Skip to main content
All Posts By

a8

Til hamingju með alþjóðlega kvennadaginn!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar skógræktarkonum og öðrum góðum konum til hamingju með alþjóðlega kvennadaginn!

8mars-4
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, ásamt aðstoðarstúlkum, gróðursetut reynitré í tilefni opnunar Opins skógar í Ásabrekku (Mynd: RF).

Garðyrkjufélag Íslands: Garðrækt á tímamótum – Með fortíðarreynslu til frjósamrar framtíðar!

Með Fundir og ráðstefnur

Garðyrkjufélag Íslands stendur fyrir afmælisráðstefnu um framfarir í  garðyrkju og fer hún fram föstudaginn 5. mars, kl. 13:00-17:30 í ráðstefnusal Orkuveitur Reykjavíkur, að Bæjarhálsi 1.

Dagskrá
Ráðstefnustjóri:  Guðríður Helgadóttir, varaformaður GÍ

13:00 – 13:10 Setning ráðstefnunnar  Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður GÍ
13:10 – 13:20 Ávarp umhverfisráðherra – Svandís Svavarsdóttir
13:20 – 13:50 Reykjavík við aldamót – 1900 og 2000:  Samanburður í máli og myndum.
Fjallað um ásýnd borgar, húsagerð og garða
, – Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur
13:50 – 14:15 Breytingar á gróðurvali í garðrækt 1885-2010 – Sögulegt yfirlit yfir tegundir, sígildar tegundir, tegundir sem hafa komið og farið, tegundir sem hafa alls ekki þrifist, tilraunastarfsemi í ræktun  – Hjörtur Þorbjörnsson, grasafræðingur
14:15 – 14:40 Þróun heimilisgarðsins 1885 – 2010 – Skipulag, nytsemi og fegurð – Ásta Camilla Gylfadóttir, landslagsarkitekt
14:40 – 15:00 Kaffihlé
15:00 – 15:25 Líffræðilegur fjölbreytileiki í görðum landsmanna.  Hið nýja gróðurlendi á Íslandi, áhrif á mannvist, skjól, yndi, uppskera og lýðheilsa – Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt og verkefnisstjóri Yndisgróðurs
15:25 – 15:50 Hvernig var veðrið síðustu 125  ár?  Veðurhorfur næstu öldina?  Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur
15:50 – 16:15 Garður í íslensku landslagi – garður framtíðarinnar?  Helena Guttormsdóttir, myndlistarmaður
16:15 – 16:30 Umræður og ráðstefnuslit
16:30 – 17:30 Léttar veitingar

gi-afmaelisradstefna
(Mynd: RF).

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar Tómasdóttur – tillögur óskast!

Með Ýmislegt

Í tilefni af 20 ára afmæli umhverfisráðuneytisins hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ákveðið að heiðra minningu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti með því að afhenda náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar Tómasdóttur á degi umhverfisins sem haldinn er þann 25. apríl ár hvert. Viðurkenningin verður afhent einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar í fyrsta sinn á degi umhverfisins á þessu ári.

Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði á sig mikið erfiði í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Hægt er að senda umhverfisráðuneytinu tillögur um einstakling eða einstaklinga sem vegna verka sinna og athafna, eru þess verðugir að hljóta viðurkenninguna. Tillögurnar þurfa að berast umhverfisráðuneytinu eigi síðar en 1. apríl 2010, merktar ,,Náttúruverndarviðurkenning Sigíðar Tómasdóttur”, á póstfangið postur (hjá) umhverfisraduneyti.is eða með pósti í umhverfisráðuneytið, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.

Skemmtilegt heimsmet í gróðursetningu

Með Ýmislegt

Í desember síðast liðnum settu sjálfboðaliðar nýtt heimsmet (vottað af fulltrúum Heimsmetabókar Guinness) í gróðursetningu, þegar 100 sjálfboðaliðar gróðursettu 26,422 plöntur á einum klukkutíma. Gerðist þetta í Gransha Woods í Londonderry  á Norður-Írlandi. Þessi skemmtilegi atburður var hluti af sérstöku átaki undir heitinu Tree O‘Clock, en þá gróðursetti fólk um allt Bretland og víðar á sama klukkutímanum. Var þessi viðburður í tilefni Trjávikunni (National Tree Week) í Bretlandi.

Þess má til gamans geta að metið í gróðursetningu trjáa á 24 tímum af teymi 300 manna eru 541,176 plöntur og var það sett í Pakistan í júlí í fyrra.

Á heimasíðu Guinness World Records má svo finna ýmis önnur skemmtileg met tengd trjám, t.d. stærsta tré sem hefur verið endurplantað, elsta tréð og stærsta lifandi jólatréð.

heimsmetgrodursetning
(Mynd: RF).

Andlát: Guðmundur Örn Árnason

Með Ýmislegt

Guðmundur Örn Árnason skógfræðingur lést í Sunnuhlíð í Kópavogi 18. febrúar. Guðmundur var 79 ára að aldri, fæddur á Bragagötu 18. júní 1930. Guðmundur lætur eftir sig fimm uppkomin börn, en kona hans,  Sólveig Ágústa Runólfsdóttir, lést árið 2005.

