Skip to main content
All Posts By

a8

Fuglaverndarfélag Íslands – annar fræðslufundur vetrarins

Með Fundir og ráðstefnur

Á næsta fræðslufundi Fuglaverndar mun búlgarski fuglafræðingurinn Sergey Dereliev segja frá AEWA í máli og myndum. AEWA er Alþjóðlegur samningur um vernd farfugla og votlendisfugla í Afríku og Evrasíu (African-Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og er sáttmálinn í tengslum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Sergey Dereliev er sérfræðingur hjá AEWA og mun hann kynna sáttmálann, markmið og helstu verkefni (sjá nánar á vefsíðu AEWA hér).

AEWA sáttmálinn er afar gagnlegur til verndar farfuglum sem ferðast milli landa og heimsálfa og mundi nýtast vel til verndar íslensku farfuglunum enda hefur það verið markmið Fuglaverndar um árabil að Ísland gerist aðili að sáttmálanum og félagið margrætt það mál við hina ýmsu umhverfisráðherra. Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki á aðild að sáttmálanum.

Fyrirlesturinn verður mánudaginn 21. september  í húsakynnum Kaupþings í Borgartúni 19 og hefst fundurinn klukkan 20:30.  Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

 

fi-2fundur

 

 

 

 

Ráðstefna: Skógar efla lýðheilsu fólks í þéttbýli

Með Fundir og ráðstefnur

Dagana 16.-19. september 2009 verður haldin alþjóðleg ráðstefna um hlutverk skóga og skógræktar fyrir þéttbýli, með sérstakri áherslu á löndin við norðanvert Atlantshafið.

Flest landanna eru, eins og Ísland, mjög borgvædd og því skipta skógar og önnur græn svæði í borgum miklu máli fyrir útivistarmöguleika íbúanna. Rannsóknir hafa sýnt fram á margvísleg jákvæð áhrif útivistar í skógi á lýðheilsu og velferð, þar sem skógar fullnægja ýmsum menntunar-, menningar-, og félagslegum þörfum fólks.

Ráðstefnan er haldin er í tengslum við formennskuár Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Skipuleggjendur eru Norrænn samstarfshópur um rannsóknir á útivistargildi skóga (CARe-FOR-US; http://www.sl.life.ku.dk/care-for-us), Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.

Umhverfisfræðsluráð og Landvernd: Málþing um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni

Með Fundir og ráðstefnur

Umhverfisfræðsluráð og Landvernd boða til málþings um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni. Málþingið fer fram á Grand Hótel þriðjudaginn 15. september kl. 13:00 til 16:00. Þátttaka tilkynnist með tölvupósti á postur@umhverfisraduneyti.is. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá málþingsins:

  • Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
  • Niðurstöður úttektar á menntun til sjálfbærni á Íslandi sem unnin er fyrir umhverfisfræðsluráð. Stefán Gíslason, Environice.
  • Umhverfislæsi – getum við lært af öðrum þjóðum? Andrés Arnalds, Landgræðslunni.
    Kaffi.
  • Þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni – hvað þarf til? Mike Littledyke og Rose Littledyke.
  • Endurskoðun aðalnámskrár með sjálfbæra þróun í huga. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
    Pallborð og umræður.

Nánari upplýsingar má sjá hér.

Skógræktarfélag Kópavogs: Vinnudagur á Fossá

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 12. september verður árlegur vinnudagur að hausti á Fossá í Hvalfirði. Mæting er kl. 10 og verða veitingar á staðnum.

Það er  mjög margt sem þarf að gera á Fossá að þessu sinni.

  • Eftir mikla grisjun þarf að taka til í skóginum þannig að hægt sé að koma grisjunarvið í burtu og selja og afla félaginu þannig fjár.
  • Ganga með girðingu kringum jörðina og leggja mat á ástand hennar og brýnustu aðgerðir næsta sumar.
  • Velja torgtré fyrir komandi fæðingarhátíð frelsarans.
  • Taka til á svæðinu eftir framkvæmdir við aðkomu.
  • Planta 6 – 8 bökkum af greni í jólatrjáakra sem voru úðaðir með roundup, tilraun sem metin verður næsta sumar, Plöntur sem félagsmenn settu niður á vinnukvöldi síðastliðið vor þrífast með ágætum, öllum til mikillar gleði.
  • Fræðast um það sem unnið hefur verið að í sumar og er í vændum vegna opins skógar næsta ár. Sjá svæðið, með eigin augum.

Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Páll, s. 864-2865.

skkopvinnudagur

Umhverfisþing 9.-10. október

Með Ýmislegt

Umhverfisráðherra boðar til VI. Umhverfisþings dagana 9.-10. október 2009. Þingið fer fram á Hótel Hilton Reykjavík Nordica. Sjálfbær þróun verður aðalumfjöllunarefni þingsins að þessu sinni. Kynntar verða tillögur að nýjum áherslum stjórnvalda á sviði sjálfbærrar þróunar næstu árin. Einnig verður kynnt ný skýrsla umhverfisráðherra um stöðu og þróun umhverfismála.

