Skip to main content
All Posts By

a8

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2015 settur

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2015 var settur í morgun, en að þessu sinni er hann haldinn á Akureyri, í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga, sem fagnar 85 ára afmæli á árinu.

Hófst fundurinn með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Ólafs Thoroddsen, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Eiríks B. Björgvinssonar bæjarstjóra Akureyrarbæjar. Að ávörpum loknum tekur við skýrsla stjórnar og kynning reikninga Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs.

Eftir hádegismat verður svo haldið í vettvangsferð til Siglufjarðar, en þar verður Opinn skógur í Skarðdal formlega opnaður. Frá Siglufirði verður svo haldið til Hánefsstaða þar sem Skógræktarfélag Eyfirðinga verður með móttöku fyrir fundargesti.

Fundurinn heldur svo áfram á laugardag og sunnudag.

 

Myndir frá fundi verða birtar á Facebook-síðu félagsins.


Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2015

Með Fundir og ráðstefnur

80. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn dagana 14. – 16. ágúst og fer fundurinn fram í Hofi á Akureyri, en Skógræktarfélag Eyfirðinga er gestgjafi fundarins að þessu sinni.

Fundurinn hefst að morgni föstudagsins 14. ágúst og stendur fram að hádegi á sunnudaginn. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður fimmtándi Opni skógurinn formlega opnaður, skógurinn í Skarðdal á Siglufirði. Auk þess verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir í skóglendi í nágrenni Akureyrar.

Aðalfundur félagsins er mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir skógræktarfélögin, en þar gefst fundargestum kostur á að hitta nýja og gamla félaga innan skógræktarfélaganna.

Upplýsingar um fundinn má finna hér á heimasíðu félagsins, en auk þess verður hægt að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu félagsins.

Opinn skógur í Skarðdal á Siglufirði

Með Skógræktarverkefni

Í tilefni af vígslu skógarins í Skarðdal á Siglufirði sem „Opins skógar“ verður efnt til hátíðardagskrár föstudaginn 14. ágúst, kl. 15:00-16:30. Er opnunin hluti af Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn er á Akureyri dagana 14. – 16. ágúst. Einnig fagnar Skógræktarfélag Siglufjarðar, sem ræktað hefur upp skóginn í Skarðdal, 75 ára afmæli á árinu.

Dagskrá:

Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar, býður gesti velkomna

Lúðraþytur

Opnun
Skógur formlega opnaður með klippingu á borða
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra
Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir

Hátíðarsamkoma í Árhvammi
Ávörp flytja
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
Kristinn Kristjánsson, varaformaður bæjarráðs Fjallabyggðar

Frumsamið afmælisljóð – Páll Helgason

Veitingar
Barnahorn – sérstök dagskrá fyrir börn
Tónlist – Hljómsveitin „Heldri menn“

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Höfðaskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, í samstarfi við Íshesta, Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Gróðrarstöðina Þöll, stendur fyrir skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar í Höfðaskógi í Hafnarfirði, laugardaginn 25. júlí næst komandi.

Dagskrá:
Bænalundur, Höfðaskógi (skammt frá Þöll, Kaldárselsvegi)
• Kl. 14:00: Helgistund. Séra Kjartan Jónsson.
• Kl. 14:30: Ganga um Höfðaskóg og nágrenni með Jónatan Garðarssyni. Lagt af stað að lokinni helgistund. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund.

Íshestar, Sörlaskeiði 26
• Kl. 16:00 – 16:30: Börnum boðið á hestbak í gerðinu við bækistöðvar Íshesta, Sörlaskeiði 26.

Þöll/Skógræktarfélag Hafnarfjarðar við Kaldárselsveg
• Kl. 15:00: Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikkuna á hlaðinu við Þöll.
• Gjörningar og leikir fyrir börnin í boði ÍTH.
• Skógargetraun fyrir börnin í Þöll. Vinningshafar kynntir kl. 16:30.
• Komið með á grillið. Heitt í kolunum á hlaðinu við Þöll.
• Heitt á könnunni.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455, 894-1268 (Steinar), skoghf.is

Sumardagskrá í Yndisgörðum

Með Fræðsla

Laugardagur 11. júlí, Hvanneyrarhátíð
Starfsmenn Yndisgróðurs taka á móti fólki í Yndisgarðinum á Hvanneyri til að spjalla og svara spurningum. Stutt leiðsögn um garðinn verður kl. 14:30.

Fimmudagur 16. júlí, Húnavaka
Opinn dagur í Yndisgarðinum á Blönduósi kl. 13:00-15:00. Samson Bjarnar Harðarson verður með leiðsögn og segir frá því hvaða plöntur hafa reynst vel í garðinum.

