Skip to main content
All Posts By

a8

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri síðast liðinn laugardag. Tilefni hans var undirritun samkomulags um stofnun starfshóps sem móta á samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði.
 
Formleg dagskrá hófst með því Jón Gnarr borgarstjóri setti hátíðina kl. 11 í Sólinni, aðalbyggingu Háskólans í Reykjavík. Því næst undirrituðu Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undir samkomulagið. Að því loknu tók hver viðburðurinn af öðrum við, en mörg hundruð manns mættu á hátíðina og skemmtu sér vel, enda veður eins og best varð á kosið.

Við Háskólann í Reykjavík sýnd Jón Gnarr borgarstjóri gestum hvernig ætti að búa til moltu, en hann hefur gert það á sínu heimili í áraraðir og Kristinn Þorsteinsson veitti ráðgjöf og fræðslu um fræsáning og vorverkin í garðinum. Nemendur HR og Listaháskólans sýndu gagnvirk listaverk, sem vöktu mikla lukku meðal yngri kynslóðarinnar.

Rúmlega 60 manns tóku þátt í rathlaupsleik Vals og Heklu og mátti finna börn og fullorðna um alla Öskjuhlíð að reyna að fara uppgefnar brautir á sem skemmstum tíma.

Tvær fjölskyldugöngur voru farnar um Öskjuhlíðina undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings, Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts og Steinar Björgvinssonar skógfræðings. Gönguferðunum lauk við stríðsminjar í hlíðinni, þar sem ljóðalestur tók við. Í fyrri göngunni voru það ljóðskáldin Gerður Kristný og Þórarinn Eldjárn sem fóru með ljóð, en í þeirri seinni Vilborg Dagbjartsdóttir og Sigurður Pálsson.

Sjá mátti skógarmenn  grisja í skóginum og einnig var stór sög á svæðinu til að saga efniviðinn sem til féll í planka.

Í Nauthólsvíkinni bauð Hjálparsveit skáta í Kópavogi upp á siglingu með bátum sveitarinnar um Fossvoginn og nýttu fjöldi barna og fullorðinna tækifærið. Auk þess fóru nokkrir í sjóbað í Nauthólsvíkinni.

Opið hús var í Opið hús var í Barnaskóla Hjallastefnunnar þar sem nemendur sýndu gestum uppáhaldsstaðina sína í Öskjuhlíðinni.

Fjölbreytt tónlist var einnig í boði. HR-bandið hitaði upp fyrir hátíðina í byrjun dags, um hádegisbil tók Ragnar Bjarnason lagið ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni og í lok hátíðarinnar tróð Gleðisveit lýðveldisins upp.

Myndasyrpu frá hátíðinni má sjá á fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

oskjuhlid-undirskrift

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu undir samkomulag um samstarf (Mynd: RF).

oskjuhlidardagur

Boðið var upp á tvær skógargöngur með leiðsögn um Öskjuhlíðina (Mynd: RF).

Samstarfssamningur Toyota á Íslandi og Skógræktarfélags Íslands

Með Skógræktarverkefni

Toyota á Íslandi hf. og Skógræktarfélag Íslands hafa gert með sér samstarfssamning og var hann undirritaður af Úlfari Steindórssyni, forstjóra Toyota og Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, fimmtudaginn 5. maí síðast liðinn. Hefur samningurinn að markmiði að efla ákveðin skógræktarsvæði, með aukið útivistargildi og jákvæð umhverfisáhrif að leiðarljósi. Er þetta framhald á fyrra samstarfi, en Toyota hefur frá árinu 1990 verið einn helsti stuðningsaðili Skógræktarfélags Íslands.

Samkvæmt samningnum mun Toyota leggja til fjármagn til margvíslegrar uppbyggingar á svæðunum, s.s. gróðursetningar, grisjunar og umhirðu, stígagerðar, merkinga o.fl., en Skógræktarfélag Íslands og viðkomandi aðildarfélög munu sjá um verklegar framkvæmdir. Auk þess mun Toyota lána Skógræktarfélagi Íslands bifreiðar til afnota á helsta athafnatíma  félagsins.

Toyota-skógarnir sem um ræðir eru sex talsins um land allt og eru þeir á Ingunnarstöðum í Brynjudal, í Esjuhlíðum, í Kjarnaskógi, í Reyðarfirði, á Söndum í Dýrafirði og í Varmalandi í Borgarfirði.

samningurtoyota

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, takast í hendur að undirskrift samnings lokinni (Mynd: Brynjólfur Jónsson).

Öskjuhlíðardagurinn á laugardaginn

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Öskjuhlíðardagurinn verður haldinn í fyrsta sinn laugardaginn 7. maí. Tilefni þess er að þá verður undirritað samkomulag um stofnun starfshóps sem ætlað er að móta samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags Íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði. Starfshópnum er ætlað að móta tillögur um verkefni með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  • Skógur: Að auka fjölbreytni í skógrækt og bæta umhirðu skógarsvæðisins.
  • Fræðsla: Að efla fræðslu og þekkingu almennings á náttúru og sögu Öskjuhlíðar, meðal annars í gegnum fjölbreytt skólastarf í Öskjuhlíð.
  • Rannsóknir: Að efla fjölbreyttar rannsóknir á svæðinu, þar á meðal notkun þess.
  • Útivist: Að efla lýðheilsu með því að bæta aðstöðu í Öskjuhlíð til fjölbreyttrar útivistar og hreyfingar.
  • Skipulag: Að skoða mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins með tilliti til dvalarsvæða, stígatenginga o.s.frv.

