Skip to main content
All Posts By

a8

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur um ræktun trjáa og runna

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðsluerindis í Menntaskólanum í Kópavogi þriðjudaginn 16. október kl. 19:30.

Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi um ræktun trjáa og runna.  Erindið nefnir hann “Rót vandans”.

Í erindi sínu mun Kristinn meðal annars fjalla um nokkra lykilþætti í ræktun, til að mynda jarðveg og jarðvegsgerð og þær kröfur sem plöntur gera til jarðvegs. Þá verður kennt hvernig á að bera sig að við upptöku trjágróðurs til flutnings, gróðursetningar og áburðargjöf.

Gengið er inn í Menntaskóla Kópavogs frá Digranesvegi um súlnainngang í vesturenda. Salurinn er á 3. hæð og er lyfta við inngang.

Kaffiveitingar, inngangseyrir 500 kr.

Allir velkomnir.

Kvöldganga með Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar og Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar standa fyrir skógargöngu þriðjudaginn 16. október og hefst hún kl. 20. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Við upphaf göngunnar flytur formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, Anna Borg, stutt ávarp. Að því loknu mun Steinar Björgvinsson, skógfræðingur, leiða hópinn um skógarstíga með tilheyrandi fróðleik ásamt Jóhanni Guðna Reynissyni sem á völdum stöðum mun lesa viðeigandi ljóðamál þar til komið er í minningarlund hjónanna Else og Hjálmars R. Bárðarsonar. Þar mun Jónatan Garðarsson flytja stutt erindi um ævi og störf Hjálmars.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Haustganga um Hafnarfjörð

Með Skógargöngur

Laugardaginn 6. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um bæinn.  Hist verður í Hellisgerði  kl. 10:00 og skoðuð trén í Gerðinu, en síðan rölt um bæinn og hugað að gróðri í nærliggjandi hverfum. Nokkur hávaxin tré verða hæðarmæld.

Leiðsögumenn verða starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gangan tekur um tvær klukkustundir.

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar fást í síma félagsins: 555-6455.

Sjálfboðaliðadagur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 29. september verður hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gróðursett verður í Vatnshlíðina við Hvaleyrarvatn í minningarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson og verður hafist handa kl. 10.00. Plöntur og verkfæri verða á staðnum.

Best er að komast að svæðinu með því að beygja til hægri fljótlega eftir að komið er inn á Hvaleyrarvatnsveg og aka vegstubbinn vestur með hlíðinni á enda.

Allir sjálfboðaliðar velkomnir. Margar hendur vinna létt verk.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.

Aðalfundur 2012

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt sinn 77. aðalfund í Félagsheimili Blönduóss á Blönduósi dagana 24.-26. ágúst 2012. Skógræktarfélag A-Húnvetninga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Jóns Geirs Péturssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Páls Ingþórs Kristinssonar, formanns Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Kári Kárason bæjarfulltrúa Blönduósbæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var farið í nefndastörf, en að þeim loknum var haldið í vettvangsferð. Gengið var frá Félagsheimilinu að Yndisgarði á Blönduósi, þar sem Samson B. Harðarson kynnti garðinn og hugmyndina þar á bak við. Því næst var gengið að Jónslundi við Hrútey og þaðan út í eyna. Síðan var stigið upp í rútur og ekið sem leið lá að Mánafossi við Laxá á Ásum, þar sem haldið var í eftirminnilega gönguferð um skóginn, sem endaði við sumarhús, þar sem húsráðendur, Páll A. Jónsson og Ásdís Björgvinsdóttir buðu upp á hressingu fyrir fundargesti. Eftir góða samkomu í skóginum var svo haldið aftur á Blönduós.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, hélt erindi um samfélagið á Blönduósi, gróðurfar og atvinnulíf. Helena Marta Stefánsdóttir sagði frá Skógvatn-rannsókninni, er fjallar um áhrif trjágróðurs á líf í lækjum. Magnús Björnsson frá Hólabaki sagði því næst frá skógrækt í Kína og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins, fjallaði um lerkikynbætur.

Erindi Ágúst Þór Bragason (pdf)
Erindi Helena Marta Stefánsdóttir (pdf)
Erindi Magnús Björnsson (pdf)
Erindi Þröstur Eysteinsson (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Var fyrst ekið að Fjósum í Svartárdal, þar sem fundargestum var kynntur skógurinn og gefin smá hressing, en því næst var stutt skoðun á áhugaverðri skógrækt í  Blöndudalshólum. Að því loknu var haldið í Gunnfríðarstaðaskóg, þar sem afhjúpað var nýtt skilti með upplýsingum um Gunnfríðarstaði. Einnig var undirritaður samningur um stækkun landgræðsluskógasvæðisins í Vatnahverfi og skrifuðu Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, undir samninginn. Aðalfundargestir þáðu veitingar hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga og hlustuðu á ljúfa tóna harmonikkuleikara sem spilaði einnig undir mikinn fjöldasöng.

