Nú er í kynningu tillaga að deiliskipulagi Heiðmerkur. Allir sem láta sig málefni Heiðmerkur varða eru hvattir til að kynna sér tillöguna og senda inn athugasemdir ef einhverjar eru.
Í fréttatíma sjónvarpsins 29. ágúst mátti sjá umfjöllun um 80 ára afmælishátíð Skógræktarfélags Íslands, sem haldin var á Þingvöllum þann dag. Hægt er að horfa á fréttina hér.
Skógræktarfélag Íslands fékk sendar eftirfarandi myndir frá Gunnari Björnssyni í Garðabæ. Gunnar gróðursetti litlar birkiplöntur af yrkinu Embla í júní 2009 og voru það þá um 15 cm háar bakkaplöntur, fengnar frá gróðrarstöðinni Hvammi á Flúðum.
Voru plönturnar settar niður við sumarhús í landi Efra-Sels á Flúðum. Megnið af þeim er búið að ná um metra hæð eftir árið, nokkrar í um 1,5 m hæð, en ein sker sig úr og er búin að ná tæplega 1,8 m hæð, eða um tólf-falda hæð við gróðursetningu! Verður það að teljast góður árangur á einu ári.
Hér má sjá hæðarmálið á besta birkinu.
Plantan er orðin alveg mannhæðarhá.
75. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Selfossi dagana 27.-29. ágúst 2010.
Skógræktarfélag Árnesinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.
Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, Kjartan Ólafssonar, formanns Skógræktarfélags Árnesinga, Johan C. Löken, formanns Skógræktarfélags Noregs, Elfu Daggar Þórðardóttur, formanns framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var farið í Tryggvagarð, þar sem afhjúpaður var bautasteinn til minningar um Tryggva Gunnarsson og til að marka garðinn. Því næst var haldið að Snæfoksstöðum í Grímsnesi, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Árnesinga. Þar var farið í skoðunarferð um skóginn, sem lauk með afhjúpun þriggja bautasteina, með nöfnum deilda Skógræktarfélags Árnesinga, formönnum og stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins. Einnig var Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður félagsins, gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands við þetta tækifæri. Vettvangsferðinni lauk svo með skógarveislu í skjólinu í skóginum.
Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ólafur Sturla Njálsson frá Gróðrarstöðinni Nátthaga fjallaði um evrópulerki, Ragnar Sigurbjörnsson, prófessor og forstöðumaður Jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands á Selfossi sagði frá stofnunni og jarðskjálftum á Suðurlandi, Jón Kr. Arnarson frá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um trjárækt við erfið skilyrði, Egill R. Sigurgeirsson læknir sagði frá býflugum og hunangsframleiðslu og Eiríkur Benjamínsson fjallaði um sitkagreni.
Erindi Ólafs Sturlu Njálssonar (pdf)
Erindi Ragnars Sigurbjörnssonar (pdf)
Erindi Jóns Kr. Arnarsonar (pdf)
Erindi Egils R. Sigurgeirssonar (pdf)
Erindi Eiríks Benjamínssonar (pdf)
Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hellisskóg, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Selfoss, en það er deild í Skógræktarfélagi Árnesinga. Nutu fundargestir skógarins í sól og blíðu veðri, undir leiðsögn Bjarna Harðarsonar.
Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Árnesinga, undir styrkri stjórn veislustjórans Guðna Ágústssonar. Meðal annars færði Skógræktarfélag Íslands þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli (20 ára), Skógræktarfélag Strandasýslu (60 ára), gestgjafar fundarins, Skógræktarfélag Árnesinga (70 ára) og Skógræktarfélag Eyfirðinga (80 ára). Auk þess á Skógræktarfélag Vestmannaeyja 10 ára afmæli, en fulltrúi þess félags átti því miður ekki tök á að koma á kvöldvökuna.
Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegi.
Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2010 (pdf)
Fundargögn:
Haldið var upp á 80 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands í Stekkjargjá á Þingvöllum, en þar var félagið stofnað á Alþingishátíðinni 27. júní 1930.
Hófst formleg dagskrá með því að séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar leiddi gesti frá Furulundinum upp í Stekkjargjá, en þar tók á móti hópnum skógfræðingurinn Alexander Robertson með sekkjapípuleik.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð fundargesti velkomna. Því næst flutti séra Gunnþór bæn og blessun. Því næst hélt Magnús sitt hátíðarávarp. Næstur upp í pontu var Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, með ávarp. Sigurður Pálsson skáld flutti svo ljóðabálk með sex ljóðum, sem hann samdi sérstaklega af þessu tilefni.
Bæn og blessun séra Gunnþórs Ingasonar (pdf)
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Ávarp Þorsteins Pálssonar (pdf)
Inn á milli ávarpa söng svo Karlakór Hreppamanna, undir stjórn Edit Molár, vel valin lög.
Formlegri dagskrá lauk svo með því að Alexander Robertson leiddi gesti aftur til baka í Furulundinn, þar sem boðið var upp á skógarkaffi.
