Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í sautjánda sinn á sumardaginn fyrsta þann 23. apríl nk. við hátíðlega athöfn á opnu húsi í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það.
Dómnefndina skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Örn Eggertsson, verkefnisstjóri, Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.
Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni. Með þessu bréfi er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið varða. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.
Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:
1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.
2) Verknámsstaður ársins => Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2020, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.
Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi fimmtudaginn 9. apríl 2020 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.
Nýlegar athugasemdir