Síðan var  boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags A-Húnvetninga, undir stjórn veislustjórans Ágústs Þórs Bragasonar. Voru fimm aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það sr. Árni Sigurðsson, Erla Hafsteinsdóttir, Gísli Pálsson, Jónas Bjarnason og Vigdís Ágústsdóttir. Einnig var Gísli Gestsson gerður að heiðursfélaga á fundinum.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Akraness (70 ára), Skógræktarfélag Bíldudals (20 ára), Skógræktarfélag Djúpavogs (60 ára), Skógræktarfélag Dýrafjarðar (20 ára), Skógræktarfélag Heiðsynninga (60 ára), Skógræktarfélag Önundarfjarðar (20 ára) og Skógræktarfélagið Kvistur (20 ára). Tók Jens B. Baldursson, formaður Skógræktarfélags Akraness, við skjali og blómi af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Fundi lauk svo um eitt-leytið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2012 (pdf) 

Fundargögn:

Dagskrá fundar (pdf)
Starfsskýrsla 2011-2012 (pdf)
Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Fræðsluganga í Guðmundarlundi: Fræsöfnun og sáning

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu laugardaginn 22. september um Guðmundarlund undir leiðsögn Kristins H. Þorsteinssonar garðyrkjufræðings.

Hægt verður að safna fræi af ýmsum tegundum trjáa og runna. Kristinn ætlar að fræða fólk um gróður í Guðmundalundi, sýna hvernig tína á fræ, hreinsa þau og verka. Þá fer fram verkleg kennsla í sáningu fræja bæði í bakka og beint á útjörð.

Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér poka undir fræin.

Lagt verður upp í gönguna frá aðalinngangi Guðmundarlundar kl. 11:00 og lýkur fræðslugöngunni kl. 13:00.

Sérstakur gestur hjá okkur verður Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur, sérfræðingur í sáningu og uppeldi matjurta.

Allir velkomnir!

Kort og leiðsögn að Guðmundarlundi má finna á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (hér).

 

Að þessari fræðslu lokinni verður þátttakendum boðið að sitja kvöldnámskeið um miðjan október. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um upptöku trjáa og runna, gróðursetningar, jarðveg, áburð og annað sem stuðlar að betri þroska gróðurs.

Námskeiðið er öllum að kostnaðarlausu.

Dagur íslenskrar náttúru

Með Ýmislegt

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur í annað sinn sunnudaginn 16. september nk. Á deginum afhendir umhverfisráðherra fjölmiðlaverðlaun fyrir góða umfjöllun um umhverfismál og einnig verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem skarað hefur fram úr við vernd náttúrunnar.

Umhverfisráðuneytið hefur opnað sérstaka slóð á heimasíðu ráðuneytisins þar sem er að finna frekari upplýsingar og þar geta allir þeir sem efna til viðburða skráð þá. Frekari upplýsingar um daginn er að finna á slóðinni: http://www.umhverfisraduneyti.is/.

Er skógræktarfólk hvatt til að láta sitt ekki eftir liggja og efna til skemmtilegra skógarviðburða í tilefni dagsins.

Sveppafræðsla fyrir byrjendur í Fossselsskógi

Með Skógargöngur

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir leiðbeinir um matsveppi í Fossselsskógi, þriðjudagskvöldið 4. september, kl 18:00, fólk hafi með sér hnífa og ílát.

Í lokin verða steiktir rjómalagaðar sveppir á pönnu og bornir fram á brauðsneiðum.

Fossselsskógur er sunnan við bæinn Vað, austan megin við Skjálfandafljót, á leið frá Kinn yfir í Aðaldal.  Fólksbílafæri.  Bílum lagt syðst í skóginum við áningarborð neðan Kvennabrekku.

Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Suður Þingeyinga.

 

Tré ársins 2012 útnefnt

Með Skógargöngur

Tré ársins 2012 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn að Brekkugötu 8 á Akureyri sunnudaginn 2. september. Tré ársins að þessu sinni er gráösp (Populus x canescens), en gráösp er blendingur milli blæaspar (P. tremula)  og silfuraspar (P. alba). Gráösp er vinsælt garð- og borgartré víða í Evrópu, V-Asíu og S- Rússlandi en einungis örfáar fullorðnar gráaspir  er að finna hér á landi.  Gráöspin að Brekkugötu 8 ber sterkari einkenni silfuraspar hvað blaðform og lit laufblaða varðar. Hún hefur myndað tígulegan stofn og formfagra krónu. Börkur á stofni trésins er afar hrjúfur og myndar þverhandarþykkar hrukkur sem gefa trénu ævintýralegan blæ.

Hófst athöfnin á því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, bauð gesti velkomna.  Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flutti ávarp og flutti fulltrúum eigenda Brekkugötu 8 viðurkenningarskjal. Einnig flutti Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar ávarp og Hrefna Hjálmarsdóttir, sem starfaði lengi í húsinu, sagði frá því. Tréð var svo formlega mælt. Reyndist það mest 13,55 m á hæð, en ummál stofns  í 10 cm hæð frá jörðu var 2,68 m og í brjósthæð 2,3 m. Inn á milli atriða söng svo Kvintettinn Gráösp nokkur lög um land og skóga.

trearsins1

Gráöspin setur mikinn svip á umhverfið (Mynd:EG).

trearsins2

Börkurinn á trénu setur sterkan svip á tréð (Mynd:EG).