Skip to main content
All Posts By

ragnhildur

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2022

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar félagsins sem haldinn verður þriðjudaginn 29. mars 2022,  kl. 20:00 í Guðmundarlundi, Leiðarenda 3 í Kópavogi.

Á dagskrá fundarins er:

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla stjórnar
  4. Reikningar félagsins
  5. Skýrslur nefnda
  6. Félagsgjald
  7. Lagabreytingar
  8. Kosning stjórnar
  9. Kosning skoðunarmanna reikninga
  10. Önnur mál

Strax að loknum aðalfundi flytja Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdarstjóri og Þröstur Magnússon formaður Skógræktarfélags Kópavogs erindi í máli og myndum sem þeir nefna „Góður grunnur að byggja á til framtíðar“.

Alþjóðlegur dagur skóga 2022

Með Fréttir

Í dag, 21. mars, er Alþjóðlegur dagur skóga. Nú háttar svo til að árið 2022 er Alþjóðlegt ár grunnvísinda fyrir sjálfbæra þróun hjá Sameinuðu þjóðunum og því áhugavert að velta fyrir sér samspili skóga og skógræktar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Auðvitað er það svo að flest okkar mannanna verk hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif þegar kemur að markmiðunum og er skógrækt þar engin undantekning en á Alþjóðlegum degi skóga viljum við vera jákvæð og telja fram allt það góða sem skógar geta lagt til markmiðanna. Töluverð skörun er auðvitað milli mismunandi markmiða, því hinar margvíslegu hliðar skóga geta hjálpað til eða haft áhrif á fleiri en eitt markmið.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

