Skip to main content
All Posts By

a8

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2011

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2011 hefst í Grundarfirði föstudaginn 2. september og stendur fram á sunnudag. Er þetta í fyrsta skipti sem fundurinn er haldinn á Grundarfirði, en það er Skógræktarfélag Eyrarsveitar sem er gestgjafi fundarins að þessu sinni.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður farið í skoðunarferðir um skógarreiti á Snæfellsnesi og boðið er upp á áhugaverð erindi, auk þess sem fundurinn er einn helsti félagslegi vettvangur skógræktarfélaganna, þar sem fundargestum gefst kostur á að hitta gamla og nýja félaga innan skógræktarhreyfingarinnar.

Dagskrá fundarins má sjá á síðu fundarins (hér).

 

Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði opnaður

Með Skógræktarverkefni

Laugardaginn 27. ágúst var skógurinn að Fossá í Hvalfirði formlega tekinn inn í verkefnið Opinn skóg. Af því tilefni var boðað til hátíðar í skóginum og mættu hátt í þriðja hundrað manns á hátíðina.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum með vel völdum lögum, en formleg dagskrá hófst á því að Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossár, skógræktarfélags, bauð gesti velkomna. Að því loknu opnaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skóginn formlega, með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn.

Því næst gengu gestir á vit seiðandi harmonikkutónlistar í lundi í skóginum, Vigdísarlundi, sem nefndur  er í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.  Vígði Vigdís lundinn formlega með því að afhjúpaða skilti sem markar lundinn og ávarpa fundargesti. Að ávarpi Vigdísar loknu fluttu ávörp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs,  og fulltrúar styrktaraðila Opinna skóga, Guðný Hansdóttir, starfsmannastjóri Skeljungs, og  Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. Bragi nýtti einnig sitt ávarp til að gera Hjördísi Erlu Pétursdóttur að heiðursfélaga Skógræktarfélags Kópavogs og afhenti henni skjöld og blómvönd í tilefni þess.

Inn á milli atriða tók svo Karlakór Kópavogs lagið, auk þess sem Brynhildur Ásgeirsdóttir lék á þverflautu.

Að ávörpum loknum var svo boðið upp á hressingu – kaffi, kakó og bakkelsi, ásamt hollu grænmeti frá garðyrkjubændum, undir harmonikkuleik. Einnig var boðið upp á skemmtidagskrá fyrir börnin, meðal annars andlitsmálningu, klifurvegg og sögustund í skóginum.  Tókst hátíðin í alla staði vel, enda veður með eindæmum gott, sól og blíða. Nýttu margir tækifærið eftir að hátíð lauk til að fara í berjamó, enda víða góðar berjalendur í Hvalfirðinum.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

osfossa

 

 

Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði formlega opnaður

Með Skógræktarverkefni

Laugardaginn 27. ágúst verður Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði opnaður með pompi og prakt. Formleg dagskrá hefst kl. 14:00 og eru allir velkomnir.

Dagskrá:
Lúðrasveit leikur við samkomutjald frá kl. 13:45 en dagskráin hefst þar kl. 14:00.
1. Ávarp. Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossár, skógræktarfélags.
Gengið frá samkomutjaldi að Vigdísarlundi.
Karlakór Kópavogs syngur.
2. Vigdísarlundur formlega opnaður. Vigdís Finnbogadóttir flytur ávarp.
3. Óður til skógarins. Einleikur á flautu: Brynhildur Ásgeirsdóttir.
4. Ávörp flytja:
   Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
   Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
   Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs
   Fulltrúi styrktaraðila Opinna skóga 2011 (Arion banka og Skeljungs)
Karlakór Kópavogs syngur.
5. Barnadagskrá við samkomutjald í umsjón Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Skátafélagsins Mosverja.
6. Kaffiveitingar í samkomutjaldinu í umsjón skógræktarfélaganna, auk þess sem boðið verður upp á grænmeti frá garðyrkjubændum.
Harmonikkuleikur á meðan á veitingum stendur.

Skátar úr Skátafélaginu Kópum úr Kópavogi verða í útilegu með tjaldbúðir á Fossá þessa helgi.