Tókst hátíðin í alla staði vel, þótt veðrið væri heldur dyntótt á meðan á hátíðinni stóð, allt frá sólskini yfir í nokkra rigningu. Mættu á annað hundrað manns á hátíðina – fundargestir af aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem lauk stuttu fyrr á Selfossi, sendiherrar og fulltrúar frá sendiráðum Kína, Kanada, Bretlands, Noregs og Rússlands, auk annarra góðra gesta.
Skoða má myndir frá afmælishátíðinni á fésbókarsíðu félagsins (hér).
Séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar, leiðir fundargesti upp í Stekkjargjá (Mynd: RF).
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: RF).
75. aðalfundi Skógræktarfélags Íslands lauk í dag á Selfossi. Fundurinn tókst sérlega vel, enda voru veðurguðirnir vinveittir fundargestum, en sól og blíða var mest allan tímann sem fundurinn stóð yfir.
Þær breytingar urðu á stjórn félagsins að Gunnlaugur Claessen gekk úr stjórn, en í hans stað kom Páll Ingþór Kristinsson. Varamenn voru kosin Sigríður Heiðmundsdóttir, Vilhjálmur Lúðvíksson og Kristinn Þorsteinsson.
Ein ályktun var samþykkt og má lesa hana hér (pdf).
Nánar má lesa um fundinn undir Fundir hér á síðunni (hér).
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2010 var settur á Hótel Selfossi í dag. Gestgjafar fundarins að þessu sinni eru Skógræktarfélag Árnesinga.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn og má lesa ávarp hans hér. Einnig fluttu ávarp Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Kjartan Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Árnesinga, Johan C. Löken, formaður Skógræktarfélags Noregs, Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar og Jón Loftsson skógræktarstjóri.
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð um nágrenni Selfoss. Fyrst var farið í Tryggvagarð, þar sem afhjúpaður var bautasteinn til að marka garðinn. Því næst var haldið að Snæfoksstöðum í Grímsnesi, þar sem fundargestir fóru í skoðunarferð um skóginn, sem lauk með afhjúpun þriggja bautasteina, með nöfnum deilda Skógræktarfélags Árnesinga, formönnum og stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins. Einnig var Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður félagsins gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands við þetta tækifæri. Því næst var slegið upp skógarveislu.
Fundurinn heldur svo áfram á laugardagsmorgun með fræðsluerindum.
Svipmyndir af fundinum má sjá á fésbókarsíðu félagsins.
´
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setur aðalfund 2010.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2010 verður haldinn á Selfossi dagana 27.-29. ágúst 2010 og er það Skógræktarfélag Árnesinga sem er gestgjafi fundarins að þessu sinni.
Nánari upplýsingar um fundinn verða settar inn á síðu fundarins annars staðar á vefnum (sjá hér) eftir því sem þær liggja fyrir.
Af og til síðustu árin hefur því verið haldið fram að ösp sé hættuleg mannvirkjum. Í júlímánuði var viðtal við Sigurð Helga Guðjónsson, formann Húseigendafélagsins, í morgunútvarpi Rásar 2 og kom þar fram að rætur aspa skemmdu eða eyðilegðu gangstéttar, slitlag vega, lagnir og hús, auk þess sem öspin „trylltist“ við þegar hún færi að drepast, við 40-50 ára aldur, og færi að skjóta rótarskotum í allar áttir.
Til að leita upplýsinga um þetta tjón sendi undirritaður byggingarfulltrúa Reykjavíkur, Magnúsi Sædal, erindi og óskaði eftir upplýsingum um umfang tjóns í Reykjavíkurborg. Spurt var sérstaklega um skemmdir af völdum aspa á gangstéttum eða hellum, malbiki götum eða vegum, lögnum, byggingum og dæmi um „árás“ aspa á umhverfi sitt.
Í svari Magnúsar kemur fram að engar formlegar kvartanir séu skráðar hjá embættinu vegna skemmda af völdum aspartrjáa á gangstéttum, hellulögnum, malbiki, götum eða vegum. Þó sé vitað að á stöku stað hafi trjárætur valdið lyftingu á gangstéttum og hellulögnum, en ekki sé þar sérstaklega um aspartré að ræða. Svipað gildi um lagnirnar, engar formlegar kvartanir hafi borist embættinu. Þó sé þekkt í einhverju tilviki að trjárætur hafi þrengt sér inn í holræsakerfi, en í í þeim tilvikum sé iðulega um bilaðar eða illa frágengnar lagnir að ræða. Í þessu tilviki virðist það hafa verið rætur af einhverjum runna sem fór í lögnina. Hafa verði í huga að lagnir eigi að liggja í frostfríu dýpi [Skv. upplýsingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru raf-og hitaveitulagnir að öllu jöfnu lagðar á 70 cm dýpi og kaldavatnslagnir á minnst 120 cm dýpi]. Hjá byggingarfulltrúa eru ekki skráð dæmi um tjón á byggingum vegna trjágróðurs. Lauf og annað affall af trjám getur fallið á þök lægri bygginga, sest í þakrennur, stíflað niðurföll og valdið vatnstjóni, ef rennur eru ekki þrifnar. „Tryllingur“ fimmtugra aspa er óþekkt fyrirbæri. Taka má fram að samkvæmt erlendum heimildum geta aspir náð allt að 200 ára aldri.
