Um hundrað ungmenni fengu vinnu í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar í júní og júlí. Þetta er fjórða sumarið í röð sem þessir aðilar standa að slíku atvinnuátaki og hefur umfang þess verið svipað öll árin. Ungmennin fengust við margvísleg störf á skógræktarsvæðum í upplandi bæjarins, aðallega í Smalaholti og í Sandahlíð. Nýir stígar voru lagðir í Smalaholti og tenging gerð við skógræktarsvæðið í Sandahlíð. Þá var útbúinn nýr og glæsilegur áningarstaður í Smalaholti þar sem er gott útsýni yfir Vífilsstaðavatn og nágrenni.
Af öðrum verkefnum sumarsins má nefna uppgræðslu, ruslatínslu, grisjun, gróðursetningu, áburðargjöf og heftingu lúpínu. Almenn ánægja hefur verið með átakið í Garðabæ enda hefur það skilað góðum árangri og stuðlað að því að bæta og fegra skógræktarsvæði bæjarbúa. Matthías Ólafsson yfirflokkstjóri og Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri Garðabæjar, tóku saman skýrslu um átakið í ár sem hægt er að skoða hér (pdf).
Nýlegar athugasemdir