Skip to main content
All Posts By

a8

Vettvangsferð í Grunnafjörð – fuglafriðland og vegahugmyndir

Með Ýmislegt

Á laugardaginn 3. október efna Landvernd, Fuglavernd og Græna netið til vettvangsferðar í Grunnafjörð að skoða friðland fugla og hugsanlegar vegaframkvæmdir. Ferðin hefst kl. 10 og er komið aftur í bæinn síðdegis. Leiðsögumaður er Einar Ó. Þorleifsson hjá Fuglavernd en Mörður Árnason gerir grein fyrir framkvæmdahugmyndum og áhrifum þeirra á fuglalíf og náttúrufar. 

Kannaðar verða fuglaslóðir í Grunnafirði, Leirárvogi og Blautósi vestan Akrafjalls. Um er að ræða einstakt fuglasvæði þar sem þúsundir farfugla hafa viðkomu um þetta leyti árs. Vænta má mikils fjölda margæsa. Stærsti tjaldahópur landsins heldur þarna til, og að auki geta ferðalangar búist við að sjá stóra hópa af lóum og ýmsar tegundir vaðfugla.  Ernir og fálkar eru þarna tíðir gestir og nær dagleg sjón.

Grunnafjörður er friðaður og skilgreindur sem Ramsar-svæði og nýtur því alþjóðlegar verndar. Blautós er einnig friðaður.

Farið verður frá BSÍ á laugardaginn 3. október kl. 10.00 og er áætlaður komutími til Reykjavíkur aftur milli 16 og 17. Þátttökugjald er 1800 krónur, skráning í netfanginu Sjá nánar hér (pdf).

grunnifjordur

Tré ársins 2009

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2009 er hengibjörk (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar. 

Tréð var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september, í yndislegu haustveðri. Hófst athöfnin með því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga bauð gesti velkomna. Næstur hélt ávarp Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar. Hann tók svo við viðurkenningaskjali af þessu tilefni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem einnig hélt stutt ávarp. Gestum var svo boðið upp á ilmandi ketilkaffi, framreitt af starfsmönnum Skógræktarfélags Eyfirðinga. Að lokum mældi Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga tréð. Inn á milli atriða var svo flutt tónlist.

Tréð reyndist við mælinguna vera 10,95 cm á hæð. Það klofnar í tvo stofna í um 20 cm hæð og hafa stofnarnir þvermál 20 og 21 cm í brjósthæð. Það er gaman að segja frá að í kringum 2000 voru ýmsum trjám í Kjarnaskógi gefið nafn, í tengslum við ljóðagöngu sem þá var haldin og var Tré ársins meðal þeirra. Fékk það nafnið Margrét og hefur gengið undir því síðan. Margrét er gróðursett á áttunda áratugnum, líklega með fræi frá Finnlandi. Ræktaðir hafa verið græðlingar af henni, þannig að finna má „afkomendur“ hennar á nokkrum stöðum. Búið er að leggja kurlstíg að trénu, þannig að auðvelt á að vera að heimsækja Margréti.

Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins ár hvert og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.

trearsins-1
Tré ársins 2009 – „Margrét“ – skartar sínu fegursta í haustblíðunni (Mynd: BJ).

trearsins-2
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, afhendir Hermanni Jóni Tómassyni, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, viðurkenningaskjal (Mynd: BJ).

trearsins-3
Gestir gæða sér á ilmandi ketilkaffi (Mynd: BJ).

trearsins-4
Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, mælir tréð eftir öllum kúnstarinnar reglum (Mynd: BJ).

Haustið í Brynjudal

Með Ýmislegt

Nú þegar farið er að hilla í október-mánuð má sannarlega segja að haustið sé farið að koma. Sést það vel í Brynjudal í Hvalfirði, þar sem Skógræktarfélag Íslands hefur stundað ræktun jólatrjáa um margra ára skeið, en lyngið og lauftrén er óðum að skipta litum þessa dagana og myndar það skemmtilegt samspil við sígræna tóna barrtrjáanna.

brynjudalshaust2

Eins og sjá má dafna tilvonandi jólatré – stafafura, rauðgreni og blágreni – vel í hlíðum Brynjudalsins.

brynjudalshaust1

Gróðursetningarferð í Seldal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn kemur,þann 26. september, efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til gróðursetningarferðar í Seldal. Vegna þurrka var óvenju lítið gróðursett á útivistarsvæðum félagsins í sumar. Því óskar félagið nú eftir sjálfboðaliðum til gróðursetningar.

Við munum hittast kl. 10.00 í Seldal og gróðursetja fram til hádegis um það bil. Félagið mun bjóða upp á hressingu í hádeginu að verki loknu í bækistöðvum félagsins í Höfðaskógi. Plöntur og verkfæri verða á staðnum. Til að komast inn í Seldal er ekið niður að Hvaleyrarvatni og ekið áfram framhjá húsi bæjarins við vatnið og í suður yfir Seldalsháls.

Nánari upplýsingar eru veittar í símum félagsins: 555-6455 / 893-2855.

skhafn-grodursetningseldal
Haustlitir við Hvaleyrarvatn (Mynd: RF).

Nýr stígur vígður í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í sumar var unnið að ýmsum verkum á skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ, undir leiðsögn Skógræktarfélags Garðabæjar. Var það hluti af atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabæ. Unnið var að ýmsum verkefnum, svo sem ruslatínslu, áburðargjöf á trjáplöntur og heftingar útbreiðslu lúpínu, en stærsti verkþátturinn var stígagerð. Borið var ofan í eldri stíga og lagður nýr stígur í Smalaholti.

