Skip to main content
All Posts By

a8

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2016

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Garðabæjar heldur aðalfund fimmtudaginn 3. mars 2016 og hefst hann kl. 20:00. Fundurinn er haldinn í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf:
1.1. Kjör fundarstjóra
1.2. Skýrsla stjórnar 2015
1.3. Reikningar félagsins 2015
1.4. Ákvörðun um félagsgjöld 2016
1.5. Stjórnarkjör
2. Önnur mál
3. Kaffiveitingar í boði félagsins
4. Gestur fundarins er Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, erindið hans verður um Skógrækt og náttúruskóga í Chile.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar
www.skoggb.is

skgbr adalf

Bjarni Diðrik Sigurðsson fjallar um náttúruskóga Chile á fundinum (Mynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson).

Landgræðsluskógasamningur um Múlastaði undirritaður

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þriðjudaginn 23. febrúar sl. undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, samning um ræktun landgræðsluskóga á jörðinni Múlastöðum í Flókadal í Borgarfirði. Jörðina keypti Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 2014.

Múlastaðir er alls um 650 hektarar að stærð og vel fallin til skógræktar. Stefnt er að því að gróðursetja að minnsta kosti 20.000 plöntur árlega. Markmiðið er að landið muni nýtast til framtíðar sem útivistarsvæði fyrir almenning.

 

mulastadir

Magnús Gunnarsson (t.v.), formaður Skógræktarfélags Íslands og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Námskeið hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands

Með Skógargöngur

Nú á vormánuðum eru ýmis áhugaverð námskeið fyrir ræktunarfólk í boði hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands.

Má þar meðal annars finna námskeið um húsgagnagerð úr skógarefni, meðferð varnarefna í landbúnaði og görðum, tálgun, trjáfellingar og grisjun með keðjusög, girðingar og torf- og grjóthleðslu.

Upplýsingar um námskeiðin, sem og önnur námskeið sem Landbúnaðarháskólinn stendur fyrir má finna á heimasíðu skólans – www.lbhi.is.

Mælistangar saknað!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Leit er hafin að mælistöng í eigu Skógræktarfélags Íslands. Stöngin er útdraganleg og mælir að 15 m hæð, en grunnhólkur er gulur og um 1,8 m á hæð. Ef einhver kannast við að hafa fengið hana lánaða og gleymt að skila er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að koma stönginni heim sem fyrst, hennar er sárt saknað hjá félaginu.

maelistong

Mælistöngin góða í notkun við mælingu á Tré ársins 2014.


Ályktun vegna nýrra búvörusamninga

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent frá sér sameiginlega ályktun í tengslum við nýja búvörusamninga. Telja félögin það grundvallaratriði að ríkisstuðningur við bændur í nýjum búvörusamningum verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og að komið verði í veg fyrir beit á örfoka landi.

Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir.

Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit. Styrkjakerfið þarfnast uppstokkunar í takti við hugmyndafræði um sjálfbæra landnýtingu og grænt hagkerfi. Sátt þarf að nást um að friða þá afrétti sem ekki þola beit, og um ný beitarviðmið sem tryggja vernd og styrkingu gróðurs og jarðvegs og efla ímynd landbúnaðarins á sama tíma. Í núgildandi samningi er vissulega ákvæði sem kveður á um sjálfbærni, sbr: „1.3. Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.“ Þessu ákvæði þarf að framfylgja með virku eftirlits- og gæðastýringarkerfi.

