirðingar geta státað af öðru Tré ársins, en Tré ársins 2004 var evrópulerki (Larix decidua) við Hafnargötu 48.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

 

 

F.v. Hafberg Þórisson, bakhjarl Trés ársins, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings með viðurkenningaskjalið og Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur. Mynd: BJ

Tré ársins 2023. Mynd: BJ

Tré ársins 2023 útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2023 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 10. september. Að þessu sinni er um að ræða sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32 (þar sem Sandfell stóð).

Dagskrá útnefningarathafnar:

Kl. 13:00

  1. Tónlist: Arna Magnúsdóttir og Ágúst Torfi Magnússon
  2. Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
  3. Mæling á Tré ársins 2023
  4. Ávarp: Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings
  5. Afhending viðurkenningarskjala
  6. Ávarp: Hafberg Þórisson, styrktaraðili Trés ársins
  7. Veitingar í boði Skógræktarfélags Íslands í Tækniminjasafninu.

Tónlist leikin af fingrum fram.

Allir velkomnir!

Styrktaraðili Trés ársins er Lambhagi ehf.