Skip to main content
All Posts By

a8

Síðsumar í Höfðaskógi

Með Skógargöngur

Fimmtudaginn næstkomandi, 19. ágúst, efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til göngu um Höfðaskóg. Farið verður um Trjásafnið og Rósagarðinn og sagt frá því sem fyrir augu ber. M.a. verða kynntir ýmsir berjarunnar sem vaxa í skóginum.

Mæting er í gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg kl. 20.00. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund. Boðið verður upp á hressingu að göngu lokinni. Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélagsins: 555-6455.

Sveppafræðsla fyrir byrjendur í Fossselsskógi

Með Skógargöngur

Mánudagskvöldið 16. ágúst kl. 20:00 mun Óskar Jóhannsson leiðbeina um ætisveppi í Fossselsskógi. Farið er framhjá bænum Vaði og sameinast í bíla við skógarskiltið, þaðan er ekið upp að Geiraseli en þar mun sveppakynningin byrja.  Fólk hafi með sér hnífa og ílát.

Kaffi og kex drukkið við Geirasel í lokin.

Allir velkomnir
Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga

sveppir

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagur skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn í skógarreit félagsins að Hnausafit í Meðallandi laugardaginn 7. ágúst kl. 13:30. Mæting á bæjarhlaðinu á Syðri-Fljótum, þar sem við leggjum fólksbílum og sameinumst í jeppa í reitinn.

Við skoðum reitinn, grillum og gleðjumst saman á góðum degi. Guðmundur Óli mætir með harmóníkuna.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Skógræktarfélagið Mörk, Kirkjubæjarklaustri.

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði verður haldinn laugardaginn 17. júlí við Hvaleyrarvatn og nágrenni. Að venju tekur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þátt.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar/Þöll v/Kaldárselsveg
kl. 14.00: Hugvekja í Bænalundi við Höfða. Séra Guðbjörg Jóhannesdóttir.
kl. 14.30: Skógarganga að lokinni hugvekju. Leiðsögumaður Jónatan Garðarsson.
kl. 14.30-16.00: Skógarhappdrætti fyrir yngstu kynslóðina.
Dregið úr réttum lausnum kl. 16.30.
kl. 16.00 – 17.00: Kaffiveitingar í Selinu, bækistöðvum félagsins.
 
Hestamiðstöð Íshesta
Kl. 15.00 – 16.00: Börnin á hestbak. Íshestar og Hestamannafélagið Sörli verða með hesta í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta og verður teymt undir börnum.
 
Hvaleyrarvatn – grill
Kl. 14.30-16.30: Hægt verður að grilla við bæjarskálann. Komið með gott á grillið.
 

Nánari upplýsingar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar í síma 555-6455.

Samningur undirritaður í Garðabæ um störf eitt hundrað ungmenna í sumar

Með Skógræktarverkefni

Síðast liðinn þriðjudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands, og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri. Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við samgönguráðuneytið hóf á síðasta ári.

Verkefnin sem ungmennin vinna að eru ýmis konar ræktunar- og umhirðuverkefni á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti og Sandahlíð. Á umræddum svæðum hefur Skógræktarfélag Garðabæjar unnið að ræktun útivistarskógar á annan áratug. Skógurinn er smám saman að verða að veruleika en þar hafa komið að gróðursetningu og ræktun fjölmargir sjálfboðaliðar, einstaklingar, samtök og stofnanir. Með vinnu og umhirðu á svæðunum, svo sem stígagerð, og uppbygginu á áningarstöðum, er sköpuð enn betri aðstaða fyrir gesti. Eftir því sem trén hafa stækkað hafa íbúar í vaxandi mæli heimsótt svæðin og með betri aðstöðu er hægt að fylgja eftir brýnni þörf á bættu aðgengi.

Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og samgönguráðuneytisins hófst á síðasta ári og var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Í fyrra voru sköpuð störf fyrir tæpa 400 einstaklinga og það sem af er þessu ári hafa verið sköpuð 230 störf hjá 9 aðildarfélögum með fulltingi og aðkomu jafn margra sveitarfélaga. Vonir standa til að á næsta ári verði hægt að bæta um betur og skapa vinnu fyrir enn fleiri einstaklinga til að slá á ríkjandi atvinnuleysi ungs fólks.

samningurgbr
Barbara Stanzeit, Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson við undirritun samningsins (Mynd: BJ).