Allir velkomnir,
Fossá, skógræktarfélag
 Skógræktarfélag Kjalarness
 Skógræktarfélag Kjósarhrepps
 Skógræktarfélag Kópavogs
 Skógræktarfélag Mosfellsbæjar

Dr. Jón Geir Pétursson

Með Ýmislegt

Jón Geir Pétursson varði nýlega doktorsritgerð sína í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaháskólann að Ási.  Jón Geir var lengi vel starfsmaður hjá Skógræktarfélagi Íslands (kom fyrst til starfa 1989 sem sumarstarfsmaður), en lét af störfum hjá félaginu haustið 2008, þegar hann hóf störf á skrifstofu stefnumótunar og alþjóðamála hjá umhverfisráðuneytinu.

Titill ritgerðarinnar er Stofnanir og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri: Mt. Elgon, Úganda og Kenía (Institutions and transboundary protected area management: The case of Mt. Elgon, Uganda and Kenya).

Ritgerðin fjallar um þær stofnanatengdu áskoranir sem felast í stefnumálum og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri (TBPAM: transboundary protected area management), með sérstakri áherslu á samfélög heimamanna. Er Elgon fjall á landamærum Úganda og Kenía notað sem viðfangsefni til að prófa og greina stefnumótun TBPAM í Austur-Afríku.

Í ritgerðinni er sýnt fram á að stjórnun verndarsvæða á Elgon innifelur flókið samspil formlegra og óformlegra stofnana á ýmsum stigum stjórnsýslu, sem hefur haft mikil áhrif á stefnumótun og niðurstöðu stjórnunar.

Nánari útdrátt úr ritgerðinni (á ensku) má lesa á heimasíðu Lífvísindaháskólans að Ási (hér).

Skógræktarfélag Íslands óskar Jóni Geir hjartanlega til hamingju með doktorsvörnina!

drjongeir
Jón Geir í góðum félagsskap á toppi Elgon-fjalls (Mynd: JGP).

Borgartré 2011

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur velur borgartré árlega í samstarfi við Reykjavíkurborg. Borgartré 2011 verður formlega útnefnt laugardaginn 20. ágúst kl. 11:00.

Tengill á viðburð á heimasíðu Menningarnætur (hér).

Dagskrá:

Kl. 10:45 Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari flytur þrjú lög og kynnir hún sérstaklega hvert og eitt þeirra. Þau tengjast öll fuglum og trjám, skógi.
Kl. 11:00 Jón Gnarr borgarstjóri kynnir Borgartréð 2011 og afhjúpar skjöld.
Kl. 11:10 Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, flytur stutt ávarp
Kl. 11:15 Ásthildur kynnir og flytur lokalag

Borgartréð að þessu sinni er Evrópulerki, Larix decidua. Tréð er eitt sérkennilegasta tréð í Hólavallagarði og það fallegasta sinnar tegundar í Reykjavík. Það er rúmir 10 m á hæð og um 80 ára. Lerkið hefur gríðarmikla krónu sem hvílir á tveimur íturvöxnum stofnun og er dæmi um hvernig bestu götu- og torgtré geta litið út í borgarmyndinni.

Skógarganga í Stóra-Skógarhvamm

Með Skógargöngur

Í tilefni Alþjóðlegs árs skóga efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til skógargöngu í Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum laugardaginn kemur, 20. ágúst. Lagt verður af stað frá Vatnsskarðsnámum við Krýsuvíkurveg kl. 10.00 árdegis. Leiðsögumenn verða Árni Þórólfsson, Pétur Sigurðsson og Steinar Björgvinsson. Skógrækt hófst í Stóra-Skógarhvammi 1959 af drengjum í Vinnuskóla bæjarins undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra.