Af svari byggingarfulltrúa Reykjavíkur má ráða að aspir hagi sér ekki öðruvísi en aðrar trjátegundir gagnvart híbýlum manna og götum. Við umræðu um trjárækt í okkar ágætu borg væri því heppilegra að beina umræðunni að mikilvægari atriðum, s.s. skjóli, skuggamyndun, rykmengun, útsýni og hljóðmengun.
Hvað skjólið varðar hefur ösp, vegna ýmissa flökkusagna um hana, verið felld í töluverðum mæli. Verði þetta ekki hamið er veruleg hætta á að í skjólsælum hverfum nái vindstrengir sér aftur á strik í þeim og afleiðingarnar verði aukið viðhald húsa og minni útivera í görðum og þar með minni lífsgæði. Hvort tveggja getur lækkað fasteignaverð.
Í þróun borgarinnar hefur þess lengst af verið gætt að mannvirki verði ekki mjög há. Við höfum fáa sólardaga og við viljum njóta þeirra allra. Þetta er skynsamlegt viðhorf íbúa á norðurslóðum þar sem skuggar geta orðið langir. Borið saman við aðrar þjóðir er ekkert tré orðið stórt á Íslandi, né gamalt, en þau verða það. Því er mikilvægt að skipuleggja gróðurinn þannig að skuggi verði sem minnstur af stórum trjám og það er vel hægt. Útsýni er flóknari hlutur að skipuleggja, fer eiginlega eftir við hvað maður er alin upp við eða er vanur. Að horfa út um glugga á tré er ákveðið útsýni, ef tréð er höggvið kemur í ljós hús sem er þá önnur gerð af útsýni, eða haf eða fjall eða eitthvað annað.
Einnig er vert að skoða áhrif trjágróðurs á hljóð- og loftmengun. Tré geta hafa veruleg áhrif á hvorutveggja. Tré geta, eftir hæð og þéttleika, dregið verulega úr hávaða og liggja fyrir mælingar á því. Einnig fanga þau rykagnir og binda koltvísýring (CO2). Því mætti skoða hvort ávinningur væri af því að láta gróðursetja verulegt magn krónumikilla trjáa í og við sem flest umferðarmannvirki og bifreiðaplön, en víða erlendis er markvisst verið að auka magn trjágróðurs í borgum vegna mengunarsjónarmiða.
Allar trjátegundir hafa sína kosti og galla við ræktun, sem og annar gróður, og er öspin þar engin undantekning. Það er hins vegar engin ástæða til að taka hana sérstaklega fyrir sem ógn við mannvirki hér í borg. Ætlum öspinni ekki meira en henni ber.
Helgi Gíslason
framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Borgartré 2010 hefur verið valið og kynnti Jón Gnarr borgarstjóri tréð á Menningarnótt. Tréð er af tegundinni silfurreynir (Sorbus intermedia) og er í Víkurgarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.
Georg Schierbeck landlæknir gróðursetti tréð 1884 , en hann fékk til umráða hinn gamla kirkjugarð Reykvíkinga sem þarna hafði staðið í 800 ár og hóf tilraunaræktun á trjám, matjurtum og blómum. Garðurinn varð fljótlega fyrirmynd landsmanna í ræktun og telst Schierbeck einn af frumkvöðlum þjóðarinnar í garðyrkju og skógrækt.
Silfurreynirinn er eina tréð í garðinum sem eftir er frá tíð Schierbecks og jafnframt elsta tré borgarinnar. Það er lifandi minnismerki um þennan merka frumkvöðul og þann tíma þegar garðyrkja og skógrækt voru að komast á legg hér á landi. Samkvæmt mælingu er hann nú 10,19 m á hæð.
Silfurreynir á uppruna sinn að rekja til Suður-Svíþjóðar en er ræktaður víða um heim og þykir bæði harðgerður og henta vel við umferðaræðar vegna þess hve loftmengun hefur lítil áhrif á hann. Þetta er krónumikið og svipmikið tré, náskylt reyniviðnum sem lengi hefur vaxið hér á landi.
Silfurreynirinn getur náð 200 ára aldri og á því umrætt tré í Víkurgarði að öllum líkindum eftir að lifa fram undir næstu aldamót.
Verkefnið Borgartré er þannig vaxið að Skógræktarfélag Reykjavíkur og garðyrkjustjóri, fyrir hönd borgarinnar, tilnefna árlega eitt tré í borgarlandinu. Tilgangurinn er að vekja athygli á merkilegum trjám sem nauðsynlegt þykir að varðveita og hlúa að í framtíðinni. Til greina geta komið ,,merkileg“ tré af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna sögu sinnar, útlits eða fyrir að vera sjaldgæfrar tegundar. Með tilnefningunni fylgja upplýsingar um sögu viðkomandi trés og nýjar mælingar á því á sama tíma og borgarbúar eru hvattir til að rækta fleiri tré sömu tegundar þar sem við á.
Jón Gnarr borgarstjóri flytur ávarp við borgartréð (Mynd: Sk.Rvk).
Nýlegar athugasemdir