Vilja að skógrækt verði nýtt sem vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar
Langflestir landsmenn eru mjög jákvæðir fyrir skógrækt og þeim fjölgar sem telja að auka beri skógrækt til að binda koltvísýring og hamla gegn loftslagsbreytingum. Jákvæðastir mælast ungir Íslendingar, háskólamenntaðir og íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur.
Gallup gerði netkönnun dagana 8.-21. mars þar sem spurt var tveggja spurninga um skógrækt. Þessar tvær spurningar voru samhljóða tveimur spurningum úr viðamikilli könnun á viðhorfum landsmanna til skógræktar sem Gallup lagði fyrir þjóðina árið 2004. Að könnuninni nú standa Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda.
Spurningarnar sem spurt var nú voru þessar:
Spurning 1. Telur þú að skógar hafi almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið?
Spurning 2. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum?
Landsmenn jákvæðir sem fyrr
Í stuttu máli gefa svörin til kynna mjög svipaðar niðurstöður og í könnuninni 2004. Langflestir eru jákvæðir þótt heldur fleiri hafi fallið í jákvæðasta flokkinn 2004 en nú. Samanlagt eru mjög jákvæðir og frekar jákvæðir þó álíka margir og voru 2004.
Athyglisvert er hins vegar að sjá að þeim sem voru neikvæðir fækkar marktækt þegar kemur að spurningunni um bindingu kolefnis. 7,3% svarenda voru neikvæðir fyrir slíkum hugmyndum 2004 en aðeins 3,1% nú. Stuðningur við aukna skógrækt til kolefnisbindingar hefur samkvæmt því aukist meðal þjóðarinnar.
Ef litið er til þjóðfélagshópa mælist lítill munur í könnuninni nú. Þó er ungt fólk, háskólamenntaðir og fólk búsett í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar heldur jákvæðara gagnvart skógum en aðrir landsmenn.
Nær enginn telur áhrifin mjög neikvæð
Ef litið er nánar á tölurnar telja 62% svarenda að skógar hafi almennt mjög jákvæð áhrif fyrir landið og 31% telur að áhrifin séu frekar jákvæð. Samanlagt telja því 93% svarenda að skógrækt hafi almennt jákvæð áhrif fyrir landið. 5,4% eru hlutlaus en aðeins 0,1% telur áhrifin mjög neikvæð.
Svipaða sögu segja svörin við spurningunni um kolefnisbindinguna. Aðspurð segja 51,6 prósent svarenda mjög mikilvægt að binda kolefni í skógum og 35% frekar mikilvægt. Hlutlausir eru 10,3% (hvorki né) og einungis 3% telja þetta frekar eða mjög lítilvægt. Ef tölurnar nú eru bornar saman við könnunina 2004 kemur í ljós að þeim sem telja kolefnisbindingu með skógrækt frekar eða mjög lítilvæga hefur fækkað að mun, úr 7,9% í 3,1%. Samtals telja 86,6% svarenda að þetta sé frekar eða mjög mikilvægt en sambærileg tala frá 2004 var 83,8% sem er innan skekkjumarka.
Unga fólkið jákvæðast
Nokkur munur sést eftir búsetu á fjölda þeirra sem telja skógrækt mjög jákvæða og að kolefnisbinding með skógrækt sé mjög mikilvæg. Mestur stuðningur við skógrækt er í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem 70% telja skógrækt mjög mikilvæga á móti 64% í Reykjavík og 54% í öðrum sveitarfélögum landsins. Eindreginn stuðningur við skógrækt eykst eftir því sem menntun fólks er meiri og eins eru ungir Íslendingar á aldrinum 18-34 ára hlynntastir skógrækt af öllum landsmönnum.
Í úrtakinu nú voru 1.450 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallups. Alls svöruðu 814 manns spurningunum tveimur en 636 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfallið er því 56,1 prósent. Helmingur þátttakenda var spurður fyrri spurningarinnar á undan og hinn helmingurinn seinni spurningarinnar á undan. Ekki sást munur á meðaltölum eftir röðun spurninganna.
Nýlegar athugasemdir