Gróðursetning í Reyðarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reyðarfjarðar, í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og  Alcoa á Íslandi, fékk í vor styrk úr Global ReLeaf verkefninu, sem er samvinnuverkefni American Forests og Alcoa Foundation. Sótt var um fjármagn til gróðursetningar trjáplantna á Reyðafirði og í Vinaskógi og var hugsunin þar á bak við að tengja með því þau tvö horn landsins þar sem Alcoa er með starfsstöðvar. Skógræktarfélag Reyðarfjarðar stóð fyrir gróðursetningadegi laugardaginn 13. ágúst. Mættu þar starfsmenn frá Alcoa ásamt meðlimum Skógræktarfélags Reyðarfjarðar og fulltrúa frá Skógræktarfélagi Íslands og settu niður trjáplöntur. Gróðursetningu lauk svo á pylsum og annarri hressingu.

 

globalreleaf

Starfsmenn Alcoa og félagar úr Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar skemmtu sér vel við gróðursetningu (Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson).

Ráðstefna um garð- og landslagsplöntur fyrir norðlæg og hafræn svæði

Með Fundir og ráðstefnur

Dagskrá:

18. ágúst Ráðstefna haldin í Þróttarheimili í Laugardal frá kl. 9:00 – 15:30.

9:30-9:45 Samson Bjarnar Harðarson lektor í landslagsarkitektúr við LbhÍ og verkefnisstjóri Yndisgróðurs setur ráðstefnuna og býður ráðstefnugesti velkomna.
9:45-10:15 Kynning á starfi NPNP: Lífið eftir NPNP – möguleikar á samstarfi.
Introduction of NPNP project: Identification of common as well as country/area specific challenges. Life after NPNP – opportunities for cooperation.
Ulrika Bohman and Mona Lundberg (Svíþjóð)
10:15-10:45 Garðyrkja við erfiðar aðstæður: Áskorun og áhugi/hagsmunir garðyrkjufólks í norðureyjum Skotlands.
Gardening in harsh environments: The challenge and interest of gardeners in Scotland’s Northern Isles.
Peter Martin (Orkney/Shetland)
10:45-11:00 Kaffihlé
11:00-11:30 Reynsla þrjátíu ára. Byrjaði með leit af harðgerðum garðplöntum og er nú besta úrvalið nýtt til framleiðslu hjá garðplöntustöðvum.
Experience of 30 years starting from searching of hardy garden plants to utilization of best material in nursery production and landscaping.
Marjatta Uosukainen (Finnland)
11:30-12:00 Mikilvægi ræktunaraðferða: (jarðvegsbætur, skjól, plöntuval og garðhönnun með tilliti til aukins árangurs).
The importance of gardening methods: (the role of soil improvements, shelter, plant selection and garden design on growing success).
Elisabeth Öberg and Ulrika Bohman (Svíþjóð)
12:00-13:00 Hádegisverður
13:00- 13:30 Leitin að harðgerðum afbrigðum af ávaxtatrjám frá Rússlandi, Finnlandi og  Eystrasaltsríkjunum og innkoma þeirra á markaðinn.
Hunting for hardy varieties of fruit trees from Russia, Finland and the Baltics and their introduction into the market.
Leif Blomquist.
13:30- 14:00 Loftslagsbreytingar og opnun landamæra fyrir viðskipti milli landa – aukin ógn við plöntuheilbrigði á norðlægum slóðum.
Climate change in combination with opening borders in world trade – increasing threat to plant health in northern regions.
Jaana Laamanen (Finnland)
14:00-14:30 Framandi trjátegundir í íslenskri skógrækt.
Exotic trees in Icelandic forestry. The Icelandic Forestry Service.
Dr. Þröstur Eysteinsson, deildarstjóri Þjóðskóga (Ísland)
14:30- 15:00 Kaffihlé.
15:00-15:30 Um eflingu garðyrkjumenningar á Íslandi frá 1885-2011 og ný sjónarmið.
The challenges of establishing a popular gardening culture in Iceland 1885 -2011 present – and some new perspectives.
Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Garðyrkjufélags Íslands.
15:30-18:00 Skoðunarferð um Grasagarð Reykjavíkur og Yndisgarð í Laugardal – 50 ára afmælishátíð Grasagarðsins í Laugardal.
18:00-20:00 Frjáls tími.
20:00-22:00 Sameiginlegur kvöldverður ráðstefnugesta í Þróttarheimili í Laugardal.