Er nauðsynlegt að eiturúð‘ana – lúpínuna?

Með Ýmislegt

Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands boða til kynningar í fundarsal þeirra síðarnefndu að Skúlatúni 6 í Reykjavík, fimmtudaginn 1. júlí, kl. 14:00 á umsögn um lúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins. Umsögnin, Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting”verður formlega kynnt og fyrirspurnum fjölmiðlafólks svarað af fulltrúum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Allir eru velkomnir.

Niðurstöður sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands eru í stuttu máli:

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á né færð rök fyrir þvílíkri skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar er fyllsta ástæða til að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli. Einungis ber að skoða mögulega ógn út frá forsendum sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni, en ekki t.d. hugmyndum um ásýnd lands (sem er háð smekk og ekki hægt að ræða á hlutbundinn hátt). Þar með falla niður rök fyrir því að eyða lúpínu á öllu hálendinu, í hraunum og öðrum gosminjum yfirleitt og á a.m.k. sumum friðlýstum svæðum. Skoða ber bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með vönduðum rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu. Ekki er réttlætanlegt að loka landinu fyrir nýjum tegundum sem styrkt gætu íslensk gróðurlendi, gert landið byggilegra og betur í stakk búið að standast ytri áföll, og jafnframt gert landnýtingu hér á landi sjálfbærari.

Bæði umsögnin og skýrslan eru aðgengileg á vefnum:

Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi:Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)

Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)


lupinuskyrsla

(Mynd: RF).

Afmæli Heiðmerkur í sjónvarpinu

Með Fjölmiðlaumræða

Skógræktarfélag Reykjavíkur var með fjölbreytta dagskrá í síðustu viku í tilefni 60 ára afmælis Heiðmerkur. Hápunktur hátíðarhaldanna var fjölskylduhátíð á Vígsluflöt á laugardaginn, þar sem boðið var upp á ýmsar þrautir og skemmtun.

Fjallað var um fjölskylduhátíðina í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sama dag og má sjá þá umfjöllun hér.

heidmork60-1
Á fjölskylduhátíðinni voru meðal annars tréskurðarlistamenn að störfum (Mynd: BJ).

 heidmork60-2
Það var gaman að prófa þrautabrautina (Mynd: BJ).

 

 

 

 

70 ný störf í skógrækt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, Magnús Gunnarsson frá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ) og Jónatan Garðarsson frá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar skrifuðu nýverið undir samning um atvinnuátak fyrir námsmenn tengt skógrækt. Mun þetta skapa störf fyrir sjötíu námsmenn í sumar.

„SÍ og samgönguráðuneytið hafa gert með sér samning um átaksverkefni á vegum SÍ sem miðar að því að skapa 220 ársverk við skógrækt og önnur tengd verkefni á árunum 2009-2011. Í þeim samningi er gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga að verkefninu. Ennfremur er gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samvinnu við skógræktarfélög innan SÍ.
 
Samningurinn sem undirritaður var 25. júní er hluti þessa atvinnuátaksverkefnis og með honum taka SÍ og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að sér að skipuleggja verkefni fyrir 70 námsmenn í 2 mánuði á landssvæðum Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar á árinu 2010, á tímabilinu júní til 30. september 2010.
 
Anna Sigurborg Ólafsdóttir þjónustu- og þróunarstjóri segir að nú þegar hafi 6o námsmenn óskað eftir vinnu við átakið. Er ljóst að mikil þörf er fyrir vinnu fyrir námsmenn en Vinnumálastofnun fór af stað með sérstakt átak fyrir námsmenn nú í vor og auglýsti 856 störf. Fékk Hafnarfjarðarbær þar af 22 ráðningarheimildir og er búið að ráða í þær stöður,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Frétt og mynd af www.mbl.is

 

samningurhfmbl

F.v. Jónatan Garðarsson, Lúðvík Geirsson og Magnús Gunnarsson.

Við eigum afmæli í dag…

Með Ýmislegt

Í dag á Skógræktarfélag Íslands 80 ára afmæli, en það var stofnað þann 27. júní á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Skógræktarfélagið vill þakka aðildarfélögunum og öðrum samstarfsaðilum, styrktaraðilum og öllum vinum og velunnurum fyrir samvinnu, stuðning og velvild í gegnum árin.

skogarstigur