Skip to main content
All Posts By

a8

Námskeið: Ræktun og umhirða gróðurs í sumarhúsalandi

Með Fræðsla

Fjölþætt námskeið með fjölda hugmynda sem nýtast sumarhúsaeigendum. Undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar er farið í skógargöngu þar sem skoðaður er fjöldi blómplantna, trjáa- og runnategunda sem henta í blandskóg og lundi. Kennd er sáning á fræi og græðlingaræktun. Kynntar verða lausnir til að skapa lygnan sælureit og umhirða sem vænleg er til árangurs.

Tími: Fimmtudagur 11. júní kl. 17:30 – 21:30. 
Staður: Gróðrarstöðin Þöll við Kaldársel, Hafnarfirði.
Verð: kr. 8.200. Léttur kvöldverður innifalinn.
Kennarar: Auður I Ottesen garðyrkjufræðingur og Steinar Björgvinsson skógfræðingur.

Landbúnaðarháskóli Íslands: Garð- og landslagsrunnar

Með Ýmislegt

Á vegum verkefnisins Yndisgróður er nú komið út nýtt rit með lýsingu á nítján íslenskum runnayrkjum, sem hafa um langt skeið verið í framleiðslu í ræktun hér á landi.

Ritið má nálgast á ritröð háskólans: http://www.lbhi.is/?q=is/rit_lbhi_0

Hjörtur Þorbjörnsson og Ólafur Sturla Njálsson sáu um yrkislýsingar og er útgáfa ritsins mikilvægur hluti af viðurkenningarferli íslenskra yrkja og liður í að meta gildi mikilvægra valinna garð- og landslagsrunna sem íslenskra úrvalsplantna.

Skógræktarritið, 1. tbl. 2015, komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsta tölublað Skógræktarritsins 2015 er komið út.

Að vanda er að finna í ritinu fjölda áhugaverðra greina um hinar ólíku hliðar skógræktar. Meðal annars er fjallað um tuttugu ára trjárækt í Deild í Fljótshlíð, nýtt birkiyrki – Kofoed að nafni, ræktun í lúpínubreiðum, þróun viðarnytja á Íslandi, Eldhraunsreitinn í Skaftáreldahrauni, vígslu minningarsteins um Jón Jósep Jóhannesson, frumkvöðul skógræktar á Skógum, notkun maríuskós í ræktun trjáa, lífbreytileika í samhengi skógræktar og einn af skógarfuglunum okkar – auðnutittling. Einnig er minnst Indriða Indriðasonar skógarvarðar.

Kápu ritsins prýðir verkið ,,Sumar“ eftir Kristínu Arngrímsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.

Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is.

skogrit2015-1

Aðalfundur Skógræktarfélag Akraness 2015

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn mánudaginn 18. maí kl. 20:00 í Fjölbrautarskóla Vesturlands (gengið inn Vallholtsmegin).

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf (skýrsla stjórnar, reikningar, kosning stjórnar)
  • Sumarstarfið, gróðursetning o.fl.
  • Jólatrjáasalan

Fræðslufundur um skógræktarmál

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosfellsbær efna til fræðslufundar um skógræktarmál þriðjudaginn 5. maí klukkan 17:00. Fundurinn verður haldinn í hliðarsal við Bókasafn Mosfellsbæjar (Fiskabúrinu) í Kjarna (Þverholti 2).

Á fundinum mun Björn Traustason, sérfræðingur í landfræðilegum upplýsingakerfum hjá Rannsóknarstöð skógræktar að Mógilsá, halda erindi um endurkortlagningu náttúrulegs birkis á Íslandi, þar sem farið verður yfir þær breytingar sem hafa orðið á útbreiðslu birkis síðustu áratugi.

Auk þess munu Bjarni Ásgeirsson, garðyrkjustjóri Mosfellsbæjar, Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar og Guðrún Birna Sigmarsdóttir, nýr verkefnastjóri í garðyrkjudeild, ræða stuttlega um þau verkefni sem eru í gangi í Mosfellsbæ og svara fyrirspurnum um gróður og garðyrkju í Mosfellsbæ.

Allir áhugasamir velkomnir! Heitt á könnunni.

Skógarganga í Guðmundarlundi

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs og Umhverfisvið Kópavogsbæjar verða með skógargöngu í Guðmundarlundi mánudaginn 27. apríl kl 17:00.

Farin verður gönguferð um Guðmundarlund og sagt frá því helsta sem er á döfinni í Guðmundarlundi og hjá Skógræktarfélaginu.

Mæting er á bílastæði við Guðmundarlund. Leiðsögumenn verða Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, og Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélagsins.

Skógræktarfélagið býður upp á grillaðar pylsur í lok gönguferðarinnar.


Skógræktarfélag Kópavogs og Umhverfissvið Kópavogsbæjar

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Markar

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn á Icelandair Hótel Klaustri þriðjudaginn 5. maí kl. 16:00.

Fundarefni:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Önnur mál

Kaffiveitingar í boði félagsins.

Fræðsluerindi:
Auður I. Ottesen garðyrkjufræðingur flytur fróðlegt erindi um hvernig nýta má skóginn í ýmislegt áhugavert.

Allir áhugasamir velkomnir !

Skógræktarfélagið Mörk,
Kirkjubæjarklaustri.

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur 2015

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur verður haldinn föstudaginn 24. apríl næstkomandi kl. 17.00 í húsnæði Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1, Reykjavík (gengið inn Ármúla megin).

Dagskrá:
• Skýrsla um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
• Endurskoðaðir reikningar félagsins.
• Kosning samkvæmt félagslögum.
• Tillögur um framtíðarstarfsemi félagsins.
• Önnur mál

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, heldur erindi við lok aðalfundar: Er skógrækt náttúruvernd?

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur