Skip to main content
All Posts By

ragnhildur

Tré ársins 2020 útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2020 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. ágúst og er um að ræða gráreyni (Sorbus hybrida) að Skógum í Þorskafirði og er það í fyrsta sinn sem gráreynitré er útnefnt sem Tré ársins. Upphaflega var haldið að tréð væri silfurreynir (Sorbus intermedia), en nánari skoðun sérfræðinga Skógræktarinnar við athöfnina leiddi í ljós að um gráreyni var að ræða.

Athöfnin hófst á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Sagði hann stuttlega frá trénu, sem vaxið hefur við óblíð veðurskilyrði, en þrifist samt – bognað en ekki brotnað. Er tréð því með mikinn karakter. Næstur tók til máls Halldór Þorgeirsson, fulltrúi þjóðarráðs Baháʼí samfélagsins á Íslandi. Sagði hann frá upphafi ræktunar á Skógum og ræktunarstarfi Baháʼí samfélagsins þar, en vilji er fyrir því að opna skóginn frekar til heimsókna, til að njóta kyrrðar til íhugunar og efla tengsl við náttúruna.

Því næst afhenti Hafberg Þórisson frá Gróðrarstöðinni Lambhaga, sem er styrktaraðili Tré ársins verkefnisins, heiðurskjal og tók Böðvar Jónsson við því fyrir hönd þeirra sjálfboðaliða sem unnið hafa að skógrækt á Skógum. Afhjúpuðu Böðvar og Hafberg því næst skilti sem markar tréð.

Þá var komið að því að mæla tréð og sáu Jón Ásgeir Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands og Björn Traustason frá Skógræktinni um það. Reyndist tréð vera 5,9 m á hæð, með þvermál í hnéhæð 26,5 cm en 17,3 í brjósthæð, en þar var tréð búið að skiptast í tvo stofna.

Að mælingu lokinni leiddi Böðvar Jónsson gesti í göngu um skóginn, þar sem sjá mátti meðal annars hina myndarlegustu fjallaþöll, skógarfuru sem lifði af þær hremmingar sem stráfelldu tegundasystur hennar á 6. áratugnum, auk þess sem göngufólk gat gætt sér á bláberjum!

Dagskránni lauk svo með kaffihressingu.

 

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

 

Tré ársins 2020.

F.v. Hafberg Þórisson frá Gróðrarstöðinni Lambhaga, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Böðvar Jónsson, frá Baháʼí samfélaginu á Íslandi.

 

Elisabeth Bernard – Nýr starfsnemi hjá Skógræktarfélagi Íslands

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands er nú með starfsnema. Elisabeth Bernard er franskur mannfræðingur sem var sjálfboðaliði hjá félaginu í tvær vikur síðasta sumar gegnum verkefnið „Working abroad“. Hún hefur búið hérlendis áður og hefur brennandi áhuga á skógræktargeiranum á Íslandi.

Elisabeth er útskrifuð með BS og MA gráðu í menningarfræðilegri mannfræði frá París Nanterre háskólanum og er nú að nema norðurheimskautsfræði (MA) með áherslu á umhverfismál og menningu. Hóf hún sitt starfsnám hjá Skógræktarfélagi Íslands við upphaf júlí mánaðar og verður hjá félaginu fram í október.

Hún vinnur nú að rannsókn á skógræktarfélögunum (enda afar merkilegt fyrirbæri alþjóðlega) sem hluta af sínu námi og verður gagnasöfnun framkvæmd með skoðunarkönnunum og viðtölum við formenn skógræktarfélaganna.

Markmið rannsóknarinnar er að fá mynd af stöðu félaganna, hverjar eru menningarlegar undirstöður þeirra, sambönd þeirra við nærumhverfið, skoða hvata og áskoranir og horfa til framtíðar, meðal annars hvernig ný skógræktarlög og landsáætlun í skógrækt geta haft áhrif á félögin. Einnig verður safnað almennri endurgjöf frá formönnum um ýmis málefni er varða starf félaganna.

Glöggt er gests augað og verður því spennandi að lesa niðurstöðurnar.

Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa og vonum að allir taki vel á móti henni er hún fer um landið!

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn laugardaginn 11. júlí kl. 13:30. Fundarstaður verður úti í sumargrænni náttúrunni í Landgræðslugirðingunni á Stjórnarsandi. Akið þjóðveg 1 frá hringtorginu á Klaustri ca. 700 m í austurátt, þá er beygt inn afleggjara til vinstri þar sem  skógræktin blasir við. Stjórnarmenn taka þar á móti fundargestum  og vísa nánar á  fundarstað sem er í skóglendi skammt undan.

