Skip to main content
All Posts By

a8

Jólatrjáasala skógræktarfélaganna helgina 1.-2. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólatrjáasala skógræktarfélaga hefst núna fyrstu helgina í desember. Þau félög sem ríða á vaðið með sölu þessa fyrstu helgi eru Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Fossá-skógræktarfélag.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Salan opnar sunnudaginn 2. desember og er opið kl. 10-18. Salan verður svo opin helgarnar 8.-9. og 15.-16. desember, auk laugardagsins 22. desember, kl. 10-18. Einnig er hægt að koma í heimsókn í miðri viku.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, sem opnar laugardaginn 1. desember. Markaðurinn verður svo opinn allar helgar fram að jólum kl. 11-17. Jólaskógurinn í Grýludal á Heiðmörk opnar svo 8. desember og verður opinn allar helgar fram að jólum, kl. 11-16.

Fossá-skógræktarfélag (Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps) er með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði. Salan opnar sunnudaginn 2. desember og er opið 10:30-15:00. Salan verður svo opin helgarnar 8.-9. og 15.-16. desember og laugardaginn 22. desember.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is og á heimasíðum félaganna: www.skoghf.iswww.heidmork.is og www.skogkop.net.

Skemmtilegt viðtal

Með Fjölmiðlaumræða

Í sérstöku Jólablaði sem fylgdi Fréttablaðinu þann 27. nóvember má meðal margs annars áhugaverðs efnis finna skemmtilegt viðtal við Þorvalds S. Þorvaldsson, fyrrverandi stjórnarmann í Skógræktarfélagi Íslands, þar sem hann rifjar upp heimsóknir sínar í jólaskóga skógræktarfélaganna að fella sér jólatré. Viðtalið má lesa hér (pdf).

Skógræktarritið, seinna hefti 2012 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, seinna hefti 2012, er komið út. Á kápu er falleg mynd er nefnist Vetrarfuglar eftir Sigurþór Jakobsson.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

Heiðursvarðar í skógum landsins, eftir Jón Geir Pétursson

„Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, eftir Kristbjörgu Ágústsdóttur

Arður af einum trjágarði – Dálítil saga úr Dýrafirði, eftir Bjarna Guðmundsson

Vöxtur víðis og ásókn fiðrildalirfa, eftir Soffíu Arnþórsdóttur

Ágrip af sögu skóg- og trjáræktar í landi Akureyrarbæjar, eftir Hallgrím Indriðason

Haustlitir, eftir Ágúst H. Bjarnason

Fræðsluferð til Þýskalands, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

Dipterocarpar: Risar asísku frumskóganna, eftir Jón Ásgeir Jónsson

Borgarskógrækt og ræktun græna netsins, eftir Samson B. Harðarson

Tempraða beltið færist yfir, eftir Þröst Eysteinsson og Arnfried Abraham

Lifandi minnisvarðar á Þingvöllum – Saga og tilurð nokkurra skógarlunda í þjóðgarðinum, eftir Einar Örn Jónsson

 

Að auki er að finna umfjöllun um Tré ársins 2012, samantekt frá aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2012 á Blönduósi, upplýsingar um tölfræði skógræktar á Íslandi og minningargrein um Pál Ingimund Aðalsteinsson.

 

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

 

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog (hjá) skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog (hjá) skog.is.

skograektarritid2012-2

Afmælisfundur: 70 ára afmæli Skógræktarfélags Akraness

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Akraness heldur afmælisfund sunnudaginn 18. nóvember, í tilefni 70 ára afmælis félagsins. Fundurinn er haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands og hefst kl. 14.

Dagskrá:
Stefán Teitsson fer yfir sögu félagsins
Hópsöngur – ljóðalestur – Ragnheiður Þóra Grímsdóttir segir sögu.
Fulltrúar bæjarins og Skógræktarfélags Íslands flytja ávörp.
Íris Reynisdóttir garðyrkjustjóri og Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands fjalla um skipulag svæðis við þjóðveginn.

Umræður á eftir.

Kaffi – veitingar

Allir eru hjartanlega velkomnir

Jóla – og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2012

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2012 er komið út. Kortið prýðir vatnslitamynd eftir Sigurþór Jakobsson og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2012.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í búnti með umslagi, á kr. 1.000. Ef pöntuð eru 50 kort eða fleiri er veittur 25 % afsláttur.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Skúlatúni 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér).

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við 250 kr. afgreiðslugjald.

 

kort2012 web

Skýrsla um atvinnuátak í Kópavogi

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær hafa tekið myndarlega þátt í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands á undanförnum árum. Fjöldi manns hefur fengið vinnu í átakinu og ráðist hefur verið í fjölbreytt og mikilvæg verkefni í Guðmundarlundi, Selfjalli og Fossá. Á dögunum kom út skýrsla um atvinnuátakið 2012 og má kynna sér hana hér (pdf).

Þemadagur skógræktargeirans: Fræöflun og kynbætur

Með Fundir og ráðstefnur

Þemadagur NordGen Skog með yfirskriftinni „Fræöflun og kynbætur – staðan í dag og framtíðin“ verður haldinn á Hótel Örk, Hveragerði 6. nóvember n.k. frá kl. 10:00 – 17:00.

Fundarstjóri þemadagsins verður Jón Geir Pétursson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þeim þátttakendum sem skrá sig fyrir 31. okt. verður boðið fundarkaffi og hádegisverður án endurgjalds. Þeir sem skrá sig eftir 31. október þurfa að greiða 3.000 kr. í þátttökugjald. Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að skrá sig hjá Úlfi Óskarssyni á netfangið ulfur@lbhi.is fyrir 31. október.

Þátttakendur bóka sjálfir og greiða gistingu á Hótel Örk í síma 483-4700. Eins manns herbergi með morgunmat kostar 9.900 kr.  en tveggja manna herbergi með morgunmat 13.900 kr. Kvöldverður kostar 5.900 kr.

Í kjölfar fagráðstefnu um kvæmi og klóna á Húsavík 2012 liggur beint við að koma af stað umræðu um fræöflun fyrir íslenska skógrækt. Hvernig gengur okkur að afla þess fræs sem okkur vantar? Eigum við að fara út í meiri kynbætur? Hver er staðan í þessum málum í dag? Hverjar eru úrlausnirnar? Hver verða áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi? Hvernig getum við búið okkur undir breytta tíma hvað varðar vaxtarskilyrði í framtíðinni? Hver á að leiða og bera ábyrgð á Íslenska fræbankanum?

Dagskrá þemadags og nánari upplýsingar má lesa á heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Jólaskógurinn í Brynjudal 2012– byrjað að bóka!

Með Skógargöngur

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 1.-2., 8.-9. og 15.-16. desember og laugardaginn 22. desember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær.  Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog (hjá) skog.is. Einnig má lesa um skóginn á heimasíðunni (hér).

Opið hús skógræktarfélaganna: Fræðsluferð til Skotlands

Með Fræðsla

Opið hús skógræktarfélaganna að hausti verður fimmtudagskvöldið 18. október  og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.   Sagt verður í máli og myndum frá skógarferð til Skotlands, sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir haustið 2011.  Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóg- og trjárækt í Skotlandi. Aðal skipuleggjandi ferðarinnar, skógfræðingurinn og Íslandsvinurinn Alexander Robertson, kemur til landsins deginum áður og eigum við von á því að hann mæti.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.