Skip to main content
All Posts By

a8

Útsala á garðyrkju- og gróðurvörum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 29. október kl. 10:00-16:00 verður útsala á ýmsum garðyrkju- og gróðurvörum úr þrotabúi gróðrarstöðvarinnar Borgarprýði á Smiðjuvöllum 12-20, Akranesi, sem Skógræktarfélag Íslands keypti sl. vor.

Upplagt tækifæri fyrir þá sem stunda ræktun.

Helstu gróðurvörur:  Plöntubakkar og pottar af ýmsum gerðum og stærðum,  bæði fyrir sáningu og framræktun á grænmeti, runnum og trjám. Ýmsar gerðir af jarðvegsdúkum, þykkar básamottur og vatnsslöngur, ásamt nokkur hundruð fermetrum af steinhellum. Þá eru einnig til sölu til niðurrifs  bogagróðurhús.

Allar vörur staðgreiðist. Tekið er við greiðslukortum eða reiðufé.

Látið þetta tækifæri ekki úr hendi sleppa!

utsala-0kort

utsala-1

utsala-2

utsala-3

utsala-4

utsala-5

utsala-6

utsala-7

 

Ráðstefna: Heimsins græna gull

Með Fundir og ráðstefnur

Alþjóðleg ráðstefna um ástand og horfur skóga heimsins verður haldin í Kaldalóni i Hörpu 22. október 2011.

Nánar má lesa um ráðstefnuna á heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Dagskrá:

10:30-10:35  Kynning: Jón Loftsson, skógræktarstjóri
10:35-10:45   Stuttmynd frá Sameinuðu þjóðunum: Skógar og menn. Lesari: Egill Ólafsson
10:45-10:55 Ávarp: Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra
10:55-11:25  Erindi: Staða og horfur hjá skógum heims. Helstu niðurstöður mats á skógarauðlindum heimsins 2010
Mette Wilkie Løyche, forstöðumaður innan skógræktarsviðs Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna
11:25-11:35 Fyrirspurnir og umræður
11:35-12:05  Erindi: Skógar Evrópu fyrir fólkið
Jan Heino, formaður samninganefndar um lagalega bindandi milliríkjasamning um skóga í Evrópu
12:05-12:15 Fyrirspurnir og umræður
12:15-13:15  Hádegisverður
13:15-13:45  Erindi: Frelsi með ábyrgð í sænska skógræktargeiranum
Monika Stridsman, skógræktarstjóri Svíþjóðar
13:45-13:55  Fyrirspurnir og umræður
13:55-14:25 Erindi: Skógrækt á Írlandi: Yfirlit
Aine Ni Dhubháin, prófessor í skógfræði við Dyflinnarháskóla
14:25-14:35  Fyrirspurnir og umræður
14:35-15:05 Kaffihlé
15:05-15:20  Tónlistaratriði: Gissur Páll Gissurarson
15:20-15:50  Erindi: Framlag Íslands til skógræktar í heiminum
Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna
15:50-16:00  Fyrirspurnir og umræður
16:00-16:30  Samantekt og pallborð: Jón Geir Pétursson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

Fundarstjóri: Aðalsteinn Sigurgeirson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá

 

Trjámælingar – verðmæt tré hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga verður á ferðinni næstu 2 vikur við að mæla hæð og ummál á trjágróðri á sínu félagssvæði. Hvert er mesta tré svæðisins?

Einnig verður leitað að „merkistrjám“, þ.e. trjám sem eru sérstök á einhvern máta. Mælt var með því á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Höfn í Hornafirði að skógræktarfélög tækju saman skrá yfir merkileg og verðmæt tré á sínum félagssvæðum, til að stuðla að verndun þeirra vegna fræðslugildis, ferðamennsku og skipulagsgildis.

Óskað er eftir ábendingum.Hafið samband við Pál Ingþór í síma 865-3959 eða sendið upplýsingar á palliingthor(hjá)simnet.is

 

hrutey
Myndarleg grenitré í Hrútey (Mynd:RF).