  1. Engin fátækt
    Sala skógarafurða, hvort sem er timburs eða annarra afurða, getur verið uppspretta tekna sem hjálpa til við að berjast gegn fátækt, sérstaklega í dreifðari byggðum þar sem atvinnutækifæri eru iðulega færri en í þéttbýli.
  1. Ekkert hungur
    Skógar og búskaparskógrækt (agroforestry) stuðla að fæðu- og næringaröryggi á ýmsa vegu. Úr skógum kemur alls konar matur beint – ávextir, grænmeti, hnetur, fræ og sveppir, auk veiðibráðar, fiska og skordýra sem neytt er. Óbeint geta skógar stutt við fæðuframleiðslu sem uppspretta fóðurs fyrir búfénað, eldsneytis til eldunar mats og sem tekjulind sem nýtist til meðal annars matvælakaupa.
  1. Heilsa og vellíðan
    Skógar hafa margvísleg jákvæð áhrif á heilsu okkar. Ýmis lyf eru unnin úr efniviði úr skógum, auk þess sem ýmis náttúrulyf eiga uppruna sinn í skógum. Rannsóknir hafa einnig sýnt á margvísleg jákvæð áhrif þess að stunda útiveru í skógum og öðrum grænum svæðum, bæði hvað varðar líkamlega og andlega heilsu.
  1. Menntun fyrir alla
    Skógar sem slíkir hafa kannski ekki beint áhrif á menntun, en tekjur frá skógum og skógrækt geta auðvitað gert skólagöngu mögulega. Fræðsla um skóga og skógrækt skiptir líka töluverðu máli, til að fólk geri sér grein fyrir efnahagslegu, menningarlegu og vistfræðilegu hlutverki þeirra og geti þar með tekið upplýstari ákvarðanir um notkun og/eða verndun þeirra.
  1. Jafnrétti kynjanna
    Hvað jafnrétti kynjanna varðar gildir svipað og hvað menntun varðar (Markmið 4). Skógar hafa ekki beint áhrif á jafnrétti en tekjur frá skógum/skógrækt geta gefið stúlkum sem ella hefðu ekki átt kost á skógargöngu tækifæri til þess. Raddir kvenna skipta líka máli þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi skógrækt, eins og aðra landnotkun og þar skiptir eignarhald á landi verulegu máli. Jafnvel í löndum þar sem kynjajafnrétti er hvað mest, eins og hér á Norðurlöndunum, hallar enn nokkuð á kvenþjóðina þegar kemur að hlutfalli þeirra sem starfa innan skógræktar og er verið að vinna markvisst að því að auka aðkomu kvenna að geiranum.
  1. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
    Skógar stuðla að miðlun vatns og skipta þar miklu máli í að draga úr áhrifum flóða eða þurrka. Skógar gegna líka mikilvægu hlutverki við hreinsun vatns sem um þá fer, en um 75% ferskvatns jarðar fer um þá. Þeir skipta því gríðarlega miklu máli fyrir framboð neysluvatns og þar með heilsu og vellíðan (Markmið 3), en hreint vatn er ein grunnundirstaða lífs okkar allra – án vatns lifum við ekki lengi!
  1. Sjálfbær orka
    Viður úr skógum hefur verið nýttur sem eldsneyti um árþúsundir og skiptir miklu máli enn – um 2,4 milljarðar jarðarbúa nota enn við til hitunar og eldunar. Notkun endurnýjanlegs og sjálfbærs efniviðar úr skógum, hvort sem er hefðbundins eldiviðar eða framleiðslu lífeldsneytis er einn möguleiki til öflunar orku í framtíðinni, ásamt öðrum umhverfisvænni orkukostum svo sem vatnsorku, vindorku og sólarorku.
  1. Góð atvinna og hagvöxtur
    Um 1,6 milljarður manna byggir framfærslu sína á skógum á heimsvísu og þeir eru því mikilvægur atvinnugrundvöllur. Viður og aðrar skógarafurðir hafa verið verslunarvörur í árþúsundir og verða það áfram, þar sem nýsköpun tengd þeim heldur stöðugt áfram og fjölgar þeim vörum sem verða til úr skógum. Auk þess sem skógar eru vinsælir til heimsókna og útiveru og skipta því verulegu máli í ferðaþjónustu.
  1. Nýsköpun og uppbygging
    Mikil nýsköpun á sér stað í skógargeiranum, sérstaklega þegar kemur að úrvinnslu skógarafurða. Hráefni upprunnið úr viði er í ótrúlegustu vörum – fataefni og taui (rayon, tencel, mycell), tannkremi, tyggjó, snyrtivörum, lyfjum, málningu og tölvuskjám (LCD skjám). Einnig er farið að leggja meiri áherslu á notkun timburs til bygginga, jafnvel háhýsa, í stað steypu þar sem kolefnisfótspor timburhúsa er lægra.
  1. Aukinn jöfnuður
    Skógar sem slíkir stuðla ekki beint að auknum jöfnuði, en hagsæld tengd skógariðnaði getur hjálpað til þar. Aukinn jöfnuður, þar sem fleiri koma að borðinu við ákvarðanatöku, skiptir auk þess miklu máli varðandi framtíðarnotkun skóga.
  1. Sjálfbærar borgir og samfélög
    Aukin notkun timburs til húsbygginga hefur í för með sér lægra kolefnisfótspor (sbr. Markmið 9). Borgarskógar skipta að auki miklu máli varðandi vellíðan fólks í borgum – þeir sía loft og vatn, bæta lýðheilsu, tempra hita og draga þar með úr orkunotkun nálægra bygginga, auka fegurð borga, bjóða upp á búsvæði fyrir ýmsar dýrategundir og geta jafnvel dregið úr glæpatíðni!
  1. Ábyrg neysla og framleiðsla
    Vörur úr skógarafurðum geta verið umhverfisvænni kostur (t.d. timbur til bygginga í stað steypu) og vel skipulögð skógrækt getur bæði boðið upp á framleiðslu afurða og aðra vistþjónustu – skógur til timburframleiðslu getur t.d. líka nýst til útivistar eða sem búsvæði villtra dýra og plantna. Miklu máli skiptir hér að rétt sé staðið að skógrækt og ekki gengið of nærri náttúrulegum skógum, sérstaklega regnskógum.
  1. Aðgerðir í loftslagsmálum
    Kolefnisbinding með skógrækt er ein þeirra loftslagsaðgerða sem reglulega kemur til umræðu, enda hefur hún þann kost að hafa ekki bara jákvæð áhrif hvað bindingu varðar, heldur ýmis önnur umhverfisáhrif líka (verndun jarðvegs, vatnsmiðlun, búsvæði dýra/plantna o.s.frv.). Verndun náttúrulegra skóga (sérstaklega regnskóga) skiptir hér einnig miklu máli.
  1. Líf í vatni
    Höf þekja rúmlega 70% jarðar og skipta því miklu máli hvað sjálfbærni varðar. Skógar koma þar takmarkað inn, nema hvað skóga við strendur varðar, sérstaklega fenjaviðarskóga (mangrove), en mikilvægt er að tekið sé tillit til þeirra við markmiðasetningu fyrir höfin.
  1. Líf á landi
    Lífbreytileiki á landi er mestur í skógum, sérstaklega regnskógum, en í skógum eru heimkynni yfir 80% dýra- og plöntutegunda á landi. Skógareyðing er því ein stærsta ógnin fyrir þetta markmið og því skiptir skógvernd og endurheimt skóga miklu máli, sem og vel skipulögð nytjaskógrækt, en með henni má draga úr þrýstingi á náttúruskóga.
  1. Friður og réttlæti
    Heimsmarkmið um frið og réttlæti snýst um að byggja upp réttlátt lagaumhverfi og skilvirkar og ábyrgar stofnanir.  Skýr og réttlátur lagarammi um skógrækt skiptir auðvitað máli upp á rekstur geirans, sem og vernd skóga, en skógrækt sem slík spilar kannski takmarkað hlutverk hér, nema þá á svipaðan hátt og fyrir Markmið 3, 4 og 10 – aukin hagsæld tengd skógum og skógrækt getur skilað sér í betri menntun, meira jafnrétti og jöfnuði, sem svo skilar sér aftur í meiri líkum á friði. Auk þess sem betur menntað og vel stætt fólk á auðveldara með að sækja sér réttlæti með lagalegum úrræðum.
  1. Samvinna um markmiðin
    Markmið 17 gengur eins og rauður þráður í gegnum öll hin markmiðin – til þess að ná Markmiði 17 þarf að ná öllum hinum 16 og þau nást ekki nema unnið sé saman. Undir þessu markmiði eru undirmarkmið um fjárfestingar, viðskipti og flutninga, sem allt hefur áhrif á framtíðarmöguleika skógræktar. Skógrækt og skógverndun er langtímaverkefni, sem vinna þarf að í samvinnu margra aðila og mótast af mörgum mismunandi þáttum.

