Skip to main content
All Posts By

a8

Skógræktarfélag Garðabæjar: Myndakvöld frá þjóðgörðum í Póllandi

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Garðabæjar býður öllum áhugasömum til myndakvölds mánudaginn 19. október sem hefst kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

Fjallað verður um ferð skógræktarfélaganna til Póllands í síðastliðnum mánuði þar sem notið var skóga og menningar. Sigurður Þórðarson segir frá áhugaverðri ferð um fjöll, skóga og borgir í Póllandi, Erla Bil Bjarnardóttir sýnir myndir úr ferðinni.

Ferðin var skipulögð af Skógræktarfélagi Íslands.

Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Ljósaganga

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 6. október standa Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir ljósagöngu í Höfðaskógi. Gengið verður frá Gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg kl. 19:30. Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg Harðardóttir, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, ávarp. Síðan verður gengið út í skóg undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar. Gangan tekur um eina klukkustund.

Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér viðeigandi ljósfæri – vasaljós eða luktir – þar sem skuggsýnt verður orðið. Að göngu lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og kleinur í húsakynnum Þallar.

Allir velkomnir.

skhafn-ljosa

Tré ársins 2015

Með Skógræktarverkefni

Tré ársins 2015 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 26. september síðast liðinn. Að þessu sinni varð reynitré (Sorbus aucuparia) sem stendur í Sandfelli í Öræfum fyrir valinu.

Reynirinn vekur jafnan athygli, þar sem hann stendur einn og óstuddur, með gráar skriður í bakgrunni og sést hann vel frá þjóðveginum. Tréð var gróðursett árið 1923 af Þorbjörgu Guðdísi Oddbergsdóttur, mágkonu séra Eiríks Helgasonar, sem var prestur í Sandfelli frá 1918 til 1931. Þorbjörg fékk tréð sent frá vinkonu sinni á Egilsstöðum sem hafði fengið það í gróðrarstöðinni hjá Guttormi Pálssyni, skógarverðinum á Hallormsstað, en uppruni þess er ekki þekktur.

Hófst athöfnin á því að Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð gesti velkomna. Að ávarpi hans loknu færði Magnús afkomendum séra Eiríks viðurkenningarskjal og tók Eiríkur Helgason við því fyrir þeirra hönd. Einnig tók Örn Bergsson við viðurkenningarskjali fyrir hönd Öræfinga. Eiríkur Helgason færði svo Skógræktarfélagi Íslands fallega ljósmynd af trénu og tók Magnús Gunnarsson við henni fyrir hönd félagsins. Anna Sigríður Helgadóttir tók því næst lagið fyrir gesti. Að lokum var tréð hæðarmælt og sá Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði, um mælingu. Reyndist hæsti stofn trésins vera 11,98 m á hæð, en tréð greinist í sjö stofna. Að lokum var svo gestum boðið upp á hressingu á Hótel Skaftafelli í Freysnesi.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins, nú í samstarfi við Arion banka. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Sjá má myndir frá útnefningunni á Facebook síðu Skógræktarfélags Íslands.

trearsins2015

Tré ársins 2015 (Mynd: RF).

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Sjálfboðaliðadagur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður sunnudaginn næstkomandi, þann 27. september kl. 11.00 – 13.00. Gróðursett verður í Vatnshlíðarlund við Hvaleyrarvatn, en það er minningarlundur um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Mæting er í Vatnshlíð norðan við Hvaleyrarvatn, á hægri hönd þegar ekið er niður að Hvaleyrarvatni frá Kaldárselsvegi.

Boðið er upp á hressingu í Þöll að gróðursetningu lokinni. Allir velkomnir og öll hjálp vel þegin.

Þetta er tilvalið tækifæri til að kynnast skógræktarfólki í bænum. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 (Þöll), 894-1268 (Steinar framkvæmdastjóri) eða 849-6846 (Árni skógarvörður). Plöntur og verkfæri á staðnum.

