Skip to main content
All Posts By

a8

Farsímasöfnunarátak 6.-16. desember

Með Ýmislegt

Fyrirtækin Síminn, Pósturinn og Græn framtíð standa fyrir farsímasöfnunarátaki 6.-16. desember næstkomandi. Pósturinn sendir sérhannaða plastpoka inn á öll heimili í landinu sem viðtakendur eru hvattir til að nýta undir bilaða eða afgangs farsíma. Símunum er svo skilað til Símans, þaðan sem þeir rata í hendur Grænnar framtíðar, sem kemur þeim í verð með endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrirtæki geta einnig safnað innan sinna raða. 

Allur ágóði af símum sem safnast á þessu tímabili mun renna til styrktar góðum málefnum og er Skógræktarfélag Íslands eitt þeirra. Fjögur góðgerðarfélög eru tilgreind á plastpokanum og munu þeir sem skila inn símum geta merkt við hvaða félag óskað er eftir að styrkja. Hin félögin sem eru gefin upp eru Samhjálp, Stígamót og Hjálparsími Rauða krossins 1717.

Hvetjum við að sjálfsögðu alla skógræktarfélaga og annað skógræktarfólk til að losa sig við gömlu símana, sem safna ryki í skúffum hér og þar og styðja við Skógræktarfélag Íslands í leiðinni! Myndband með kynningu á félaginu má skoða á YouTube (hér).

Stjórn Skógræktarfélags Íslands hefur ákveðið að þeir fjármunir sem safnast, munu renna til Yrkju – sjóðs æskunnar til ræktunar landsins, en það er eitt þeirra verkefna sem félagið hefur umsjón með.
Yrkjusjóður úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna til gróðursetningar. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Á hverju ári sækja rúmlega 100 skólar um land allt um og fá úthlutað trjáplöntum.

farsimasofnun

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 14.-15. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem taka á móti fólki í skóginn helgina 14.-15. desember eru:

Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi, báða dagana kl. 12-16.

Skógræktarfélag A-Skaftfellinga er með jólatrjáasölu í Haukafelli á Mýrum á sunnudaginn kl. 11-15.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 10-16.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar er með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum, í samvinnu við Björgunarsveitina Heiðar, kl. 12-16, báða dagana, í Einkunnum á laugardaginn kl. 12-16 í samvinnu við Björgunarsveitina Brák og í Reykholti á sunnudaginn kl. 11-16.

Skógræktarfélag Dýrafjarðar er með jólatrjáasölu á Söndum á sunnudaginn kl. 13-16.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandi á Þelamörk, báða dagana kl. 11-15.

Skógræktarfélag Garðabæjar er með jólatrjáasölu í Smalaholti á laugardaginn kl. 12-16.

Skógræktarfélag Grindavíkur er með jólatrjáasölu í Selskógi, báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.

Skógræktarfélag Ísafjarðar er með jólatrjáasölu í hlíðinni ofan við Bræðratungu (innan við Seljalandshverfi) á laugardaginn, kl. 13-16.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga.

Skógræktarfélagið Mörk verður með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu, á sunnudaginn kl. 13-15.

Skógræktarfélag Rangæinga verður með jólatrjáasölu í Bolholtsskógi á sunnudaginn kl. 12-15.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk er opinn báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu í Hólaskógi og skógarreitnum í Varmahlíð á sunnudaginn kl. 12-15.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna (hér).

Rannsóknastyrkir í landgræðslu og skógrækt

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.

Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 20. janúar 2014.

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal). Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.

Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík. Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.


Umsóknareyðublað (.doc)

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum helgina 7.-8. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem verða með jólatrjáasölu helgina 7.-8. desember eru:

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 10-16. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skogarn.is

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – skoghf.is

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Á laugardeginum verður kveikt á jólatré markaðarins kl. 14:30, en á hverju ári býður Skógræktarfélagið hönnuði eða listamanni að skreyta tréð og er það Tinna Ottesen hönnuður sem skreytir tréð í ár. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk opnar svo þann 7. desember og verður opinn báða dagana kl. 11-16. Mun Jón Gnarr borgarstjóri fella fyrsta tréð kl. 11 á laugardeginum, en auk hans hefur jólasveinn boðað komu sína á svæðið. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – heidmork.is.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs – skogkop.net.

Jólatrjáasala hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar í Hamrahlíð við Vesturlandsveg hefst svo miðvikudaginn 11. desember og er opin alla daga til 23. desember. Opnunartími kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga.
 

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.

Vinabæjartré frá Reykjavík til Tórshavnar 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Reykjavíkurborg gaf Þórshafnarbúum jólatré og voru ljósin á því tendruð við hátíðlega athöfn í miðborg Þórshafnar þann 30. nóvember. Afhenti Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, tréð fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi með einhverju móti þakka Færeyingum þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina og var ákveðið í að færa þeim jólatré að gjöf í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem gaf tréð og Eimskip,sem sá um flutning þess til Færeyja.

Jólatréð var höggvið á svæði Skógræktarfélagsins á Heiðmörk þann 20. nóvember. Er tréð sitkagreni, af kvæminu Homer. Var það gróðursett árið 1960, af stúlknahópi Vinnuskóla Reykjavíkur, ásamt starfsfólki Skógræktarfélagsins. Nú, rúmri hálfri öld síðar, reyndist tréð vera orðið 12 m hátt og 40 cm í þvermál.

Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi með einhverju móti þakka Færeyingum þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina og var ákveðið í að færa þeim jólatré að gjöf. Þetta er fyrsta jólatréð sem Reykjavíkurborg gefur Þórshöfn og er það von borgarstjóra að þessi siður verði viðhafður ár hvert héðan í frá til að minna á og treysta hin tryggu vinabönd milli þjóðanna tveggja.

faereyjar1

Unnið að því að reyra greinar trésins saman  (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar2

Dráttarvél (sem er nokkuð stór) notuð til að lyfta trénu upp á flutningabíl (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar3

Tréð komið upp á svokallað fleti á vörubílnum. Á fletinu ferðast tréð til Færeyja (Mynd: Sk.Rvk).

faereyjar4

Tréð leggur af stað úr Heiðmörk í sína langferð til Tórshavn (Mynd: Sk.Rvk.).

faereyjar5

Tréð komið upp tendrað í Tórshavn (Mynd: Alan Brockie).

 

Ræktunarleiðbeiningar fyrir hindber

Með Fræðsla

Út eru komnar Ræktunarleiðbeiningar fyrir hindber.Ræktun utandyra, í plastskýlum og í gróðurhúsum. Ræktunarleiðbeiningarnar eru þróaðar sem hluti af verkefninu ATLANTBERRY (Framþróun berjaframleiðslu í atvinnuskyni á Norður-Atlantshafssvæðinu). ATLANTBERRY verkefnið er styrkt af NORA (Nordic Atlantic Cooperation), Sambandi garðyrkjubænda, Vaxtarsamningi Suðurlands; L/F Meginfelag Búnaðarmanna and Faroese Research Council (Færeyjar); Grønlandsbankens Erhvervsfond and Kommun Kujalleq (Grænland).

Hægt er að nálgast leiðbeiningarnar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

Fuglavernd: Fuglar og landbúnaður

Með Ýmislegt

Á fræðslufundi félagins í næstu viku, fimmtudaginn 28. nóvember, mun Lilja Jóhannesdóttir segja frá rannsóknum sínum á fuglalífi á landbúnaðarsvæðum á Suðurlandi. Fjallað verður um áhrif landnýtingar, farið verður yfir þéttleikatölur og samfélög mismunandi búsvæða og einnig verða stofnstærðir algengustu tegunda skoðaðar.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar kl. 20:30. Gengið er inn um aðalinngang á austurhlið.

Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra.

Allir velkomnir.

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013 er að koma út. Kortið prýðir vatnslitamynd eftir Sigurþór Jakobsson og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2013.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í búnti með umslögum á kr. 1.000. 

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér).

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við 250 kr. afgreiðslugjald.
 

tkort2013-max

Samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Með Skógræktarverkefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu þriðjudaginn 26. nóvember undir samning vegna Landgræðsluskóga og fór undirskriftin fram í Selinu, bækistöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Samningurinn felur í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefni sem hefur það að markmiði að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land.

Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins en skógræktarfélögin sem eru starfrækt víða um land sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, útvegun lands, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu. Gerðir eru þinglýstir samningar um öll svæði sem kveða m.a. á um að þau skuli vera opin almenningi til útivistar. Nánast öll skógræktarfélög landsins vinna nú á einn eða annan hátt að verkefninu. Þannig er það vettvangur áhugamannasamtaka í gróðurvernd um allt land.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis.

Gerðir hafa verið samningar um 130 svæði um allt land. Samkvæmt nýlegri úttekt á verkefninu þekja sýnilegir skógar nú tæpa 5000 hektara. Langflest Landgræðsluskógasvæði eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra.

Nýr samningur milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Skógræktarfélags Íslands gildir til fimm ára og felur í sér 35 milljóna króna árlegt framlag til verkefnisins.

undirskriftlgrsk

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, takast í hendur að lokinni undirskrift samningsins (Mynd: RF).