 

Fulltrúafundur 2022

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna verður haldinn laugardaginn 11. júní í sal Skógræktarfélags Kópavogs í Guðmundarlundi. Þema fundarins er bætt aðgengi að útivistarskógum skógræktarfélaga.

Dagskrá:

Bætt aðgengi að útivistarskógum skógræktarfélaga

9:30 – 9:40            Setning
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands

9:40 – 10:00          Skógarauðlindin – útivistarsvæði skógræktarfélaganna
Björn Traustason, form. Sk. Mosfellsbæjar

10:00-10:20           Á meðal trjánna
Jón Ásgeir Jónsson, verkefnisstjóri hjá Sk. Íslands

10:20 – 10:40         Almannavarnir tengdar skógræktarsvæðum
Áslaug Ellen Yngvadóttir, sérfræðingur í Almannavörnum

10:40 – 11:00      Fjármögnun verkefna og bætt aðgengi í Kjarnaskóg
Rebekka Kristín Garðarsdóttir, stjórnarmaður  Sk. Eyfirðinga

11:00                     Pallborð – Fyrirspurnir og umræður

12:00                     Hádegishlé: Veitingar á vegum SÍ

13: 00 13:20          Gerð og lega göngustíga og uppbygging annarra innviða í útivistarskógum
Einar Jónsson, verkefnisstjóri hjá Sk. Íslands

13:20- 13:40          Landnemar og reynsla Skógræktarfélags Reykjavíkur
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Sk. Reykjavíkur

13:40- 14:20          Ávinningur þess að bæta aðgengi í skógum félagsins
Vagn Ingólfsson, formaður Sk. Ólafsvíkur og Hilmar Már Arason, gjaldkeri Sk. Ólafsvíkur

14:20                     Pallborð  og fyrirspurnir

Gönguferð og kynning á Guðmundarlundi. Veitingar á vegum SÍ

 

Staðsetning Guðmundarlundar (Google Maps)

Rafræn félagsskírteini skógræktarfélaganna

Með Fréttir

Félagsskírteini skógræktarfélaganna er nú komið á rafrænt form og hægt að geyma í símanum. Ef þú ert félagsmaður í skógræktarfélagi og hefur ekki fengið tölvupóst með tengli til að nálgast það (og finnur slíkan póst ekki í ruslhólfinu) endilega hafðu samband við okkur til að athuga hvort þú sért með virkt netfang skráð hjá okkur. Sama gildir ef þú vilt hafa félagsskírteinið þitt áfram á pappír – láttu okkur vita og við komum því í ferli. 

Hafið samband með tölvupósti á rf@skog.is eða hringið í síma 551-8150.

Hægt er að skrá sig í skógræktarfélag hér: https://www.skog.is/skraning-i-felog/

Leiðbeiningar fyrir skírteinin

Tengill fyrir niðurhal er sendur í tölvupósti á uppgefið netfang félagsmanns. Til að geta geymt skírteinið er notað svokallað veski (wallet) í símanum.