Ráðstefna og ferð í Bæjarstaðarskóg og útnefning Trés ársins

Með Fundir og ráðstefnur

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá friðun Bæjarstaðarskógar stendur Skógræktarfélag Íslands fyrir ráðstefnu um og ferð til Bæjarstaðarskógar dagana 25.-26. september.

Rúta verður frá skrifstofu Skógræktarfélags Íslands föstudaginn 25. september. Ráðstefnan verður svo haldin að morgni laugardagsins 26. september. Að henni lokinni fer fram athöfn vegna útnefningar Trés ársins 2015. Eftir það verður skoðunarferð í Bæjarstaðarskóg undir leiðsögn staðkunnugra, áður en haldið verður aftur til baka.

Skrá þarf sig á ráðstefnuna, en frítt er inn á hana. Fyrir þá sem vilja nýta sér rútuna kostar ferðin kr. 10.000 pr. mann. Skráningarfrestur á ráðstefnuna og/eða í rútuferðina er til 2. september, á netfangið skog@skog.is eða í síma 551-8150. Ráðstefnugestir sjá sjálfir um að útvega sér gistingu.


Dagskrá:

Föstudagur 25. september

Kl. 13:30 Brottför frá Þórunnartúni 6 austur í Skaftafell/Svínafell/Freysnes

Laugardagur 26. september
Ráðstefna um Bæjarstaðarskóg – haldin í Freysnesi

Kl. 8:30 Fræðsluerindi
  Bæjarstaðarskógur í sögulegu samhengi / Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor Landbúnaðarháskóla Íslands
  Gróðurframvinda við Bæjarstaðarskóg / Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur Náttúrufræðistofnun Íslands
  Kynbætur á Bæjarstaðarbirki / Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur
  Mikilvægi Bæjarstaðarbirkisins / Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Mógilsár-Skógrækt ríkisins
   
Kl. 10:00 Athöfn vegna Trés ársins 2015
   
Kl. 11:45 Hádegishlé
   
Kl. 12:30 Skoðunar-/gönguferð í Bæjarstaðarskóg undir leiðsögn staðkunnugra heimamanna
   
Kl. 17:00 Komið úr gönguferð
   
Kl. 17:30 Brottför frá Skaftafelli til baka til Reykjavíkur



Skógræktarfélagið Mörk: Skógardagur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagur skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn í Seglbúðum laugardaginn 29. ágúst kl. 13:30.

Mæting er við Seglbúðir þar sem byrjað verður á að skoða skógarreitinn þar, undir leiðsögn Guðrúnar og Jóns á Seglbúðum. Að því loknu verður farið að heimili þeirra, þar sem Skógræktarfélagið mun bjóða upp á hressingu í garðinum.

Garðurinn í Seglbúðum er með þeim elstu í Skaftárhreppi. Þar má sjá nokkur aldargömul tré.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Njótum útivistar !

Skógræktarfélagið Mörk,
Kirkjubæjarklaustri.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar: Opnun nýs útivistarsvæðis í Meltúnsreit

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosfellsbær bjóða til útihátíðar í skógarlundinum í Meltúnsreit á bæjarhátíðinni Í túninu heima, laugardaginn 29. ágúst kl. 11:00.

Tilefnið er formleg opnun á nýju útivistarsvæði í Meltúnsreit við Völuteig, sem er samvinnuverkefni Mosfellsbæjar og Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í tilefni af 60 ára afmæli skógræktarfélagsins.

Dagskráin verður fjölbreytt og skemmtileg.

– Mosfellskórinn syngur nokkur lög.
– Boðið verður uppá nýbakað lummur og svaladrykki.
– Kynnt verður tálgun úr tré.
– Náttúruleg leiktæki verða á staðnum fyrir börnin.

Aðkoma að svæðinu er frá Völuteig og með göngustígum í Teigahverfi.