Gróðursetningardagur í Vatnshlíð

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar efnir til gróðursetningardags á laugardaginn kemur, 17. september, í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn milli kl. 10.00 – 14.00. Félagið óskar því eftir sjálfboðaliðum en gróðursett verður í nýjan minningarreit um hjónin Hjálmar R. Bárðarson f.v. siglingamálastjóra og Else S. Bárðarson. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands, ekki hvað síst fugla. Meðal annars verða gróðursettir berjarunnar, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Öllum er velkomið að mæta og taka þátt. Er það ósk félagsins að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka þátt í þessu uppbyggilega verkefni. Mæting er við Sandvíkina við Hvaleyrarvatn. Verkfæri verða á staðnum. Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455. 

Dagur íslenskrar náttúru í Reykjavík

Með Ýmislegt

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir lifandi dagskrá í hádeginu í Café Flóru  á Degi íslenskrar náttúru föstudaginn 16. september. Flutt verða örerindi fyrir gesti Café Flóru og gangandi í Grasagarði Reykjavíkur þar sem meðal annars verður fjallað um strandlengjuna, eldgos, sandstorma, rétt náttúrunnar, jóga og hagnýtar upplýsingar um hvernig nýta megi það sem til fellur í garðinum.

Auður Óskarsdóttir garðyrkjufræðingur mun til dæmis sýna gestum hvernig nýta megi afklipptar trjágreinar, Anna Rósa Böðvarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir heilbrigðisfulltrúar munu kynna í örstuttu máli hreina strandlengju og mengandi sandstorma, Gunnar Hersveinn heimspekingur mun spyrja hvort náttúran njóti náttúruréttinda og Anna Ingólfsdóttir jógakennari mun bjóða gestum út fyrir garðskálann til æfinga. Umhverfis- og samgöngusvið mun bjóða gestum upp á heilsudrykk staðarins á meðan hann endist.

Unga fólkið fær einnig sýna skemmtun og fróðleik á vegum Umhverfis- og samgöngusviðs því 4. bekk grunnskólans verður boðið upp á náttúr-ratleik á vegum Grasagarðs Reykjavíkur frá kl. 9-13. Fjöldi hópa er takmarkaður og þurfa kennarar að áætla klukkustundarviðveru. Umsjón með þessum lið hafa Hildur Arna Gunnarsdóttir fræðslustjóri og Helena Óladóttir hjá Náttúruskóla Reykjavíkur.

Allir velkomnir!  

Ganga, fjör og fróðleikur um trjásafnið og Yndisgarðinn í Kópavogi

Með Skógargöngur

Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs stendur fyrir fjölskyldugöngu fimmtudaginn 15. september í tilefni af degi íslenskrar náttúru, sem er þann 16. september.

Lagt verður af stað frá austurenda Kjarrhólma kl. 17.00. Gengið verður um trjásafnið og Yndisgarðinn undir leiðsögn þeirra Samsonar B. Harðarsonar lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Friðriks Baldurssonar, garðyrkjustjóra Kópavogs. Á meðan geta börnin farið í leiki þar sem leyndardómar trjásafnsins verða uppgötvaðir (undir leiðsögn Margrétar Júlíu Rafnsdóttur).

Um er að ræða rúmlega klukkutíma göngu og við hvetjum ömmur og afa, mömmur og pabba til að taka börnin með og taka þátt. Að lokinni göngu verður þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur og gos.

Þetta er gott tækifæri fyrir Kópavogsbúa til að kynna sér þá perlu sem trjásafnið okkar er og hið áhugaverða yndisgróðursverkefni.

Íbúar eru hvattir til að taka þátt og eiga góða stund í fallegu umhverfi undir leiðsögn staðkunnugra.

Allir hjartanlega velkomnir!

Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs.


Fjallagullregn valið tré ársins

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands útnefndi tré ársins 2011 við hátíðlega athöfn að Greniteigi 9 í Reykjanesbæ þriðjudaginn 13. september. Tré ársins er af tegundinni fjallagullregn (Laburnum alpinum) og gerir sérstaða þess og fegurð það vert útnefningar. Þetta er í fyrsta skipti sem tré á Suðurnesjum verður fyrir valinu en þetta tiltekna tré þykir fyrirtaks dæmi um hvernig trjágróður getur vaxið og dafnað suður með sjó þrátt fyrir erfið skilyrði. Vonandi verður þessi útnefning öðrum Suðurnesjamönnum hvatning til dáða á þessu sviði.