Laugardagur 25. júlí
Opinn dagur í Yndisgarðinum í Fossvogi kl. 13:00-15:00. Stutt leiðsögn fyrir almenning, Steinunn Garðarsdóttir segir frá garðinum. Í Fossvogi eru auk runna tvö fjölæringabeð sem verður litið á.

Nánari upplýsingar um Yndisgarða á heimasíðu Yndisgróðurs – http://yndisgrodur.lbhi.is/

Skógarleikar í Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur blæs til Skógarleika, hátíðar fyrir alla fjölskylduna sem haldin verður á áningarstaðnum Furulundi í Heiðmörk laugardaginn 4. júlí kl. 14-17.

Þar munu nokkrir færustu skógarhöggsmenn á Suður- og Vesturlandi leiða saman hesta sína í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, trjáfellingu og afkvistun trjábola. Búast má við miklum átökum og skemmtun í þessari hörkukeppni sem allir í fjölskyldunni ættu að hafa gaman að.

Jafnframt kemur skógarmaðurinn ógurlegi, Rick Sotil, á hátíðina og sýnir meðal annars fimi sína í að höggva í sundur boli með öxum. Sotil er Bandaríkjamaður af baskneskum ættum sem býr yfir margra ára reynslu á þessu sviði og er mikið að sjónarspil að fylgjast með honum handleika öxina. Hann keppir í skógargreinum víða í Bandaríkjunum og í Baskalandi, ennfremur er hann fyrrum heimsmeistari í þjóðaríþrótt Baska sem nefnis Jai Alai. Munu íslenskir skógarhöggsmenn etja kappi við hann í hefðbundnum keppnisgreinum baskneskra skógarmanna.

Kveikt verður upp í varðeldi og gestum og gangandi boðið upp á grillaðar pylsur og ketilkaffi. Þá munu skátar setja upp þrautabraut og leiktæki fyrir yngstu kynslóðina. Það er því upplagt fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag í Heiðmörk og njóta í senn samveru, útivistar og skemmtunar skógarmanna.

Skógargreinar sem keppt verður í á Skógarleikum:
Axarkast – metralöngum kastöxum kastað í mark
Eldiviður klofinn – tímakeppni í að kljúfa eldiviðarkubba
Afkvistun trjábola – tímakeppni í afkvistun trjábola
Trjáfelling – tré fellt á hæl
Bolakapp – trjábol rúllað með priki
Trjábolir höggnir í sundur með öxum – Sýningargrein sem bandaríski skógarmaðurinn Rick Sotil sýnir ásamt fleirum.
Chingaruti – Lyftingar á tilsniðnum stokkum.

Nánari upplýsingar veitir Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, í síma 864-4228.

Hátíð og gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Með Ýmislegt

Þann 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Af þessu tilefni hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Alþingi og Reykjavíkurborg, ásamt á fjórða tug félagasamtaka og stofnana, þar á meðal Skógræktarfélag Íslands, tekið höndum saman og efna til hátíðardagskrár sunnudaginn 28. júní, undir yfirskriftinni Þjóðin sem valdi Vigdísi.

Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Þótti því upplagt að skógræktarfélögin myndu marka þessi tímamót með gróðursetningu og fylgja fordæmi Vigdísar um trén þrjú.

Skógræktarfélögin og sveitarfélög um land allt, með stuðningi Skógræktarfélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Yrkjusjóði og Landgræðslusjóði munu því standa saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní í tengslum við hátíðina daginn eftir. Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað og verður um að ræða stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-2,0 m á hæð.

Á Facebook-síðu viðburðarins  Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur verða settar inn nánari upplýsingar um gróðursetningu á hverjum stað, eftir því sem þær berast.

