Skip to main content
All Posts By

a8

Skrína – nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda

Með Ýmislegt

Skrína, nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda hefur nú hafið göngu sína. Fyrstu tvær greinarnar sem birtar eru í ritinu fjalla annars vegar um notkun á smárablöndum í landbúnaði og sveppasjúkdóma á Íslandi.

Skrína mun birta bæði ritrýndar, fræðilegar greinar og ritstýrðar greinar almenns eðlis, auk nýgræðinga, ritfregna og ritdóma. Tekið er við greinum til birtingar allt árið og verða þær birtar jafnóðum og þær eru tilbúnar. Auk þess er mögulegt að gefa út sérhefti tengd ráðstefnum og öðrum atburðum eftir atvikum; til dæmis er fyrirhugað að árlega verði gefið út sérhefti tengt vísindaþingi landbúnaðarins ― LANDSÝN ― ef nógu margar greinar berast.

Það er von þeirra er standa að Skrínu, að hún geti orðið öflugur vettvangur fræðilegrar og faglegrar umræðu og styrki rannsóknar- og þróunarstarf á auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda. Fagfólk innan þessa geira er hvatt til að nýta þennan nýja vettvang vel til að koma rannsóknaniðurstöðum og öðru fræðilegu efni á á framfæri. Nánari upplýsingar um frágang og skil handrita er að finna á vefsíðu Skrínu (www.skrina.is).

Skrína verður öllum opin, sem tryggir ekki aðeins aðgang fræðasamfélagsins að niðurstöðum rannsókna sem þar eru birtar, heldur og alls almennings. Er það í samræmi við hugmyndafræði sem nú ryður sér víða til rúms, að niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir almannafé eigi að vera öllum aðgengilegar.

Skrína er gefin út af Hólaskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Matís, Matvælastofnun (Mast), Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun. Ritstjórn er skipuð fulltrúum þessara stofnana en ritstjóri er Ása L. Aradóttir.

Fræðsluerindi: Náttúruskógar og skógrækt í Chile

Með Fræðsla

Skógræktarfélagið Dafnar, skógræktarfélag nemenda og starfsmanna við Landbúnaðarháskóla Íslands, stendur fyrir opnu fræðsluerindi þriðjudaginn 28. janúar um Náttúruskóga og skógrækt í Chile í S-Ameríku. Fyrirlesari er Bjarni Diðrik Sigurðsson, en hann dvaldi í Chile í rúmar tvær vikur í nóvember og desember síðast liðinn, þar sem hann tók þátt í að kenna alþjóðlegt doktorsnemanámskeið í skógvistfræði, sem haldið var í samvinnu skógfræðideildar Sænska landbúnaðarháskólans (SLU), háskólans í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og háskólans í Concepcion í Chile. Í þeirri ferð fékk hann einstakt tækifæri til að kynnast skógarmálum í þessu fjarlæga landi.

Erindið er opið öllum og er haldið í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, kl. 17:00-17:45.

Fuglavernd: Garðfuglahelgi 24.-27. janúar

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 24. – 27. janúar 2014. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á tímabilinu og skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Þeir sem gefa fuglum að staðaldri eru sérstaklega hvattir til þess að taka þátt. Fólki sem ekki hefur gefið fuglum áður er bent á að gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum fyrr með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund og má finna upplýsingar um það á Garðfuglavefnum og í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem má fá á skrifstofu félagsins. Frekari upplýsingar um garðfuglahelgina er að finna á heimasíðu Fuglaverndar – fuglavernd.is.

gardfuglahelgi

Stari og gráþröstur þræta um gult epli. Starinn er sigurviss (Mynd: Örn Óskarsson).