Allir velkomnir.

meltunsreitur

Opinn skógur í Skarðdal á Siglufirði formlega opnaður

Með Skógræktarverkefni

Skógurinn í Skarðdal á Siglufirði var formlega opnaður sem Opinn skógur föstudaginn 14. ágúst. Var opnunin hluti af Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn var á Akureyri dagana 14. -16. ágúst. Einnig fagnar Skógræktarfélag Siglufjarðar, sem ræktaði upp skóginn í Skarðdal, 75 ára afmæli á árinu.

Af þessu tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum. Fjöldi manns, bæði fundargestir aðalfundar og heimamenn á Siglufirði, mættu á opnunina í blíðskaparveðri. Hófst athöfnin með því að Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar, bauð gesti velkomna. Að loknum lúðraþyt var skógurinn svo formlega opnaður þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og hjónin Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir klipptu á  borða við stíg inn í skóginn.

Gestir gengu því næst í Árhvamm þar sem efnt var til hátíðardagskrár. Ávörp fluttu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Páll Helgason flutti svo frumsamið afmælisljóð, í tilefni afmælis Skógræktarfélags Siglufjarðar og hljómsveitin Heldri menn spilaði fyrir gesti. Einnig var boðið upp á kaffihressingu og sérstaka dagskrá fyrir börn. Gestir nýttu einnig tækifærið til að skoða sig um í skóginum, en í honum er gott stígakerfi og margt fallegt að sjá.

Markmiðið með verkefninu Opinn skógur er að opna skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaganna og gera þau aðgengileg almenningi. 

Aðalfundur 2015

Með Aðalfundir

80. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Hofi á Akureyri dagana 14.-16. ágúst 2015. Skógræktarfélag Eyfirðinga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Hátt í tvö hundruð fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem tókst mjög vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Ólafs Thoroddsen, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Eiríks B. Björgvinssonar, bæjarstjóra Akureyrarbæjar.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Ávarp Jóns Loftssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir.

Eftir hádegi var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á því að halda til Siglufjarðar, þar sem skógurinn í Skarðdal var formlega opnaður sem fimmtándi Opni skógurinn. Klipptu Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og hjónin Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir á borða til að opna skóginn, en þau hjónin styrku opnun skógarins. Skógræktarfélag Siglufjarðar stóð svo fyrir hátíðarsamkomu í skóginum. Að henni lokinni var haldið í Hánefsstaðaskóg, þar sem Skógræktarfélag Eyfirðinga sló upp grillveislu og stóð fyrir skemmtun.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum, en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Hrefna Jóhannesdóttir skógfræðingur fjallaði um skóginn sem orkuauðlind, Sigurður Arnarson, höfundur Belgjurtabókarinn, sagði frá notkun belgjurta í skógrækt, Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, velti upp spurningunni hvort skógrækt og sauðfjárrækt ættu samleið og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sagði frá ýmsum gerðum sveppa sem finna má í skóginum.

Erindi Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (pdf)

Erindi Hrefna Jóhannesdóttir (pdf)

Erindi Þórarinn Ingi Pétursson (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Gömlu Gróðrarstöðina, þar sem fundargestir gátu kynnt sér fuglana í skóginum, matjurtarækt, trjátegundir, gróðursetningaáhöld og fleira, á sex stöðvum sem búið var að koma upp. Eftir smá hressingu var svo haldið í Kjarnaskóg, þar sem Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, leiddi göngu um skóginn. Gangan endaði á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á sveppasúpu og lummur, eldað yfir eldi og tónlist, auk þess sem Jötunn kynnti ýmsan skógartengdan varning.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Óskars Péturssonar. Á kvöldvökunni voru tveir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þeir Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson. Einnig var Þorsteinn Tómasson gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá tveimur þeirra, Skógræktarfélagi Ísafjarðar, sem fagnar 70 ára afmæli og Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, sem er 60 ára. Voru þeim færð rifsplanta að gjöf. Kvöldvakan endaði svo á balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Sigríður Heiðmundsdóttir og Laufey B. Hannesdóttir.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2015 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2014-2015  (pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Ársreikningur 2014 – Skógræktarsjóður Húnvatnssýslu (pdf)

Ársreikningur 2014 – Yrkjusjóður (pdf)