Dagskrá:
Taktu þátt í ratleik í Öskjuhlíðinni, farðu í siglingu í Nauthólsvík, kynnstu Öskjuhlíðinni í skemmtilegum gönguferðum með leiðsögn, hlustaðu á Ragga Bjarna og Gleðisveit lýðveldisins, lærðu allt um vorverkin í  garðinum, að búa til moltu og farðu í sjósund í Nauthólsvík. Sjáðu stóra skógarsög að  verki, heimsæktu börnin í Barnaskóla Hjallastefnunnar og hlýddu á bestu ljóðskáld þjóðarinnar í skóginum í Öskjuhlíð.

Dagskrá og kort (pdf)


Rathlaup Heklu og Vals:
Rathlaupsfélagið Hekla og Knattspyrnufélagið Valur standa fyrir rathlaupi í Öskjuhlíðinni. Boðið verður upp á tvær hefðbundnar rathlaupsbrautir, langa og miðlungslanga. Brautirnar eru útbúnar stafrænum tímatökubúnaði frá SPORTident og geta þátttakendur valið að fara eina eða báðar brautirnar. Þá verður boðið upp á braut fyrir börn og fjölskyldur. Brautin er stutt og lögð þannig að auðvelt er að fara með barnavagna um hana.

Létt leið (pdf)

Miðlungs leið (pdf)

Löng leið (pdf)

Opið hús skógræktarfélaganna: „Þú leysir úr álögum sofandi fræ“

Með Fræðsla

Þriðja Opna hús ársins 2011 verður miðvikudagskvöldið 4. maí og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi, sem hann nefnir „Þú leysir úr álögum sofandi fræ“.  Það er vor í lofti, ilmur gróandans leikur að vitunum og skógarmenn undirbúa vorverkin. Í erindi sínu ætlar Kristinn meðal annars að  fjalla um það helsta sem snýr að fræsöfnun, geymslu fræja, sáningu, græðlingarækt og uppeldi.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Skógar –og fjölskylduganga Skógræktarfélags Kópavogs

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs í samvinnu við umhverfissvið Kópavogsbæjar stendur fyrir skógar- og fjölskyldugöngu mánudaginn 2. maí.  Tilefni þessarar skógar- og fjölskyldugöngu er Dagur umhverfisins þann 25. apríl og að Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2011 skógum. Vikan 25.-30. apríl verður helguð þessu verkefni og mun félagið verða með sérstaka umhverfis- og skógarfræðslu fyrir skólabörn þá viku í samvinnu við skólaskrifstofu Kópavogs. 

Gangan hefst kl. 17.00 og verður gengið frá Guðmundarlundi að mörkum skógræktarsvæðanna milli Kópavogs og Garðabæjar eftir vegslóða sem liggur að Arnarbæli  og þar verður áð. Gengið verður frá Arnarbæli að hlöðnum rústum – „Vatnsendaborg“ innan Heiðmerkur . Þaðan verður gengið aftur að Guðmundarlundi. Þessi ganga mun taka um 2 klukkustundir með stoppum.

Leiðsögumenn í ferðinni verða Gísli Örn Bragason, BS í jarðfræði, og Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar. Veitingar í boði Skógræktarfélagsins í göngulok.

Skógræktarfélag Kópavogs
Umhverfissvið Kópavogsbæjar.

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga verður haldinn þriðjudaginn 26. apríl n.k. í Árhúsum á Hellu og hefst hann kl.: 20:00.

Dagskrá:   
1.     Venjuleg aðalfundarstörf.
2.  Viðurkenning veitt fyrir fallegan skógarreit í sýslunni.
3.  Myndasýning: „Fuglar í skóginum“ í umsjón  Hrafns Óskarssonar
4.  Önnur mál.

Kaffi í boði félagsins.

Allir velkomnir.

Stjórnin.

skrang-fundur1

skrang-fundur2

 

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands: Tálgunarnámskeið- ferskar viðarnytjar

Með Fræðsla

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands býður upp á námskeið sem hefur þróast upp úr námskeiðinu Lesið í skóginn tálgað í tré sem hefur verið kennt í frá árinu 2001 og hefur notið mikilla vinsælda. Námskeiðið er öllum opið. Það hentar t.d  kennurum, sumarbústaðafólki, skógareigendum, skógræktarfólki, ömmum, öfum  og öðrum er vilja læra hvernig hægt er að nota ferskan við úr skóginum, garðinum eða sumarbústaðarlandinu. 
 
