Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands verður stopult opin milli jóla og nýárs. Viljum við benda fólki sem ætlar að koma við á skrifstofunni á að hringja fyrst í síma 551-8150 til að athuga hvort einhver sé „á vaktinni“.
Nýverið var frétt hjá Ríkisútvarpinu um nýja rannsókn sem sýndi að skóglendi og fallega náttúra hefur bætandi áhrif á andlega heilsu fólks og var ein ályktun þeirra sem stóðu að rannsókninni að mikilvægt væri að tré og græn svæði væru sem víðast í borgum til að tryggja andlega heilsu íbúanna.
Borgarskógar og margvíslegt mikilvægi þeirra fyrir íbúa borga virðist vera töluvert í umræðunni núna og eru margar alþjóðlegar ráðstefnur og fundir fyrirhugaðar á næstu árum. Fyrir þá sem hafa áhuga á þessum málaflokki er hér listi yfir nokkrar:
Heiti |
Staður og tími |
Nánari upplýsingar |
Green Cities, Green Minds – 1st Biennial Congress on Urban Green Spaces (CUGS) | 5.-7. mars 2012 Nýja Delí, Indland |
http://www.cugs.in/CUGS_2012.html |
15th European Forum on Urban Forestry | 8.-12. maí 2012 Leipzig, Þýskaland |
www.efuf.org |
Forests for People – International experiences and the vital role for the future | 22.-24. maí 2012 Alpbach, Tíról, Austurríki |
http://ffp2012.boku.ac.at |
ISA International Conference and Trade Show | 10.-15. ágúst 2012 Portland, Oregon, Bandaríkin |
www.isa-arbor.com |
Outdoor Recreation in Change – Current Knowledge and Future Challenges (MMV4) |
21.-24. ágúst 2012 Stokkhólmur, Svíþjóð |
http://www.mmv2012.se/ |
Varying Role of Urban Green Spaces – IFPRA European Congress | 5.-7. september 2012 Basel, Sviss |
www.ifpra2012.bs.ch |
Forests for Cities, Forests for People – perspectives on urban forest governance | 27.-28. september 2012 Zagreb, Króatía |
http://www.sumins.hr/IUFRO2012/ |
Sustaining Humans and Forest in Changing Landscape – IUFRO Landscape Ecology Conference 5.-12. nóvember 2012 |
5.-12. nóvember 2012 |
http://www.iufrole2012.cl/ |
16th European Forum on Urban Forestry Maí 2013 |
Maí 2013 Mílanó, Ítalía |
www.efuf.org |
Í dag var skrifað undir samning um kaup Skógræktarfélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur á jörðinni Úlfljótsvatni austast í Grafningi. Jörðina keypti Reykjavíkurbær árið 1929 á 98 þúsund krónur vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Soginu en jörðin fluttist yfir til Orkuveitunnar við stofnun hennar enda einnig jarðhiti þar. Skátar hafa haft meirihluta jarðarinnar á leigu og rekið þar skátamiðstöð í um 70 ár. Auk þess hefur verið stunduð þar skógrækt og á henni standa orlofshús starfsmannafélaga tengdum Reykjavíkurborg.
Kaupverð er 200 milljónir króna en undanskilin sölunni eru jarðhitinn, tæplega 60 hektara spilda nyrst á jörðinni auk réttinda sem tengd eru orlofshúsum. Þannig verður réttindum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar haldið til haga. Kaupendur munu taka við rekstri og umsjón Bernsku- og Skólaskóga sem ræktaðir hafa verið um árabil í samstarfi Orkuveitunnar og skógræktarfélaga.
Skógræktarfélag Íslands hefur allt frá stofnun félagsins árið 1930 unnið ötullega að skógrækt og fræðslu um mikilvægi skógræktar fyrir íslenskt samfélag. Innan vébanda Skógræktarfélags Íslands er 61 félag með um 8 þúsund félagsmenn. Með tilkomu eignarhalds á Úlfljótsvatni er stefnt að aukinni skógrækt og fjölbreyttum möguleikum til útivistar fyrir almenning, sem og auknu samstarfi Skógræktarfélags Íslands og Bandalags íslenskra skáta.
Árið 2007 var endurnýjaður leigusamningur á milli OR og skátahreyfingarinnar til 75 ára um áframhaldandi afnot skáta af Úlfljótsvatni. Þar eru nú rekin útilífsmiðstöð, skólabúðir, sumarbúðir fyrir börn, fræðslusetur, skógræktarstarf og þjálfunarbúðir fyrir skáta og björgunarsveitir. Auk þess er Úlfljótsvatn orðið eitt fjölsóttasta tjaldsvæði landsins þar sem áhersla er lögð á þjónustu við barnafjölskyldur.