 

19. ágúst Vinnufundur á Reykjum í Ölfusi og skoðunarferðir á Suðurlandi.

8:30-9:30 Heimsókn í Gróðrarstöðina Mörk í Fossvogi og Yndisgarður í Fossvogi skoðaður.
9:30-10:00 Ekið austur til Reykja í Ölfusi.
10:00-10:30 Söfnun á garðplöntum á norðlægum slóðum – verndun og nýting.
Plant collecting missions in the Nordic region for conservation and utilisation.
Lena Ansebo, NordGen
10:30-11:00 Val á garðplöntum fyrir íslenskt umhverfi. Leitin af harðgerðum plöntum og klónum í náttúrunni. Reynsla frá söfnunarferðum.
Garden plants selection for Icelandic environment. The search for hardy species and clones in nature: Experience from botanical expeditions.
Guðríður Helgadóttir (Ísland)
11:00- 12:00 Gönguferð um hverasvæðið við Reyki í Ölfusi og skoðunarferð um klónasafnið á Reykjum.
12:00- 13:00 Hádegisverður.
13:00-14:30 Vinnufundur (workshop).
14:30- 16:00  Heimsókn í Nátthaga garðplöntustöð í Ölfusi.
16:00- 18:30 Skoðunarferð um Þingvöll.
19:00-20:00 Komutími til Reykjavíkur.

Kynning á ráðstefnunni (pdf)

Þátttökuskráning og frekari upplýsingar á: yndisgrodur (hjá) lbhi.is fyrir 12. ágúst.
(Vinsamlegast takið fram fullt nafn, kennitölu og netfang)

Ráðstefnugjald er 18.900 kr. með sameiginlegum kvöldverði í Þróttarheimili á fimmtudagskvöldinu 18. ágúst. Án kvöldverðar er ráðstefnugjald 15.500 kr.
Ráðstefnugestum verður ekið með rútum á milli staða.

Fræðsluerindi: Ávaxtayrki fyrir norðlægar slóðir – val og reynsla Finna

Með Fræðsla

Endurmenntun LbHÍ og Garðyrkjufélag Íslands standa fyrir fræðsluerindi um uppruna,  eiginleika og umhirðu ávaxtayrkja sem Finnar hafa verið að nota í  ræktun sinni og reynst hafa vel við norðlæg skilyrði. Hluti þessara  yrkja  er nú kominn í tilraunaræktun hér á landi frá gróðrarstöð Leifs Blomqvist garðyrkjumanns í Lepplax sem er í Österbotten í Finnlandi.  Fjallað verður um mörg þau yrki sem eru notuð í ávaxtaræktunarverkefni Landbúnaðarháskólans og Garðyrkjufélagsins sem hófst vorið 2011. Sum þeirra hafa verið til sölu hér á  landi í nokkur ár.

Leif ræktar einnig rósir og ber í sinni garðyrkjustöð og hefur m.a. gefið út bækurnar Våra fruktsorter og Trädgårdens bär.

Erindið er ætlað öllu áhugafólki um ræktun aldintrjáa, hvort um er að ræða fagfólk eða áhugafólk.

Erindið er flutt á ensku, en fagorð og einstök atriði úr erindinu eru þýdd ef þörf krefur. Tími verður til fyrirspurna og umræðna í lokin.
 
Tími: Miðvikudaginn. 17. águst,  kl. 20:00 – 22:00 í fundarsal Arion banka Borgartúni 19 Reykjavík.

Verð: 3.500 kr. (2.500 kr. fyrir félaga í Garðyrkjufélagi Íslands, munið að gefa upp skírteinisnúmerin fyrir árið 2011).
 
Skráning til 16. ágúst. Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra kr. 3.500 eða kr. 2500 fyrir  félaga GÍ  á reikninginn 0354-26-4237, kt. 411204-3590 og senda kvittun á
endurmenntun(hjá)lbhi.is. Einnig verður tekið  á móti greiðslu í peningum á staðnum.  

Skráningar:
endurmenntun(hjá)lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími og nafn námskeiðs) eða hafa samband í síma: 433-5000.