Athöfnin hófst á því að lúðraflokkur lék nokkur lög í skugga gullregnsins. Því næst ávarpaði Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, gesti og veitti Sigrúnu Guðjónsdóttur, eiganda trésins, viðurkenningu. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ávarpaði einnig viðstadda og rifjaði meðal annars upp trjáræktartilraunir Duus-fjölskyldunnar í Keflavík fyrr á tímum.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

 

trearsins2011-1
Tréð í blóma (Mynd:Sigurður Bjarnason).

trearsins2011-2

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Sigurður Bjarnason, barnabarn  eigenda trésins og íbúi í húsinu, Sigrún Guðjónsdóttir, eigandi trésins og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (Mynd:Brynjólfur Jónsson).

Tré ársins 2011

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands útnefnir Tré ársins 2011 við hátíðlega athöfn að Greniteigi 9 í Reykjanesbæ, þriðjudaginn 13. september kl. 12. Þetta er í fyrsta skipti sem tré á Suðurnesjum verður fyrir valinu en þetta tiltekna tré þykir fyrirtaks dæmi um hvernig trjágróður getur vaxið og dafnað suður með sjó þrátt fyrir erfið skilyrði. Tré ársins er af harðgerðri tegund sem myndar falleg blóm síðsumars og hefur því notið mikilla vinsælda meðal garðeigenda hér á landi.

Ávörp flytja Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Þá mun Magnús veita Sigrúnu Guðjónsdóttur, eiganda trésins, viðurkenningu.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Aðalfundur 2011

Með Aðalfundir

76. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á Grundarfirði dagana 2.-4. september 2011. Skógræktarfélag Eyrarsveitar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Andrésar Inga Jónssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Gunnars Njálssonar, formanns Skógræktarfélags Eyrarsveitar, Björns Steinars Pálmasonar, bæjarstjóra Grundarfjarðar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Ekið var áleiðis að Hallbjarnareyri og svo heimsóttur Eiðisskógur, einn skóga Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Frá honum var haldið til Ólafsvíkur, þar sem gengið var um skógræktarsvæði ofan bæjarins. Endaði heimsóknin á því að undirskrifaður var samningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Snæfellsbæjar um Landgræðsluskóg út frá núverandi skógi. Einnig var undirritaður samstarfssamningur milli Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Grunnskóla Snæfellsbæjar um notkun á gömlu fjárhúsi á svæðinu til fræðslu. Að því loknu var ekið til Hellissands, þar sem  Opinn skógur í Tröð var heimsóttur, en þar bauð Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli upp á hressingu og gönguferð um svæðið. Deginum lauk svo með nefndarstörfum að loknum kvöldmat.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björg Ágústsdóttir, frá Ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sagði frá hugmyndum um svæðisgarð á Snæfellsnesi, Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, sagði frá þjóðgarðinum, Sigurborg K. Hannesdóttir flutti hugvekju um manneskjuna í skóginum og Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, fjallaði um áhrif eldgosa og ösku á gróður.

Erindi Guðbjargar Gunnarsdóttur (pdf)
Erindi Hreins Óskarssonar (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Brekkuskóg ofan Grundarfjarðar, en þar var ný aðkoma formlega tekin í notkun. Gengið var um skóginn og endað á hressingu í skógarlundi.

Um kvöldið var svo boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags Eyrarsveitar, undir stjórn veislustjórans Gunnars Kristjánssonar. Voru fjórir félagar í Skógræktarfélagi Eyrarsveitar heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins og skógræktar og voru það Pálína Gísladóttir, Vigdís Gunnarsdóttir og hjónin Arnór Páll Kristjánsson og Auður Jónasdóttir.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar, en fundi lauk um hádegið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2011 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla 2010-2011 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ályktanir fundar (pdf)