Undirrituð samtök hafa sett fram nokkur grundvallaratriði sem þau beina til samningsaðila að líta til við lokagerð nýrra búvörusamninga. Í stuttu máli eru þau:

1. Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi við sauðfjárrækt verði að nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar standist kröfur um sjálfbæra landnýtingu. Beit á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu á ekki að njóta ríkisstuðnings.
2. Auka þarf fjölbreytni atvinnutækifæra í byggðarlögum þar sem sjálfbær nýting afrétta er erfið eða ógerleg og beina ríkisstyrkjum til annars konar aðgerða til styrktar landsbyggðinni.
3. Breyta þarf úreltri löggjöf á sviði skógræktar og landgræðslu þannig að hið opinbera geti brugðist við og komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Þá þarf að breyta lögum þannig að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning.
4. Á sumum svæðum hefur gæðastýring stuðlað að ábyrgari landnýtingu. Þetta starf verður að styrkja til að tryggja að beit valdi ekki skaða á beitilöndum.
5. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana.
6. Huga þarf að alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála sem gera ráð fyrir að spornað sé gegn landeyðingu og illa farin vistkerfi endurheimt. Bændur spila þar lykilhlutverk sem þátttakendur í landbótaverkefnum.
7. Á meðan kjötframleiðsla byggir á ósjálfbærri nýtingu á hluta landsins verður öll markaðssetning því marki brennd að gengið sé á gróðurauðlindina. Þannig orkar sannarlega tvímælis að kjöt af fé sem að hluta til er alið á svæðum sem ekki þola beit sé niðurgreitt til útflutnings.
8. Samkvæmt forsetaúrskurði frá árinu 2012 skal umhverfis- og auðlindaráðuneytið fara með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. ráðgjöf um nýtingu auðlinda. Ráðuneytið þarf að koma að gerð samninganna.
9. Hinn alþjóðlegi Árósasamningur, sem Ísland er aðili að, á að tryggja aðkomu félagasamtaka að ákvarðanatöku er varðar umhverfismál. Samningsaðilar eru hvattir til að taka tillit til krafna undirritaðra samtaka.


Ályktunin í heild fylgir hér á eftir:

Ályktun Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Skógræktarfélags Íslands um búvörusamninga og náttúruvernd

Ályktunin er send landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, formanni og framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands og formanni og framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda. Afrit er sent umhverfis- og auðlindaráðherra.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Skógræktarfélag Íslands telja það grundvallaratriði að ríkisstuðningur við bændur í nýjum búvörusamningum sé skilyrtur við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og að komið verði í veg fyrir beit á örfoka landi.

Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir.

Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit. Styrkjakerfið þarfnast uppstokkunar í takt við hugmyndafræði um sjálfbæra landnýtingu og grænt hagkerfi. Sátt þarf að nást um að friða þá afrétti sem ekki þola beit, og um ný beitarviðmið sem tryggja vernd og styrkingu gróðurs og jarðvegs og efla ímynd landbúnaðarins á sama tíma. Í núgildandi samningi er vissulega ákvæði sem kveður á um sjálfbærni, sbr: „1.3. Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu“. Þessu ákvæði þarf að framfylgja með virku eftirlits- og gæðastýringarkerfi.

Hér eru sett fram nokkur grundvallaratriði sem neðangreind samtök telja að hafa verði í huga við gerð nýrra búvörusamninga. Samningsaðilar eru hvattir til að taka tillit til þessara atriða.

1. Bændur sem vörslumenn lands
Stuðningur við sauðfjárrækt er mikilvægur til að viðhalda byggð á mörgum svæðum landsins. Slíkan stuðning ber að skilyrða við sjálfbæra nýtingu beitilanda og koma þarf í veg fyrir framleiðslu sem bitnar á landgæðum. Að okkar mati er brýnt að auka fjölbreytni atvinnu- tækifæra í byggðarlögum þar sem sjálfbær nýting afrétta er erfið eða ógerleg og beina ríkisstyrkjum frekar yfir í landvörslu og endurheimt landgæða, aukna skóggræðslu og aðra endurhæfingu illa gróins lands, nýsköpun í náttúru- og menningartengdri ferðaþjónustu og fullvinnslu afurða, svo eitthvað sé nefnt. Benda má á styrkjakerfi til skógarbænda sem einmitt var komið á til að auka fjölbreytni atvinnutækifæra.

