Skip to main content
All Posts By

a8

Skógarleikar á Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Annað árið í röð efnir Skógræktarfélag Reykjavíkur til Skógarleikanna í Heiðmörk. Nokkrir af færustu skógarhöggsmönnum Suður- og Vesturlands munu leiða saman hesta sína í hefðbundnum skógarhöggsgreinum, svo sem axarkasti, bolahöggi og afkvistun trjábola. Í leikslok fá gestir að spreyta sig í axarkastinu. Stjórnandi leikanna er skógfræðingurinn Gústaf Jarl og dómari er Björn Bjarndal.

Furulundur verður uppfullur af ævintýrum þennan dag. Gestir fá tækifæri til að spreyta sig í tálgun í ferskan við beint úr skóginum undir leiðsögn tálgunarmeistarans Valdórs Bóassonar. Eldsmiðurinn Einar Gunnar mun sýna listir sínar og hamra heitt járnið yfir logandi eldi. Borðtennisborð og ýmis skógarleiktæki eru einnig í lundinum.

Gestum er boðið í grillveislu þar sem grillað verður meðal annars yfir varðeldi skógarbrauð á priki og rjúkandi ketilkaffi verður einnig á boðstólum.

Allir hjartanlega velkomnir!
 

Hægt er að að fylgjast með á Facebook: Skógarleikarnir og á Snapchat: heidmork
 

Allar frekari upplýsingar veitir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir í síma 690-9874.


skogarleikar1

Keppni í afkvistum á Skógarleikum 2015 (Mynd: RF).

skogarleikar2

Gestir spreyta sig á axarkasti á Skógarleikum 2015 (Mynd: RF).

Samningur um Opinn skóg

Með Skógræktarverkefni

Undirritaður hefur verið samningur á milli Skógræktarfélags Íslands og Icelandair Group um stuðning til þriggja ára við verkefnið Opinn skóg, en það lýtur að uppbyggingu aðstöðu til útivistar á skógræktarsvæðum. Icelandair Group mun styrkja verkefnið um 4 milljónir króna á ári eða alls 12 milljónir króna á tímabilinu. Nú þegar hafa verið opnaðir fimmtán skógar undir merkjum Opins skógar. Á svæðunum hefur verið komið fyrir útivistaraðstöðu, s.s. skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands: „Stuðningur Icelandair Group er mikilsverður og gerir skógræktarfélaginu kleift að halda verkefninu áfram af fullum krafti og vinna að viðhaldi og uppbyggingu fleiri svæða. Markmiðið með samningnum er meðal annars að veita almenningi gott aðgengi að skógræktarsvæðunum, og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.“

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group segir Skógræktarfélag Íslands hafa unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu Íslands um áratugaskeið. „Með því að styrkja skógræktarstarf í landinu sýnum við þakklæti okkar í verki og stuðlum að því að almenningur og ferðamenn hafi greiðan aðgang að skógi á fjölmörgum stöðum um land allt.“

 

samninguros

Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (t.v.) og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.


Skógræktarfélag Hafnarfjarðar – Listalundur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fagnar 70 ára afmæli í ár. Af því tilefni verður efnt til listviðburðar í Höfðaskógi nú í júní. Um 25 listamenn munu skapa verk í skóginum. Öll hafa verkin skírskotun til skógarins á einn eða annan hátt. Verkefnið hefur hlotið nafnið „Listalundur“. Formleg opnun er laugardaginn 25. júní kl. 17:00. Opnunarhátíðin fer fram í og við bækistöðvar félagsins og Þallar við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Boðið verður upp á tónlist, ljóðlist og léttar veitingar.

Afmælisblað félagsins, Þöll, kemur út bráðlega. Þar er nánari kynning á Listalundi og öllum þátttakendum. Kynningarbækling um Listalund má nálgast nú þegar í Þöll.

Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins – www.skoghf.is

Skógræktarfélag Akraness – Gönguferð um Slögu

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Akraness stendur fyrir gönguferð um slögu með Jón Guðmundssyni mánudaginn 20. júní kl. 20:00. Mæting er á bílastæðinu fyrir neðan Slögu í Akrafjalli.

Gengið verður með Jóni Guðmundssyni garðyrkjufræðingi um Slögu, aðstæður skoðaðar og fjallað um trjárækt og útivist á svæðinu. Hvaða plöntum má bæta inn í skógræktarsvæðin – berjarunnum, ávaxtatrjám og fleiri tegundum, auk þeirra sem eru þar núna?

Allir velkomnir!

Nýr varpfugl í Brynjudal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sjálfboðaliðar Skógræktarfélags Íslands eru þessa dagana að störfum í skógi félagsins í Brynjudal í Hvalfirði. Þegar unnið er í skóginum kemur iðulega eitthvað áhugavert í ljós. Nú nýverið fannst þetta myndarlega hreiður skógarsnípu með eggjum.

Vonast félagið auðvitað til þess að vel gangi til með varpið og fjórir hressir ungar komist á legg í skóginum.


snipa2

snipa1

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Fuglaskoðun 28. maí

Með Skógargöngur

Fuglaskoðunarferð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður laugardaginn kemur 28. maí. Lagt verður af stað frá Þöll við Kaldárselsveg kl. 10.00. Gangan tekur um 2 klukkustundir. Leiðsögumenn verða Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson.

Allir velkomnir. Hafið með ykkur sjónauka!

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar).

Fuglaskoðun við Elliðavatn mánudaginn 23. maí

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Fuglavernd standa fyrir fuglaskoðun í Heiðmörk mánudaginn 23. maí. Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 17:30 frá Elliðavatnsbænum og genginn hringur í nágrenninu.

Skoða á ríkulegt fuglalíf við Elliðavatn og í skógarjaðrinum. Hallgrímur Gunnarsson mun leiða gönguna og mun hún taka um klukkutíma.

Allir eru velkomnir. Munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.

SkRvk fuglaskodun

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Markar 2016

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Markar verður haldinn á Icelandair Hótel Klaustur laugardaginn 30. apríl kl. 13:30.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa mun Ragnhildur Freysteinsdóttir umhverfisfræðingur segja í máli og myndum frá skemmtilegri ferð til Póllands, sem farin var á vegum Skógræktarfélags Íslands síðast liðið haust.

Kaffiveitingar í boði félagsins.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir.

 

Stjórnin.