Fundarefni eru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál.

Að fundarstörfum loknum verður gengið um skógræktina á Stjórnarsandi undir leiðsögn skógfræðings og annarra skógræktarmanna.

Kaffi að göngu lokinni.

Félagar eru hvattir til að mæta á fundinn, aðrir áhugasamir eru að sjálfsögðu velkomnir.

 

Skógræktarfélagið Mörk,

Kirkjubæjarklaustri.

Rangæingar Forestry Association General Meeting

Með News

The Rangæingar Forestry Association holds its general meeting on Monday, June 29, starting at 20:00 at the Hella congregation hall, Dynskálar 8.

In addition to regular meeting activities Auður Ingibjörg Ottesen, editor and publisher of the journal Sumarhúsið og garðurinn, will hold a presentation.

Refreshments on offer, everybody welcome.

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga verður haldinn mánudaginn 29. júní kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu á Hellu, Dynskálum 8.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa mun Auður Ingibjörg Ottesen, ritstjóri og eigandi tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn, vera með fræðsluerindi.

Kaffi í boði félagsins. Allir velkomnir

Líf í lundi (Life in the grove)

Með News

Líf í lundi (Life in the grove) is the heading for an outdoor recreation and family day in the forests of Iceland this weekend. Events on offer:

Selskógur (SW-Iceland), June 20, at 10:00-12:00

Gunnfríðarstaðir (N-Iceland), June 20, at 11:00

Eskifjörður (E-Iceland), June 20, at 12:00

Smalaholt (SW-Iceland), June 20, at 13:00-15:00

Seljadalsskógur (Westfjords), June 20, at 14:00-16:00

Álfholtsskógur (W-Iceland), June 20, at 14:00

Höfðaskógur (SW-Iceland), June 20, at 14:15-17:00

Æsustaðahlíð (SW-Iceland), June 22, at 19:30-21:30

Slaga (W-Iceland), June 22, at 18:00-20:00

More information each event is on the Skógargátt website (www.skogargatt.is) and the Líf í lundi Facebook-page – – https://www.facebook.com/lifilundi/

Líf í lundi

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins nú um helgina. Í boði eru fjölbreyttir viðburðir víða um land:

Sæla í Selskógi, 20. júní kl. 10:00-12:00

Gaman á Gunnfríðarstöðum, 20. júní kl. 11:00

Fræðsluganga á Eskifirði, 20. júní kl. 12:00

Ratleikur í Smalaholti, 20. júní kl. 13:00-15:00.

Samvera í Seljadalsskógi, 20. júní kl. 14:00-16:00

Opinn skógur Álfholtsskógi – opnunarhátíð, 20. júní kl. 14:00

Fjölskyldudagur í Höfðaskógi, 20. júní kl. 14:15-17:00

Skógarganga um Æsustaðahlíð, 22. júní, kl. 19:30-21:30

Skógardagur í Slögu, 22. júní kl. 18:00-20:00

Nánari upplýsingar um einstaka viðburði er að finna á Skógargátt (www.skogargatt.is) og á Facebook (https://www.facebook.com/lifilundi/).

Álfholtsskógur formlega opnaður sem Opinn skógur

Með Fréttir

Í tilefni af formlegri opnun Álfholtsskógar í Skilmannahreppi sem Opins skógar verður efnt til hátíðardagskrár í skóginum laugardaginn 20. júní og hefst hún kl. 14:00.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra opnar skóginn formlega með klippingu á borða. Ávörp flytja Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps og Linda Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar.

Að ávörpum loknum verður boðið upp á tónlistaratriði, gróðursetningu og veitingar. Dagskránni lýkur svo með göngu um skóginn í tilefni af Líf í lundi – útivistar- og fjölskyldudags í skógum landsins sem haldinn er í skógum víða um land þennan dag – sjá nánar á www.skogargatt.is.

Allir velkomnir!

Opinn skógur er samstarfsverkefni skógræktarfélaga og styrktaraðila. Markmiðið með verkefninu er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga, fyrir almenningi. Nú þegar hafa sextán svæði verið opnuð formlega.

Álfholtsskógur á Google Maps. Ekið er inn í  skóginn af Akrafjallsvegi.