Yfirlit:
Akranes: Skógræktarfélag Akraness og Akraneskaupstaður gróðursetja í Garðalundi kl. 13:00.
Blönduós: Skógræktarfélag A-Húnvetninga og Blönduósbær gróðursetja í Fagrahvammi (Kvenfélagsgarður) kl. 16:00.
Borgarnes: Skógræktarfélag Borgarfjarðar gróðursetur við íþróttavöllinn í Borgarnesi kl. 12:30. 
Dalabyggð: Skógræktarfélag Dalasýslu og Dalabyggð gróðursetja við Auðarskóla kl. 17:00, sunnudaginn 28. júní.
Djúpivogur: Gróðursett verður í Hálsaskógi kl. 14:00.
Egilsstaðir: Skógræktarfélag Austurlands og Fljótsdalshérða gróðursetja í Tjarnargarði á Egilsstöðum kl. 15:30.
Garðabær: Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær gróðursetja í Lundamóa kl. 13:00.
Garður: Gróðursett verður á opna svæðinu sunnan við sundlaugina kl. 11:00.
Grindavík: Skógræktarfélag Grindavíkur og Grindavíkurbær gróðursetja í minningarlundi í Sjómannagarði milli Hafnargötu og Mánagötu, kl. 13:00.
Grundarfjörður: Skógræktarfélag Eyrarsveitar og fleiri gróðursetja í Yrkjuhvamminn vestan við vatnstankinn undir Innra Hellnafelli, kl. 14:00.
Hafnarfjörður: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gróðursetur í Vigdísarlund á Víðistaðatúni kl. 10:00.
Hvalfjarðarsveit: Skógræktarfélag Skilmannahrepps gróðursetur við Furuhlíð kl. 11:00.
Höfn í Hornafirði: Skógræktarfélag A-Skaftfellinga gróðursetur við Sundlaugina í Höfn þegar skrúðganga fer hjá (milli kl. 20:30 og 21:00).
Hveragerði: Gróðursett verður í smágörðunum við hlið Hótels Arkar kl. 17:00, föstudaginn 26. júní.
Ísafjörður: Skógræktarfélag Ísafjarðar og Ísafjarðarbær gróðursetja í Karlsárskógi kl. 14:00. 
Kjósarhreppur: Skógræktarfélag Kjósarhrepps og Kjósarhreppur gróðursetja við Ásgarð kl. 11:00.
Kópavogur: Skógræktarfélag Kópavogs gróðursetur í Guðmundarlundi kl. 14:30, föstudaginn 26. júní.
Mosfellsbær: Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gróðursetur í Meltúnsreit kl. 11:00.
Raufarhöfn: Gróðursett verður á bletti beint á móti Ráðhúsinu kl. 11:00.
Reykjanesbær: Skógræktarfélag Suðurnesja og Reykjanesbær gróðursetja í Paradís, neðan við Grænás, kl. 11:00.
Reykjavík: Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetur við Bæjarhólinn á Elliðavatni kl. 14:00.
Siglufjörður: Skógræktarfélag Siglufjarðar og Fjallabyggð gróðursetja við kirkjuna á Siglufirði kl. 11:00.
Skagaströnd: Skógræktarfélag Skagastrandar gróðursetur sunnan við Spákonuhof kl. 11:00.
Skútustaðahreppur: Gróðursett verður í höfða kl. 14:30, mánudaginn 29. júní.
Stykkishólmur: Gróðursett verður í Hólmgarði kl. 11:00.
Þingeyjarsveit: Skógræktarfélag Fnjóskdæla gróðursetur á Hálsmelum í Fnjóskadal kl. 15:00.
Þingeyri: Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Grunnskólinn á Þingeyri gróðursetja í svæði Yrkjuskógar skólans kl. 11:00.
Þorlákshöfn: Skógræktarfélag Þorlákshafnar og Ölfuss og Sveitarfélagið Ölfus gróðursetja í Skýjaborgum kl. 11:00. 

 


Skógræktarfélag Fnjóskdæla: Útivistardagur á Hálsmelum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 27. júní klukkan 14:00 verður útivistardagur á Hálsmelum, Fnjóskadal hjá Skógræktarfélagi Fnjóskdæla.

Byrjað verður á því að snyrta tré og planta berjaplöntum. Klukkan 15:00 verður komið saman við nýtt áningarborð rétt norðan við þar sem ekið er niður að útvarpsendurvarpanum. Þar verða gróðursettar þrjár birkiplöntur í tilefnis þess að 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Þá verður kaffi, safi og kleinur á boðstólum og farið í leiki með börnum.

Stjórn Skógræktarfélags Fnjóskdæla

Skógræktarfélag Kópavogs: Hreinsunar- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hreinsunar- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi fimmtudaginn 11. júní, kl. 17:00-20:30.

Það er ýmislegt sem þarf að gera, eins og að raka og hreinsa beð, skipta plöntum og spjalla saman. Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands, til minningar um Hermann Lundhold garðyrkjuráðunaut. Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos.

Þetta er tilvalin leið fyrir félaga til að hittast og spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir félaga sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval. Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá kl 17:00.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna og taka með sér gesti.

Leiðin í Guðmundarlund

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund þá er hér lýsing af beinustu leiðinni frá Vatnsendavegi að Guðmundarlundi. Beygt er af Vatnsendavegi á hringtorgi inn á Markaveg og hann ekinn til austurs meðfram hesthúsahverfinu að austanverðu þar til komið er að götu sem heitir Landsendi. Þar er skilti sem vísar á Guðmundarlund en einnig er skilti við hringtorgið á Vatnsendavegi merkt Guðmundarlundi.

Á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs er loftmynd er sýnir leiðina – sjá www.skogkop.is