Fyrirtækin Síminn, Pósturinn og Græn framtíð standa fyrir farsímasöfnunarátaki 6.-16. desember næstkomandi. Pósturinn sendir sérhannaða plastpoka inn á öll heimili í landinu sem viðtakendur eru hvattir til að nýta undir bilaða eða afgangs farsíma. Símunum er svo skilað til Símans, þaðan sem þeir rata í hendur Grænnar framtíðar, sem kemur þeim í verð með endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrirtæki geta einnig safnað innan sinna raða.
Allur ágóði af símum sem safnast á þessu tímabili mun renna til styrktar góðum málefnum og er Skógræktarfélag Íslands eitt þeirra. Fjögur góðgerðarfélög eru tilgreind á plastpokanum og munu þeir sem skila inn símum geta merkt við hvaða félag óskað er eftir að styrkja. Hin félögin sem eru gefin upp eru Samhjálp, Stígamót og Hjálparsími Rauða krossins 1717.
Hvetjum við að sjálfsögðu alla skógræktarfélaga og annað skógræktarfólk til að losa sig við gömlu símana, sem safna ryki í skúffum hér og þar og styðja við Skógræktarfélag Íslands í leiðinni! Myndband með kynningu á félaginu má skoða á YouTube (hér).
Stjórn Skógræktarfélags Íslands hefur ákveðið að þeir fjármunir sem safnast, munu renna til Yrkju – sjóðs æskunnar til ræktunar landsins, en það er eitt þeirra verkefna sem félagið hefur umsjón með.
Yrkjusjóður úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna til gróðursetningar. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Á hverju ári sækja rúmlega 100 skólar um land allt um og fá úthlutað trjáplöntum.
Nýlegar athugasemdir