Ef fólk er með Apple síma er notað Apple Wallet appið sem er þegar í símanum. Myndavélin á símanum er opnuð og QR-kóðinn í tölvupóstinum skannaður. Ef tölvupóstur er skoðaður í símanum sjálfum er nóg að smella á tengil í póstinum og fylgja leiðbeiningum þar.

Ef fólk er með Android síma þarf að byrja á að hala niður í símann SmartWallet appinu (ef búið er að ná í rafrænt ökuskírteini er það nú þegar í símanum). Síðan er hægt að opna myndavélina inni í appinu (með því að smella á hringhnappinn með + merki) og skanna inn QR-kóðann í tölvupóstinum. Ef tölvupóstur er skoðaður í símanum sjálfum er nóg að smella á tengil í póstinum og fylgja leiðbeiningum þar.

Þetta er einfalt í framkvæmd en ef fólk treystir sér ekki í þetta er hægt að leita til vinar/barns/barnabarns eftir aðstoð við að setja skírteinið upp!

Nánari leiðbeiningar:

Tölvupóstur í síma (Android)

1) Ná í SmartWallet (frá Smart Solutions). Fara í Play Store, hala niður og setja upp.
2) Opna tölvupóstinn sem kom með tenglinum og smella þar á „Smelltu hér til þess að sækja passann þinn“.
3) Í glugga sem þá opnast með sýnishorni passa er netfang sett inn í reit þar undir „Netfang“ og svo smellt á „Búa til passa“.
4) Í næsta glugga sem opnast er smellt á „Niðurhala passa“ og velja þar „Open“ í stiku sem kemur efst.
5) Þá opnast gluggi með passanum og þar þarf að smella á „Add“.
6) Til að skoða skírteinið er svo opnað SmartWallet.

Tölvupóstur í tölvu (Android)

1) Ná í SmartWallet (frá Smart Solutions) í símann. Fara í Play Store, hala niður og setja upp. Athugið að það þarf að leyfa appinu að taka myndir (svo það geti skannað QR-kóða).
2) Opna tölvupóstinn í tölvunni og smella á „Smelltu hér til þess að sækja passann þinn“.
3) Þá opnast gluggi (Sæktu passann þinn núna) og er netfang sett inn í reit þar undir „Netfang“ og svo smellt á „Búa til passa“.
4) Þá opnast gluggi með QR-kóða.
5) Fara í símann og opna SmartWallet, ýta á hnapp til að bæta við (hringur með plús-merki), velja möguleika „Meðan verið er að nota forritið“ og svo bera síma upp að QR-kóða á tölvuskjánum þannig að kóðinn sé í mynd á símanum.
6) Samþykkja að veita aðgang (Leyfa) og þá opnast passinn inni í SmartWallet. Velja þar „Add“ og þá fer passinn í veskið.
7) Til að skoða skírteinið er svo opnað SmartWallet.

Takmörkuð viðvera á skrifstofu

Með Fréttir

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu vegna Covid-19 mun starfsfólk Skógræktarfélags Íslands vera meira í fjarvinnu á næstunni. Því getur komið upp sú staða að enginn sé á skrifstofu hluta úr degi og því vissara að hringja á undan sér (s. 551-8150). Hægt er að hafa samband við starfsfólk beint í farsíma eða í tölvupósti – símanúmer og netföng má finna hér á heimasíðunni.

Skjótum rótum!

Með Fréttir

Nú fyrir áramótin verða björgunarsveitir um land allt með Rótarskot til sölu. Það er upplagt fyrir þau sem vilja draga úr magni flugelda sem keyptir eru eða vilja ekki kaupa flugelda, en hvert slíkt skot gefur af sér tré sem plantað er af sjálfboðaliðum björgunarsveita og skógræktarfélaga. Með kaupum á Rótarskoti styður þú starf björgunarsveitanna og skógrækt í landinu.

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir

Það er enn hægt að nálgast falleg jólatré hjá nokkrum skógræktarfélögum. Nánari upplýsingar á http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/

Skógræktarfélag Árnesinga, á Snæfoksstöðum 20.-23. desember kl. 11-16. Sjá einnig: https://www.facebook.com/snaefokstadir

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Kjarnaskógi alla daga til jóla. Sjá nánar á: https://www.kjarnaskogur.is/jolatre

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í Gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg 20.-22. desember kl. 10-18. Sjá einnig: https://www.skoghf.is

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð 20.-22. desember kl. 12-17. Sjá einnig: https://www.facebook.com/SkogMos/

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Lækjartorgi 18.-23. desember kl. 16-20. Sjá einnig: http://heidmork.is/