Á námskeiðinu:
–  lærir þú öruggu hnífsbrögðin sem auka afköst og öryggi í tálgun með hníf og exi,
–  kynnist þú ýmsum íslenskum viðartegundum, eiginleikum þeirra og nýtingarmöguleikum,
–  þú lærir að tálga nytjahluti og skrautmuni úr efni sem almennt er kallað „garðaúrgangur“,
–  þú lærir að grisja tré og hvar má finna efni í einstök tálguverkefni,
–  þú lærir að umgangast og hirða bitáhöld í ferskum viðarnytjum, hnífa, klippur, exi og sagir,
–  þú lærir að fullgera tálguhluti, þurrka, pússa og bera á,
–  þú lærir að lesa í skógarefnið út frá útliti, eiginleikum og notagildi gripanna,
–  þú lærir að skefta, búa til sleif, fugl, bolla, snaga eða það sem hugur þinn og geta leyfa,
 
Kennari er Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar  ríkisins og verkefnisstjóri Lesið í skóginn. Námskeiðið er haldið föstudaginn 29. apríl, kl. 16-19 og laugardaginn 30. apríl, kl. 9-16. Nánari upplýsingar á heimasíðu Landbúnaðarháskólans (hér).

Landbúnaðarháskóli Íslands: Opið hús hjá garðyrkjubrautum

Með Ýmislegt

Næstkomandi laugardag, þann 16. apríl, verður opið hús hjá garðyrkjubrautum LbhÍ á Reykjum í Ölfusi (gamla Garðyrkjuskóla ríkisins) frá kl. 10-18.  Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá allan daginn (sjá neðar) og má með sanni segja að öll fjölskyldan geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Fyrir börnin verður boðið upp á andlitsmálun og þau geta fengið að fara á hestbak auk þess sem umhverfið í bananahúsinu er töfraveröld sem börnin kunna vel að meta.  Fyrir fullorðna fólkið má nefna fræðsluerindi um ræktun aldintrjáa kl. 13 og fræðslu um ræktun kryddjurta kl. 15:30.

Hátíðardagskrá
Fundarstjórn: Björgvin Örn Eggertsson
14:00 – 14:05 Setning Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum
14:05 – 14:25 Garðyrkjuverðlaun 2011 – Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir
14:25 – 14:30 Tónlistaratriði
14:30 – 14:50 Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar – Forseti Ísland Ólafur Ragnar Grímsson
14:50 – 14:55 Tónlistaratriði

Námið á Reykjum
Á Reykjum í Ölfusi starfar Starfs– og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans. Þar er boðið upp á garðyrkjutengt nám á fjórum brautum: blómaskreytinga-, garðplöntuframleiðslu-, skógar- og umhverfis- og skrúðgarðyrkjubraut. Einnig er boðið upp á fjölbreytt endurmenntunarnámskeið bæði fyrir fagfólk og almenning. Næst verða teknir nemendur á þessar brautir haustið 2012. Leitið upplýsinga á heimasíðu skólans
eða í síma 433 5000.

Endurmenntun
Kynnt verða endurmenntunarnámskeið á vegum Landbúnaðarháskólans. Í boði er fjöldi námskeiða (sjá einnig hér), hvort sem er fyrir fólk innan landbúnaðarins og áhugafólk. Komið og fáið allar upplýsingar um þau námskeið sem framundan eru.

Sala og kaffiveitingar
Í skólabyggingunni er markaðstorg þar sem seldar eru garðyrkjuafurðir. Allt eru þetta úrvals vörur frá íslenskum framleiðendum. Í mötuneyti skólans er boðið upp á kaffi og heimabakað meðlæti. Kaffiveitingarnar á Reykjum eru fastur liður í sumarkomunni hjá mörgum.

Kynningar – skemmtun – fræðsla
Í garðskála er að finna kynningarbása frá ýmsum aðilum. Þar er hægt að kaupa ýmsar vörur og fræðast um margt. Nemendur í blómaskreytingum verða við vinnu og útbúa skreytingar. Stutt fræðsluerindi verða í kennslustofum og hægt verður að spyrjast fyrir um það sem heitast brennur á ræktendum. Í Bananahúsinu er hægt að skoða hitabeltisgróður og sjá bananana þroskast á trjánum. Í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar eru fyrirtæki á garðyrkjusviðinu að kynna nýjungar fyrir sumarið. Þarna má t.d. sjá (kl. 13) kynningu á rósarækt undir LED lömpum í klefa 9 í tilraunagróðurhúsinu. Einnig verða kynntir nýir LED lampar. Sjá nánar hér. Pottaplöntusafn skólans verður til sýnis. Einnig er margt um að vera á útisvæðum skólans. Ýmis afþreying verður í boði fyrir börnin.

Annað skemmtilegt í Hveragerði á laugardaginn!
Kl. 10 Ljóðalestur við sundlaugina
Kl. 12 Páskaeggjaleit við sundlaugina
Hádegið: Tveir fyrir einn í hádegisverð á Heilsustofnun NLFÍ. Frítt í mat fyrir yngri en 12 ára. Frítt í sund í baðhúsi Heilsustofnunar NLFÍ.
Kl. 16 Leiðsögn um sýningar í Listasafni Árnesinga, Austurmörk 21.