Þátttaka er ókeypis en gestum þingsins gefst kostur á að kaupa hádegisverð á hótelinu föstudaginn 9. október. Dagskrá þingsins og frekari upplýsingar um þingið verða birtar á heimasíðu umhverfisráðuneytisins þegar nær líður. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á heimasíðu ráðuneytisins eða í síma 545-8600 fyrir 1. október.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Fræðsluganga – tré og skrautrunnar

Með Skógargöngur

Laugardaginn 5. september verður haldið í síðustu fræðslugöngu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í ár. Við munum skoða og ræða tré og runna í trjásafninu í Höfðaskógi og í gróðrarstöðinni. Lagt verður af stað frá Þöll við Kaldárselsveg kl. 10.00 árdegis. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund en ekki verður farið hratt yfir. Skógræktarfélagið mun bjóða upp á kaffi að göngu lokinni. Gróðrarstöðin Þöll mun bjóða upp á 20% afslátt af öllum plöntum þennan dag en nú er tilvalinn tími til að gróðursetja og flytja til tré, runna og fjölær blóm. Þöll verður opin frá 10.00 – 18.00 á laugardaginn.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélagsins og Þallar: 555-6455.

skogargangaskhafnsept

Skógræktarfélag Reykjavíkur: Sveppatínsluferð

Með Skógargöngur

Árleg sveppatínsluferð Skógræktarfélags Reykjavíkur verður í Heiðmörk laugardaginn 5. september kl. 11-13. Sérlegur leiðbeinandi verður Ása Margrét Ásgrímsdóttir, sveppaáhugakona og höfundur bókarinnar Matsveppir í náttúru Íslands.

Ása Margrét mun leiða áhugasama um kjörlendi sveppa í Heiðmörk og leiðbeina við greiningu og tínslu. Hér gefst áhugasömum náttúruunnendum kjörið tækifæri til þess að læra grunnatriðin í sveppatínslu.

Lagt verður upp frá Furulundinum í Heiðmörk kl. 11. Lundurinn er merkur inn á kort af svæðinu, sjá hér. Eru þátttakendur hvattir til þess að hafa með sér körfur og góða hnífa og mæta stundvíslega.

skrvk-sveppaferd

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Höfn í Hornafirði

Með Fundir og ráðstefnur

74. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Höfn í Hornafirði dagana 28.-30. ágúst 2009.

Skógræktarfélag A-Skaftfellingar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Elínar S. Harðardóttur, formanns Skógræktarfélags A-Skaftfellinga, Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra Hornafjarðar og Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins. Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka suður á Mýrar að Hellisholti og skoðuð skógrækt þar í blíðskaparveðri. Því næst var haldið á svæði Skógræktarfélags A-Skaftfellinga að Haukafelli á Mýrum, þar sem vígð var ný brú að svæðinu og farið í gönguferð um skóginn. Gustaði hressilega um fundargesti í Haukafelli og kom þá vel í ljós hversu gott skjól fæst af skóginum.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fjórum fræðsluerindum. Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, hélt erindi er nefnist Virkjum sköpunarkraftinn sem í okkur býr, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor fjallaði um landnám og útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur fjallaði um jökla og loftslagsbreytingar á Íslandi og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins fjallaði um framtíðarsýn í íslenskri skógrækt.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð um skóga í nágrenni Hafnar, í sólskini og ágætis veðri. Byrjað var á göngu að Hrossabithaga, gengið þaðan í Hafnarskóg og endað í Einarslundi, þar sem minningarsteinn um Einar Hálfdánarson var vígður.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar. Þar veitti Skógræktarfélag Íslands viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, en það voru  Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson og Björn Bjarnarson. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Skilmannahrepps (70 ára) og Skógræktarfélag Kópavogs (40 ára).

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.

Eftir hádegi var svo boðið upp á skoðunarferð í Steinadal í Suðursveit, fyrir þá sem áhuga höfðu og nýttu margir sér það tækifæri. 

Svipmyndir af fundinum:

adalfundursi-setning
Á annað hundrað fulltrúar mættu á aðalfundinn, sem settur var í Nýheimum á Höfn í Hornafirði, föstudaginn 28. ágúst (mynd: RF).

adalfundursi-haukafell
Fundargestir njóta skjólsins í skóginum í Haukafelli á Mýrum, sem er í umsjá Skógræktarfélags A-Skaftfellinga (mynd: BJ).

adalfundursi-vidurkenningar
Skógræktarfélag Íslands  veitti viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og tóku handhafar viðurkenninganna við þeim úr hendi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra. F.v. Svandís Svavarsdóttir, Guðjón Sveinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Jónsson, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Ingimar Sveinsson, Björn Bjarnarson og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (mynd: RF).

adalfundursi-einarslundur
Guðrún Hálfdánardóttir afhjúpar minnisvarða um bróður sinn Einar, í Einarslundi við Höfn (mynd: RF).

adalfundursi-hafnarskogur
Fundargestir njóta útiveru og sólskins í Hafnarskógi (mynd: BJ).

 

 

 

 

Fuglaverndarfélag Íslands: Fugla- og mannlíf á Grænlandi

Með Fundir og ráðstefnur

Fimmtudaginn 3. september verður haldin fyrsti fyrirlestur vetrarins hjá Fuglaverndarfélagi Íslands.

Gunnar Þór Hallgrímsson og Jóhann Óli Hilmarsson munu segja frá fuglalífi og mannlífi á Ammassalik svæðinu og við Zackenberg á norðaustur-Grænlandi.

Fyrirlesturinn er haldin í húsakynnum Kaupþings í Borgartúni 19 og hefst klukkan 20:30.