Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ verður haldin í þriðja sinn í Hveragarði dagana 23.-26. júní. Þema sýningarinnar að þessu sinni er „Skógur“, í tilefni af alþjóðaári skóga 2011 og munu skreytingar sýningarinnar því verða í skógarstíl og verður ævintýralegt að skoða þær. Skógræktarfélag Íslands er gestur sýningarinnar í ár.
Þriðja skógarganga sumarsins verður farin fimmtudaginn 3. júlí kl. 20.00.
Safnast verður saman við Vatnsskarðsnámuna við Krýsvuíkurveg og gengið að Stóra-Skógarhvammi.
Þar hófst ræktun 1959 á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. Piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu þar út tugþúsundum barrtrjáa undir stjórn Hauks Helgasonar á þremur sumrun. Síðan hefur aðeins tvisvar sinnum verið gróðursett í skógarreitinn sem fengið hefur að vaxa og dafna án mannlegrar aðkomu áratugum saman. Þarna var fyrir gamall birkiskógur sem hefur náð sér vel og er þetta eitt merkilegasta ræktunarsvæði bæjarins, utan alfaraleiðar en samt ótrúlega nærri þéttbýlinu.
Leiðsögumaður verður Jónatan Garðarsson varaformaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gönguferðin er liður í skógargöngum um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í tengslum við 100 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar.
Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Skógræktarfélag Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Alcoa á Íslandi, fékk styrk úr Global ReLeaf verkefninu, sem er samvinnuverkefni American Forests og Alcoa Foundation. Sótt var um fjármagn til gróðursetningar trjáplantna á Reyðafirði og í Vinaskógi. Var hugsunin þar á bak við að gefa starfsfólki Alcoa á báðum stöðvum fyrirtækisins hér á landi tækifæri til að taka þátt í gróðursetningu. Fyrirhugað er að setja niður um 12.000 plöntur.
Hin árlega fuglaskoðunarferð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður á laugardaginn kemur, 4. júní, kl. 10.00 árdegis. Lagt er af stað frá bækistöðvum félagsins og Þallar við Kaldárselsveg. Leiðsögumenn verða vanir fuglaskoðarar. Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.
Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samstarfssamning við Arion banka um verkefnið Opinn skóg og útgáfu og kynningu á skógræktarsvæðum á Íslandi. Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka fimmtudaginn 19. maí.
Markmið samningsins er styrkja skógræktarstarf á Íslandi og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.
Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði. Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Auk þess mun Arion banki styðja ýmis konar fræðslustarf Skógræktarfélagsins.
Meðal þeirra hluta sem verður unnið að í Opnum skógum er uppbygging fyrirmyndar útivistaraðstöðu, svo sem skógarstíga, bekkja, merkinga og leiðbeininga, bílastæða o.fl.
Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, takast í hendur að lokinni undirskrift.
Merk tré í Reykjavík, menningarsaga reykvískra trjáa, er vinnuheiti lokaritgerðar Bjarkar Þorleifsdóttur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Er hún að leita að gömlum trjám, sérstökum og sjaldgæfum tegundum, trjám sem eru stór, bein, kræklótt og síðast en ekki síst trjám sem hafa sögulegt gildi og hafa sérstaka merkingu fyrir íbúa í nágrenni. Þetta geta t.d. verið leiktré, tré sem var plantað fyrir nýfædd börn, plantað af þekktum einstaklingum eða tré sem setja mikinn svip á götumynd eða umhverfi sitt og þar fram eftir götunum.
Búið er að stofna Facebook-síðu utan um verkefnið undir nafninu „Merk tré í Reykjavík“ og vonast Björk til að þangað safnist upplýsingar sem koma að gagni við rannsóknina.Einnig er hægt að senda henni línu á bth79@hi.is.
Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samning við Skeljung um stuðning við verkefnið Opinn skóg. Undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, undir samninginn þriðjudaginn 17. maí.
Samstarfssamningurinn lýtur að víðtækum stuðningi við skógrækt vegna uppbyggingar á skógræktarsvæðum víðsvegar um land. Markmið samningsins er að auka aðgengi og kynningu á skóglendum með markvissum hætti. Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði.
Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Meðal annars verður unnið að uppbyggingu ýmissa innviða, svo sem borða, bekkja, göngustíga, bílastæða o.fl., uppsetningu merkinga og upplýsingaskilta og almennrar umhirðu, svo sem grisjun.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirskrift samningsins (Mynd: RF).
Eldri borgarar í Hafnarfirði verða með sýningu á tálguðum og útskornum munum úr m.a. íslenskum viði í Selinu, bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar, við Kaldárselsveg, laugardaginn 14. maí milli kl. 10.00 – 18.00.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455.
Gróðrarstöðin Þöll við Kaldárselsveg opnar aftur eftir vetrardvala þennan sama dag.
Selið að haustlagi (Mynd: RF).
Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur Vormarkað á Elliðavatni í annað sinn dagana 13.-15. maí næstkomandi. Föstudaginn 13. maí verður opið kl. 15-18, en kl. 10-18 laugardag og sunnudag.
Félag trérennismiða verður með stóra sölusýningu í Gamla salnum og rekur auk þess kaffistofu á staðnum. Þá verða þeir með sýnikennslu á Hlaðinu eins og í fyrra.
Á laugardag verður hestaleiga fyrirtækisins Íslenski hesturinn, þar sem teymt er undir börnum í gerði við bæinn kl. 11-13. Þá verður kynning á stafgöngu á vegum ÍSÍ eftir hádegi og síðdegis verður síðan Vorblót að Vatni á vegum Ásatrúarmanna, sem bjóða öllum að fagna gróandanum með sér.
Fuglavernd og Ferðafélag Íslands verða með kynningu á starfseminni og bjóða fólki í fræðslugöngur á meðan á Vormarkaðnum stendur. Á föstudag verður kennsla í fluguhnýtingum. Á laugardag býðst fólki að kasta flugu með leiðsögn og á sunnudeginum verður síðan kastkeppni á túninu neðan við bæinn.
Gámaþjónustan býður öllum upp á ókeypis moltu í garðinn -og ekki má gleyma Skógræktarfélaginu sem hefur til sölu eldivið, bolvið og kurl og einnig munu skógarmenn sýna nýjustu vélarnar að störfum á laugardeginum.
Nýlegar athugasemdir