Guðmundur lauki námi sem skógfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum í Ási árið 1959. Hann starfaði í Skógræktarstöðinni Alaska, við Raunvísindastofnun Háskólans, sem kennari í Þinghólsskóla í Kópavogi og hjá Skógrækt ríkisins. Hann var einn stofnenda Skógræktarfélags Kópavog árið 1969 og var formaður þess til 1972 og framkvæmdastjóri félagsins 1972-1975. Hann var gerður heiðursfélagi Skógræktarfélags Kópavogs árið 2003 og hlaut viðurkenningu Skógræktarfélags Íslands fyrir framlag til skógræktar árið 2004.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Guðmundar innilegar samúðarkveðjur.

gudmundurorn
Guðmundur Örn Árnason (Mynd: EG).

Opið hús skógræktarfélaganna – Nýja-Sjáland

Með Fræðsla

Annað Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 23. febrúar og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Einar Sæmundsen, upplýsingafulltrúi Þingvallaþjóðgarðs og Herdís Friðriksdóttir skógfræðingur, munu segja í máli og myndum frá ferð sinni til Nýja-Sjálands, en þau ferðuðust í tvo mánuði um landið, þegar Einar var að kynna sér starfsemi þjóðgarða þar.  

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-nz
(Mynd: Herdís Friðriksdóttir).

Garðyrkjufélag Íslands: Fræðslufyrirlestur um ávaxtatré

Með Fræðsla

Þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur er garðyrkjumeistarinn Jón Guðmundsson á Akranesi orðinn þjóðsagnapersóna í íslenska garðyrkjuheiminum! Hann er gaurinn sem fær allt til að vaxa og dafna í garði sínum á skjóllitlum fjörukambi við Faxaflóann. Ekkert lætur hann óreynt hvort sem það eru nú salatblöð eða eplatré! Hér mun sannur brautryðjandi ausa úr sjóðum reynslu sinnar og úthluta digrum fróðleiksmolum í þekkingarbúr áheyrenda sinna! Áhugavert, skemmtilegt og fræðandi! – Fræðslukvöld sem enginn má missa af.

Fyrirlesturinn er haldinn fimmtudaginn 18. febrúar í sal Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, kl. 20:00. Aðgangseyrir á fræðslufundina er 500 kr. fyrir félaga og maka, en 800 kr. fyrir aðra.

Fuglavernd: fræðslufundur 17. febrúar

Með Ýmislegt

Miðvikudaginn 17. febrúar verður fimmti fræðslufundur vetrarins hjá Fuglavernd. Þá mun Sigurður Ægisson flytja í máli og myndum erindi um fugla í íslenskri þjóðtrú. Einnig mun hann koma inn á önnur svið sem tengjast þjóðtrúnni, svo sem alþýðuheiti fugla.

Sigurður er guðfræðingur og þjóðfræðingur að mennt og hefur um margra ára bil safnað heimildum um íslensku varpfuglana í menningarsögunni. Í erindi sínu mun hann fjalla um þetta áhugamál sitt, einkum það sem lýtur að hlut þjóðtrúarinnar og mun hann leiða viðstadda inn í þennan mjög svo athyglisverða heim.

Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arion-banka í Borgartúni 19. Fundurinn er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 300 krónur fyrir aðra.

Nánar upplýsingar á vefsíðu Fuglaverndar.

Opið hús skógræktarfélaganna – Skógarferð til Noregs

Með Fundir og ráðstefnur

Fyrsta Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 9. febrúar og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Brynjólfur Jónsson og Johan Holst munu segja í máli og myndum frá skógarferð til Noregs,  sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir síðasta haust, en hún var farin í tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því Skógræktarfélag Íslands stóð fyrst fyrir fræðsluferð á erlenda grundu.

Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóga, trjátegundir og skógarnytjar, en Norðmenn eru mikil skógaþjóð. Undanfarin ár hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir vinsælum kynnisferðum til annarra landa. Þetta hafa verið fjölsóttar ferðir, þar sem leið ferðalanga liggur oft um óhefðbundnar slóðir, fela í sér mikla náttúruskoðun og góða leiðsögn

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-noregur
Firðir, skógar og hefðbundin hús í Noregi (Mynd: RF).

Skógræktarfélagið Dafnar: Fræðsluerindi

Með Fræðsla

Skógræktarfélagið Dafnar stendur fyrir opnu fræðsluerindi þriðjudaginn 9. febrúar, kl. 20:00. Erindið er haldið í Ársal, 3. hæð í aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) að Hvanneyri, Borgarfirði. Titill erindis er „Skógar Vestfjarða“ og mun Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við LbhÍ halda það.

Nánar um erindið:
Sumarið 2009 skipulögðu nemendur í skógfræði við LbhÍ sérstaka námsferð um Vestfirði þar sem markmiðið var að kynnast sem best náttúru landshlutans, með sérstakri áherslu á náttúruskóga hans og eldri gróðursetta skóga sem finnast þar. Leiðsögumenn í ferðinni voru þau Lilja Magnúsdóttir, Sighvatur J. Þórarinsson og Sæmundur Kr. Þorvaldsson. Leiðangurinn var alls fjögurra daga langur og fór hópurinn vítt og breitt um Vestfirði. Auk nemenda var Bjarna Diðrik sérstaklega boðið í ferðina, enda hafði það komið fram áður að nemendum fannst mjög skorta á þekkingu hans á skógum og skógræktarsögu landshlutans. Það var því gengið frá því að í þessu „námskeiði“ væru átta kennarar en aðeins einn nemandi, þ.e.a.s. Bjarni Diðrik. Fyrirlesturinn er því nemendafyrirlestur prófessorsins!

Erindið er öllum opið.

dafnar-erindi
Myndarlegt evrópulerki á Vestfjörðum.