Mánudaginn 21. september var nýi stígurinn í Smalaholti vígður formlega og mættu á fjórða tug manna til vígslunnar. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar flutti ávarp og því næst opnaði hún stíginn formlega með því að klippa á borða yfir hann. Naut hún við það aðstoðar Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Að klippingu lokinni var stígurinn blessaður af séra Hans Guðberg Alfreðsson og fengu gestir eftir það að prófa stíginn og ganga hringinn eftir honum. Í lokin var gestum boðið upp á heitt kakó í tilefni dagsins og flutti Magnús Gunnarsson þá stutt ávarp.

Stígurinn er vel gerður uppbyggður stígur og er alls á annan kílómetra á lengd. Er hann fyrsti áfangi af innstígum í Smalaholti, sem félagið lét skipuleggja ásamt áningarstöðum í tilefni 20 ára afmælis félagsins.

stigurgbr
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar, klippa á borða og opna þar með formlega nýja stíginn (Mynd: Sk. Garðabæjar).

Grisjun á Siglufirði

Með Fjölmiðlaumræða

Í tengslum við atvinnuátak skógræktarfélaganna kom Skógræktarfélag Íslands á stofn teymi grisjunarmanna nú í sumar. Voru grisjunarmennirnir nýlega á ferðinni í Skarðsdal, hjá Skógræktarfélagi Siglufjarðar.

Skemmtilega umsögn um heimsókn grisjunarmannanna má lesa á vefsíðunni siglo.is – sjá hér.

Tré ársins 2009

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2009 verður útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september kl. 16:30.

Tré ársins að þessu sinni  er hengibjörk  (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar. 

Mæting er við þjónustuhúsið í Kjarnakoti (nr. 1 á korti að neðan), en þaðan er stutt ganga að trénu.

Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.

trearsins-kjarnakot

Jólaskógurinn í Brynjudal – byrjað að bóka!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 5.-6., 12.-13. og 19.-20. desember, auk  sunnudagsins 29. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær og því betra að bóka dag og tíma fyrr en síðar til að vera viss um að fá þann tíma sem hentar best.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog@skog.is.

brynjudalur-byrjadadboka2

Fundur European Forest Network

Með Fundir og ráðstefnur

Dagana 19.-20. september var Skógræktarfélag Íslands gestgjafi fundar European Forest Network árið 2009. European Forest Network (EFN) eru óformleg samtök skógræktarfélaga í Evrópu og grundvöllur samskipta og upplýsingaflæðis varðandi skóga, skógrækt og stefnumál málaflokksins. Nánar má fræðast um samtökin á heimasíðu samtakanna – sjá hér.

Á fundinum kynntu fulltrúar hinna ýmsu landa starfsemi sína, stöðu skógræktar í sínu landi og meginhorfur. Nánar má lesa um fundinn hér.

 

2009 European Forest Network

Með Annað

Dagana 19.-20. september 2009 var Skógræktarfélag Íslands gestgjafi fundar European Forest Network.

European Forest Network (EFN) eru óformleg samtök skógræktarfélaga í Evrópu og grundvöllur samskipta og upplýsingaflæðis varðandi skóga, skógrækt og stefnumál málaflokksins.

Fundurinn hófst með skoðunarferð laugardaginn 19. september, sem sameiginleg var alþjóðlegu ráðstefnunni Skógar í þágu lýðheilsu í þéttbýli (Forestry serving urban societies in the North Atlantic region).  Heimsóttir voru nokkrir helstu útivistarskógar höfuðborgarsvæðisins og nágrennis – Elliðaárdalur, Esjuhlíðar og Mógilsá, Þingvellir, Heiðmörk og Höfðaskógur í Hafnarfirði.

Formlegur fundur var svo haldinn sunnudaginn 20. september, þar sem fulltrúar hinna ýmsu landa kynntu starfsemi sína, stöðu skógræktar í sínu landi og meginhorfur.

Skyggnur flestra erindanna sem haldin voru má nálgast hér að neðan (á pdf-formi). Erindi héldu:
Aðalsteinn Sigurgeirsson, Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá – Forests and forestry in Iceland
Ragnhildur Freysteinsdóttir, Skógræktarfélag Íslands – The Icelandic Forestry Association
Bertram Blin og Thomas Stemberger, Skógræktarsamband Austurríkis (eingöngu munnlegt)
Erik Kosenkranius, Umhverfisráð og Heiki Hepner, Félag skógræktarmanna í Eistlandi – Outlook of Estonian forest sector 2008-2009
Hardi Tullus, Lífvísindaháskóli Eistlands – Hybrid aspen plantations: a new tree for energy and pulp in boreal Estonia
Juhani Karvonen, Skógarfélag Finnlands – Finnish Forest Association
Maurice Rogers, Hið konunglega skoska skógræktarfélag – Scotland‘s forests
Bengt Ek, Skógræktarfélag Svíþjóðar (eingöngu munnlegt)
Pál Kovácsevics, Skógræktarfélag Ungverjalands  – Forestry in Hungary
Marcus Kühling, Skógræktarfélag Þýskalands – The German Forestry Association

Þáttakendur á European Forest Network fundi. Juhani Karvonen (Finnland), Pál Kovácsevics (Ungverjaland), Bengt Ek (Svíþjóð), Bertram Blin (Austurríki), Josef Pethö (Ungverjaland), Maurice Rogers (Skotland), Aðalsteinn Sigurgeirsson og Brynjólfur Jónsson (Ísland), Heiki Hepner og Vaike Pommer (Eistland), Thomas Stemberger (Austurríki), Erik Kosenkranius og Jürgen Kusmin (Eistland), Marcus Kühling (Þýskaland) og Hardi Tullus (Eistlandi). Á myndina vantar Kai Lintunen (Finnland).