2. Stuðningur við sauðfjárrækt verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu
Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi til sauðfjárræktar og annarra búgreina þarf að vera sjálfbær nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar. Beit tíðkast því miður enn á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu, og víðar um land, þrátt fyrir gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og fagaðilar hér heima hafa ítrekað bent á þessa alvarlegu staðreynd. Beit á örfoka landi er ósjálfbær og ekki forsvaranlegt að hún njóti ríkisstuðnings. Fé fjölgar nú aftur í landinu og þótt loftslag sé hagfelldara nú en fyrir 30 árum eru stór landsvæði sem standa ekki undir núverandi beit, hvað þá fjölgun.

3. Löggjöf
Landbúnaðurinn og ríkisfagstofnanir á sviði skógræktar og landgræðslu, landeigendur og raunar landsmenn allir búa við úrelta löggjöf sem ekki virðir stjórnarskrárvarinn eignarrétt og getur með engum hætti brugðist við eða komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Um það ber skýrt vitni m.a. úrskurður ítölunefndar sem leyfði beit á örfoka landi á Almenningum ofan Þórsmerkur. Lög sem móta réttindi og skyldur sauðfjáreigenda veita þeim réttindi umfram aðra landeigendur og borgara sem vilja nýta landið með öðrum hætti. Breyta þarf lögum á þann hátt að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning, líkt og í öllum þeim löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við. Búfjáreigendur ættu í öllum tilfellum að bera ábyrgð á sínu búfé á því landi sem þeir nýta. Eignarréttur landeigenda sem kæra sig ekki um að gróðurlendi þeirra séu beitt af búsmala annarra skal virtur til jafns við annan eignarrétt. Undirrituð samtök telja afar brýnt að breyta löggjöfinni þannig að hið opinbera geti gripið inn í með afgerandi hætti og stöðvað lausagöngu og beit á örfoka landi.

4. Lausaganga
Lausaganga búfjár hefur í för með sér kostnað sem lendir á öðrum landnotendum. Þeir sem ekki halda sauðfé þurfa að verja land sitt vegna lausagöngu sauðfjár. Sauðfjárgirðingar eru miklu dýrari en girðingar um hross og kýr. Samt þarf að verja tún, skógræktarreiti, sumarhús, akra, skjólbelti, uppgræðslulönd, bæjarfélög o.fl. með sauðfjárgirðingum. Eðlilegra væri að þessi kostnaður yrði til hjá þeim sem halda sauðfé en hinum sem þurfa að verja sig fyrir ágangi þess. Því má telja eðlilegt að hluti styrkja til sauðfjárræktar renni til þeirra sem halda vilja fé sitt í afgirtum, vel grónum hólfum. Aukin vörsluskylda auðveldar öðrum landnotendum að nýta land sitt á þann hátt sem þeir kjósa og stuðlar að gróskumeiri byggðum og nýsköpun.

5. Verst förnu afréttirnir og efling gæðastýringar
Góður árangur hefur náðst sums staðar hvað varðar landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þannig hefur t.d. dregið úr beit á sumum verst förnu afréttum landsins þar sem bændur hafa friðað stór svæði auðna með beitarstýringu. Því miður dugar það ekki til, sumir þessara afrétta eru að mati fagaðila einfaldlega ekki beitarhæfir. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana. Gera verður þá kröfu til gæðastýringar að hún komi í veg fyrir ósjálfbæra beit og sé beitt sem virku stjórntæki til að verðlauna þá sem vel gera en aftengi stuðning við aðila sem stunda ósjálfbæra nýtingu beitilanda. Þá þarf gæðastýringin að tryggja að eftirlitsaðilar geti framfylgt ákvæðum um sjálfbæra landnýtingu og tryggt að þau svæði sem flokkast sem óbeitarhæft land séu í reynd ekki beitt.