Í ljósi margvíslegra kvaða sem á jörðinni hvíla var hún ekki talin á meðal þeirra eigna, sem Orkuveitan ætti möguleika á að selja samkvæmt þeirri aðgerðaáætlun sem nú er unnið eftir í rekstri fyrirtækisins. Eftir að Skógræktarfélag Íslands og fulltrúar skátahreyfingarinnar lýstu áhuga á að eignast jörðina var gengið til viðræðna við fulltrúa samtakanna og var tilboð þeirra samþykkt á fundi stjórnar Orkuveitunnar 18. nóvember síðastliðinn. Í ljósi sögunnar þótti rétt að bera söluna undir borgaryfirvöld og samþykkti borgarráð söluna fyrir sitt leyti 1. desember síðastliðinn.
F.v.: Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bragi Björnsson skátahöfðingi og Anna Rós Sigmundsdóttir, formaður Skátasambands Reykjavíkur (Mynd: RF).
Skógræktarfélag Íslands sendi nýverið inn umsögn um Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, sem hefur verið í opnu umsagnarferli.
Nú um helgina komu síðustu hópar þessa árs í heimsókn í jólaskóginn í Brynjudal. Veðurguðirnir voru nokkuð mislyndir þessar helgar í desember sem hópar komu í heimsókn (gustaði dálítið stundum), en þar sem skógurinn er skjólgóður kom það ekki að sök og skartaði skógurinn hvítum jólasnjó allan tímann. Fengu gestir góðan göngutúr um skóginn í leit að rétta trén og yljandi kakó-sopa að leit lokinni. Einnig sást til nokkurra rauðklæddra og hvítskeggjaðra manna á ferð inn á milli…
Skógræktarfélag Íslands þakkar öllum þeim sem sóttu sér tré í jólaskóginn í Brynjudal fyrir komuna og vonandi sjáum við sem flesta aftur að ári!
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá „vertíð“ þessa árs í Brynjudal.
Jólatrénu pakkað í net (Mynd: RF).
Það er gott að fá sér kakó þegar komið er úr skóginum með tréð (Mynd:RF).
Börnin fá hollar og góðar mandarínur frá þessum jólasvein (Mynd: RF).
Það er alltaf vinsælt að fá mynd af sér með jólasveinunum (Mynd:RF).
Brugðið á leik með voffa (Mynd: RF).
Það er hægt að gera fleira en að velja sér tré í skóginum (Mynd: RF).
Framhaldsaðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar verður haldinn í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi mánudagskvöldið 19. desember 2011 klukkan 20:00.
Dagskrá fundarins:
1. Ársreikningar 2009 og 2010
2. Lagabreytingar – framhald umræðna
3. Óskar Guðmundsson í Véum flytur erindi um ræktunarmanninn Þórhall Bjarnason.
Allir velkomnir!
Skógræktarfélag Íslands hefur fengið fimm unga myndlistarmenn og hönnuði til að skreyta íslensk jólatré sem verða til sýnis á jólatrjáamarkaði skógræktarfélaga við Umferðarmiðstöðina (BSÍ) sunnudaginn 18. desember. Þetta er gert til þess að gefa gestum og gangandi tækifæri til að kynnast nýstárlegum og frumlegum leiðum til að skreyta jólatré. Dorrit Moussaief forsetafrú mun síðan velja best skreytta tréð á sunnudaginn kl. 14. Listamenn/hönnuðir sem taka þátt í þessum viðburði eru: Hildur Yeoman og Daníel Björnsson, Inga Birgisdóttir, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Sara Riel og Tinna Ottesen.
Tónlist, kakó og piparkökur í boði.
Allir velkomnir!
Skógræktarfélag Árnesinga opnaði nýverið nýja heimasíðu. Á síðunni eru helstu upplýsingar um félagið, skóg þess á Snæfoksstöðum og þann varning sem félagið er með til sölu, auk þess sem þar má sjá ýmsar skemmtilegar og áhugaverðar myndir frá fyrri og nýrri tíð.
Vefslóðin er http://www.skogarn.is/.
Í dag kl. 14:30 mun Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenda Ártúnsskóla í Reykjavík viðurkenningu fyrir ötult starf í skógartengdu útinámi í tilefni af alþjóðaári skóga. Af sama tilefni mun ráðherra afhenda skólanum fyrsta eintak myndarinnar Skógurinn og við (Of Forests and Men) sem í framhaldinu mun verða send til allra grunnskóla í landinu ásamt leiðbeiningum um skógartengd verkefni.
Börn í 1. og 2. bekk skólans taka þátt í athöfninni en þau sóttu jólatré skólans í grenndarskóg sinn og gróðursettu rauðgrenitré í staðinn, sem sprottin eru af fræjum sem komu úr könglum Oslóartrésins á Austurvelli 2007 og voru ræktuð í Ræktunarstöð Umhverfissvið Reykjavíkurborgar í Fossvoginum.
Börnin munu færa gestum gjafir skógarins af þessu tilefni.
Nýlegar athugasemdir