Hönnun úr íslenskum efniviði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Síðastliðið haust tók Skógræktarfélag Reykjavíkur þátt í samstarfi við Listaháskóla Íslands um kennslu í vöruhönnunaráföngum þar sem áhersla var lögð á að hanna úr íslenskum við. Nemendurnir voru kynntir fyrir þeim efnivið sem fellur til í skógum og aðferðum við að vinna hann og í kjölfarið hönnuðu þau muni úr við sem kom úr Heiðmörk.

Kennarar voru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir og Hafsteinn Júlíusson frá Listaháskóla Íslands, Ólafur Oddsson frá Skógrækt ríkisins og Gústaf Jarl Viðarsson og Sævar Hreiðarsson frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Auk þess að hanna ýmsar vörur bjuggu nemendur til heimasíðu til kynningar á verkefninu – http://www.rendezwood.com/. Hefur það m.a. skilað sér í umfjöllun um verkefnið á heimasíðu Frame, eins virtasta hönnunartímarits Bretlands og á heimasíðu Domus, eins virtasta hönnunarblaðs Ítalíu.

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol

Hressir jólasveinir á leið heim úr jólaskóginum í Brynjudal.

Skógræktarritið, seinna hefti 2013 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, seinna hefti 2013, er komið út. Á kápu er fallegt mynd er nefnist „Vetur“ eftir Sigþór Jakobsson.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

„Heiðursvarði um Eystein Guðjónsson frá Djúpavogi“, eftir Jón Geir Pétursson

„Tré ársins 2013“, eftir Brynjólf Jónsson

„Skógræktarritið í 80 ár“, eftir Einar Örn Jónsson

„Hellisgerði – Níutíu ára skrúðgarður“, eftir Jónatan Garðarsson

„Skógarmaðurinn“, eftir Guðríði Helgadóttur

„Kolefnisbinding í ungum lerkiskógi á Austurlandi“, eftir Brynhildi Bjarnadóttur

„Lygilegur árangur í skógrækt“, viðtal Einars Arnar Jónssonar við Barböru Stanzeit

„Trjágreinar I“, eftir Gísla Tryggvason

„Árhringjarannsókn á kastaníu í Belasitsa-fjöllum í Suður-Búlgaríu“, eftir Sævar Hreiðarsson og Ólaf Eggertsson

„Fjólubláa gullið – Felast vannýt tækifæri í lúpínunni?“, eftir Einar Örn Jónsson

„Hugleiðingar um stöðu birkisins í skógrækt“, eftir Þröst Eysteinsson

„Rauðavatnsstöðin – sögubrot af vandaðri girðingu“, eftir Bjarna Guðmundsson og Jón Geir Pétursson

„Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013“, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

„Skógarferð til Colorado“, eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur

„Skógræktarárið 2012“, eftir Einar Gunnarsson

Að auki eru minningargreinar um Margréti Guðjónsdóttur, Odd Sigurðsson, Hjört Tryggvason og Gísla Pálsson.

Með ritinu fylgir til áskrifenda nýjasta Frækornið og fjallar það um gisjun.

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog@skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Að auki fylgir nú með fallegur smjörhnífur úr íslenskum viði. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog@skog.is.

skogrit2013-2-forsida

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum síðustu daga fyrir jól

Með Skógargöngur

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem taka á móti fólki í skóginn síðustu daga fyrir jól eru:

Skógræktarfélag A-Húnvetninga er með jólatrjáasölu í Gunnfríðarstaðaskógi 21.-22. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi, 21.-22. desember kl. 12-16.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, 21.-23. desember kl. 10-16.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandi á Þelamörk, 21.-22. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Eyrarsveitar er með jólatrjáasölu í Brekkuskógi, 20.-21 desember, kl. 13-18.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði, 21.-22. desember kl. 10-18.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga, til 23. desember.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, 21.-22. desember kl. 11-16. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk er opinn 21.-22. desember kl. 11-16.

Skógræktarfélag Stykkishólms er með jólatrjáasölu í Vatnsdal og í Tíðási 21.-23. desember, kl. 12-15.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði 21. desember kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.