6. Alþjóðlegir samningar og vistspor kjötframleiðslu
Beit á auðnum og rofsvæðum skaðar ímynd sauðfjárframleiðslu og þar með orðspor og afkomu bændastéttarinnar í heild sinni í bráð og lengd. Íslendingar eru aðilar að alþjóðlegum sáttmálum á sviði umhverfismála, m.a. Samningi um varnir gegn eyðimerkurmyndun, Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Samningi S.þ. um líffræðilega fjölbreytni. Allir gera þessir samningar ráð fyrir að spornað sé gegn landeyðingu, fjölbreytni varðveitt og hnignuð vistkerfi endurheimt. Bændur taka víða um land þátt í landbótaverkefnum þar sem unnið er ötullega að vistheimt og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Kjötframleiðsla sem byggir á ofbeit eða beit á auðnum og rofsvæðum er í ósamræmi við alþjóðlega samninga og þetta uppbyggingarstarf bænda.

7. Offramleiðsla, markaðssetning og ímynd landbúaðarins
Á meðan kjötframleiðsla byggir á ósjálfbærri nýtingu á hluta landsins verður öll markaðssetning því marki brennd að gengið sé á gróðurauðlinda og því töluverð hætta á að seljendur sem auglýsa vistvæna og hreina afurð verði sakaðir um grænþvott. Kindakjötsframleiðsla árið 2014 var 10.100 tonn, sem er mesta framleiðsla frá árinu 1988. Útflutningur á kindakjöti það sama ár var óvenju mikill eða um 4.700 tonn, en hefur verið nálægt 2.500 tonnum undanfarinn áratug. Það orkar sannarlega tvímælis að kjöt af fé sem að hluta til er alið á svæðum sem ekki þola beit sé niðurgreitt til útflutnings.

8. Aðkoma umhverfisyfirvalda lítil
Samkvæmt forsetaúrskurði frá árinu 2012 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands skal umhverfis- og auðlindaráðuneytið fara með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. skilgreiningar á viðmiðum um sjálfbæra nýtingu auðlinda og stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu þeirra. Það er því ekki bara sjálfsögð krafa heldur einnig í samræmi við verkaskiptingu Stjórnarráðs Íslands að umhverfisráðuneytið komi að þessari samningsgerð við bændur. Ekki hefur orðið vart við að sú sé raunin.

9. Árósasamningurinn ekki virtur
Samningsaðilum er bent á mikilvægt hlutverk frjálsra félagasamtaka og réttindi þeirra samkvæmt hinum alþjóðlega Árósasamningni til að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar umhverfismál, en í samningnum er sérstaklega hvatt til þátttöku félagasamtaka á fyrstu stigum mála. Samningsaðilar hafa ekki kallað fulltrúa undirritaðra samtaka á sinn fund vegna búvörusamninganna. Það er gagnrýnivert.

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol

Jólaskógurinn í Brynjudal lokar að sinni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nú um helgina komu síðustu hópar þessa árs í heimsókn í Jólaskóginn í Brynjudal og nutu þess að finna sér jólatré í veðurblíðunni, en sérlega gott veður var um helgina (þó það sé reyndar alltaf gott veður inni í skóginum!).

Skógræktarfélag Íslands þakkar öllum þeim sem sóttu sér tré í Jólaskóginn í Brynjudal fyrir komuna og vonandi sjáum við sem flesta aftur að ári.
 

Svipmyndir frá heimsóknum ársins má sjá á Facebook-síðu félagsins.

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem verða með jólatrjáasölu núna síðustu dagana fyrir jól eru:
 

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum dagana 21.-23. desember, kl. 11-16.

Björgunarsveitin Brák, í samvinnu við Skógræktarfélag Borgarfjarðar, er með jólatrjáasölu á Frumherjaplaninu í Borgarnesi dagana 21.-23. desember kl. 17-21.

Jólatrjáa- og skreytingasala Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í Þöll er opin 21.-22. desember, kl. 10-18 báða dagana. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – http://www.skoghf.is

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar er opin alla daga fram á Þorláksmessu, kl. 12-17 virka daga. Sjá nánar á heimasíðu félagsins – http://www.internet.is/skogmos/


Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is/jolatre.